Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1580/2020

Nr. 1580/2020 16. desember 2020

REGLUR
um meistaranám við Landbúnaðarháskóla Íslands.

1. gr.

Um námið. Markmið.

Við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) er unnt að leggja stund á nám á meistarastigi á fræða­sviðum náttúruvísinda og auðlinda- og búvísinda þar sem framhaldsnámsnefnd (sjá 2. gr.) metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi og deild og háskólaráð hafa staðfest stofnun brautar­innar.

Þrjár megingerðir framhaldsnáms á meistarastigi eru í boði við LbhÍ: i) viðbótarpróf á meist­arastigi (diplómanám) í skipulögðum námsbrautum (Þrep 2.1 í viðmiðum um æðri menntun og próf­gráður, reglugerð nr. 530/2011) þar sem brautarstjóri annast daglegt utanumhald, ii) nám á skipu­lögðum 120 ECTS MS-brautum (Þrep 2.2) þar sem brautarstjórar annast daglegt utanumhald og iii) einstaklingsmiðað rannsóknatengt 120 ECTS meistaranám (Þrep 2.2) á fræðasviðum LbhÍ þar sem umsjónarmaður framhaldsnáms annast daglegt utanumhald.

Markmið framhaldsnáms á meistarastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands er að veita nemendum hald­góða og víðtæka menntun sem dýpkar þekkingu á ákveðnu fræðasviði og nýtist í frekara námi eða starfi.

Reglur þessar gilda um allt nám á meistarastigi við skólann og styðjast við reglur fyrir Land­bún­aðarháskóla Íslands, nr. 366/2020. Viðbótarreglur gilda um ýmsar nánari útfærslur við ein­staka skipulagðar námsbrautir, um rannsóknatengt meistaranám á meistarastigi þegar nem­endur eru með grunnnám á öðru fagsviði, og um verklag við stofnun brauta eða nýrra náms­gráða við LbhÍ. Þessar viðbótarreglur eru aðgengilegar á heimasíðu skólans.

 

2. gr.

Framhaldsnámsnefnd Landbúnaðarháskóla Íslands.

Framhaldsnámsnefnd fer með málefni framhaldsnáms á meistarastigi og doktorsnáms í umboði deilda í samræmi við erindisbréf. Hlutverk hennar er að móta og hafa áhrif á stefnu og markmið framhaldsnámsins og stýra ferli umsókna og varna. Auk þess hefur nefndin það hlutverk að fylgjast með því að hæfilegs samræmis sé gætt í meistaranámi og doktorsnámi á fræðasviðum skólans.

Framhaldsnámsnefnd fjallar jafnframt um meiri háttar málefni einstakra meistara- og doktors­nema og ágreiningsmál sem upp kunna að koma í framkvæmd námsins. Minni háttar mál afgreiðast af við­komandi námsbrautarstjóra (ef um nemanda af MS- eða diplómanámsbraut er að ræða), umsjón­ar­­manni framhaldsnáms (ef um MS-nema í rannsóknatengdu námi eða doktorsnema er að ræða), og kennslustjóra í sameiningu. Úrskurðum þeirra má áfrýja til framhaldsnámsnefndar, og úrskurð­um nefndarinnar má áfrýja til deildarforseta.

Í framhaldsnámsnefnd sitja:

 1. Umsjónarmaður framhaldsnáms sem kosið er um á háskólafundi og er skipaður af rektor til þriggja ára í senn, sem jafnframt er formaður,
 2. kennslustjóri,
 3. brautarstjórar MS-brauta og brautarstjórar annars framhaldsnáms á meistarastigi,
 4. framhaldsnámsfulltrúi úr hverri deild skólans, sem tilnefndir eru af deild og skipaðir til tveggja ára í senn af rektor. Þetta má einnig vera starfandi MS-brautarstjóri,
 5. fulltrúar framhaldsnámsnema af meistara- og doktorsnámsstigi, sem árlega eru tilnefndir af nemendafélaginu.

Umsjónarmaður framhaldsnáms skal að jafnaði vera akademískur starfsmaður og hafa a.m.k. hæfi dósents. Framhaldsnámsfulltrúar deilda skulu að jafnaði hafa doktorsgráðu.

