Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 900/2022

Nr. 900/2022 3. ágúst 2022

REGLUGERÐ
um blóðtöku úr fylfullum hryssum.

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra hryssna sem nýttar eru í blóðtöku, folalda þeirra og stóðhesta sem notaðir eru til fyljunar þeirra, það verði gert með góðri meðferð, umhirðu og aðbúnaði. Leitast skal við að hrossin geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði.

 

2. gr.

Orðskýringar.

 1. Blóðtaka: Að taka blóð úr fylfullum hryssum til söfnunar á hormóninu eCG (equine chorionic gonadotropin).
 2. Um orðskýringar fer að öðru leyti eftir orðskýringum laga nr. 55/2013, um velferð dýra og reglugerðar nr. 910/2014, um velferð hrossa.

 

3. gr.

Tilkynningarskylda og sérstakt leyfi Matvælastofnunar.

Hrossahald til blóðtöku er einungis heimilt að undangenginni tilkynningu til Matvælastofnunar samkvæmt 12. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Tilkynning skal berast Matvælastofnun eigi síðar en 60 dögum áður en blóðtaka úr hryssum hefst. Ábyrgðarmaður hrossahalds til blóðtöku skal vera skráður umráðamaður allra hryssna sem hann nýtir í þá starfsemi í gagnagrunninum WorldFeng.

Blóðtaka úr fylfullum hryssum er einungis heimil að fengnu sérstöku leyfi Matvælastofnunar. Leyfið er veitt kaupanda blóðsins á grundvelli 20. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra og gildir að hámarki í þrjú ár frá útgáfudegi. Leyfið er takmarkað við starfsstöðvar þar sem hrossahald til blóðtöku hefur verið tilkynnt og tekið út af Matvælastofnun skv. 1. mgr.

 

4. gr.

Opinbert eftirlit.

Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt reglugerð þessari. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar og hefur eftirlit með að ákvæðum hennar sé framfylgt.

 

5. gr.

Skyldur leyfishafa til blóðtöku.

Leyfishafi samkvæmt 2. mgr. 3. gr. ber ábyrgð á eftirfarandi þáttum:

 1. Að skrár yfir hryssur í blóðtöku á hverjum blóðtökubæ eða starfsstöð séu tiltækar á blóðtökustað.
 2. Að skrá öll slys, veikindi og dauðsföll á hryssum og folöldum á blóðtökutímabilinu.
 3. Að skrá öll frávik sem verða við blóðtöku (þ.m.t. tilvik áberandi ótta eða streitu hjá blóðmerum við blóðtöku).
 4. Að þeir sem að blóðtökunni koma fái skriflegar leiðbeiningar um sérstaka tilkynningarskyldu allra þeirra sem hafa afskipti af dýrum sbr. 9. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Tilkynna skal Matvælastofnun ef: grunur er um slæma meðferð, aðbúnað, fóðrun (holdarfar) og ef merkingar hrossa eru ekki með fullnægjandi hætti (skráningar og örmerkingar).
 5. Að dýralækni sé tryggð næg aðstoð, þannig að ávallt sé manneskja við hlið hverrar blóðtökuhryssu á meðan á blóðtöku stendur.
 6. Mælingar hjá opinberri rannsóknastofu á blóðrauða og/eða blóðkornahlutfalli á marktæku hlutfalli hryssnanna á hverju ári sem endar á oddatölu.
 7. Að haldin sé gæðahandbók sem skal vera aðgengileg Matvælastofnun. Gæðahandbók skal að lágmarki innihalda:
  1. Verkferla við skráningu og framkvæmd skv. a – f-lið. Taka skal fram hvaða aðili á vegum leyfishafa ber ábyrgð á hverjum þætti fyrir sig.
  2. Verkeferla vegna viðbragða við frávikum sem kunna að verða við blóðtöku, svo sem: slys, veikindi, dauðsföll og merki um ótta eða streitu við blóðtöku.
 8. Að senda Matvælastofnun árlega samantekt um starfsemina. Samantekt skal berast Matvælastofnun eigi síðar en 31. desember ár hvert. Samantekt skal að lágmarki innihalda:
  1. Fjölda blóðtökuhryssna deilt niður á starfsstöðvar (býli).
  2. Skrá yfir slys, veikindi og afföll á blóðtökutímabilinu.
  3. Skrá yfir önnur frávik við blóðtöku samanber c- og e-lið.

