Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 360/2016

Nr. 360/2016 29. apríl 2016

REGLUGERÐ
um (4.) breytingu á byggingarreglugerð, nr. 112/2012.

1. gr.

Í stað tölunnar „10“ í 3. málsl. 76. tölul. 1.2.1. gr. reglugerðarinnar kemur: 15.

2. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 2.3.5. gr. reglugerðarinnar:

 1. a-liður orðast svo: Allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h. Minniháttar breytingar á burðarveggjum, eldvarnarveggjum, votrými eða eldhúsi innan íbúðar eru heimilar án byggingarleyfis enda sé leyfisveitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjast.
 2. Orðin „með því að leggja fram breyttar teikningar“ í 2. málsl. b-liðar falla niður.
 3. c-liður orðast svo: Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, vegg­klæðninga og glugga þegar notað er eins eða sambærilegt efni og frágangur er þannig að útlit byggingar sé ekki breytt eða breyting óveruleg. Einnig nýklæðning þegar byggðra bygg­inga og minniháttar breytingar á burðarvirki, enda sé leyfisveitanda tilkynnt um fram­kvæmdir áður en þær hefjast.
 4. g-liður orðast svo: Smáhýsi úr léttum byggingarefnum til geymslu garðáhalda o.þ.h. á lóð utan byggingarreits þegar eftirfarandi kröfur eru uppfylltar, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi:
  1. Flatarmál smáhýsis er að hámarki 15 m².
  2. Fjarlægð milli smáhýsa innbyrðis, frá glugga eða hurð húss og frá útvegg timburhúss er a.m.k. 3,0 m eða sýnt er fram á að brunamótstaða veggja smáhýsis og aðliggj­andi húss sé þannig að fullnægjandi brunahólfun náist á milli húsanna.
  3. Veggur smáhýsis sem snýr að lóðarmörkum og er nær lóðarmörkum en 3,0 m er glugga- og hurðalaus.
  4. Mesta hæð þaks á smáhýsi er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
  5. Ef smáhýsi er nær lóðarmörkum en 3,0 m skal liggja fyrir skriflegt samþykki lóðar­hafa þeirrar nágrannalóðar og skal það lagt fram hjá byggingarfulltrúa.
 5. Við bætast þrír nýir stafliðir sem orðast svo:

h. Viðbyggingar.

Ein viðbygging við mannvirki þar sem eftirfarandi kröfur eru uppfylltar:
1. Viðbyggingin er innan byggingarreits.
2. Flatarmál viðbyggingar er að hámarki 40 m².
3. Viðbyggingin er á einni hæð.
Tilkynna skal fyrirhugaða framkvæmd til leyfisveitanda.

i. Lítil hús á lóð.

Eitt lítið hús, s.s. gestahús, bílskúr (viðbygging eða stakstæður), vinnustofa o.þ.h., á lóð þar sem þegar er til staðar íbúðar- eða frístundahús, enda sé um að ræða hús sem er hluti þeirrar eignar sem fyrir er á lóðinni og eftirfarandi kröfur eru uppfylltar:
1. Húsið er innan byggingarreits.
2. Flatarmál húss er að hámarki 40 m².
3. Brunamótstaða veggja er slík að fullnægjandi brunahólfun náist á milli húsa.
4. Mesta hæð þaks húss er 3,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
Tilkynna skal fyrirhugaða framkvæmd til leyfisveitanda.

j. Smáhýsi veitna.

Smádreifistöðvar fyrir raforkudreifingu, dæluhús hita-, vatns- og fráveitu og önnur lítil hús veitu­kerfa ef eftirfarandi kröfur eru uppfylltar:
1. Flatarmál húss er að hámarki 15 m².
2. Mesta hæð þaks er 2,5 m mælt frá yfirborði jarðvegs.
Tilkynna skal fyrirhugaða framkvæmd til leyfisveitanda.

3. gr.

Við 2.3. kafla reglugerðarinnar bætist ný grein, 2.3.6. gr., sem orðast svo og breytast númer annarra greina í samræmi við það:

2.3.6. gr.

Málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda.

Tilkynningum til leyfisveitanda smkvæmt ákvæðum 2.3.5. gr. skulu fylgja eftirfarandi gögn:

 1. Greinargerð hönnuðar um að breytingin sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. og rökstuðningur fyrir því að breytingin uppfylli kröfur reglugerðar þessarar og samræmist skipulagsáætlunum.
 2. Viðeigandi hönnunargögn þar sem gerð er grein fyrir breytingunni.