 

3. gr.

Inntökuskilyrði.

Til að innritast í meistaranám við Landbúnaðarháskóla Íslands skal nemandi hafa lokið viður­kenndu bakkalárprófi á fræðasviðinu sem meistaranámið skal byggjast á eða hafa bakkalárgráðu á tengdu fræðasviði. Bakkalárgráða sem leggja skal til grundvallar meistaranámi við LbhÍ verður að vera með fyrstu einkunn og vera veitt af viðurkenndum háskóla.

Framhaldsnámsnefnd er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði um lágmarkseinkunn til að hefja MS-nám ef lítið vantar þar upp á og nemandi er metinn sem efnilegur kandídat að öðru leyti, en þá gegn kröfu um að nemandi nái a.m.k. fyrstu einkunn í fyrstu 30 ECTS í námskeiðum í meistara­náminu, annars verði honum vísað frá námi.

Nánari útlistanir á inntökuskilyrðum skipulagðra diplóma- og MS-námsbrauta er að finna í sér­reglum þeirra.

 

4. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um meistaranám er að jafnaði 15. apríl og 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um meistaranám á öðrum tímum.

Ekki er tekið á móti almennum umsóknum í umsóknakerfi LbhÍ, sbr. 5. gr., í ákveðnum skipu­lögðum diplóma- og MS-námsbrautum skólans, og eru þá umsóknarfrestir og meðferð umsókna eins og lýst er í sérreglum þeirra.

 

5. gr.

Meðferð umsókna hjá LbhÍ.

Nemandi sækir um inngöngu í meistaranám í gegnum heimasíðu LbhÍ. Með umsókn skulu fylgja afrit af prófskírteinum svo og ferilskrá (CV) umsækjanda, auk annarra fylgiskjala sem krafist er. Nemandi skal einnig skila stuttri greinargerð um námsmarkmið sín og áhugasvið.

Umsjónarmaður framhaldsnáms og fulltrúi viðkomandi deildar í framhaldsnámsnefnd aðstoða sam­þykkta umsækjendur um einstaklingsmiðað rannsóknatengt meistaranám við að finna hæfan ábyrgðar­mann innan skólans. Ábyrgðarmaður aðstoðar nemanda að velja hæf námskeið, finna hæfa meist­aranefnd og þróa meistaraverkefnið. Fyrstu drög að náms- og rannsóknaráætlun og tillögu að MS-nefnd, undirrituð af nemanda og ábyrgðarmanni hans við LbhÍ, skulu vera send umsjónar­manni framhaldsnáms ekki síðar en í lok fyrsta misseris. Á skipulögðum MS-brautum er það brautar­stjóri sem aðstoðar nemandann, samþykkir valnámskeið sem eiga að vera hluti af meist­ara­náminu og þá gilda aðrir frestir, sbr. sérreglur MS-brauta.

Ferli umsókna um meistaranám við LbhÍ er eftirfarandi:

 1. Umsóknin er skráð hjá kennsluskrifstofu. Kennsluskrifstofa fær þegar það á við frumgögn umsóknar metin af matsskrifstofu Háskóla Íslands til að staðfesta uppruna þeirra, meta gildi prófskírteina og námsgráða og staðfesta að gögn umsækjanda uppfylli formkröfur.
 2. Kennsluskrifstofa sendir síðan umsókn um meistaranám til framhaldsnámsnefndar til umfjöll­­unar og afgreiðslu. Brautarstjórar eða umsjónarmaður framhaldsnáms (fyrir rann­sókna­­tengt nám) ganga úr skugga um að hún sé fullnægjandi m.t.t. hvort umsækjandi upp­fylli almenn inntökuskilyrði skv. 3. gr. reglna þessara og gera tillögu að afgreiðslu.
 3. Framhaldsnámsnefnd fer yfir tillögur að afgreiðslu og hafnar umsókn ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur eða samþykkir umsóknina og tilkynnir niðurstöðu til deildar, sem staðfestir afgreiðsl­una.
 4. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað innan sex vikna frá því að hún berst. Synji deild nemanda inngöngu skal hún rökstyðja niðurstöðu sína. Afgreiðslu umsóknar hjá framhaldsnámsnefnd og deild skal í öllum tilvikum tilkynna til kennslu­skrifstofu.
 5. Nemandi sem samþykktur hefur verið í einstaklingsmiðað rannsóknatengt MS-nám skal full­gera náms- og rannsóknaráætlun sína fyrir lok fyrsta misseris og skal hún þá send umsjónar­­manni framhaldsnáms og framhaldsnámsnefnd til umfjöllunar og staðfestingar.
 6. Allar meiri háttar breytingar á náms- og rannsóknaráætlun á síðari stigum námsins eru háðar samþykki brautarstjóra/umsjónarmanns framhaldsnáms.

