Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1010/2016

Nr. 1010/2016 27. október 2016

REGLUR
um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

1. gr.

Markmið.

Reglur þessar gilda um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskól­ann á Akureyri, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. og 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Markmið framgangskerfis Háskólans á Akureyri er að hvetja akademíska starfsmenn til virkni og árangurs í starfi og auka með því gæði kennslu og rannsókna við Háskólann á Akureyri. Framgangur byggir á faglegu mati á frammistöðu og árangri í rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu í þágu Háskólans á Akureyri.

Í reglum þessum er kveðið á um lágmarksskilyrði í tengslum við framgang. Fræðasviðum háskólans er hverju um sig heimilt að skilgreina nánari skilyrði og verklag við mat á umsóknum um framgang sem háskólaráð staðfestir í formi sérreglna.

2. gr.

Framgangur akademískra starfsmanna.

Rektor Háskólans á Akureyri veitir framgang samkvæmt reglum þessum.

Lektor eða dósent getur óskað eftir framgangi í starfi. Rektor getur án auglýsingar flutt lektor í dósents- eða prófessorsstarf eða dósent í prófessorsstarf, enda uppfylli viðkomandi þá skilyrði til að gegna starfinu skv. hæfisdómi dómnefndar eftir ákvæðum reglna þessara.

Hafi umsækjandi um framgang áður verið metinn hæfur af dómnefnd við háskóla eða vísinda­stofnun til að gegna þar starfi lektors, dósents eða prófessors, er rektor heimilt að víkja frá kröfum um nýtt dómnefndarálit og getur þá vísað umsókn beint til framgangsnefndar enda mæli dómnefnd Háskólans á Akureyri þá með þeirri meðferð málsins.

Rektor er einnig heimilt að veita framgang þá þegar við nýráðningu ef umsækjandi sækir sérstak­lega um slíkt og framgangsnefnd mælir með því. Skal umsækjandi þá uppfylla hæfi til að gegna því akademíska starfi sem um ræðir, annaðhvort samkvæmt fyrirliggjandi dómnefndaráliti, eða þá skv. 6. gr. reglna þessara, að mati dómnefndar við mat á umsókn.

3. gr.

Umsóknarfrestur og umsóknir.

Sækja skal um framgang til forseta fræðasviðs fyrir 1. nóvember ár hvert. Framgangur veittur samkvæmt reglum þessum tekur gildi við upphaf nýs háskólaárs þann 1. júlí.

Áður en umsókn um framgang er lögð fram ber viðkomandi starfsmanni að leita eftir forkönnun á stigum hjá stjórnsýslu rannsókna hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (SRHA). Beiðni um slíka forkönnun skal berast SRHA fyrir 1. október ár hvert. SRHA skal leita eftir samráði við vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands við gerð forkönnunar. Þegar forkönnun SRHA liggur fyrir tekur viðkomandi starfsmaður sjálfur ákvörðun

um það hvort hann leggur fram umsókn um framgang. Forseti fræðasviðs getur einnig óskað eftir því að SRHA láti kanna fjölda stiga einstakra starfsmanna sem viðkomandi sviðsforseti vill hvetja til að sækja um framgang.

Umsókn um framgang skal uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til umsókna um laus störf skv. 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009. Í umsókninni skal umsækjandi gera grein fyrir þeim verkum sínum á sviði rannsókna, kennslu, stjórnunar og þjónustu sem hann telur veigamest með tilliti til umsóknar sinnar um framgang. Umsækjandi skal einnig nefna a.m.k. tvo utanað­komandi sérfræðinga sem geta veitt umsögn um verk hans, sbr. 4. gr. reglna þessara. Sérfræð­ingarnir skulu vera viðurkenndir fræðimenn á sínu sviði og starfa utan Háskólans á Akur­eyri. Umsókn skal vera annaðhvort á íslensku eða á ensku, en fara má fram á að umsækjendur láti þýða viss umsóknargögn á hitt tungumálið ef þurfa þykir.

Forseti fræðasviðs beinir umsókn um framgang til dómnefndar innan tveggja vikna frá lokum umsóknarfrests. Forseta fræðasviðs er heimilt að leggja fram greinargerð með umsókn starfsmanns um framgang.