Greinargerðir og hönnunargögn skv. 1. mgr. skulu gerð af löggiltum hönnuðum á þeim sérsviðum sem breytingin nær til og gilda allar viðeigandi kröfur 4.2. – 4.5. kafla um hönnunargögnin. Hönn­uður sem áritar slíka uppdrætti og greinargerð ber ábyrgð á því gagnvart eiganda að fram­kvæmdin sé hönnuð á faglega fullnægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð.

Yfirferð leyfisveitanda vegna framkvæmda sem tilkynntar eru skv. 2.3.5. gr. takmarkast við það að fara yfir hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og hún sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í ákvæðinu. Ef ekki fylgja tilkynningu gögn, sbr. 1. mgr., eða þau eru ekki undirrituð af löggiltum hönnuði getur leyfisveitandi krafist þess að sótt verði um byggingarleyfi fyrir fram­kvæmd­inni.

Leyfisveitandi skal staðfesta móttöku tilkynningar eins fljótt og unnt er og tilkynnir hann við­kom­andi innan 20 virkra daga um það hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. Eiganda er heimilt að hefja framkvæmd eða breyt­ingu sem tilkynnt hefur verið leyfisveitanda þegar honum hefur borist tilkynning hans um að hún sé í samræmi við skipulagsáætlanir og innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. Leyfis­veitandi getur með skriflegum hætti áskilið sér lengri frest, allt að 20 virkum dögum, og skal hann þá tilgreina ástæður tafanna og hvenær tilkynningar sé að vænta. Tilkynning veitir aldrei heimild til að hefja framkvæmdir ef um byggingarleyfisskylda framkvæmd er að ræða.

Þegar um er að ræða minniháttar breytingar á burðarveggjum og eldvarnarveggjum skv. a-lið 2.3.5. gr. og framkvæmdir og breytingar samkvæmt h-, i- og j-liðum sömu greinar skal eigandi senda leyfisveitanda stutta lýsingu með upplýsingum um lok framkvæmdarinnar sem skal árituð af þeim aðila sem sá um framkvæmdina eða breytinguna.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

4. gr.

E. stafliður 4.8.1. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

 1. skrá yfir iðnmeistara, þá verkþætti sem þeir bera ábyrgð á og athugasemdir við störf þeirra.

5. gr.

4.10.3. gr. til og með 4.10.10. gr. reglugerðarinnar falla brott og breytist númer annarra greina í samræmi við það.

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6.2.4. gr. reglugerðarinnar:

 1. 2. málsl. 1. mgr. fellur niður.
 2. Í stað 1. málsl. 4. mgr. koma tveir málsliðir, svohljóðandi: Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera 3,80 m x 5,00 m að stærð eða 2,80 m x 5,00 m með hindrunarlausu 1,00 m breiðu umferðarsvæði samsíða. Bílastæði heyfihamlaðra skulu vera með tryggu aðgengi að göngu­leiðum.
 3. 5. mgr. orðast svo: Fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús, skal að lágmarki vera samkvæmt töflu 6.01. Þegar um fleiri íbúðir er að ræða bætist við eitt stæði fyrir hverjar byrjaðar 25 íbúðir.

Tafla 6.01 Lágmarksfjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða
við íbúðarhús, önnur en sérbýlishús.

Fjöldi íbúða Bílastæði fyrir hreyfihamlaða
1-10 1
11-20 2
21-40 3
41-65 4

7. gr.

2. mgr. 6.4.2. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Hindrunarlaus umferðarbreidd allra inngangsdyra bygginga skal minnst vera 0,83 m og samsvarandi hindrunarlaus hæð minnst 2,07 m.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6.4.4. gr. reglugerðarinnar:

 1. a-liður 4. tl. 1. mgr. orðast svo:
  Hindrunarlaus breidd ganga og svalaganga skal að lágmarki vera 1,30 m þar sem umferð telst lítil.
 2. 1. málsl. b-liðar 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Utan við hurðir, á gangi eða svalagangi, skal vera hindrunarlaus flötur, minnst 1,50 m x 1,50 m, en þó 1,80 m x 1,80 m þar sem umferð er mikil. Heimilt er að víkja frá þessu fyrir framan íbúðir minni en 55 m².
 3. c-liður 4. tölul. 1. mgr. fellur niður og breytist röð annarra stafliða í samræmi við það.
 4. 2. mgr. orðast svo: Viðmiðunarreglur:Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um anddyri og ganga bygginga sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar:
  1. Þar sem umferð telst mikil eða þar sem umferðarleið innan byggingar er löng og án sérstakra útskota til mætingar hjólastóla, skal hindrunarlaus breidd umferðarleiða ekki vera minni en 1,80 m.
  2. Á göngum sem eru mjórri en 1,50 m skal vera mætingarsvæði hjólastóla, 1,50 m x 1,50 m að stærð með hæfilegu millibili miðað við þá umferð sem vænta má um ganginn. Þar sem umferð er mikil skal mætingarsvæði vera 1,80 m x 1,80 m.
  3. Í stórum opnum rýmum skal gera ráð fyrir leiðarlistum fyrir blinda og sjónskerta.

