I. KAFLI
Almennt.
1. gr.
Gildissvið og tilgangur.
Reglur þessar taka til lánastofnana og samstæðna lánastofnana þar sem gerðar eru kröfur um hlutfall stöðugrar fjármögnunar í öllum gjaldmiðlum samtals.
Sé lánastofnun hluti af samstæðu skal lánastofnun sem er móðurfélag uppfylla kröfur reglna þessara á samstæðugrunni í samræmi við eftirfarandi:
- ef eignir og liðir utan efnahagsreiknings hjá dótturfélagi sem er í ríki utan aðildarríkja fá hærra vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt reglum þess ríkis en tilgreint er í 4. kafla, bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, þá skal hærra vægið gilda fyrir nauðsynlega stöðuga fjármögnun dótturfélags í útreikningi á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar fyrir samstæðuna;
- ef skuldbindingar og eigið fé hjá dótturfélagi sem er í ríki utan aðildarríkja fá lægra vægi tiltækrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt reglum þess ríkis en tilgreint er í 3. kafla, bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, þá skal lægra vægið gilda fyrir tiltæka stöðuga fjármögnun dótturfélags í útreikningi á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar fyrir samstæðuna.
- eignir í ríki utan aðildarríkja sem uppfylla kröfur reglna um lausafjárhlutfall lánastofnana og eru í eigu dótturfélags utan aðildarríkja skulu ekki teljast til lausafjáreigna á samstæðugrunni ef þær uppfylla ekki skilyrði lausafjáreigna í því ríki sem setur fram kröfur um lausafjárhlutfall.
Reglur þessar miða að því að takmarka tímamisræmi á milli eigna og skulda lánastofnana og að hve miklu leyti lánastofnanir reiða sig á óstöðuga skammtímafjármögnun til að fjármagna langtímaeignir að þessu leyti.
Reglur þessar byggja á bálki IV, 6. hluta reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. breytingarreglugerð (ESB) 2019/876, frá 20. maí 2019 og 3. og 4. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 233/2017, um varfærniskröfur í starfsemi fjármálafyrirtækja, með síðari breytingum. Skýra skal texta reglna þessara til samræmis við enska útgáfu bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, sbr. 4. mgr. 1. gr. reglugerðar um varfærniskröfur í starfsemi fjármálafyrirtækja og 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.
2. gr.
Skilgreiningar og orðskýringar.
Í reglum þessum merkir:
Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
Minni aðilar: Aðilar sem uppfylla skilyrði 145. liðar 4. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (e. small and non-complex) og geta því óskað eftir samþykki Seðlabankans til að skila einfölduðum skýrslum um stöðuga fjármögnun, sbr. VI. kafla reglna þessara.
Nauðsynleg stöðug fjármögnun: Nauðsynleg stöðug fjármögnun (e. required stable funding) fæst með því að flokka eignir og liði utan efnahagsreiknings viðkomandi lánastofnunar og margfalda bókfært virði eigna og liða utan efnahagsreiknings í hverjum flokki með viðeigandi vægi, sbr. V. kafla eða 14. gr. reglna þessara.
Raunverulegt eignarhald: Yfirráð eða eignarhald þess aðila sem nýtur efnahagslegs ávinnings eða ber efnahagslega áhættu af fjármálagerningi eða fjármunaeign, annar en vörsluaðili.
Reikningsskilagjaldmiðill: Gjaldmiðill sem nota skal til að tilkynna þá liði sem vísað er til í IV. – VI. kafla reglna þessara til Seðlabankans skv. 15. gr. reglnanna.
Samstæða lánastofnunar: Með samstæðu lánastofnunar er átt við móðurfélag, sem er lánastofnun, og dótturfélag eða dótturfélög þess, sbr. 33. tölul. 2. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
Tiltæk stöðug fjármögnun: Tiltæk stöðug fjármögnun (e. available stable funding) fæst með því að flokka eigið fé og skuldir viðkomandi lánastofnunar og margfalda bókfært virði eigin fjár og skulda í hverjum flokki með viðeigandi vægi, sbr. IV. kafla eða 13. gr. reglna þessara.