 

6. gr.

Einingafjöldi, tímalengd og framvinda náms.

Viðbótarpróf á meistarastigi (Þrep 2.1) byggir á minnst 30 ECTS námi yfir 6 mánuði.

Meistarapróf (Þrep 2.2) byggist á 120 námseiningum, að jafnaði yfir tveggja ára námstíma. Heimilt er að gera ráð fyrir lengri námstíma en tveim árum enda sé þá meistaranemi skráður í hluta­nám (50% námshraða) frá upphafi. Hámarkstími til meistaragráðu skal þó ekki vera meiri en 50% umfram áætlaðan námstíma, skv. því sem gildir um annað nám við skólann (sjá 26. gr. í reglum fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands). Framhaldsnámsnefnd er heimilt að veita undanþágur frá hámarks­­námstíma meistaranáms í sérstökum tilfellum.

Leyfa má uppfærslu nemanda úr meistaranámi á viðkomandi fræðasviði í doktorsnám með sam­þykki framhaldsnámsnefndar, hafi nemandinn ekki varið meistaraprófsritgerð sína og ef ekki eru liðin meira en tvö ár frá innritun hans til meistaranáms, miðað við nám í fullu starfi. Nemandinn skal, í samráði við umsjónarkennara sinn, sækja um slíka uppfærslu eins og hefðbundið doktors­nám og skal þá doktorsnámið jafngilda 240 einingum, þ.e. vera jafngilt fjögurra ára námi í fullu starfi hið minnsta og í því tilfelli bætast 60 einingar við námskeiðshluta doktorsnámsins (sjá reglur um doktorsnám LbhÍ).

 

7. gr.

Samsetning náms.

Í námi á skipulögðum MS-brautum eru að jafnaði unnin 30 ECTS lokaverkefni og 90 ECTS eru í formi skyldu- og valnámskeiða. Sjá einnig nánari útfærslur í sérreglum MS-brauta um hlutfall skyldu- og valnámskeiða, stærð verkefna o.fl. Samsetningu náms á skipulögðum MS-brautum má einnig sjá í námskrá skólans.

Skylduþátttaka er fyrir alla meistaranema skólans í námskeiðunum:

07.12.01 og 08.12.01 Málstofa meistaranema (2 ECTS).

Einstaklingsmiðað, rannsóknatengt meistaranám er byggt upp af 30 eða 60 ECTS rannsóknar­verkefni og 60 eða 90 ECTS í námskeiðum, málstofum og lesnámskeiðum. Tvö námskeið (12 ECTS) eru skyldunámskeið fyrir alla framhaldsnema í einstaklingsmiðuðu MS-námi:

07.06.03 Vísindaheimspeki/siðfræði (6 ECTS).
07.07.03 Aðferðafræði í framhaldsnámi og rannsóknum (6 ECTS).

Hafi meistaranemi í rannsóknatengdu MS-námi ekki þegar lokið námskeiðum í tölfræði, eða ann­arri aðferðafræði sem rannsóknarverkefni hans byggir á, í grunnnámi sínu, er honum skylt að taka slíkt námskeið.

Nemendur geta ekki fengið nein námskeið metin sem hluta af MS-námi sínu sem hafa áður komið fram á prófskírteini til lægri námsgráðu (t.d. BS, BA, BEd). Nemendur geta hins vegar sótt um til brautarstjóra/umsjónarmanns framhaldsnáms að fá námskeið sem tekin hafa verið í öðru námi á meistarastigi metin sem hluta af meistaranámi sínu við LbhÍ.

