Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 189/2009

Nr. 189/2009 15. janúar 2009
REGLUR
um skráningu mála hjá héraðsdómstólum, þingbækur, skjalavörslu o.fl. í sakamálum.

I. KAFLI

Málaskrár.

1. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal skrá þau sakamál, sem berast dómstólnum til meðferðar, svo sem nánar greinir í reglum þessum.

2. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal haldin málaskrá um sakamál sem þar eru rekin. Í skrána skal færa eftirtalin atriði:

 1. Nafn, kennitölu og heimilisfang ákærða (ákærðu).
 2. Dagsetningu ákæru og útgefanda hennar.
 3. Brotaflokkun.
 4. Nafn þess sem flytur mál af hálfu ákæruvalds og nafn verjanda eða talsmanns ákærða.
 5. Nafn dómara sem fer með málið og hvenær því er úthlutað honum.
 6. Útgáfudag fyrirkalls.
 7. Hvenær mál er þingfest, þingað er í því og það er dómtekið.
 8. Hvernig og hvaða dag máli lýkur.

Í málaskrána skal einnig færa eftirfarandi atriði ef átt getur við:

 1. Dagsetningu og efni úrskurðar sem er kveðinn upp í máli undir rekstri þess.
 2. Kæru til Hæstaréttar Íslands á ákvörðun eða úrskurði undir rekstri máls og hvenær og hvernig slíku máli lýkur.
 3. Móttökudag kröfu um endurupptöku útivistarmáls, dagsetningu ákvörðunar um endurupptöku og niðurstöðu máls.

Sakamál skal bera sama númer við meðferð hjá héraðsdómstóli og það hefur við komu til hans. Við endurupptöku ber mál sama númer og fyrr. Þegar mál eru sameinuð skal eldra númer notað. Framhaldsákæra skal færð inn í upphaflega skráningu máls.

Flokkun brota skv. 3. tölul. 2. mgr. skal gerð í samræmi við reglur sem dómstólaráð setur.

3. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal að auki haldin skrá um kröfur um ákvarðanir, úrskurði og sönnunarfærslu vegna rannsóknar sakamála.

Í skrá skv. 1. mgr. skal færa eftirfarandi atriði eftir því sem á við:

 1. Móttökudag kröfu.
 2. Hver gerir kröfu og nafn umboðsmanns hans.
 3. Að hverju krafa beinist og eftir atvikum hverjum ásamt nafni umboðsmanns hans.
 4. Hvenær afgreiðslu er lokið.
 5. Hver annast afgreiðslu málefnis við dómstólinn.

Í þessa skrá skal að auki færa kærur til Hæstaréttar Íslands á ákvörðunum og úrskurðum vegna viðkomandi málefna og hvenær og hvernig slíkum málum lýkur.

II. KAFLI

Tölfræðiupplýsingar.

4. gr.

Í lok hvers árs skal héraðsdómstóll gera skrá um afgreiðslu dómsmála eftir nánari fyrirmælum dómstólaráðs. Dómstólaráð hefur með höndum gerð ársskýrslutalna, sem sendar eru Hagstofu Íslands.

Dómsmálaráðherra getur hvenær sem er óskað upplýsinga um meðferð og afgreiðslu mála hjá dómstólaráði.

III. KAFLI

Þingbækur og dómabækur.

5. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal halda þingbækur í tölvutæku formi. Þingbók skal prenta út í lok máls og varðveita ásamt gögnum málsins.

6. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal halda dómabók í tölvutæku formi. Safna skal saman tölvuprentuðum dómum og úrskurðum, sem fela í sér niðurstöðu máls, undirrituðum af dómara. Slíka dóma og úrskurði skal varðveita í öskjum eða á annan skipulegan hátt. Dómum og úrskurðum skal raðað eftir uppkvaðningardegi.

IV. KAFLI

Hljóðritun í þinghöldum.

7. gr.

Ef það sem kemur fram við munnlega sönnunarfærslu fyrir dómi er hljóðritað skal skrá í þingbók nafn skýrslugjafa, kennitölu og heimilisfang, svo og að skýrsla sé hljóðrituð og hvernig hljóðbandsupptaka sé merkt ef við á.

Endurrit skulu gerð af hljóðupptökum eftir því sem mælt er fyrir í lögum.

8. gr.

Búnaður til hljóðritunar í þinghöldum skal vera viðurkenndur hljóðupptökubúnaður.