4. gr.

Dómnefnd.

Við Háskólann á Akureyri starfar föst þriggja manna dómnefnd, sbr. 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009, sbr. og 4. gr. reglna nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

Hlutverk dómnefndar hvað varðar framgangsmál er eftirfarandi:

  1. að meta hvort umsækjendur um framgang uppfylla þau lágmarksskilyrði sem sett eru um það starfsheiti sem við á samkvæmt ákvæðum 2. og 6. gr. reglna þessara, 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og sérreglna einstakra fræðasviða,
  2. að meta árangur og virkni umsækjanda í starfi sínu og veita framgangsnefnd Háskólans á Akureyri álit um hvort mælt sé með því að framgangur verði veittur.

Í framgangsmálum skal dómnefnd afla umsagna tveggja viðurkenndra utanaðkomandi sérfræðinga á fræðasviði umsækjandans sem fylgja skulu umsókn til framgangsnefndar Háskólans á Akureyri, nema nefndin telji að umsækjandi uppfylli ekki lágmarksskilyrði skv. a-lið 2. mgr. Dómnefnd er heimilt að leita út fyrir þann hóp utanaðkomandi sérfræðinga sem umsækjandi nefnir í umsókn sinni, sbr. 3. gr. Tilkynna skal umsækjanda og forseta viðkomandi fræðasviðs hvaða sérfræðingar muni veita álit. Dómnefnd er heimilt að óska eftir upplýsingum um mat á fyrri störfum umsækjanda frá stjórnsýslu háskólans.

Þegar álit dómnefndar liggur fyrir skal nefndin veita umsækjanda allt að 14 daga andmælarétt. Um málsmeðferð og störf dómnefndar í framgangsmálum, svo sem varðandi mat á hæfi umsækjenda m.t.t. menntunar, rannsókna, kennslureynslu, stjórnunar o.fl., gilda auk reglna þessara almennar reglur Háskólans á Akureyri um störf dómnefndar, sbr. 19. gr. reglna nr. 387/2009 og sbr. enn­fremur 5. og 6. gr. reglna nr. 258/2016.

Mæli dómnefnd með því að framgangur verði veittur sendir hún framgangsnefnd háskólans umsóknar­gögn, greinargerð dómnefndar og umsagnir sérfræðinga innan fjögurra mánaða frá því að umsóknar­fresti lauk, eða eigi síðar en 1. mars.

5. gr.

Framgangsnefnd Háskólans á Akureyri.

Rektor skipar framgangsnefnd Háskólans á Akureyri sem í eiga sæti fimm manns hverju sinni. Skal rektor tilnefna einn nefndarmann sem er jafnframt formaður nefndarinnar en hvert hinna þriggja fræðasviða háskólans tilnefnir einn nefndarmann og eiga þessir framangreindu fast sæti í nefndinni. Að auki skal rektor jafnan skipa einn nefndarmann til setu í sérhverju framgangsmáli og skal sá tilnefndur af því fræðasviði sem umsækjandi um framgang starfar við og skal vera sérfróður um þau tilteknu fræði sem umsækjandi fæst við.

Hinir fjórir föstu nefndarmenn skulu skipaðir til þriggja ára í senn og skal þess gætt að bæði karlar og konur eigi þar sæti. Tilnefna skal varamenn fyrir hina fjóra föstu nefndarmenn með sama hætti og að framan greinir.

Í framgangsnefndina má skipa þá eina sem hlotið hafa prófessorshæfi og er miðað við að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og stjórnunarstörfum.

Framgangsnefndin metur umsóknir um framgang á grundvelli fyrirliggjandi gagna og ákvæða 6. gr. reglna þessara, 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 387/2009 og sérreglna fræðasviða um framgang. Framgangsnefnd gerir á grundvelli þess mats tillögu til rektors um hvort veita beri fram­gang.

Framgangsnefnd tekur ákvarðanir í krafti meirihluta atkvæða nefndarmanna í máli en falli atkvæði um ákvörðun jöfn skal formaður skera úr og ræður atkvæði hans þá lyktum máls.

Ef það er niðurstaða framgangsnefndar að ekki beri að veita framgang skal hún rökstyðja þá niður­stöðu sína sérstaklega og veita umsækjanda allt að 14 daga andmælarétt.

