Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 465/2022

Nr. 465/2022 15. mars 2022

REGLUR
um hæfingu og iðju fyrir fatlað fólk hjá Múlaþingi.

Markmið og markhópur.

1. gr.

Hæfing, iðja og virkniþjálfun fyrir fatlað fólk byggir á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og er hluti af stoðþjónustu sveitarfélagsins. Markmið stoð­þjónustu er að styðja við þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu, auka virkni og koma í veg fyrir félags­lega einangrun.

 

Skipulag þjónustunnar.

2. gr.

Skv. 22. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir telst öll atvinnu- og hæfingartengd þjónusta sem ætluð er fötluðu fólki til vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun (VMST) annast skipulag og vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar á meðal vinnumiðlun, mat á vinnufærni og mat á þörf fyrir vinnumarkaðsúrræði, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006. Skipulag, framkvæmd og rekstur vinnustaða fyrir verndaða vinnu, hæfingu og virkni­þjálfun er á ábyrgð sveitarfélags, nema annað sé sérstaklega ákveðið með samkomulagi ríkis og VMST.

Samstarf og samráð er við VMST í þeim tilgangi að tryggja samfellu á milli vinnumarkaðs­aðgerða og þjónustu sveitarfélagsins.

 

3. gr.

Sú þjónusta sem í boði er:

Stólpi á Egilsstöðum - hæfing, iðja, er dagþjónusta fyrir fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir. Þar er veitt, virkniþjálfun, afþreying og umönnun sem og stuðlað að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi með stuðningi og aðstoð.

 

Afgreiðsla umsókna.

4. gr.

Umsóknir um hæfingu og iðju berist í gegnum Þulu sem er vefsíða VMST. Starfsmaður félags­þjónustu Múlaþings tekur við umsóknum og metur þörf fyrir þjónustu í samvinnu við forstöðumann Stólpa og VMST. Umsóknir ásamt mati eru lagðar fyrir fund meðferðarteymis félagsþjónustunnar til fullnaðarafgreiðslu og skráðar til afgreiðslu umsóknar í Þulu og í málakerfi sveitarfélagsins. Forstöðu­maður Stólpa skipuleggur þjónustuna í samvinnu við umsækjanda.

 

Áfrýjun.

5. gr.

Telji umsækjandi á rétt sinn hallað skv. reglum þessum er honum heimilt að vísa ákvörðun félagsþjónustunnar til fjölskylduráðs Múlaþings innan fjögurra vikna frá því honum barst vitneskja um ákvörðun. Fjölskylduráð skal fjalla um umsókn og taka ákvörðun svo fljótt sem auðið er.

 

6. gr.

Umsækjandi getur skotið ákvörðun fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda barst vitneskja um ákvörðun fjölskylduráðs.

 

Gildistími.

7. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Samþykkt af sveitarstjórn Múlaþings 9. mars 2022.

 

Múlaþingi, 15. mars 2022.

 

Björn Ingimarsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 26. apríl 2022