Námskeið til meistaragráðu skulu vera á meistarastigi við skólann eða aðra viðurkennda háskóla. Gild námskeið í MS-námi eru framhaldsnámskeið, sem sérstaklega eru merkt sem slík í kennslu­skrá, ýmist sem sérstök framhaldsnámskeið (BS/MS), MS-námskeið, eða MS/PhD-nám­skeið. Í BS/MS-námskeiðum skólans eru lágmarkskröfur til einkunna einum heilum hærri (6,0) til nemanda sem hyggst nýta viðkomandi námskeið til eininga í MS-námi en til BS-nema.

Einnig er leyfilegt að velja allt að 20 ECTS námseiningar úr BS-grunnnámskeiðum við Land­bún­aðarháskóla Íslands eða aðra háskóla, sem hluta af meistaranámi, þar sem t.d. kröfur um undan­fara framhaldsnámskeiða krefjast slíks eða þar sem nemandi kemur úr öðru fagsviði. Skal nemi hafa náð einkunn 7,0 eða hærra til þess að fá slík námskeið viðurkennd sem hluta af MS-námi. Nemandi skal óska sérstaks leyfis frá brautarstjóra/umsjónarmanni framhaldsnáms til að taka slík námskeið sem hluta af MS-námi sínu.

Nemi í meistaranámi má að hámarki taka 12 ECTS einingar í lesnámskeiðum. Sérstakt form fyrir leiðbeinendur/nemendur fyrir slík námskeið er að finna á heimasíðu LbhÍ.

 

8. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Meistaranám getur verið í tengslum við annan háskóla innan lands eða utan, t.d. þannig að neminn taki hluta námsins við skólann eða fulltrúi hans sé aðstoðarleiðbeinandi. Heimilt er að veita meist­ara­gráðu sameiginlega með öðrum háskóla. Slíku erindi skal vísað til framhaldsnámsnefndar.

Ein sameiginleg námsbraut á meistarastigi, EnCHiL Nordic Master, er við skólann sem útskrifar nemendur með sameiginlega MS-gráðu frá LbhÍ og Háskólanum í Lundi, eða LbhÍ og Helsinki­háskóla. Varðandi útfærslu á námskrá, frágang MS-ritgerðar, MS-vörn og fleira, er vísað í sérreglur um hana.

 

9. gr.

Aðalleiðbeinandi, leiðbeinendur og meistaranefnd.

Sérhver meistaranemi sem skráir sig í meistaraverkefni við LbhÍ skal hafa ábyrgðarmann úr hópi starfsmanna á viðkomandi fræðasviði við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Sérhver meistaranemi skal hafa aðalleiðbeinanda, sem getur verið sá sami og ábyrgðarmaður ef hann er starfsmaður skólans. Sá skal hafa lokið meistaraprófi á viðkomandi sviði, hið minnsta, og vera starfsmaður viðkomandi deildar þar sem verkefnið er unnið, nema framhaldsnámsnefnd heimili annað fyrirkomulag. Ef hann starfar utan skólans þarf hann að hafa meistaragráðu, hið minnsta, og vera viðurkenndur sérfræðingur á viðkomandi sviði. Í þeim tilfellum skal nemi einnig hafa ábyrgðar­mann úr hópi starfsmanna, óháð stærð verkefnis, sem situr ásamt aðalleiðbeinanda í meistaranefnd.

Ef meistaraverkefni er 60 ECTS skal jafnframt tilgreina aðstoðarleiðbeinanda, sem má starfa innan eða utan skólans, sem þá myndar meistaranefnd ásamt aðalleiðbeinanda/ábyrgðarmanni LbhÍ.

Heimilt er að skipa allt að tvo sérfræðinga til viðbótar í hverja meistaranefnd. Umsjónarmaður framhaldsnáms eða brautarstjórar skipa leiðbeinendur, að fengnu leyfi deildar, og afrit af skip­unar­bréfi er skjalað við námsferil nemandans.

