Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 791/2012

Nr. 791/2012 1. október 2012
FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir umdæmi sýslumanns Snæfellinga.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Umdæmi sýslumanns Snæfellinga er eitt fjallskilaumdæmi og skiptist í fjallskiladeildir eftir sveitarfélögum.

2. gr.

Héraðsnefnd Snæfellinga hefur á hendi yfirstjórn fjallskilamála innan fjallskila­umdæmis­ins. Um kæruheimildir fer samkvæmt ákvæðum gildandi laga og stjórnvalds­reglna á hverjum tíma.

Verði héraðsnefnd Snæfellinga aflögð skulu aðildarsveitarfélögin stofna yfirfjallskilanefnd sem taki við yfirstjórn fjallskilamála.

3. gr.

Sveitarstjórnir hafa á hendi stjórn og framkvæmdir í fjallskilamálum, hver á sínu fjallskilasvæði. Þær geta tekið nánari ákvarðanir um fjallskil í einstökum atriðum, hver á sínu fjallskilasvæði, svo fremi sem þær brjóti eigi í bága við samþykkt þessa.

4. gr.

Land sem fjallskilaframkvæmd undir stjórn og umsjón sveitarstjórnar tekur til, eru beiti­lönd þau sem nýtt eru sem sumarhagar búfjár.

5. gr.

Hverri sveitarstjórn, í samráði við landbúnaðarnefnd sveitarfélagsins, er heimilt að skipa einn mann til að hafa á hendi stjórn og umsjón fjallskilamála og nefnist hann fjall­skila­stjóri. Halda skal sérstaka fjallskilabók þar sem allt skal skráð er viðkemur fjall­skila­málum sveitarfélagsins.

6. gr.

Hvert sveitarfélag skal hafa sérstakan fjallskilasjóð og renna í hann allar tekjur og úr honum greiðast öll gjöld er af fjallskilum stafa. Fjallskilastjóri ber ábyrgð á reikn­ings­færslu fjallskilasjóðs, innheimtum og gjöldum, nema sveitarstjórn ákveði annað. Sé fjallskila­stjóri ekki skipaður ber sveitarstjórn umrædda ábyrgð.

II. KAFLI

Um sauðfjár- og hrossamörk.

7. gr.

Mark helgar markeiganda eignarrétt, nema sannist að annar eigi. Sérhver fjáreigandi er skyldur til að hafa glöggt og löglegt eyrnamark á sauðfé sínu, sbr. reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998. Við sönnun á eign á búfé er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark.

8. gr.

Markaskrá fjallskilaumdæmisins skal prenta 8. hvert ár. Héraðsnefnd kýs markavörð umdæmisins til 8 ára í senn eða þess tímabils er markaskrá gildir hverju sinni. Allir markaeigendur skulu fá eitt eintak af markaskránni fyrir 20. ágúst á útgáfuári.

9. gr.

Markavörður sér um birtingu marka í fjallskilaumdæminu og útgáfu markaskrár. Skal hann gæta þess við upptöku nýrra marka að ekki sé sammerkt innan fjallskila­umdæmisins og koma í veg fyrir námerkingar. Markavörður skal, svo sem kostur er á, hamla gegn notkun marka sem valda fé sársauka. Séu notuð plötunúmer ber að skrá á þau bæjanúmer.

10. gr.

Markavörður annast söfnun allra frost-, eyrna- og brennimarka og raðar þeim eftir staf­rófs­röð í greinilegar skrár, þegar að prentun markaskrár kemur. Markeigandi tilkynnir markaverði um mark sitt og greiðir gjald fyrir hvert mark eftir ákvörðun héraðsnefndar hverju sinni. Fyrir brennimark skal þó eigi greiða sérstakt gjald.

11. gr.

Nú flyst maður inn í fjallskilaumdæmið og skal hann þá tilkynna markaverði umdæmisins mark sitt og fá samþykki hans fyrir því. Markavörður sér um lögbirtingu marka í samráði við Bændasamtök Íslands.

12. gr.

Örmerki, frost- og brennimörk og plötumerki miðast við eldri hreppamörk og eru eftirfarandi: SH 2 fyrir Eyjahrepp, SH 3 fyrir Miklaholtshrepp, SH 4 fyrir Staðarsveit, SH 5 fyrir Breiðavíkurhrepp, SH 6 fyrir Neshrepp utan Ennis, SH 7 fyrir Ólafsvík, SH 8 fyrir Fróðárhrepp, SH 9 fyrir Eyrarsveit, SH 10 fyrir Helgafellssveit og SH 11 fyrir Stykkishólm.

III. KAFLI

Um fjallskil o.fl.

13. gr.