Veðsettar eignir: Eignir sem eru veðsettar eða bundnar hvers kyns öðrum kvöðum (e. encumbered).
Önnur hugtök hafa sömu merkingu og í lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eða 4. og 5. gr. reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
II. KAFLI
Hlutfall stöðugrar fjármögnunar.
3. gr.
Hlutfall stöðugrar fjármögnunar.
Hlutfall stöðugrar fjármögnunar skal að lágmarki vera jafnt hlutfalli tiltækrar stöðugrar fjármögnunar af nauðsynlegri stöðugri fjármögnun og skal hlutfallið vera tilgreint sem prósenta. Lánastofnun skal reikna hlutfallið samkvæmt eftirfarandi jöfnu:
Tiltæk stöðug fjármögnun ___ |
= Hlutfall stöðugrar fjármögnunar (%) |
Nauðsynleg stöðug fjármögnun |
Hlutfall stöðugrar fjármögnunar skal á hverjum tíma vera a.m.k. 100%, reiknað í reikningsskilagjaldmiðli óháð gjaldmiðlasamsetningu.
Falli hlutfall stöðugrar fjármögnunar lánastofnunar niður fyrir það lágmark sem sett er í 2. mgr., eða sé fyrirsjáanlegt að það gerist, skal án tafar tilkynna það Seðlabankanum skriflega og tilgreina ástæður þess með fullnægjandi hætti. Viðkomandi lánastofnun skal enn fremur leggja fram tímasetta áætlun um hvernig hún hyggst ná því lágmarki hlutfalls stöðugrar fjármögnunar sem sett er í 2. mgr. Seðlabankinn getur krafist þess að áætlun lánastofnunar komi til framkvæmdar innan tiltekins tíma. Þar til lágmarki skv. 2. mgr. er náð skal lánastofnun skila skýrslu skv. 15. gr. í lok hvers viðskiptadags. Við sérstakar aðstæður og að teknu tilliti til stærðar og stöðu lánastofnunar getur Seðlabankinn heimilað að skýrslum sé skilað sjaldnar.
Lánastofnun skal reikna út og hafa eftirlit með hlutfalli stöðugrar fjármögnunar í reikningsskilagjaldmiðli og öllum þeim gjaldmiðlum sem sæta aðskildum reikningsskilum, þ.e. þar sem heildarskuldbindingar í gjaldmiðlinum eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldum lánastofnunarinnar. Lánastofnun skal skila skýrslu um stöðuga fjármögnun til Seðlabankans í samræmi við 15. gr. reglna þessara.
Lánastofnun skal tryggja að gjaldmiðlasamsetning fjármögnunar sé í samræmi við gjaldmiðlasamsetningu eigna. Seðlabankinn getur krafist þess að lánastofnun lágmarki gjaldmiðlamisræmi með því að takmarka hlutfall nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í tilteknum gjaldmiðli sem mæta má með tiltækri stöðugri fjármögnun í öðrum gjaldmiðli. Slík takmörkun gildir eingöngu um reikningsskilagjaldmiðil eða gjaldmiðil þar sem heildarskuldbindingar eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldum lánastofnunarinnar. Við ákvörðun takmörkunar á gjaldmiðlamisræmi sem beita má samkvæmt þessari málsgrein skal Seðlabankinn að lágmarki taka tillit til eftirfarandi:
- hvort lánastofnun sé fær um að breyta tiltækri stöðugri fjármögnun úr einum gjaldmiðli í annan og millifæra úr einni lögsögu í aðra og milli lögaðila innan samstæðu, skipta gjaldmiðlum og afla fjár í erlendum gjaldmiðlum á markaði yfir eins árs tímabil.
