Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 666/2023

Nr. 666/2023 14. júní 2023

REGLUR
um doktorsnám við Landbúnaðarháskóla Íslands.

1. gr.

Forsendur og gildissvið.

Reglur þessar taka til doktorsnáms við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), en skólinn hefur heimild háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis til þess að bjóða upp á doktorsnám á fræðasviðum sínum.

Reglurnar eru settar með hliðsjón af viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands, sjá

https://www.hi.is/sites/default/files/atli/pdf/vidmid_og_krofur_um_gaedi_doktorsnams_30_okt_2020.pdf.

 

2. gr.

Um námið. Markmið.

Við Landbúnaðarháskóla Íslands er unnt að leggja stund á doktorsnám á sviðum náttúru- og umhverfis­vísinda, skógfræða, landgræðslufræða, búvísinda, hestafræða og skipulagsfræða, þar sem framhaldsnámsnefnd (sjá 3. gr.) metur að nauðsynleg aðstaða og sérþekking sé fyrir hendi.

Markmið doktorsnáms við Landbúnaðarháskóla Íslands er að veita doktorsnemanum þjálfun og innsýn í rannsóknaraðferðir viðkomandi fræðasviða og tengdra greina og að neminn öðlist ítarlega þekkingu á því sviði sem doktorsverkefni hans nær til. Í náminu felst þjálfun í undirbúningi og framkvæmd rannsókna, úrvinnslu og túlkun rannsóknarniðurstaðna, kynningu og rökræðum á eigin rannsóknum í samhengi við þekkingu á fræðasviðinu svo og birtingu í alþjóðlegum ritrýndum tíma­ritum. Þannig verði doktorsefnið vel undir það búið að starfa sjálfstætt að vísindum.

Landbúnaðarháskóli Íslands á aðild að Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands sem við­heldur viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands kallar eftir.

 

3. gr.

Framhaldsnámsnefnd Landbúnaðarháskóla Íslands.

Í framhaldsnámsnefnd sitja umsjónarmaður framhaldsnáms sem kjörinn er á háskólafundi til þriggja ára í senn og er jafnframt formaður nefndarinnar, kennslustjóri, fulltrúar deilda og fulltrúar framhaldsnámsnema af meistara- og doktorsnámsstigi, sem árlega eru tilnefndir af nemenda­félaginu.

Umsjónarmaður framhaldsnáms skal að jafnaði vera akademískur starfsmaður og hafa a.m.k. hæfi dósents. Framhaldsnámsfulltrúar deilda skulu að jafnaði hafa doktorsgráðu.

Framhaldsnámsnefnd fer með málefni doktorsnáms í umboði deilda í samræmi við reglur LbhÍ. Hlutverk hennar er að móta og hafa áhrif á stefnu og markmið námsins og stýra ferli umsókna um doktorsnámið. Auk þess hefur nefndin það hlutverk að fylgjast með því að hæfilegs samræmis sé gætt í doktorsnámi á fræðasviðum skólans og annast samskipti við Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Formaður framhaldsnámsnefndar er tengiliður Landbúnaðarháskóla Íslands við Miðstöð framhaldsnáms og situr í stjórn hennar.

Framhaldsnámsnefnd fjallar um meiriháttar málefni einstakra doktorsnema og ágreiningsmál sem upp kunna að koma í framkvæmd doktorsnámsins. Að öðru leyti eru mál sem koma upp afgreidd af umsjónarmanni framhaldsnáms, kennslustjóra og/eða deildarfulltrúa framhaldsnáms. Úrskurðum þeirra má áfrýja til framhaldsnámsnefndar og úrskurðum nefndarinnar má áfrýja til deildarforseta.

 

4. gr.

Umsóknarfrestur.

Umsóknarfrestur um doktorsnám er að jafnaði 15. apríl og 15. október. Heimilt er að taka við umsóknum um doktorsnám á öðrum tímum.

 

5. gr.

Meðferð umsókna og rannsóknaráætlun.