Fjallskilaskyldir eru allir fjáreigendur, jarðeigendur og ábúendur jarða og inna þeir fjall­skil af höndum eftir fyrirmælum sveitarstjórnar eða fjallskilastjóra.

Húsbónda er skylt að annast fjallskil fyrir heimafólk sitt og aðra sem kunna að eiga hjá honum fjallskilaskyldan fénað.

Fyrir sauðlausar jarðir skal gera fjallskil eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

Nú reka menn einnig á fjall utan heimasveitar, og eru þeir þá skyldir að inna af hendi fjall­skil þar, eftir þeirri tölu fullorðins fjár sem rekið er. Reki þeir ekkert fé á fjall í heima­hreppi, eru þeir undanþegnir fjallskilaskyldu þar, nema þeir hafi lögbýli til umráða.

Annist síðastnefndir fjáreigendur ekki að fullu fénað sinn í réttum, skulu þeir greiða áfall­inn kostnað í fjallskilasjóð í heimasveitarfélagi við að koma fénu til skila.

14. gr.

Fjallskilum og kostnaði vegna þeirra skal sveitarstjórn eða fjallskilastjóri jafna niður á fjáreigendur, með ákveðinni krónutölu á kind, og hafa við það hliðsjón af skýrslum forðagæslumanna síðari hluta vetrar. Skal þannig hvert dagsverk sem fjáreigendur eiga að leggja til við göngur metið til peningaverðs. Skulu fjallskilagjöld að því leyti sem þau eru ekki jöfnuð með fjallskilum greidd í árslok í fjallskilasjóð.

Heimilt er sveitarstjórn að ákveða álagningu fjallskila á eigendur sauðlausra jarða sem svarar 1 – 3 dagsverkum á hverja jörð, enda sé land þeirra smalað af gangna­mönnum.

Heimilt er þó að leggja allt að einn þriðja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða, óháð búfjáreign á hverri jörð. Heimilt er sveitar­stjórn/fjallskilastjóra að veita ívilnanir í fjallskilum eftir því sem sveitar­stjórn/fjallskila­stjóri telur eðlilegt hverju sinni enda séu aðstæður fyrir hendi.

15. gr.

Niðurjöfnun fjallskila samkvæmt 14. gr. skal sveitarstjórn/fjallskilastjóri birta fjár­eigendum fyrir 20. ágúst með gangnaboði. Skal þar taka fram hvað hverjum einum ber að leggja til fjallskila. Tekin skal fram fjártala, áætlaður kostnaður á kind, hverjir séu leitar­stjórar á hverju leitarsvæði og hverjir réttarstjórar, skýrt frá tilhögun leita og réttar­dögum. Þar skal einnig taka fram hverjir skulu fara í útréttir og skýrt frá öðru því er fjall­skilum tilheyrir.

16. gr.

Leitarstjórar sjá til þess eftir föngum að hver gangnamaður leysi verk sitt vel af hendi, meta hvort gangnamenn séu hæfir til starfans og vel búnir til leitar. Gangnamenn eru skyldir að hlýða forsögu leitarstjóra.

17. gr.

Nú vanrækir fjáreigandi að framkvæma þau gangnaskil sem honum hafa verið gerð eða leggur ógildan mann til fjallskila, þá er það gangnarof og varðar sektum. Hefur þá leitarstjóri eða fjallskilastjóri/sveitarstjórn rétt til að fá mann til að gera gangnaskil í stað þess er gangnarof gerði, á hans kostnað. Auk þess greiði hann sekt til fjallskilasjóðs, er hálfum göngunum nemur. Ekki er skylt að kæra fyrir gangnarof ef forföll eða aðrar fullgildar málsbætur eru fyrir hendi.

18. gr.

Nú hefur fjáreigandi engan hæfan mann og getur ekki útvegað hann. Skal hann þá til­kynna það fjallskilastjóra/sveitarstjórn minnst 6 dögum áður en framkvæma á gangna­skilin. Fjallskilastjóri/ sveitarstjórn útvegar þá mann og annað sem með þarf. Fjár­eig­andi greiðir síðan sektalaust allan þann kostnað sem af fjallskilum leiðir.

19. gr.

Ágreining vegna fjallskila skal bera upp við sveitarstjórn en náist ekki samkomulag milli sveitarstjórnar og fjáreiganda er vísað til kæruheimilda í 2. gr. fjallskilasamþykktarinnar.

Enginn sá sem fjallskil eru lögð á, getur komist hjá að inna þau af hendi þótt hann hafi kært þau og lagt það mál til úrskurðar.

20. gr.

Gangnamerki fylgja eldri hreppamörkum, nema sveitarstjórnir semji um annað sín á milli og héraðsnefnd samþykki.

21. gr.