- áhrifa skyndilegra og neikvæðra gengisbreytinga á núverandi misræmi og á virkni gengisáhættuvarna sem kunna að vera til staðar.
Takmarkanir á gjaldmiðlamisræmi sem lagðar eru á samkvæmt þessari málsgrein eru sérstakar lausafjárkröfur í samræmi við 8. mgr. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 105. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB.
III. KAFLI
Útreikningur hlutfalls stöðugrar fjármögnunar.
4. gr.
Almennt.
Lánastofnanir skulu taka tillit til eigna, skuldbindinga og liða utan efnahagsreiknings á vergum grunni (e. gross basis), nema annað sé tekið fram í bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Við útreikning hlutfalls stöðugrar fjármögnunar skal beita viðeigandi vægi skv. 3. og 4. kafla, bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 á bókfært virði eigna, skulda og liða utan efnahagsreiknings, nema annað sé tekið fram í bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Útreikningar lánastofnunar á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar skulu samræmast ákvæðum 2. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, þ. á m. að því er varðar útreikning vegna afleiðusamninga, tryggðrar fjármögnunar og markaðsviðskipta.
Að fengnu samþykki Seðlabankans má lánastofnun færa eignir og skuldbindingar sem víxltengdar við útreikning á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar að uppfylltum skilyrðum 428. gr. f reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Seðlabankinn getur veitt lánastofnunum heimild til að beita hærra vægi á tiltæka stöðuga fjármögnun eða lægra vægi á nauðsynlega stöðuga fjármögnun að uppfylltum skilyrðum 428. gr. h reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
IV. KAFLI
Tiltæk stöðug fjármögnun.
5. gr.
Almennt.
Fjárhæð tiltækrar stöðugrar fjármögnunar er reiknuð með því að margfalda bókfært virði mismunandi flokka eigin fjár og skuldbindinga með viðeigandi vægi tiltækrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar, 3. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nema annað komi sérstaklega fram í ákvæðum kaflans. Heildarfjárhæð tiltækrar stöðugrar fjármögnunar skal vera samtala fjárhæða skuldbindinga og eigin fjár að teknu tilliti til viðeigandi vægis.
Flokka má skuldabréf og aðra skuldagerninga útgefna af lánastofnun sem smásöluinnlán í samræmi við 2. mgr. 428. gr. i reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.
6. gr.
Eftirstöðvatími.
Skuldbindingar og eigið fé skal fá vægi tiltækrar stöðugrar fjármögnunar í samræmi við eftirstöðvatíma þeirra, nema annað komi sérstaklega fram í 3. kafla, bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Þegar eftirstöðvatími skuldbindinga og eigin fjár er ákvarðaður skal taka tillit til þess réttar sem lánardrottnar hafa heimild til að beita. Gera skal ráð fyrir að mótaðili nýti allan rétt sinn við fyrsta mögulega tækifæri. Hafi lánastofnun rétt í tengslum við fjármögnun skal bæði lánastofnun og Seðlabankinn taka tillit til orðsporsáhættu sem kann að takmarka möguleika lánastofnunar á að nýta ekki viðkomandi rétt, einkum væntingar markaðsaðila um að tilteknar skuldbindingar verði innleystar fyrir gjalddaga.
Flokka skal bundin innlán sem eru uppsegjanleg með tilkynningu í samræmi við uppsagnarfrest þeirra. Flokka skal bundin innlán með föstum binditíma í samræmi við eftirstöðvatíma þeirra. Þrátt fyrir 2. mgr. skulu lánastofnanir ekki taka tillit til réttar varðandi snemmbæra úttekt við ákvörðun eftirstöðvatíma bundinna smásöluinnlána í þeim tilvikum sem innstæðueigandi þarf að greiða verulegt gjald fyrir úttektir innan árs eins og nánar er skilgreint í reglum um lausafjárhlutfall lánastofnana.