 Árlega skal skila skýrslu til Matvælastofnunar um fjölda blóðtökuhryssna deilt á starfsstöðvar sem og afföll samkvæmt d-lið og mælingum samkvæmt e-lið.

 

6. gr.

Almennar kröfur til blóðtöku úr fylfullum hryssum.

 1. Einungis dýralæknar með gilt starfsleyfi á Íslandi hafa leyfi til að annast blóðtöku úr fylfullum hryssum. Umráðamanni er þó heimilt að taka sýni úr hryssum til að ákvarða upphaf blóðtöku með sérstöku nálakerfi eftir tilsögn dýralæknis.
 2. Dýralæknir ber ábyrgð á þeirri meðhöndlun sem hann framkvæmir.
 3. Dýralæknum er skylt að staðdeyfa stungustaðinn og skrá notkun staðdeyfilyfs í gagnagrunninn Heilsu.
 4. Aldrei má taka meira en 5 lítra af blóði vikulega úr hryssu og að hámarki í 8 vikur ár hvert.
 5. Blóðtöku skal að jafnaði lokið fyrir 5. október ár hvert.
 6. Aðeins má taka blóð úr hryssum sem hafa náð fjögurra vetra aldri (verða 4 ára á árinu) og ekki má taka blóð úr hryssum sem eru eldri en 24 vetra.
 7. Hryssurnar skulu vera án sjáanlegra sjúkdómseinkenna, í góðum holdum (holdastigun 3,5-4,5) og vel hirtar að öllu leyti.
 8. Hver dýralæknir má ekki hafa fleiri en 3 hryssur í blóðtöku samtímis (3 blóðtökubásar).
 9. Ekki skulu vera fleiri en 75 hryssur með folöldum í hverjum blóðtökuhópi sem smalað er hverju sinni.
 10. Aðstaða til blóðtöku skal vera þannig að ekki skapist hætta á að hryssur og folöld verði fyrir slysi.
 11. Tryggt skal að hryssurnar hafi aðgang að vatni og salti strax eftir blóðtökuna.
 12. Gætt skal að velferð hryssnanna við rekstur í rétt og við blóðtökuna með nærgætinni umgengni og uppbindingu.
 13. Ef blóðtakan veldur hryssu þjáningu eða ógnar velferð hennar skal dýralæknirinn umsvifalaust hætta blóðtöku á viðkomandi hryssu.
 14. Ef hryssa slasast eða veikist skal hún meðhöndluð án tafar. Ef ekki er hægt að meðhöndla eða bæta líðan hryssunnar skal hún aflífuð.
 15. Hryssurnar skulu haldnar á góðu beitilandi með aðgangi að góðu vatni og salti.

 

7. gr.

Ábyrgðarkeðja.

Umráðamaður hrossahalds ber ábyrgð á velferð hrossa sinna ár hvert. Við blóðtöku ber hann ábyrgð á velferð hryssna við rekstur og í rétt, allt þar til þær eru komnar í sérstakan blóðtökubás. Hann ber allan tímann ábyrgð á velferð folalda sem hryssunum fylgja.

Leyfishafi, skv. 2. mgr. 3. gr., ber ábyrgð á að öll leyfisskilyrði séu uppfyllt.

Dýralæknir sem annast blóðtökuna, fyrir hönd kaupanda, ber ábyrgð á velferð hryssnanna frá því þær koma í blóðtökubásinn og að vinnubrögð við blóðtöku séu í samræmi við dýravelferðarsjónarmið. Þá ber honum að líta eftir heilsu og velferð hryssnanna og folaldanna sem þeim fylgja, að blóðtöku lokinni.

 

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 46. gr. laga nr. 55/2013, um velferð dýra. Reglugerðin öðlast þegar gildi og skal hún gilda til 6. október 2025.

 

Matvælaráðuneytinu, 3. ágúst 2022.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Elísabet Anna Jónsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 5. ágúst 2022