9. gr.

Í stað 3. ml. 3. mgr. 6.4.8. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi tveir málsliðir: Stigar sem þjóna fleiri en einni íbúð skulu vera minnst 1,00 m að breidd ef í viðkomandi húsi er til staðar lyfta sem tekur sjúkrabörur, þ.e. lyfta með innanmál a.m.k. 1,10 m x 2,10 m, annars skal breidd stiga vera minnst 1,20 m. Stigar sem þjóna fleiri en einu fyrirtæki o.þ.h. skulu vera minnst 1,20 m að breidd.

10. gr.

Á eftir 1. ml. 3. mgr. 6.5.1. gr. reglugerðarinnar komi nýr málsliður sem orðast svo: Víkja má frá þessu í íbúðarhúsnæði ef lyfta er í húsinu og stiginn liggur að vegg.

11. gr.

6.7.1. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Almennar kröfur til íbúða.

Hver einstök íbúð skal sérstaklega afmörkuð með gólfi, lofti og veggjum ásamt hurðum og glugg­um, sem hver um sig uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um hljóðvist, loftræsingu, eld­varnir og varmaeinangrun.

Íbúð skal hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skulu tengd innbyrðis og ekki skal þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Íbúð skal tilheyra geymslurými og þvottaaðstaða í séreign eða sameign. Íbúð í fjölbýlishúsi skal fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign.

Öll rými íbúða, sbr. 2. mgr., skulu vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða. Hönnuður skal rökstyðja skriflega að rýmið sé fullnægjandi að stærð miðað við áætlaðan fjölda íbúa.

Í baðherbergjum skulu vera salerni, baðaðstaða og handlaug. Hreinlætistækjum má koma fyrir í fleiri en einu herbergi og skal þá handlaug vera í þeim herbergjum þar sem eru salerni. Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni. Aðkoma að öðrum rýmum íbúðar skal ekki vera um baðherbergi eða snyrtingu, nema aðkoma að þvottaherbergi/-aðstöðu.

Anddyri skal vera í íbúðum. Heimilt er að sleppa anddyri ef hönnuður sýnir fram á að kröfur um hljóðvist, loftræsingu og eldvarnir séu uppfylltar og að öryggi vegna vindálags sé tryggt.

Í hverju íbúðarherbergi skal vera opnanlegur gluggi. Svefnherbergi íbúðar skulu ekki vera hvert inn af öðru og er óheimilt að hafa einu aðkomuna að öðrum íbúðarherbergjum í gegnum svefnherbergi.

Sérgeymslur skulu ekki vera sameiginlegar þvottaherbergjum/-aðstöðu íbúða. Sameiginleg geymsla má vera í tvennu lagi og aðgengi um sameign allra eða utan frá. Aðgengi að geymslu fyrir barna­vagna um sameiginlega bílgeymslu er óheimilt. Aðgengi að reiðhjólageymslu um sameiginlega bíl­geymslu er heimilt ef umferðarleið að reiðhjólageymslu er aðskilin umferðarleiðum ökutækja.

Óheimilt er að hafa sjálfstæða íbúð í þakrými þar sem eingöngu eru þakgluggar.

Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir aðstöðu, frágangi og búnaði vegna móttöku rafrænna upplýsinga.

Í hverri íbúð skulu vera reykskynjari og slökkvitæki.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

12. gr.

6.7.2. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Lofthæð og birtuskilyrði.

Þess skal gætt að íbúðarhús hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni.

Lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skal vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli mælt frá full­frágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Heimilt er að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Í þakherbergjum og kvist­herbergjum íbúða má meðalhæð minnst vera 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis.

Samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skal ekki vera minna en sem svarar til 1/10 af gólf­fleti þess, þó aldrei minna en 1 m².