Álit framgangsnefndar Háskólans á Akureyri skal berast rektor eigi síðar en 30. apríl.

6. gr.

Mat á umsóknum um framgang.

Umsókn um framgang skal metin á grundvelli reglna þessara, 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri og sérreglna fræðasviða. Stigagjöf samkvæmt reglum þessum byggir á matskerfi opinberra háskóla.

Eftirfarandi eru lágmarksskilyrði, sbr. a. lið 2. mgr. 4. gr., sem umsækjandi þarf að uppfylla:

  1. Hafa fengið tiltekinn lágmarksfjölda stiga fyrir rannsóknir og kennslu sem tilgreind eru í töflum 1-3 í þessari grein. Auk krafna um lágmarksfjölda rannsóknarstiga, skv. töflu 1 og 2, er gerð krafa um lágmarksfjölda rannsóknarstiga úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. töflu 3. Þessir flokkar eru:
    1. A2 (bækur), þó ekki A2.4 og A2.5.
    2. A3 (bókakaflar), þó ekki A3.4.
    3. A4 (tímaritsgreinar), að undanskildum flokknum A4.4.
    4. A5.1 (greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum).
  2. Hafa þekkingu og reynslu í samræmi við alþjóðleg viðmið fyrir viðkomandi starfsheiti á þeirra fræðasviði, staðfest með áliti dómnefndar eða með doktorsprófi frá viðurkenndum háskóla. Umsækjandi um framgang í starf dósents eða prófessors skal hafa doktorspróf eða jafngildi þess nema aðstæður á viðkomandi fræðasviði séu þannig að ekki sé unnt að koma því við. Heimilt er að gera strangari kröfur um menntun vegna framgangs í sérreglum fræðasviða og skal umsækjandi þá uppfylla þær.

Við mat á því hvort mæla eigi með framgangi, sbr. b. lið 2. mgr. 4. gr., skal auk skilyrða sem tilgreind eru í 2. mgr., litið til árangurs og virkni umsækjanda í starfi sínu við Háskólann á Akureyri. Við mat á árangri og virkni skal tekið mið af eftirfarandi sjónarmiðum, ákvæðum 19. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri og sérreglna fræðasviða og þess gætt að jafnframt séu gerðar sérstakar frekari kröfur til starfs prófessora varðandi rannsóknir, nýsköpun, kennslu, stjórnun og þjónustu, sbr. 5. mgr. 6. gr. þessara reglna:

  1. Rannsóknir. Metinn er fjöldi rannsóknarstiga sem umsækjandi hefur áunnið sér. Hafi umsækjandi sýnt fram á getu sína til að afla styrkja til rannsóknarverkefna úr viðurkenndum rannsóknarsjóðum styrkir það umsókn um framgang. Við framgang í starf prófessors er gerð krafa um að umsækjendur hafi sýnt fram á verulega hæfni, frumkvæði og sjálfstæði í vísindastörfum. Ennfremur styrkir reynsla og virkni í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi umsókn um framgang. Sérstaklega skal líta til virkni í rannsóknum síðustu fimm ár áður en umsókn um framgang var lögð fram.
  2. Kennsla. Lagt er mat á kennsluferil umsækjanda, svo sem kennslureynslu, nýsköpun í kennslu, kennsluhætti og þróun kennsluefnis. Við framgang í dósentsstarf er gerð krafa um reynslu af leiðbeiningu á meistarastigi. Framangreind krafa um leiðbeiningarreynslu er miðuð við að boðið sé upp á nám til meistara- og/eða doktorsnáms í kennslugrein umsækjanda.
  3. Stjórnun. Þátttaka í stjórnun innan Háskólans á Akureyri.
  4. Þjónusta - tengsl við atvinnu- og þjóðlíf. Virk tengsl umsækjanda við atvinnu- og þjóðlíf í krafti sérþekkingar sinnar og í þágu hlutverks og stefnu Háskólans á Akureyri styrkja umsókn um framgang. Meta skal hvernig þessi tengsl nýtast Háskólanum á Akureyri, hvort sem er í rannsóknum, kennslu og námi eða til að styrkja orðspor og kynningu háskólans út á við.