Við ákvörðun viðeigandi vægis tiltækrar stöðugrar fjármögnunar fá afborganir af skuldbindingum með eftirstöðvatíma eftir eitt ár eða síðar vægi í samræmi við gjalddaga. Þannig skal flokka afborganir á gjalddaga innan sex mánaða, eða eftir sex mánuði eða lengur en skemur en eitt ár, sem fjármögnun með gjalddaga innan sex mánaða, eða eftir sex mánuði eða lengur en skemur en eitt ár, eftir því sem við á.
V. KAFLI
Nauðsynleg stöðug fjármögnun.
7. gr.
Almennt.
Fjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar er reiknuð með því að margfalda bókfært virði mismunandi flokka eigna og liða utan efnahagsreiknings með viðeigandi vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar, 4. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nema annað komi sérstaklega fram í ákvæðum kaflans. Heildarfjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal vera samtala fjárhæða eigna og liða utan efnahagsreiknings að teknu tilliti til viðeigandi vægis.
8. gr.
Raunverulegt eignarhald.
Undanskilja skal eignir frá útreikningi fjárhæðar nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar sem lánastofnun hefur fengið að láni, m.a. í verðbréfaviðskiptum, þrátt fyrir að þær komi fram á efnahagsreikningi lánastofnunar, ef hún fer ekki með raunverulegt eignarhald á viðkomandi eign.
Ekki skal undanskilja eignir sem fengnar hafa verið að láni þrátt fyrir að eignirnar komi ekki fram á efnahagsreikningi lánastofnunar ef lánastofnun fer með raunverulegt eignarhald á viðkomandi eign.
9. gr.
Eignir sem eru veðsettar eða bundnar hvers kyns kvöðum.
Við útreikning á fjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal lánastofnun taka með eignir sem hún hefur veitt að láni sem veðsettar eignir ef hún fer með raunverulegt eignarhald á þeim, jafnvel þrátt fyrir að eignirnar komi ekki fram á efnahagsreikningi lánastofnunar. Slíkar eignir fá viðeigandi vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í samræmi við 2. þátt, 4. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Að öðrum kosti skal undanskilja slíkar eignir frá útreikningi á fjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar.
Eignir sem eru veðsettar til sex mánaða eða lengur skulu fá vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar eins og sambærilegar óveðsettar eignir, eða viðeigandi vægi sem veðsettar eignir, hvort sem hærra er. Sama á við þegar eignir eru veðsettar til styttri tíma en eftirstöðvatími þeirra viðskipta sem eru grundvöllur veðsetningar. Eignir sem eru veðsettar til skemmri tíma en sex mánaða fá vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar eins og sambærilegar óveðsettar eignir.
Ef lánastofnun endurveðsetur eða notar með öðrum hætti (e. reuses or repledges) eign sem fengin hefur verið að láni, þ.m.t. í verðbréfaviðskiptum, og sú eign kemur fram á efnahagsreikningi lánastofnunar, skal farið með viðskipti er tengjast lánveitingunni sem veðsett, að uppfylltum skilyrðum 5. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Eignir sem tilgreindar eru í a–c-lið 6. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 teljast vera óveðsettar.
10. gr.
Annað.
Við tilteknar aðstæður getur Seðlabanki Íslands ákvarðað lægra vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar fyrir eignir sem tilgreindar eru í ákvæðum a- og b-liðar 7. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Við slíkar aðstæður skal Seðlabankinn fylgjast náið með áhrifum lægra vægis á stöðuga fjármögnun lánastofnunar og beita viðeigandi eftirlitsaðgerðum ef þörf krefur.
Ef eignir tengjast tryggingum samkvæmt 8. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 skal undanskilja þær við útreikning fjárhæðar nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í samræmi við ákvæðið.