Umsóknum er skilað á rafrænum eyðublöðum Landbúnaðarháskóla Íslands sem aðgengileg eru á vef skólans. Afgreiðslu umsóknar skal að jafnaði vera lokið og henni svarað innan sex vikna frá því að hún berst. Umsókn má rita á ensku eða íslensku, henni skal fylgja útdráttur á ensku og íslensku, námsáætlun, lýsing rannsóknarverkefnis og rannsóknaráætlun skv. lið c hér að neðan, sbr. umsóknar­­eyðublað. Ferill umsókna og mat á rannsóknaráætlun:

  1. Nemandi sækir um inngöngu í doktorsnám á heimasíðu LbhÍ. Með umsókn skulu fylgja afrit af prófskírteinum svo og ferilskrá (Curriculum Vitae) umsækjanda og væntanlegs umsjónar­kennara/leiðbeinenda og nöfn tveggja umsagnaraðila.
  2. Umsóknin er skráð hjá kennsluskrifstofu og gengið er úr skugga um að hún sé fullnægjandi m.t.t. þeirra atriða sem nefnd eru í lið a og að umsækjandi uppfylli almenn inntökuskilyrði skv. 6. gr. reglna þessara. Kennsluskrifstofa fær, þegar það á við, frumgögn umsóknar metin af matsskrifstofu Háskóla Íslands til að staðfesta uppruna þeirra, meta gildi próf­­skírteina og námsgráða og staðfesta að gögn umsækjanda uppfylli formkröfur.
  3. Í umsókn er gerð ítarleg grein fyrir námsáætlun, rannsóknarverkefni og rannsóknaráætlun auk greinargerðar um hvernig fjármagna eigi námið. Í slíkri umsókn skal tilgreina ósk um væntan­lega doktorsnefnd. Námsáætlun og rannsóknaráætlun eru metnar og umsækjandi ásamt umsjónarkennara/aðalleiðbeinanda boðaður í viðtal við fulltrúa framhaldsnáms­nefndar. Umsóknin er afgreidd með rökstuddri umsögn.
         Ítarleg rannsóknaráætlun skal innihalda eftirtalda kafla:
    1. Lýsing á rannsókn og hlutverki/þátttöku doktorsnefndarmanna í rannsókn (1-2 bls.). Ferilskrá nefndarmanna skal fylgja.
    2. Greinargerð um faglegar forsendur rannsóknar, þ.m.t. stutt fræðilegt yfirlit, nýnæmi, uppbyggingu rannsóknar, aðferðafræði, rannsóknarspurningu/tilgátu ef við á (3-5 bls.).
    3. Verk-, tíma- og fjárhagsáætlun (1-2 bls.). Heimilt er að veita umsækjanda tækifæri til að endurbæta rannsóknaráætlun í samræmi við framkomnar athugasemdir.
  4. Framhaldsnámsnefnd fer yfir umsóknir og hafnar umsókn ef hún uppfyllir ekki gæðakröfur eða samþykkir umsóknina og tilkynnir niðurstöðu til deildar. Synji deild umsækjanda inn­göngu skal hún rökstyðja niðurstöðu sína.
  5. Í framhaldi af niðurstöðu framhaldsnámsnefndar ber viðkomandi deild ábyrgð á að tilkynna umsækjanda og kennsluskrifstofu hvort umsókn hafi verið samþykkt eða henni hafnað.

 

6. gr.

Inntökuskilyrði.

Til að innritast í doktorsnám við Landbúnaðarháskóla Íslands skal nemandi hafa lokið viður­kenndu meistaraprófi á fræðasviðinu sem doktorsnámið skal byggjast á eða hafa meistaragráðu á tengdu fræðasviði. Meistaragráða, eða önnur samsvarandi gráða, sem leggja skal til grundvallar doktors­námi verður að vera veitt af viðurkenndum háskóla.

Leyfa má, í undantekningartilfellum, uppfærslu nemanda úr meistaranámi á viðkomandi fræða­sviði í doktorsnám með samþykki framhaldsnámsnefndar, hafi nemandinn ekki varið meistaraprófs­ritgerð sína og ef ekki eru liðin meira en tvö ár frá innritun hans til meistaranáms, miðað við nám í fullu starfi. Nemandinn skal, í samráði við umsjónarkennara sinn, sækja um slíka uppfærslu eins og hefðbundið doktorsnám skv. 5. gr. Nánar er kveðið á um einingafjölda og undirbúning í 7. gr.

Ekki er heimilt að nota meistaraprófsritgerð aftur sem uppistöðu í doktorsritgerð.

Ekki er heimilt að taka akademískan starfsmann við háskólann í doktorsnám.

Sé doktorsnemi ráðinn inn á tímabundinn styrk skal ráðningartími vera tímabundinn.

 

7. gr.

Einingafjöldi, tímalengd og framvinda náms.