Dómnefnd getur við sérstakar aðstæður gert meiri eða minni kröfur um lágmarksstig ef talin er ástæða til. Víki mat dómnefndar frá viðmiðum um stigafjölda fyrir einhvern starfsþátt kennara eða sérfræðinga eða frá öðrum kröfum sem gerðar eru við framgang á milli starfsheita þarf að rökstyðja það sérstaklega.

Tafla 1
Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt kennara
  Rannsóknir Kennsla Stjórnun,
þjónusta,
annað
Mismunur Alls
Lektor 30 - - 0 30
Dósent 130 20 - 50 200
Prófessor 270 50 - 80 400
 
Tafla 2
Lágmarksstig fyrir hvern starfsþátt sérfræðinga og fræðimanna
  Rannsóknir Kennsla Stjórnun,
þjónusta,
annað
Mismunur Alls
Sérfræðingur 30 - - 0 30
Fræðimaður 150 - - 50 200
Vísindamaður 320 - - 80 400
 
Tafla 3
Lágmarksfjöldi stiga úr tilgreindum flokkum rannsóknahluta matskerfis
  Ritrýndar bækur (yfir 25 stig)
ISI greinar
Aðrar ritrýndar greinar
Greinar í alþjóðlegum ráðstefnuritum
Bókarkaflar, alþjóðlegar akademískar útgáfur
Einkaleyfi
Lektor/sérfræðingur -
Dósent/fræðimaður 80/90
Prófessor/vísindamaður 180/200

Gerðar eru ríkari kröfur til hæfni og reynslu prófessora en annarra háskólakennara. Þeim er ætlað leiðbeinandi hlutverk í akademískum málefnum háskóla í sínum fræðigreinum.

Þegar um er að ræða umsókn um starf prófessors við Háskólann á Akureyri skal leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi til viðbótar við lágmark stiga fyrir rannsóknir, kennslu og aðra þætti sam­kvæmt matskerfi opinberra háskóla:

  1. Rannsóknir og nýsköpun. Að umsækjandi sé leiðandi í rannsóknum sínum og hafi sýnt með ótvíræðum hætti fram á frumkvæði, frumleika og sjálfstæði. Að umsækjandi njóti viður­kenningar fyrir fræðistörf sín, sé í virku samstarfi við sérfræðinga á fræðasviðinu, og hafi birt áhrifamikil vísindaverk á ritrýndum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Að umsækjandi hafi, eftir því sem við á, stuðlað að nýtingu afurða rannsókna sinna, hafi stýrt rannsóknaverkefnum og aflað fjármuna til rannsókna sinna frá samkeppnissjóðum innan­lands og utan.
  2. Kennsla. Umsækjandi skal hafa sýnt fram á hæfni, frumleika og nýbreytni í kennslustörfum sínum og getið sér gott orð sem kennari. Þá skal sérstaklega líta til þess hvort umsækjandi hafi umtalsverða reynslu af leiðbeiningu nemenda í meistara- og doktorsnámi, meðal annars sem aðalleiðbeinandi.
  3. Stjórnun og þjónusta. Gera skal ríka kröfu um reynslu af stjórnunar- og þjónustustörfum, einkum innan háskóla og gagnvart fræðasamfélaginu, auk reynslu af faglegri þjónustu og þekkingarmiðlun til samfélagsins. Þá skal umsækjandi hafa með fyrri störfum sínum sýnt fram á ríka samskiptahæfileika og metnað fyrir hönd Háskólans á Akureyri.

Ef kennari er samkvæmt auglýsingu eða ráðningarsamningi ráðinn á listrænum forsendum skulu kröfur um lágmarksfjölda rannsóknarstiga við framgang vera í samræmi við töflu 1. Einnig er gerð krafa um að slíkur kennari hafi að lágmarki fjórðung stiga úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. töflu 3. Samkvæmt því er gerð krafa um 130 rannsóknarstig í starf dósents og þar af skulu 20 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. þessara reglna. Við framgang í starf prófessors er gerð krafa um 270 stig og þar af skulu 45 stig vera úr tilteknum flokkum matskerfisins, sbr. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr.

7. gr.

Tímabundin ráðning.