Leita skal tvisvar á hausti hverju, bæði heimahaga og þá sem fjær liggja. Til fyrri leitar skal gengið daginn áður en réttað er telji sveitarstjórn/fjallskilastjóri þess þörf, sbr. 26. gr. Til síðari leitar skal ganga laugardaginn í 24. viku sumars. Hamli veður leit þann dag, skal leita næsta færan dag og breytingin tilkynnt í aðliggjandi hreppa og/eða sveitarfélög.

Hver bóndi er skyldur til að smala heimaland sitt á hausti, samhliða leitum, ef sveitar­stjórn/ fjallskilastjóri mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eyðibýla, þótt þeir eigi þar ekki fjárvon. Hlýði umráðamaður lands ekki fyrirmælum sveitar­stjórnar/fjallskila­stjóra, ber honum að greiða smölunarkostnað eftir mati sveitar­stjórnar. Ekki verður umráðamaður lands þó krafinn um þátttöku í smöl­unar­kostnaði, sé honum meinað að nota land sitt til sumarbeitar eða leigja það eftir ákvörðun sveitarstjórnar samkvæmt 8. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil ofl., eða vegna búfjárveikivarna.

Öll haustsmölun fyrir 1. rétt, á þeim löndum sem leituð eru af gangnamönnum, er bönnuð. Þó getur sveitarstjórn veitt undanþágu frá þessu, sé það nauðsynlegt vegna slátrunar á fé fyrir réttir eða af öðrum ástæðum.

Allt það fé sem kemur úr utansveitarréttum skal flutt til aðalréttar og skulu skilamenn tilkynna eigendum eða umráðamönnum um það þar. Þó er þeim heimilt að skila fé úr utansveitarréttum heim til eiganda þess. Ekki er skylt að reka óskilafé á milli bæja eða hreppa.

Hafi eigendur eða umráðamenn eigi hirt fé sitt samkvæmt framansögðu innan sólar­hrings, skal sveitarstjórn/fjallskilastjóri ráðstafa því á kostnað eiganda.

22. gr.

Finni leitarmaður vanmetakind sem ekki verði komið til réttar með góðu móti, skal hann athuga mark hennar og önnur auðkenni og skýra leitarstjóra og eiganda frá henni sem fyrst.

23. gr.

Nú koma utansveitarkindur fyrir í einhverju sveitarfélagi að afstöðnum skilaréttum. Þekki menn eigendur að þeim skal eigendum tafarlaust tilkynnt um þær. Sveitar­stjórn/fjallskila­stjóri skal sjá um að eftirleitir séu gerðar, ef þörf er á, og þá í samráði við nágranna­sveitarfélög.

IV. KAFLI

Um réttir.

24. gr.

Tvisvar skal rétta í hverri aðalrétt á hausti og skulu sveitarstjórnir/fjallskilastjórar sjá um að réttum sé vel við haldið og dilkarými sé nægjanlegt fyrir fé allra íbúa sveitarfélags og fé sem fyrir kemur úr nágrannasveitarfélögum. Kostnaður við byggingu og viðhald aðal­rétta – almennings og dilka, greiðist úr fjallskilasjóði en um kostnað vegna aukarétta fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

25. gr.

Sveitarstjórn getur að fenginni tillögu fjallskilastjóra ákveðið að sérstakir kostnaðarliðir sem af fjallskilum stafa greiðist úr sveitarsjóði.

26. gr.

Réttir skulu haldnar í þeirri röð og á þeim dögum er nú skal greint:

Bjarnarhafnarrétt, Fagurhólsrétt, á Örlygsstöðum, á Gríshóli, á Mýrum og Grundarrétt laugardaginn í 22. viku sumars. Arnarhólsrétt, Þverárrétt og Malarrifsrétt sunnudaginn í 22. viku sumars. Langholtsrétt mánudaginn í 22. viku sumars. Bláfeldarrétt, Grafarrétt, Ölkeldurétt, Þæfusteinsrétt og Ólafsvíkurrétt laugardaginn í 23. viku sumars. Bjarnar­hafnar­rétt, á Örlygsstöðum, á Gríshóli og á Mýrum eru aukaréttir. Aðrar eru aðal­réttir.

Hlutaðeigandi sveitarstjórnum eða fjallskilastjórum er skylt að sjá um að óskilafé úr aukaréttum sé komið til aðalréttar. Óski sveitarstjórn eftir breytingum á ofanskráðum réttarstöðum eða réttardögum skal hún koma þeim óskum á framfæri við héraðsnefnd, sem getur veitt heimild til frávika.

27. gr.

Réttarstjórar ákveða hvernig búfjárdrætti skuli hagað og sjá um innrekstur fjárins, gæta þess að fé verði ekki fyrir illri meðferð og/eða misþyrmingum og líta eftir því að sundurdráttur fari vel og skipulega fram. Einnig skulu þeir taka frá sjúkar kindur í sérstakan dilk. Enginn má hleypa út fé nema með leyfi réttarstjóra og eftir að töflulestri er lokið. Markglöggir menn skulu líta eftir fé í utansveitardilkum áður en það er fært á brott.