Doktorsnám að loknu meistaraprófi skal jafngilda þriggja ára námi í fullu starfi hið minnsta. Doktors­námið skiptist í 150 eininga rannsóknarverkefni og að minnsta kosti 30 eininga námskeiðs­hluta. Fyrir nemanda, sem hefur innritast í doktorsnám grundvallað á uppfærsluákvæði 6. gr., skal doktors­námið jafngilda 240 einingum, þ.e. vera jafngilt fjögurra ára námi í fullu starfi hið minnsta. Í þessu tilfelli bætast 60 einingar við námskeiðshluta doktorsnámsins.

Heimilt er að doktorsnemi sé skráður í hlutanám frá upphafi. Sjái nemandi fram á að geta ekki lokið náminu innan fjögurra ára frá því það hófst skal hann sækja um til framhaldsnámsnefndar að vera áfram innritaður í námið í allt að eitt ár til viðbótar. Ef frekari framlengingar er þörf skal slík umsókn endurtekin, þó þannig að heildarnámstími verði aldrei lengri en sex ár, nema samþykkt hafi verið að nemandi fái að stunda nám sem hlutastarf.

Umsjónarkennari skilar framvinduskýrslu tvisvar á námsári til umsjónarmanns framhaldsnáms (sjá 13. gr.). Fullnægjandi framvinda er skilyrði fyrir skráningu á næsta námsári.

Við brautskráningu skal nemandinn sýna fram á að hann hafi verið skráður í nám og greitt skrásetningargjald allan námstímann eða í samræmi við gerða samninga sé um sameiginlega náms­gráðu að ræða með öðrum háskóla. Hafi skráningargjald ekki verið greitt á námstímanum skal nemi ganga frá skuld sinni við háskólann áður en brautskráning er staðfest.

 

8. gr.

Samsetning náms.

Doktorsnámið felur fyrst og fremst í sér þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og vinnu að sam­felldu rannsóknarverkefni.

Námskeið skulu vera á doktors- eða meistarastigi við háskólann eða aðra viðurkennda rann­sóknarháskóla. Hafi doktorsnemi ekki þegar lokið námskeiðum í tölfræði og vísindalegri aðferða­fræði er honum skylt að taka slík námskeið. Þá er nemanda skylt að taka þátt í málstofu framhalds­nema, sjá 14. gr. Öllum námskeiðum skal ljúka með viðeigandi námsmati í samræmi við skilgreinda náms­áætlun. Lágmarkseinkunn fyrir námskeið tekin við háskólann, sem meta skal til doktorsprófs, er 6,0. Námskeiðum, sem tekin eru við aðra viðurkennda háskóla, skal ljúka í samræmi við kröfur þess skóla.

Almennt er ekki heimilt að nota námskeið úr grunnnámi (BS-námi) sem hluta doktorsnáms. Þverfræðilegar rannsóknir geta þó leitt til þess að grunnnámskeið af öðrum fræðasviðum teljist nauð­synlegur hluti námsins. Mest geta 8 einingar af slíkum nauðsynlegum grunnnámskeiðum talist til doktorsprófs. Hámarksfjöldi eininga í lesnámskeiðum í umsjón leiðbeinanda er 12 einingar.

Ef nemandi er með doktorsnámi sínu að skipta um fræðasvið, sbr. 2. gr., getur vantað mikilvæga þætti úr grunnnámi. Bætast þá nauðsynlegir undanfarar við námskeiðshluta námsins. Umsjónar­kennari gerir tillögu að umfangi og innihaldi undanfaranna sem verða að hljóta samþykki framhalds­­náms­nefndar. Gera skal grein fyrir undanförum í námsáætlun, sbr. 5. gr.

Ætlast er til að doktorsnemi taki þátt í ráðstefnum á viðkomandi fræðasviði eftir því sem fjárhags­rammi leyfir. Stefnt skal að því eftir því sem kostur er að doktorsnemar fái tækifæri til að taka þátt í kennslu.

 

9. gr.

Breytingar á námsáætlun.

Veigamiklar breytingar á námsáætlun í doktorsnámi eru háðar samþykki framhaldsnáms­nefndar.

 

10. gr.

Tengsl við aðra háskóla.

Doktorsnám getur verið í tengslum við annan háskóla innanlands eða utan, t.d. þannig að neminn taki hluta námsins við viðkomandi háskóla eða fulltrúi hans sitji í doktorsnefndinni. Heimilt er að veita doktorsgráðu sameiginlega með öðrum háskóla. Slíku erindi skal vísað til framhalds­náms­nefndar og eftir atvikum leita ráða hjá Miðstöð framhaldsnáms um samninga um sameiginlegt doktorsnám og prófgráður.

