Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 41/2021

Nr. 41/2021 28. maí 2021

LÖG
um breytingu á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum (skyldur flugrekenda vegna COVID-19).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Ef hætta er á að farsóttir berist til eða frá Íslandi, og almannaheilbrigði krefst, er ráðherra heimilt að kveða á um tímabundnar skyldur flugrekenda/umráðenda loftfars til að tryggja sóttvarnir með reglugerð, sem hér segir:

  1. Skyldu til að kanna hvort farþegi hafi fullnægt skyldu til forskráningar og hafi tilskilið viður­kennt vottorð um ónæmisaðgerð gegn COVID-19 (SARS-CoV-2), vottorð um að COVID-19-sýking sé afstaðin eða vottorð eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19 (SARS-CoV-2) áður en farið er um borð í loftfar, enda hafi slík skylda verið lögð á farþega á grundvelli sóttvarnalaga.
  2. Skyldu til að synja farþega um flutning geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði eða stað­festingu skv. a-lið.

    Þrátt fyrir b-lið 1. mgr. tekur skylda til að synja farþega um flutning ekki til íslenskra ríkis­borgara.

    Reglugerð skv. 1. mgr. skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á fjögurra vikna fresti.

    Samgöngustofa getur lagt stjórnvaldssekt á einstakling eða lögaðila fyrir brot gegn 1. mgr. og reglugerð sem sett er á grundvelli 1. mgr. Ákvörðun um stjórnvaldssekt skal tilkynnt á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 1. mgr. og reglugerð settri á grundvelli 1. mgr. óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekið fyrirsvarsfólk lögaðilans, starfsfólk hans eða annan aðila sem starfar á vegum hans. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 200 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir einstök brot vegna sérhvers farþega.

    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir dagsetningu ákvörðunar. Greiða skal dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar sé hún ógreidd 15 dögum eftir gjalddaga. Um ákvörðun og útreikning dráttar­vaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

    Ákvörðun um stjórnvaldssekt má skjóta til ráðherra samkvæmt stjórnsýslulögum. Ber Sam­göngu­stofu að leiðbeina aðila um rétt til kæru. Ákvarðanir Samgöngustofu um að leggja á stjórn­valds­sekt eru aðfararhæfar að liðnum kærufresti. Málskot til ráðherra frestar aðför en úrskurðir ráðherra eru aðfararhæfir. Málshöfðun fyrir almennum dómstólum frestar ekki aðför og er ekki háð því að mál hafi áður verið kært til ráðherra.

    Heimild Samgöngustofu til að leggja á stjórnvaldssekt samkvæmt ákvæði þessu fellur brott þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk. Frestur rofnar þegar Samgöngustofa tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að brotinu.

    Ítrekuð eða stórfelld brot gegn 1. mgr. og reglugerð sem sett er á grundvelli 1. mgr. varða refsingu skv. 1. mgr. 141. gr. Gera má lögaðila sekt samkvæmt ákvæðum II. kafla A almennra hegningarlaga fyrir slík brot. Brot samkvæmt ákvæði þessu sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samgöngustofu.

    Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. desember 2021.

 

2. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 28. maí 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 1. júní 2021