Lánastofnun skal taka erlendan gjaldeyri og hrávörur (e. commodities) með við útreikning á fjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar ef kaup lánastofnunar á þeim hafa verið staðfest (e. purchase order has been executed). Undanskilja skal fjármálagerninga, erlendan gjaldeyri og hrávörur þegar sala lánastofnunar á þeim hefur verið staðfest að uppfylltum skilyrðum 9. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Seðlabankinn getur ákvarðað vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar fyrir áhættuskuldbindingar utan efnahagsreiknings sem falla ekki undir ákveðinn lið í 4. kafla, bálki IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, í því skyni að tryggja að lánastofnanir eigi viðeigandi fjárhæð tiltækrar stöðugrar fjármögnunar fyrir þann hluta áhættuskuldbindinga sem þarfnast fjármögnunar yfir eins árs tímabil, sbr. 10. mgr. 428. gr. p reglugerðar (ESB) nr. 575/2013. Seðlabankinn skal upplýsa Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina um áhættuskuldbindingar samkvæmt ákvæði þessu, að lágmarki árlega, þ. á m. um aðferðafræði við að ákvarða viðeigandi vægi.
11. gr.
Eftirstöðvatími eigna.
Almennt fá eignir og liðir utan efnahagsreiknings vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar í samræmi við eftirstöðvatíma þeirra, nema annað sé sérstaklega tekið fram í 4. kafla, bálki IV í reglugerð (ESB) nr. 575/2013.
Eignir sem hafa verið aðgreindar í samræmi við 3. mgr. 11. gr. reglugerðar (ESB) nr. 648/2012, sbr. lög nr. 15/2018 um um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, fá meðferð í samræmi við undirliggjandi áhættu þeirra. Lánastofnanir skulu þó gefa þeim hærra vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skv. 2. mgr. 428. gr. q reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, að höfðu samráði við Seðlabankann.
Þegar eftirstöðvatími eigna og liða utan efnahagsreiknings er ákvarðaður skal taka tillit til þess réttar sem útgefandi eða mótaðili hefur heimild til að beita. Gera skal ráð fyrir að útgefandi eða mótaðili muni nýta rétt sinn til að fresta gjalddögum eða framlengja eftirstöðvatíma eigna. Hafi lánastofnun rétt í tengslum við viðkomandi eign skal lánastofnun og Seðlabankinn taka tillit til orðsporsáhættu sem kann að takmarka möguleika lánastofnunar á að nýta ekki rétt sinn, einkum væntinga markaðsaðila og viðskiptavina um að lánastofnun skuli framlengja eftirstöðvatíma tiltekinna eigna á gjalddaga.
Við ákvörðun viðeigandi vægis nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar fá afborganir lána með eftirstöðvatíma eftir eitt ár eða síðar vægi í samræmi við gjalddaga. Þannig skal flokka afborganir á gjalddaga innan sex mánaða, eða eftir sex mánuði eða lengur en skemur en eitt ár, sem fjármögnun með gjalddaga innan sex mánaða, eða eftir sex mánuði eða lengur en skemur en eitt ár, eftir því sem við á.
VI. KAFLI
Undanþága fyrir minni aðila.
12. gr.
Almennt.
Að fengnu samþykki Seðlabankans er minni aðilum heimilt að reikna hlutfall stöðugrar fjármögnunar skv. 3. gr. reglna þessara með hlutfalli tiltækrar stöðugrar fjármögnunar skv. 13. gr. af nauðsynlegri stöðugri fjármögnun skv. 14. gr. reglna þessara.
Seðlabankinn getur krafist þess að minni aðilar uppfylli kröfur um stöðuga fjármögnun í samræmi við 2. mgr. 4. gr. ef hann telur að hin einfaldaða aðferðafræði skv. 1. mgr. sé ekki fullnægjandi til að meta fjármögnunaráhættu viðkomandi lánastofnunar.
13. gr.
Tiltæk stöðug fjármögnun fyrir einfaldaðan útreikning á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar.