 

11. gr.

Umsjónarkennari og leiðbeinendur.

Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara úr hópi fastra kennara háskól­ans sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarkennari er venjulega jafnframt aðalleiðbeinandi. Auk umsjónarkennara skal doktors­neminn hafa að lágmarki tvo aðra leiðbeinendur, sbr. 13. gr. Alla jafna er gert ráð fyrir því að a.m.k. einn leiðbeinenda sé frá erlendri samstarfsstofnun, enda uppfylli hann þær kröfur sem gerðar eru í 12. gr. þessara reglna. Skilgreina skal hlutverk hvers leiðbeinanda fyrir sig.

 

12. gr.

Kröfur til umsjónarkennara og leiðbeinenda.

Umsjónarkennari skal ýmist vera fastráðinn kennari eða gestakennari í viðkomandi grein við Landbúnaðarháskóla Íslands sem hefur fengið viðeigandi hæfismat. Aðalleiðbeinandi doktorsnema getur sá einn orðið sem lokið hefur doktorsprófi eða áunnið sér prófessorshæfi og uppfyllir að öllu jöfnu þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda í doktorsnámi í viðmiðum og kröfum um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands. Leiðbeinendur doktorsnema, hvort sem þeir eru fastir kennarar við háskólann eða ekki, skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á viðkomandi sviði og hafa birt ritsmíðar er tengjast verkefni nemanda á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur.

 

13. gr.

Doktorsnefnd.

Í doktorsnefnd skulu sitja a.m.k. þrír sérfróðir einstaklingar, þ.e. umsjónarkennari og leiðbein­endur. Nema og leiðbeinendum er heimilt að tilnefna allt að tvo aðra, ef þörf krefur, sem framhalds­námsnefnd samþykkir. Þegar samþykki aðila doktorsnefndar liggur fyrir, eigi síðar en fyrir lok fyrsta misseris, sendir formaður framhaldsnámsnefndar þeim skipunarbréf og varðveitir afrit.

Umsjónarkennari kallar doktorsnefnd saman innan 6 mánaða frá samþykkt rannsóknaráætlunar. Umsjónarkennari kallar síðan nefndina saman a.m.k. árlega meðan á náminu stendur til að fylgjast með framvindu námsins, sbr. 7. gr., og hefur umsjón með ritun fundargerða og skilum til umsjónar­manns framhaldsnáms, doktorsnema og doktorsnefndar, auk doktorsnefndarálits þegar doktorsritgerð er tilbúin, sbr. 15. gr. Doktorsnefnd ber ábyrgð á því að doktorsnámið samrýmist viðmiðum og kröfum Háskóla Íslands um gæði doktorsnáms. Doktorsefni getur kallað saman doktorsnefnd að eigin frum­kvæði.

 

14. gr.

Námsmat.

Nemandinn skal kynna rannsóknarverkefni sitt opinberlega við Landbúnaðarháskóla Íslands, að viðstaddri doktorsnefnd, a.m.k. þrisvar sinnum, á málstofu framhaldsnema. Fyrsta erindið (I) er haldið þegar nemandinn hefur gengið frá doktorsnámssamningi og er það alla jafna á öðru misseri námsins. Þar skal gera stutta grein fyrir rannsóknarverkefninu, aðdraganda þess, markmiðum og helstu aðferð­um. Ef einhverjar niðurstöður eru komnar má geta þess stuttlega. Eins skal gera grein fyrir áætluðum námskeiðum og hvaða námskeiðum sé nú þegar lokið. Annað erindið (II) er haldið þegar nemandinn er kominn vel á veg og hefur safnað drjúgum hluta gagnanna. Gera skal stutta grein fyrir verkefninu og þeim niðurstöðum sem komnar eru. Einnig skal greina frá stöðu námskeiða, fyrir­huguðum greina­skrifum/handritum sem komin eru og áætluðum verklokum. Þriðja erindið (III) er svo haldið þegar nemandinn hefur hafið skriftir og verklok eru í augsýn. Þar skal gera grein fyrir verkefninu í heild sinni og rekja helstu niðurstöður. Eins skal nemandi lista upp námskeið sem er lokið og geta þess hvort einhverjum námskeiðum sé enn ólokið. Loks skal gera grein fyrir því hvaða greinar muni fylgja rit­gerð­inni og hver staða þeirra sé.

