Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 78/2020

Nr. 78/2020 9. júlí 2020

LÖG
um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Stofna skal Ferðaábyrgðasjóð til að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Sjóðurinn skal vera í vörslu Ferðamálastofu sem einnig tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Ráðherra er heimilt með samningi að fela hæfum aðila þjónustu við sjóðinn.

    Hafi pakkaferð sem koma átti til framkvæmdar á tímabilinu frá 12. mars til og með 31. júlí 2020 verið aflýst vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. b-lið 1. mgr. 16. gr., eða hún verið afpöntuð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna, sbr. 3. mgr. 15. gr., og ferðamaður hefur ekki fengið endurgreiðslu frá skipuleggjanda eða smásala skv. 5. mgr. 15. gr. eða 2. mgr. 16. gr., getur viðkomandi skipuleggjandi eða smásali lagt fram umsókn hjá Ferðamálastofu um að sjóðurinn láni honum fjárhæð sem nemi ógreiddum endurgreiðslukröfum. Lánsfjárhæðinni skal einvörðungu ráðstafað til að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann á rétt til endur­greiðslu á samkvæmt framangreindum ákvæðum laganna. Ráðherra er heimilt með reglugerð að fram­lengja tímabil 1. málsl. þessarar málsgreinar.

    Skipuleggjandi eða smásali skal með gögnum, er fylgja skulu umsókn hans um lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum, sýna fram á að honum beri að endurgreiða ferðamanni vegna pakkaferðar og að lánsfjárhæð sé í samræmi við þá lagaskyldu hans.

    Skipuleggjandi eða smásali sem hefur endurgreitt ferðamanni vegna pakkaferðar sem fellur að öðru leyti undir 2. mgr. getur einnig með sömu skilmálum og segir í 3. mgr. lagt fram umsókn hjá Ferðamálastofu um að sjóðurinn láni skipuleggjandanum eða smásalanum fjárhæð er samsvari heildar­fjárhæð þeirra greiðslna.

    Ferðamálastofa afgreiðir lánsumsóknir fyrir hönd Ferðaábyrgðasjóðs í samræmi við umsókn skipuleggjanda eða smásala og þau gögn sem hann skal leggja fram.

    Ferðamálastofa getur krafið skipuleggjanda eða smásala um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sannreyna hvort skilyrði fyrir lánveitingu úr Ferðaábyrgðasjóði hafi verið uppfyllt og hvort lánsfjárhæð hafi verið réttilega varið til að standa undir þeim kostnaði sem fjallað er um í 2. og 4. mgr. Ferðamálastofa getur einnig krafið skipuleggjanda eða smásala um aðrar þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar, m.a. um allar ferðir sem hefur verið aflýst eða hafa verið afbókaðar á því tímabili sem tilgreint er í 2. mgr., um ferðamenn sem áttu rétt á að ferðast á grundvelli samnings um pakkaferð, um fjárhagsstöðu skipuleggjanda eða smásala og um fjárhæð endurgreiðslukrafna, að viðlögðum dagsektum verði ekki orðið við kröfu um upplýsingar, sbr. 20. gr. laga um Ferðamála­stofu, nr. 96/2018.

    Við lánveitingu úr Ferðaábyrgðasjóði til skipuleggjanda eða smásala sem ráðstafa skal til að endurgreiða ferðamanni, sbr. 2. og 4. mgr., stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi skipuleggjanda eða smásala sem nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur lánað honum. Skipu­leggjandi eða smásali skal endurgreiða sjóðnum framangreinda lánsfjárhæð á allt að sex árum og að jafnaði með fjórum jöfnum afborgunum á ári sem kveðið skal á um í lánssamningi. Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti sem skulu ákvarðaðir í reglugerð í samræmi við grunnvexti, að viðbættu álagi, sem birtir eru af Eftirlitsstofnun EFTA. Komi til vanefnda viðkomandi skipuleggjanda eða smásala má gera fjárnám án undangengins dóms eða sáttar fyrir kröfu sjóðsins, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði. Ef skipuleggjandi eða smásali ráðstafar því láni sem hann hefur fengið úr sjóðnum á annan hátt en kveðið er á um í 2. mgr. er heimilt að gjaldfella höfuðstól kröfu sjóðsins og krefjast fullrar endurgreiðslu þá þegar. Telji Ferðamálastofa að háttsemi skipu­leggjanda eða smásala eða forsvarsmanns þeirra geti varðað sektum eða fangelsi skal kæra málið til lögreglu.

    Komi til gjaldþrots skipuleggjanda eða smásala nýtur krafa sjóðsins, sbr. 7. mgr., sama forgangs við gjaldþrotaskiptin og þær kröfur sem fjallað er um í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Sjóðurinn öðlast einnig kröfu í tryggingu viðkomandi skipuleggjanda eða smásala, sbr. 2. mgr. 24. gr., komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar hans, þó með þeim hætti að við uppgjör trygginga skv. 27. gr. skulu kröfulýsingar vegna pakkaferða eftir 30. júní 2020 ganga framar kröfum sjóðsins. Kröfu sjóðsins gagnvart skipuleggjanda eða smásala skal þó ekki meta inn í fjárhæð tryggingar skv. 26. gr.

    Ferðamálastofa skal eigi sjaldnar en á tveggja mánaða fresti gera ráðherra grein fyrir fjölda lánsumsókna sem borist hafa sjóðnum, fjárhæð þeirra og heildarfjárhæð þeirra lána sem sjóðurinn hefur veitt.

    Umsóknir skipuleggjanda eða smásala um lán úr Ferðaábyrgðasjóði skv. 2. og 4. mgr. skulu berast Ferðamálastofu fyrir 1. september 2020. Ferðamálastofa skal taka afstöðu til umsókna eigi síðar en 31. desember 2020. Ferðamálastofu er heimilt að taka gjald fyrir meðferð umsókna sem greitt skal af viðkomandi skipuleggjanda eða smásala. Gjaldið skal standa undir kostnaði við meðferð lánsumsóknarinnar og skal kveðið á um það í gjaldskrá sem birt er af Ferðamálastofu.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara í reglugerð.

    Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn lögum þessum, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um lánafyrirgreiðslu eða með því að nýta lánsfjárhæð á ólögmætan hátt, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot teljist minni háttar.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Ákvæði laga þessara gilda ekki um þær ábyrgðarskuldbindingar sem Ferðaábyrgðasjóði er heimilt að undirgangast gagnvart skipuleggjanda eða smásala vegna pakkaferða samkvæmt lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018.

 

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 9. júlí 2020.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 16. júlí 2020