Hlutverk leiðbeinenda er að fylgjast með að framgangur námsins sé í samræmi við námsáætlun, tryggja fagleg gæði rannsóknarvinnunnar, sjá um próf sem neminn gengst undir í lesnámskeiðum, ef við á, og staðfesta námsframvindu. Aðalleiðbeinandi/ábyrgðarmaður skal auk þess tryggja að fjár­hags­leg ábyrgð á rannsóknarverkefni sé vel skilgreind.

Nánari reglur um samsetningu meistaranefnda í 30 ECTS lokaverkefnum í skipulögðum MS-náms­brautum er að finna í sérreglum þeirra.

Leiðbeinandi/meistaranefnd fundar með nemanda minnst einu sinni á misseri og ritar nem­and­inn fundargerð og sendir hana eftir staðfestingu leiðbeinanda til brautarstjóra og/eða umsjónarmanns framhaldsnáms, þar sem fram kemur framvinda og staða verkefnis miðað við áætlun. Einingar fyrir vinnu við rannsóknarverkefnið eru færðar á nemandann út frá því sem þarna kemur fram. Full­nægjandi framvinda er skilyrði fyrir skráningu á næsta námsári.

Meistaranemi getur skotið ágreiningi við leiðbeinanda/meistaranefnd til framhaldsnáms-nefndar. Meistaranemi getur skotið ágreiningi við framhaldsnámsnefnd til deildarforseta.

 

10. gr.

Prófdómari.

Umsjónarmaður framhaldsnáms skipar prófdómara sem ásamt aðalleiðbeinanda/meistaranefnd metur meistaraverkefni. Prófdómari skal hafa lokið að minnsta kosti meistaraprófi og njóta viður­kenningar á starfssviði sínu. Hann skal ekki vera starfsmaður LbhÍ eða sömu starfseiningar og utanað­komandi leiðbeinandi eða meistaranemi.

 

11. gr.

Skil og frágangur meistararitgerðar.

Um leið og nemandi skilar fullbúinni ritgerð til aðalleiðbeinanda/meistaranefndar, að jafnaði þremur vikum fyrir lokaða vörn, skal hann leggja fram staðfest námsferilsyfirlit. Aðalleiðbein­andi/meist­aranefnd heimilar að ritgerð sé lögð fram til varnar og sendir umsjónarmanni framhalds­náms tillögur að hugsanlegum prófdómurum. Nemandi sendir þá námsferilsyfirlit og tilbúna ritgerð raf­rænt til umsjónarmanns framhaldsnáms til yfirlesturs, ritstuldarskönnunar og samþykkis áður en hún er send til prófdómara og dagsetningar varna eru ákveðnar.

Ef vafi leikur á að ritgerðin standist faglegar kröfur að mati umsjónarmanns framhaldsnáms, skal ritgerðin borin undir framhaldsnámsnefnd sem ákveður hvort og þá að hve miklu leyti hún þarfnist endurskoðunar.

Í MS-ritgerð skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða þekkingar á fræðasviðinu er rakin, aðferðum skal lýst, gerð grein fyrir niðurstöðum og loks skal vera ítarlegur umræðukafli sem fjallar um verkefnið í heild. Í ritgerð skal vera yfirlýsing um hvert framlag meistaranemans var í rannsókn­unum, tekið skal fram hvort aðrir hafa komið að verkinu og hver hlutur þeirra var.

Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku, auk titils á hvoru máli fyrir sig, og skal skila honum sérstaklega á tölvutæku formi til birtingar á heimasíðu skólans, ásamt fréttatilkynningu, viku áður en opin vörn fer fram.

Um frágang ritgerða gilda nánari fyrirmæli frá kennsluskrifstofu. Koma skal skýrt fram að verk­efnið sé unnið við Landbúnaðarháskóla Íslands, geta skal um leiðbeinendur og deild og rannsóknar­stofnun, ef við á, og þeirra sjóða sem styrkt hafa verkefnið.

MS-ritgerðir við LbhÍ eru birtar opinberlega á www.skemman.is. Framhaldsnámsnefnd getur veitt heimild til að ritgerð sé lokuð tímabundið á Skemmunni, en þá ber að skila útprentuðum ein­tökum til Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns.

