Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 771/2021

Nr. 771/2021 14. júní 2021

REGLUR
um umgengni í kirkjugörðum Lágafellssóknar.

1. gr.

Reglur þessar taka til umgengni í kirkjugörðum Lágafellssóknar.

Sóknarnefnd Lágafellssóknar fer með stjórn kirkjugarða Lágafellssóknar en nefndin getur falið sér­stökum umsjónarmanni daglega umsýslu garðanna fyrir sína hönd.

 

2. gr.

Kirkjugarðarnir eru friðhelgir. Í kirkjugörðunum er sérhver hávaði eða ys bannaður. Öllum er frjáls för um kirkjugarðana með þeim takmörkunum sem af þessum reglum leiðir.

Kirkjugarðar eru almennt opnir allan sólarhringinn.

 

3. gr.

Umferð vélknúinna farartækja er bönnuð í kirkjugarði nema með sérstöku leyfi hverju sinni.

 

4. gr.

Í kirkjugörðum er bannað að fara um með hesta, hunda eða önnur dýr.

 

5. gr.

Enginn má vinna í kirkjugörðunum gegn gjaldi nema undir eftirliti umsjónarmanns kirkjugarð­anna. Á eftirfarandi helgidögum er öll vinna í görðunum bönnuð: Föstudaginn langa, páskadag, hvíta­sunnudag, aðfangadag jóla frá kl. 18.00 og jóladag.

 

6. gr.

Eigi má skilja eftir á leiðum eða götum garðanna mold, jurtaleifar eða nokkuð annað sem óprýði, óþrifum eða truflun getur valdið. Allt slíkt skal setja í til þess ætluð ílát eða á til þess ætlaða staði. Umsjónarmanni kirkjugarðanna er heimilt að fjarlægja það sem óprýði, óþrifum eða truflun getur valdið.

 

7. gr.

Heimilt er að hafa gróðurreiti á kistugrafstæði en hámarksstærð skal vera 0,8 x 0,6 metrar og snúa langsum en 0,8 x 0,8 metrar sé einn gróðurreitur á tveimur samliggjandi leiðum. Gróðurreitir skulu liggja framan við minnismerki.

 

8. gr.

Eigi má sá til eða gróðursetja neins staðar í löndum kirkjugarða Lágafellssóknar þær jurtir sem með sjálfsáningu, rótarskoti eða á annan hátt offjölgar, þannig að hætta sé á að jurtirnar breiðist út. Greinar og rætur jurta, sem gróðursettar hafa verið á legstæði, mega ekki ná út fyrir mörk þess og þannig hindra umferð við göngustíga og brautir kirkjugarðs eða skemma önnur legstæði. Óheimilt er að gróðursetja tré og runna á grafreitum.

 

9. gr.

Sái einhver eða gróðursetji slíkar jurtir, sem um ræðir í 8. gr., eða ef greinar jurta, runna og trjáa hindra umferð við göngustíga og brautir kirkjugarðs, hefur umsjónarmaður heimild til að útrýma viðkomandi plöntum á kostnað þess sem gróðursetti þær og jafnvel á kostnað skráðra aðstandenda viðkomandi legstæðis, ef ekki er vitað hver gróðursetti plönturnar.

 

10. gr.

Ekki má, án leyfis umsjónarmanns, fjarlæga neitt af legstæðum, svo sem minnismerki eða aðra varanlega hluti.

 

11. gr.

Sóknarnefnd Lágafellssóknar ber eigi skaðabótaábyrgð á, þótt umbúnaður grafarstæðis, minnis­merki, gróður eða annað, sem á grafarstæði kann að vera, verði fyrir skemmdum eða ónýtist af völdum náttúruafla eða skemmdarvarga.

 

12. gr.

Sá sem vill setja minnismerki á leiði eða duftreit skal fá til þess leyfi umsjónarmanns. Skal stærð og útlit slíkra merkja vera í samræmi við reglur garðanna sem um þetta gilda og vera í sam­ræmi við þær hefðir sem myndast hafa á því svæði kirkjugarðsins sem um er að ræða hverju sinni. Viðhald legsteina og minnismerkja er á ábyrgð aðstandenda en hafa skal samráð um það við umsjónar­mann.

 

13. gr.

Frágangur minnismerkja skal vera svo traustur að þau hvorki raski né ýti til jarðvegi þótt gröf sé tekin við hlið þeirra.

 

14. gr.

Þegar minnismerki, umbúnaður grafar og þess háttar, er svo úr sér gengið og/eða komið að falli, svo að af stafar hætta eða er til óprýði, skal gera umráðamanni grafarstæðisins aðvart. Beri það eigi árangur eða náist eigi til hans má fjarlægja umgerðina og/eða minnismerki. Skal það þá gert í samræmi við fyrirmæli 26. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993.

 

15. gr.

Legstæði sem verið hefur í óhirðu í þrjú ár samfleytt má umsjónarmaður láta tyrfa, malbera eða gera aðrar ráðstafanir sem auðvelda umhirðu þess.

 

16. gr.

Skaðabætur skulu eigi koma til rétthafa grafarstæðis ef beita verður ákvæðum 14. eða 15. gr.

 

17. gr.

Þótt grafarfriðun sé útrunnin skal eigi flytja uppistandandi minnismerki eða raska umbúnaði leg­stæðisins sé það í góðu ásigkomulagi.

 

18. gr.

Auk framantalinna sérákvæða gilda ákvæði lögreglusamþykktar fyrir Mosfellsbæ, eftir því sem við getur átt, á öllum athafnasvæðum kirkjugarða Lágafellssóknar.

 

19. gr.

Reglur þessar eru samþykktar af sóknarnefnd Lágafellssóknar, samkvæmt heimild í 51. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, og öðlast þegar gildi.

 

Dómsmálaráðuneytinu, 14. júní 2021.

 

F. h. r.

Berglind Bára Sigurjónsdóttir.

Fanney Óskarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 30. júní 2021