28. gr.

Leigu skal greiða úr sveitarsjóði/fjallskilasjóði, bændum eða landeigendum sem leggja til land undir lögréttir og girðingar við þær, og fer leiguupphæðin eftir samkomulagi milli viðkomandi aðila.

V. KAFLI

Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.

29. gr.

Gangnamenn skulu ávallt leitast við það í göngum að handsama ómerkinga og merkja þá, ef þeir fylgja móður. Öllum ómerkingum og öðru óskilafé, sem kemur fyrir í réttum, eða að afstöðnum réttum og ekki finnast eigendur að, skal lóga í sláturhúsi svo fljótt sem við verður komið, og sér fjallskilastjóri um að svo sé gert. Skal andvirðið renna í viðkomandi fjallskilasjóð.

30. gr.

Fjallskilastjóri skal skrifa upp mörk og einkenni þess fjár er fer til slátrunar samkvæmt 29. gr. eftir því sem kostur er, og birta fyrir árslok í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun þess, þar sem áðurnefndum auðkennum er lýst og skorað á rétta eigendur að gefa sig fram og sanna eignarrétt sinn innan tiltekins tíma. Geti einhver sannað eignarrétt sinn fær hann andvirði sláturfjárins greitt að frádregnum áföllnum kostnaði.

31. gr.

Réttarstjóri sér um að mæður helgi sér ómerkinga ef unnt er, og enginn má marka kind í réttum nema með leyfi hans og að viðstöddum tveimur vottum.

VI. KAFLI

Um ágang búfjár og verndun beitilands.

32. gr.

Enginn má í heimildarleysi reka eða sleppa sauðfé eða hrossum í annarra manna lönd. Valdi slíkur fénaður ágangi á afgirt ræktarlönd er eiganda skylt að koma honum í örugga vörslu, þannig að komið sé í veg fyrir frekari ágang eða tjón. Sinni eigandi eða umráðamaður því engu eða aðeins til málamynda skal tjónþoli tilkynna það viðkomandi sveitarstjórn eða eftir atvikum viðkomandi sýslumanni/lögreglu sem fjarlægir fénaðinn á kostnað eiganda.

33. gr.

Verði mikill ágangur sauðfjár úr einni sveit í aðra, skal þeirri sveit er ágangnum veldur skylt að leggja til fjallskila hjá ágangsþola sem svarar einu dagsverki eða peningavirði þess, fyrir hverjar 70 kindur sem koma fyrir í þeirri rétt árið á undan.

34. gr.

Þyki bændum eða jarðeigendum nauðsyn til bera að ákveðið sé með ítölu, hve margt fé megi vera í högum þeirra, er þeim heimilt að krefjast ítölumats, samkvæmt gildandi lögum um ítölu. Skulu þeir hafa samráð við gróðurverndarnefnd svæðisins, viðkomandi sveitarstjórn og Landgræðslu ríkisins um þessar eða aðrar aðgerðir til gróðurverndar.

35. gr.

Enginn má sleppa hrossum eða geldneytum lausum án marks, örmerkis, plötumerkis eða frostmerkingar. Skulu hrossaeigendur tilkynna markaverði mörk hrossa sinna til birtingar í markaskrá umdæmis sýslumanns.

36. gr.

Búfjáreigendur í umdæmi sýslumanns Snæfellinga skulu, ef viðkomandi sveitarstjórn ákveður, skyldir til að hafa hross sín og nautgripi í öruggri vörslu. Sama gildir um þá sem taka hross til hagagöngu eða í fóður. Valdi lausagönguhross átroðningi og skaða, skal sá er fyrir verður tilkynna það eiganda eða umráðamanni og er heimilt að krefjast bóta. Sinni eigandi eða umráðamaður því engu eða aðeins til málamynda skal tjónþoli tilkynna það viðkomandi sveitarstjórn eða eftir atvikum viðkomandi sýslumanni/lögreglu sem fjarlægir hrossin á kostnað eiganda.

VII. KAFLI

Viðurlög, gildistaka o.fl.

37. gr.

Brot gegn fyrirmælum þessarar samþykktar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

38. gr.

Samþykkt þessi sem héraðsnefnd Snæfellinga, sem fer með stjórn fjallskilaumdæmis sýslumanns Snæfellinga, hefur samið og samþykkt, staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi fjallaskilasamþykkt fyrir Snæfellsness- og Hnappa­dals­sýslu, nr. 647/1998.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 1. október 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Sigríður Norðmann.

B deild - Útgáfud.: 2. október 2012