Þegar doktorsnám er rúmlega hálfnað fer fram ítarlegt mat á stöðu verkefnisins (miðbikspróf). Doktorsneminn skrifar stutta samantekt um verkefnið og helstu niðurstöður sem hann sendir til doktorsnefndar og býður nefndarmönnum til opinnar kynningar á verkefninu (opin kynning II).

Á grundvelli hennar og umræðna er metin almenn þekking doktorsnemans og staða verkefnisins með tilliti til þess hvort efniviður sé nægur og hæfilegur fyrir doktorsritgerð og ákvörðun tekin um hvort neminn fái heimild til þess að halda áfram námi. Eigi síðar en sex mánuðum fyrir áætluð námslok er síðan metið hvort neminn fái heimild til þess að leggja lokahönd á ritgerð og senda hana til form­legrar umfjöllunar í doktorsnefnd. Er slíkt mat nauðsynlegt skilyrði fyrir doktorsvörn.

Loks metur doktorsnefnd ritgerðina áður en hún er lögð fram til varnar og skilar vandlega rök­studdu áliti til framhaldsnámsnefndar um það hvort doktorsritgerðin sé hæf til varnar og doktors­efni tilbúið til doktorsvarnar. Þar skulu koma fram upplýsingar um fyrra nám og háskólagráður, heiti verkefnis/ritgerðar, doktorsnefnd, samstarfsaðila við verkefnið, upplýsingar um hvar vinnan fór fram, listi yfir og stutt lýsing á þeim vísindagreinum sem verkið byggir á, auk yfirlits sem lýsir fag­legum ferli nemandans meðan á doktorsnáminu stóð (s.s. kennsla, fyrirlestrar, veggspjöld, skýrslur). Álitið skal undirritað af öllum doktorsnefndarmönnum. Um leið og ritgerð er lögð fram til framhaldsnáms­nefndar skal jafnframt leggja fram staðfest námsferilsyfirlit nemanda og yfirlit um greiðslu skráningar­gjalda.

 

15. gr.

Andmælendur og doktorsvörn.

Framhaldsnámsnefnd leggur mat á hvort innsend doktorsritgerð fullnægi almennum skilyrðum skv. 16. gr. Nefndin fjallar um álit doktorsnefndar um lok náms og tillögu um tvo andmælendur við verðandi doktorsvörn en þeir skulu vera óháðir aðilar, sem ekki eiga sæti í doktorsnefnd. And­mæl­endur skulu vera viðurkenndir sérfræðingar í viðfangsefni doktorsritgerðarinnar. Andmælendur mega ekki hafa þau faglegu eða persónulegu tengsl við doktorsnema, leiðbeinanda eða doktors­nefnd sem valda því að hægt sé að draga hæfi þeirra í efa. Þegar framhaldsnámsnefnd hefur samþykkt til­lögur um andmælendur eru tillögurnar sendar Miðstöð framhaldsnáms til samþykkis. Báðir andmæl­endur skulu koma frá öðrum háskólum eða rannsóknastofnunum, og skal annar þeirra vera frá erlendum háskóla eða rannsóknastofnun. Framhaldsnámsnefnd tilnefnir andmæl­endur formlega að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms. Þegar samþykki andmæl­enda hefur fengist fyrir starfinu sendir umsjónarmaður framhaldsnáms þeim skipunarbréf og varðveitir afrit. Andmælendur skulu fá endan­legt eintak doktorsritgerðar að minnsta kosti sex vikum fyrir doktorsvörn. Gert er ráð fyrir að doktors­vörn fari að jafnaði fram eigi síðar en fjórum mánuðum eftir að ritgerð er lögð fram.

Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt viðmiðum Landbúnaðarháskóla Íslands um framkvæmd doktorsprófs og með hliðsjón af reglum Háskóla Íslands. Doktorsefni skal verja ritgerð sína í háskól­anum í heyranda hljóði. Deildarforseti stýrir doktorsvörn. Að lokinni munnlegri vörn ákveður deildar­forseti ásamt andmælendum hvort veita skuli doktorsnafnbót. Verði ágreiningur skal skjóta málinu til deildarfundar. Fulltrúi stúdenta á deildarfundi á ekki atkvæðisrétt um mál er varða veit­ingu doktors­nafnbóta. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorspróf en andmælendur skulu skila umsögn um ritgerð­ina í kjölfar varnarinnar sem nemandinn fær.

 

16. gr.

Skil og frágangur doktorsritgerðar.