Í samræmi við 3. mgr. 2. gr. reglna nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri skal upphafleg ráðning akademískra starfsmanna að öllu jöfnu vera tímabundin til fimm ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Við sérstakar aðstæður, svo sem þegar um er að ræða veikinda- eða barnsburðarleyfi, er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu um allt að tvö ár.

8. gr.

Umsókn um ótímabundna ráðningu.

Hyggist akademískur starfsmaður óska eftir ótímabundinni ráðningu skal hann sækja um það til rektors eigi síðar en níu mánuðum áður en tímabundinni ráðningu lýkur. Með umsókn skal leggja fram greinargerð, að hámarki þrjár blaðsíður, um störf við Háskólann á Akureyri frá upphafi tímabundinnar ráðningar við rannsóknir, kennslu, stjórnun og þjónustu. Með umsókn skal einnig fylgja rita- og ferilskrá, helstu ritverk sem birt hafa verið og kennsluferilskrá. Umsóknargögn skulu takmarkast við hina tímabundnu ráðningu. Umsækjandi skal einnig nefna a.m.k. fjóra utanaðkomandi sérfræðinga sem geta veitt umsögn um verk hans.

Rektor sendir umsókn um ótímabundna ráðningu til forseta fræðasviðs sem aflar umsagnar við­komandi deildar. Að því búnu sendir forseti fræðasviðs umsóknina ásamt gögnum til fram­gangs­nefndar Háskólans á Akureyri. Framgangsnefnd Háskólans á Akureyri gerir tillögu til rektors um hvort umsækjandi skuli ráðinn ótímabundinni ráðningu.

9. gr.

Mat á störfum og ákvörðun um ótímabundna ráðningu.

Framgangsnefnd Háskólans á Akureyri metur störf umsækjanda og gerir rökstudda tillögu til rektors um hvort ráða beri umsækjanda ótímabundið.

Við mat á störfum umsækjanda skal byggja á þeim sjónarmiðum sem tilgreind eru í 6. gr. reglna þessara. Gerð er krafa um 40 rannsóknastig á síðustu fimm árum, úr tilgreindum flokkum mats­kerfis skv. 1. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglna þessara, meðan á tímabundinni ráðningu stendur. Einnig skal umsækjandi um ótímabundna ráðningu hafa lokið stuttu námskeiði í kennsluaðferðum og -tækni við kennslumiðstöð Háskólans á Akureyri eða hafa hlotið hliðstæða þjálfun á öðrum viður­kenndum vettvangi. Framangreint ákvæði um lágmarksrannsóknastig úr tilteknum flokkum mats­kerfis­ins á fyrstu fimm árum í starfi tekur ekki til kennara sem ráðnir eru á listrænum forsendum.

Veita skal umsækjanda 14 daga frest til þess að tjá sig um tillögu framgangsnefndar Háskólans á Akureyri.

Rektor tekur ákvörðun, að fenginni tillögu framgangsnefndar Háskólans á Akureyri, um hvort ráðn­ing verður ótímabundin. Niðurstaða rektors skal liggja fyrir a.m.k. þremur mánuðum áður en tíma­bundinni ráðningu umsækjanda lýkur.

10. gr.

Lagastoð.

Reglur þessar eru settar á grundvelli heimildar í 4. mgr. 5. gr., 5. mgr. 15. gr. og 1. og 3. mgr. 17. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sbr. ennfremur 19. gr. reglna fyrir Háskólann áAkureyri nr. 387/2009.

11. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar taka við af reglum nr. 747/2012 um framgang akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri. Ákvæði 7.–9. gr. gilda þó aðeins um þá akademísku starfsmenn sem ráðnir eru eftir gildistöku reglna nr. 258/2016 um störf dómnefndar og ráðningar akademískra starfs­manna við Háskólann á Akureyri. Reglur þessar, samþykktar af háskólaráði 27. október 2016, eru settar með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 747/2012 um framgang akademískra starfsmanna við Háskólann á Akureyri.

Þannig samþykkt í háskólaráði 27. október 2016.

Háskólanum á Akureyri, 27. október 2016.

Eyjólfur Guðmundsson rektor.

Sigrún Stefánsdóttir,     
varaforseti háskólaráðs.


B deild - Útgáfud.: 24. nóvember 2016