Einnig er heimilt að byggja ritgerð á einni eða fleiri fullfrágengnum vísindagreinum. Greinar­handrit þarf ekki að vera birt, en meistaranámsnefnd þarf að meta það sem tilbúið til birtingar í viður­kenndu vísindariti. Í því tilviki er fyrri hluti ritgerðar byggður upp á sama hátt og ofangreint, en bæði aðferða‐, niðurstöðu‐ og umræðukaflar mun styttri en ef um hefðbundna ritgerð er að ræða. Í sjálfri ritgerðinni er vísað í greinina eða greinarnar. Greinar skal setja upp í samræmi við reglur við­komandi vísindarits, bæði hvað varðar heimildaskrá og uppsetningu, en uppsetning á ritgerð­inni fylgir ofangreindum reglum skólans.

Meistaraprófsverkefni á MS-brautum skólans geta lotið öðrum reglum en að ofan greinir, hvað varðar útlit, uppsetningu og frágang, enda hafi þá námsbrautarstjórar sett fram sérstakar reglur um þau atriði í samráði við framhaldsnámsnefnd og kennsluskrifstofu.

Við brautskráningu skal sýnt að nemi hafi verið skráður og greitt skrásetningargjald allan náms­tímann.

 

12. gr.

Meistaraprófsvörn.

Meistaraprófsvarnir eru lokaðar og fara fram að viðstaddri meistaranefnd, prófdómara og nem­anda, auk umsjónarmanns framhaldsnáms eða annars fulltrúa framhaldsnámsnefndar. Nemandi kynnir ritgerðina munnlega, prófdómari leggur síðan spurningar fyrir nemanda úr efni ritgerðar, og kemur með ábendingar um breytingar eða lagfæringar á ritgerð, sé þess þörf. Prófdómari gerir umsögn og gefur einkunn fyrir ritgerð og svör nemandans, auk frammistöðu í opnum fyrirlestri (sjá neðar), í samráði við meistaranefnd. Eftir að lagfæringar hafa verið gerðar á ritgerð, heldur nemandi opinn fyrirlestur.

Opni fyrirlesturinn skal að öllu jöfnu fara fram innan fjögurra vikna eftir vörn og er auglýstur með minnst viku fyrirvara. Í fyrirlestrinum kynnir nemandi efni ritgerðar og er mælst til þess að prófdómari og leiðbeinendur taki þátt. Öðrum viðstöddum er einnig heimilt að spyrja nemanda eftir að prófdómari og leiðbeinendur hafa lokið sínum spurningum. Lokaeinkunn er ákveðin að lokinni kynningunni, þar sem tekið er mið af fyrri ritgerðareinkunn, en einnig af lagfæringum á ritgerð, svörum nemanda og frammistöðu við opna kynningu verkefnis.

 

13. gr.

Lærdómstitill.

Meistarapróf veitir rétt til lærdómstitilsins magister scientiarum og notkunar skammstöfunarinnar MS.

Viðbótarpróf á meistarastigi veitir ekki eiginlegan lærdómstitil en kallast diplómapróf á meist­arastigi.

 

14. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands með tilvísun í III. kafla laga um háskóla nr. 63/2006 og laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af framhaldsnámsnefnd LbhÍ og staðfestar af deildarfundum (náttúra og skógur, 4. maí 2020, ræktun og fæða, 6. maí 2020, skipulag og hönnun, 5. maí 2020). Reglur þessar taka þegar gildi og falla þá úr gildi óbirtar reglur Landbúnaðarháskóla Íslands um meistaranám sem samþykktar voru í háskólaráði 17. mars 2017.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir nemendur sem þegar eru í meistaranámi við gildistöku reglna þessara skulu ljúka námi sínu samkvæmt eldri reglum Landbúnaðarháskóla Íslands um meistaranám frá 17. mars 2017, nema samið sé um annað.

 

Samþykkt í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, 16. desember 2020.

 

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor.


B deild - Útgáfud.: 1. febrúar 2021