Verk til doktorsprófs getur verið hvort sem er í formi heildstæðrar ritgerðar eða safns greina sem hafa birst eða verið sendar til birtingar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum. Doktorsritgerð skal skrifa á ensku. Í henni skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða þekkingar á fræðasviðinu er rakin, aðferðum skal lýst, gerð grein fyrir niðurstöðum og loks skal vera ítarlegur umræðukafli sem fjallar um verkefnið í heild. Í ritgerð skal vera yfirlýsing um hvert framlag doktorsnemans var, tekið skal fram hvort aðrir hafa komið að verkinu og hver hlutur þeirra var.

Geta skal stofnana eða fyrirtækja þar sem rannsóknin var unnin og tekið fram hverjir leið­bein­endur voru. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands og geta skal þeirra sem styrktu verkefnið. Um frágang ritgerðarinnar að öðru leyti vísast til leið­beininga skólans. Doktorsritgerð skal skilað í tveimur eintökum til bókasafns Landbúnaðar­háskóla Íslands og rafrænu eintaki skal skila í rafræna gagnasafnið skemman.is sem vistað er hjá Landsbóka­safni Íslands – Háskólabókasafni á formi sem safnið ákveður. Að auki er mælt með að doktorsefni afhendi meðlimum doktorsnefndar og andmælendum eintak af ritgerðinni. Ritgerðin skal varðveitt opin öllum til aflestrar og prentunar. Deild getur þó veitt heimild til að ritgerð sé lokuð tímabundið vegna viðkvæms efnis. Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku og skal skila honum sérstaklega á tölvutæku formi til birtingar á heimasíðu skólans.

Form doktorsritgerðar:

  1. Ritgerð byggð á birtu efni eða efni samþykktu til birtingar. Slík ritgerð skal að jafnaði byggð á a.m.k. þremur vísindagreinum, hvar af a.m.k. ein hafi verið birt í viðurkenndu ritrýndu tímariti, önnur samþykkt eða send inn til birtingar og sú þriðja í handriti. Með orðinu vísinda­grein er að jafnaði átt við grein sem byggir á eigin gögnum/niðurstöðum, úrvinnslu og túlkun á þeim. Samræmis skal gætt við viðurkenndar hefðir á hverju fræðasviði. Skal doktorsefni vera fyrsti höfundur að a.m.k. tveimur slíkum greinum en þó að jafnaði öllum þremur. Ávallt skal vera skýrt hver þáttur doktorsnema er í viðkomandi verkefni.
  2. Í undantekningartilfellum getur framhaldsnámsnefnd veitt heimild fyrir ítarlegri ritgerð (monographia), þar sem þess er ekki krafist að ritgerðin, efni hennar eða hlutar efnis hennar hafi verið birtir eða samþykktir til birtingar. Slík ritgerð fer í strangara matsferli innan deildar en ritgerð sem byggð er á birtu efni. Doktorsnefnd og framhaldsnámsnefnd bera sameiginlega ábyrgð á því að umfang verkefnis, hlutdeild doktorsnema í verkinu, umfang og formlegur frágangur ritgerðar sé af sömu gæðum og annars er krafist. Í þessum tilvikum skal ávallt skipa þriggja manna dómnefnd utanaðkomandi og óháðra aðila. Um skipun dóm­nefndar gilda sömu reglur og við skipun andmælenda við doktorsvörn. Dómnefnd er þó heimilt að kalla til fulltrúa doktorsnefndar til ráðuneytis. Dómnefnd skal skila mjög ítarlegu áliti með nákvæmri og gagnrýninni ritrýni.

 

17. gr.

Lærdómstitill.

Að loknu doktorsnámi hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Philosophiae Doctor (Ph.D.).

 

18. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands með tilvísun í III. kafla laga um háskóla nr. 63/2006 og laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af framhaldsnámsnefnd LbhÍ og Miðstöð framhaldsnáms. Reglur þessar öðlast þegar gildi og falla úr gildi óbirtar reglur Landbúnaðarháskóla Íslands um doktorsnám sem samþykktar voru í háskólaráði 17. mars 2017.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Þeir nemendur sem þegar eru í doktorsnámi við gildistöku reglna þessara skulu ljúka námi sínu samkvæmt eldri reglum Landbúnaðarháskóla Íslands um doktorsnám frá 17. mars 2017.

 

Samþykkt af háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands, 14. júní 2023.

 

Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir rektor.


B deild - Útgáfud.: 28. júní 2023