Íbúðir skulu njóta fullnægjandi birtuskilyrða og loftskipta.

Í breiðum (djúpum) byggingum ber að huga sérstaklega að aukinni lofthæð og því að dagsbirtu gæti innan íbúðar.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

13. gr.

6.7.3. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Íbúðir hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar.

Íbúðir sem eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:

 1. Í a.m.k. einu svefnherbergi skal vera hindrunarlaust athafnarými ekki minna en 1,50 m að þvermáli við rúm og skáp, en ekki minna en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m².
 2. Í stofu skal vera hindrunarlaust athafnarými sem er ekki minna en 1,50 m að þvermáli, en ekki minna en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m².
 3. Hindrunarlaus umferðarleið skal vera að opnanlegum glugga í íbúðarherbergjum skv. a‑ og b‑lið.
 4. Athafnarými framan við eldhúsinnréttingu skal ekki vera minna en 1,50 m að þvermáli, en ekki minna en 1,30 í íbúðum minni en 55 m², eða sýnt fram á að unnt sé að breyta inn­réttingunni á þann veg.
 5. Stærð þvottaherbergis/-aðstöðu skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli en a.m.k. 1,30 m í íbúðum minni en 55 m².
 6. Tryggja skal aðgengi hreyfihamlaðra að geymslum.

A.m.k. eitt baðherbergi í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal hannað þannig að það uppfylli eftirfarandi kröfur og skal hönnuður sýna fram á með greinargerð og/eða teikningu að það sé innréttanlegt á auðveldan hátt þannig að þær séu uppfylltar:

 1. Stærð baðherbergis skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli, en a.m.k. 1,30 m í íbúðum minni en 55 m². Jafnframt skal vera unnt að koma við hindrunarlausu svæði, a.m.k. 0,90 m breiðu, öðrum megin salernis og a.m.k. 0,20 m að breidd hinum megin.
 2. Mögulegt skal vera að koma fyrir þreplausu sturtusvæði.
 3. Gerð og frágangur veggja við sturtu- og salernissvæði skal vera þannig að hægt sé að koma fyrir nauðsynlegum stuðningsbúnaði.
 4. Hurð skal opnast út eða vera rennihurð.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

14. gr.

6.7.5. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Votrými.

Gólf í votrými skal vera vatnshelt með niðurfalli og halla að niðurfalli. Ekki er heimilt að hafa niður­fall í gólfi votrýmis aflokað, t.d. inni í sökkli innréttingar. Gólf skal þannig frágengið að ekki sé hætta á hálku í bleytu.

Baðherbergi, snyrtingar og þvottaherbergi/-aðstaða íbúða skulu uppfylla kröfur til votrýma og skulu þau loftræst skv. ákvæðum 10.2. kafla.

Loft og veggir í votrýmum skulu þannig gerðir að þeir þoli gufu og þann raka sem vænta má að myndist í votrýminu.

15. gr.

6.7.6. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Svalir og svalaskýli.

Svalir skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota.

Við hönnun svalaskýla skal gera grein fyrir því hvernig fullnægjandi loftræsing er tryggð í þeim rýmum sem lokast af vegna svalaskýlisins. Jafnframt skal hönnuður gera grein fyrir opnunarbúnaði glugga svalaskýlisins.

16. gr.

6.7.7. gr. til og með 6.7.15. gr. reglugerðarinnar falla brott.

17. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6.12.6. gr. reglugerðarinnar:

Sorpgeymslur og sorpflokkun.

Í eða við allar byggingar skal vera aðstaða til flokkunar og geymslu sorps.

Sorpgeymslur geta ýmist verið innbyggðar í byggingu, í tengslum við hana, neðanjarðar eða sem sorpgerði/-skýli. Sorplausnir utan lóða eru háðar samþykki leyfisveitanda.

Fjöldi og gerð sorpíláta við íbúðarhúsnæði fer eftir kröfum viðkomandi sveitarfélags.

Hindrunarlaus hæð fyrir sorpílát skal vera minnst 1,40 m.

Fyrir aðrar byggingar en íbúðarhús skal meta stærð og fjölda sorpíláta og sorpgeymslna út frá starf­semi og kröfum viðkomandi sveitarfélags.

Þar sem talin er þörf á sorpgámum, skal staðsetning, stærð og frágangur þeirra sýndur á aðal­uppdráttum.

Ekki er heimilt að hafa sorprennur í byggingum.

Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.

18. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 6.12.8. gr. reglugerðarinnar:

 1. Í stað fyrirsagnarinnar „Sorpgerði/sorpskýli á lóð“ kemur: Sorpgerði/sorpskýli.
 2. 1. og 2. mgr. falla brott.
 3. 3. mgr. orðist svo: Sorpgerði/sorpskýli skal ekki vera fjær inngangi byggingar en sem svarar 25 m.

19. gr.

2. ml. 5. mgr. 8.5.2. gr. reglugerðarinnar orðast svo: Séu festingar af þessum toga notaðar þar sem er fallhætta má aðeins nota hert samlímt gler.

20. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 9.5.3. gr. reglugerðarinnar:

 1. Við 3. málsl. 1. tl. 1. mgr. bætist: „þ.e. svalir og sjálfstætt stigahús eða tvö sjálfstæð stiga­hús sem gengið er í beint úr hverri íbúð.“
 2. Við 2. mgr. 9.5.3. gr. bætist nýr töluliður sem orðast svo:
  1. Svalir í flóttaleið á íbúðarhúsum í notkunarflokki 3 skulu vera a.m.k. 4,0 m² að stærð og ekki mjórri en 1,60 m.

21. gr.

Á eftir orðinu „hollusta“ í 1. málsl. 10.1.3. gr. reglugerðarinnar kemur: loftgæði og loftræsing.

22. gr.

10.2.5. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn orðast svo:

Loftræsing íbúða og tengdra rýma.

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um loftræsingu íbúða og tengdra rýma:

 1. Öll rými íbúða og íbúðarhúsa skulu loftræst. Heimilt er að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Loftræsing skal henta viðkomandi rými þannig að magn fersklofts sé fullnægjandi til að komið sé í veg fyrir lyktarmengun og raka­mettun innilofts. Útsog skal vera úr eldhúsi, baðherbergi íbúðar, minni snyrtingum, þvotta­herbergjum, stökum geymslum og kjallaraherbergjum. Útsog frá eldhúsi, salernum og þvotta­húsi má ekki draga gegnum önnur rými hússins.
 2. Íverurými eru loftræst þannig að magn fersklofts sem berst til rýmis sé minnst 0,3 l/s á m² gólfflatar á meðan rýmið er í notkun og minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar meðan rýmið er ekki í notkun. Miða skal við að íbúðir aldraðra og sérhæfðar íbúðir fatlaðra séu í notkun allan sólar­hringinn.
 3. Magn fersklofts sem berst til svefnherbergis skal aldrei vera minna en 7 l/s á hvern ein­stakling meðan herbergið er í notkun. Önnur rými þar sem ekki er gert ráð fyrir stöðugri við­veru er heimilt að loftræsa þannig að magn fersklofts sé minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar. Meta skal þörf fyrir loftræsingu í öðrum rýmum, s.s. sameiginlegum göngum, gufuböðum o.þ.h.

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um ákvörðun loftmagns í íbúðum og tengdum rýmum:

 1. Tryggja skal að eftirfarandi loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loft­ræsingar:
  1. Útsog úr eldhúsi íbúðar: 30 l/s.
  2. Útsog úr baðherbergi íbúðar: 15 l/s.
  3. Útsog úr minni snyrtingum: 10 l/s.
  4. Útsog úr stökum geymslu- eða kjallaraherbergjum þar sem ekki er stöðug viðvera: 0,2 l/s á m² gólfflatar. Þegar geymslurými er innan íbúðar er heimilt að rýmið sé loft­ræst á sama hátt og íverurými íbúðarinnar.
  5. Útsog frá þvottaherbergi einnar íbúðar: 20 l/s.
  6. Sameiginlegt þvottaherbergi með samnýttum þvottavélum fyrir 2 íbúðir eða fleiri: 30 l/s á hverja þvottavél.
  7. Stigahús: 17 l/s.
  8. Sorpgeymslur: 0,6 l/s á m², þó að lágmarki 20 l/s.
 2. Aðstreymi lofts að eldhúsi, baðherbergi, salerni eða þvottahúsi má koma frá aðliggjandi rýmum með minna mengunar- eða rakaálagi.

23. gr.

Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 1. mgr. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, öðlast þegar gildi. Þó tekur 2. gr. reglugerðarinnar hvað varðar tilkynningarskyldar framkvæmdir og 3. gr. ekki gildi fyrr en 15. júní 2016.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 29. apríl 2016.

Sigrún Magnúsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.


B deild - Útgáfud.: 2. maí 2016