Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1040/2017

Nr. 1040/2017 14. nóvember 2017

REGLUGERÐ
um störf örnefnanefndar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi fjallar um störf örnefnanefndar, hlutverk hennar og markmið, skipulag og verkefni. Örnefnanefnd starfar á grundvelli laga um örnefni.

2. gr.

Hlutverk og markmið örnefnanefndar.

Örnefnanefnd skal í störfum sínum miða að varðveislu íslensks menningararfs. Nefndin skal m.a. stuðla að verndun örnefna og nafngiftahefða og tryggja að ný örnefni séu í samræmi við íslenska málfræði og íslenska málvenju og að þau séu í samræmi við staðhætti og örnefnahefð á við­komandi svæði. Þá skal örnefnanefnd gæta þess að samræmis sé gætt í stjórnsýslu við skráningu örnefna þannig að ferli nafngifta sé opið, gagnsætt og skilvirkt.

3. gr.

Starfsemi og fundir.

Örnefnanefnd hefur aðsetur í húsakynnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Stofnunin annast skrifstofuhald fyrir nefndina og leggur henni til starfsmann.

Fundi örnefnanefndar skal halda eftir þörfum. Formaður boðar til fundar. Jafnframt er skylt að boða til fundar ef meirihluti nefndarmanna krefst þess. Formaður ákveður dagskrá fundar í samráði við nefndarmenn. Nefndarmaður skal tilkynna formanni um forföll. Skal formaður þá boða varamann í hans stað. Örnefnanefnd er ályktunarhæf þegar meirihluti nefndarmanna situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn sker atkvæði formanns úr.

Formaður stýrir fundum og undirritar bréf og önnur skjöl fyrir hönd nefndarinnar.

4. gr.

Skipulag og verklag.

Örnefnanefnd fer með þau verkefni sem henni er falið í lögum um örnefni, öðrum lögum og almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Nefndin setur sér nánari reglur um verklag við undirbúning, máls­meðferð og afgreiðslu mála, svo sem gerð úrskurða, veitingu álita og umsagna, töku stjórn­valds­ákvarðana og eftirlit. Reglurnar skulu birtar á vefsíðu nefndarinnar og bornar undir ráðherra fyrir birtingu.

5. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga um örnefni, nr. 22/2015, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um störf örnefnanefndar, nr. 136/1999.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 14. nóvember 2017.

Kristján Þór Júlíusson.

Ásta Magnúsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 30. nóvember 2017