9. gr.

Ef það sem fer fram við munnlega sönnunarfærslu fyrir dómi er tekið upp á myndband skal hljóðupptaka gerð með fullnægjandi hætti.

V. KAFLI

Varðveisla tölvufærðrar málaskrár.

10. gr.

Dómstólaráð ákveður hvernig varðveislu tölvufærðrar málaskrár héraðsdómstóla skuli háttað, en sú málaskrá hefur jafnframt að geyma tölvufærða þingbók og tölvufærða dómabók í máli. Getur dómstólaráð ákveðið að gerður skuli samningur um að málaskráin skuli vistuð hjá viðurkenndu þjónustufyrirtæki. Í samningi skal kveðið á um hvernig öryggisafritun skuli háttað þannig að fullnægjandi sé að mati dómstólaráðs.

VI. KAFLI

Endurrit.

11. gr.

Um aðgang ákæruvalds, sakbornings, ákærða, brotaþola, verjanda og réttargæslumanns að málsskjölum í sakamáli fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

Eftir þingfestingu sakamáls er dómara skylt, gegn greiðslu gjalds samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, að láta þeim er þess óska í té staðfest afrit af ákæru og greinargerð ákærða, ef hún hefur verið lögð fram, svo fljótt sem við verður komið. Þó skal synja um að láta í té afrit af þeim hluta ákæru sem hefur að geyma upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Ennfremur ef mikilvægir almannahagsmunir krefjast þess, svo sem ef um er að ræða upplýsingar um öryggi ríkisins eða varnarmál ellegar samskipti þess við önnur ríki eða alþjóðastofnanir.

Sá sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta, skal gegn greiðslu gjalds samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, fá í hendur endurrit úr þingbók eða dómabók vegna sakamáls.

Endurrit skulu staðfest með undirskrift dómara eða annars starfsmanns héraðsdómstóls. Skal endurrit vera tilbúið til afhendingar innan mánaðar frá þeim tíma sem beiðni barst. Endurrit skulu staðfest með undirskrift dómara eða annars starfsmanns héraðsdómstóls. Endurrit skal vera tilbúið til afhendingar innan mánaðar frá þeim tíma, sem héraðsdómstólnum barst beiðni um það.

Að öðru leyti en að framan greinir afhenda héraðsdómstólar ekki einstaklingum eða lögaðilum gögn eða aðrar upplýsingar úr sakamáli. Gildir það um hvers kyns upplýsingar úr málaskrá viðkomandi dómstóls, þ. á m. um vottorð um upplýsingar um hvort einstaklingar eða lögaðilar hafi átt aðild að dómsmálum við tiltekinn héraðsdómstól.

12. gr.

Í sakamáli skal afhenda ákæranda tvö endurrit af dómi, viðurlagaákvörðun eða úrskurði um lok máls til eigin nota og að auki eitt eintak til að afhenda ákærða, nema honum sé afhent það á dómþingi.

Þegar ákærði er staddur á dómþingi við uppkvaðningu dóms eða ákvörðun viðurlaga skal ákæranda jafnframt afhent endurrit úr þingbók um þinghaldið, þar sem kemur fram að ákærði hafi verið viðstaddur og þar með birtur dómurinn eða ákvörðunin.

VII. KAFLI

Varðveisla skjala o.fl.

13. gr.

Við hvern héraðsdómstól skal vera geymsla undir skjalasafn hans. Geymsla skal gerð þannig að aðrir en starfsmenn dómstóls eigi ekki aðgang að henni og öryggis sé gætt gagnvart hættu af völdum elds og vatns.

Þar til afhending á sér stað til Þjóðskjalasafns skal varðveita eftirfarandi í skjalasafni héraðsdómstóls:

 1. Skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem hafa verið lögð fram í dómsmálum, ásamt endurritum úr þinghöldum sem hafa verið gerð í tengslum við mál.
 2. Þingbækur og dómabækur sem skráningu er lokið í.

Skjöl og endurrit skv. 1. tölul. 2. mgr. skulu varðveitt út af fyrir sig vegna hvers máls í möppu eða öskju. Málum skal að jafnaði raða í samræmi við það, hvenær þeim lýkur.

VIII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

14. gr.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í 17. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88 12. júní 2008, öðlast þegar gildi.

Dómstólaráði, 15. janúar 2009.

Símon Sigvaldason formaður.

B deild - Útgáfud.: 17. febrúar 2009