Fjárhæð tiltækrar stöðugrar fjármögnunar er reiknuð með því að margfalda bókfært virði mismunandi flokka eigin fjár og skuldbindinga með viðeigandi vægi tiltækrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar, 6. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nema annað komi sérstaklega fram í ákvæðum kaflans. Heildarfjárhæð tiltækrar stöðugrar fjármögnunar skal vera samtala fjárhæða skuldbindinga og eigin fjár að teknu tilliti til viðeigandi vægis.
Einfaldaður útreikningur fjárhæðar tiltækrar stöðugrar fjármögnunar skal samræmast kröfum 428. gr. aj reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Eftirstöðvatími skuldbindinga og eigin fjár skal samræmast kröfum 428. gr. ak reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
14. gr.
Nauðsynleg stöðug fjármögnun fyrir einfaldaðan útreikning á hlutfalli stöðugrar fjármögnunar.
Fjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar er reiknuð með því að margfalda bókfært virði mismunandi flokka eigna og liða utan efnahagsreiknings með viðeigandi vægi nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar samkvæmt ákvæðum 2. þáttar, 7. kafla, bálks IV, 6. hluta reglugerðar (ESB) nr. 575/2013, nema annað komi sérstaklega fram í ákvæðum kaflans. Heildarfjárhæð nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal vera samtala fjárhæða eigna og liða utan efnahagsreiknings að teknu tilliti til viðeigandi vægis.
Einfaldaður útreikningur fjárhæðar nauðsynlegrar stöðugrar fjármögnunar skal samræmast kröfum 428. gr. aq reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
Eftirstöðvatími eigna skal samræmast kröfum 428. gr. ar reglugerðar (ESB) nr. 575/2013.
VII. KAFLI
Skýrsluskil, upplýsingar, eftirlit, viðurlög og gildistaka.
15. gr.
Skýrsluskil.
Lánastofnanir, og samstæður lánastofnana, skulu skila Seðlabankanum ársfjórðungslega skýrslu um stöðuga fjármögnun á því formi sem kveðið er á um í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2021/451.
Skýrslum skal skila fyrir alla gjaldmiðla samtals í reikningsskilagjaldmiðli og auk þess sérstökum skýrslum fyrir hvern þann gjaldmiðil þar sem skuldbindingar í gjaldmiðlinum eru jafnar eða umfram 5% af heildarskuldbindingum lánastofnunar. Ef skiladag ber upp á helgar- eða frídag skal skila næsta virka dag á eftir.
Komi til þess að Seðlabankinn óski sérstaklega eftir að skýrslum um stöðuga fjármögnun verði skilað oftar en segir í 1. mgr. skal lánastofnun verða við því.
Móðurfélag í samstæðu lánastofnunar ber ábyrgð á að skýrslum um stöðuga fjármögnun sé skilað í samræmi við reglur þessar.
Innri endurskoðandi lánastofnunar skal yfirfara aðferðir við skýrslugerð stöðugrar fjármögnunar að minnsta kosti einu sinni á ári og senda Seðlabankanum skriflega yfirlýsingu þar um. Slík yfirlýsing skal jafnframt send þegar fyrsta skýrsla lánastofnunar er útbúin samkvæmt reglum þessum.
16. gr.
Upplýsingar.
Skylt er að láta Seðlabankanum í té allar upplýsingar og gögn sem bankinn telur nauðsynleg til að framfylgja reglum þessum, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga um fjármálafyrirtæki, 1. mgr. 9. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 1. mgr. 32. gr. laga um Seðlabanka Íslands.
17. gr.
Eftirlit og viðurlög.
Um eftirlit og úrræði Seðlabanka Íslands fer samkvæmt ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998 og lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019.
18. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 83. gr. laga um fjármálafyrirtæki, taka gildi þegar í stað. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 1032/2014 um fjármögnunarhlutfall í erlendum gjaldmiðlum, með síðari breytingum.
Seðlabanka Íslands, 25. júní 2021.
|
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. |
Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri. |
|