1. gr.
Almenn ákvæði um verðtryggingu.
Verðtrygging sparifjár og lánsfjár skal miðast við vísitölu neysluverðs eins og Hagstofa Íslands auglýsir hana mánaðarlega, sbr. ákvæði VI. kafla laga nr. 38 frá 26. maí 2001 um vexti og verðtryggingu, nema lög kveði á um annað. Verðtrygging fjárhæða hluta úr mánuði skal þannig framkvæmd að verðbætur innan mánaðar miðist við daglega línulega breytingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. milli gildis vísitölunnar sem í gildi er þegar útreikningur er gerður og gildis hennar á fyrsta degi næsta mánaðar þar á eftir.
2. gr.
Verðtryggðir innlánsreikningar.
Innlánsstofnunum er því aðeins heimilt að taka á móti sparifé gegn verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs að innstæða sé bundin í 36 mánuði eða lengur.
Innlánsstofnunum er þó heimilt að verðtryggja innlánsfé í eftirtöldum tilvikum:
- Sé í samningsskilmálum kveðið á um að innstæða losni í tiltekið tímabil, að hámarki 1 mánuð að loknum upphaflegum binditíma sem að lágmarki skal vera 36 mánuðir skv. 1. mgr. Að innlausnartímabili loknu binst innstæðan á ný og verður frá því uppsegjanleg með þriggja mánaða fyrirvara. Binditímabil innborgaðs fjár eftir að umsamið binditímabil hefst telst frá innborgunardegi.
- Með samningi um reglulegan mánaðarlegan sparnað í minnst 36 mánuði. Ef innborguð fjárhæð í mánuði er hærri en sem nemur umsaminni fjárhæð reglulegs sparnaðar hefst nýtt binditímabil vegna þeirrar fjárhæðar sem er umfram reglulegan sparnað.
- Á orlofsreikningum skv. ákvæðum laga um orlof, nr. 30 27. mars 1987.
3. gr.
Verðtryggt lánsfé.
Verðtrygging láns er því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta.
Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Með sama hætti skal reikna út vísitölugildi grunnvísitölu, sem í gildi er þegar lán er veitt, nema samningur eða eðli máls leiði til annars.
Á kvittunum skal jafnan gera nákvæma grein fyrir útreikningi greiðslu og áföllnum verðbótum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ríkissjóði heimilt að gefa út verðtryggð ríkisverðbréf þótt minna en fimm ár séu til gjalddaga.
4. gr.
Lánsfé miðað við hlutabréfavísitölu.
Í lánssamningi er heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna, sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi. Það á þó ekki við um neytendalán eða fasteignalán til neytenda. Um lánstíma gilda ákvæði 1. mgr. 3. gr. og tæknileg útfærsla í skuldaskjölum fer eftir 2. og 3. mgr. 3. gr.
5. gr.
Gildistaka o.fl.
Reglur þessar sem settar eru samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 38 frá 26. maí 2001 og hafa verið samþykktar af fjármála- og efnahagsráðherra sbr. 1. mgr. 15. gr. sömu laga, öðlast gildi 1. nóvember 2018. Falla þá jafnframt úr gildi reglur Seðlabanka Íslands um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár o.fl. nr. 492 frá 21. júní 2001.
Reykjavík, 4. október 2018,
Seðlabanki Íslands,
|
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. |
Sigríður Logadóttir aðallögfræðingur. |
Fylgiskjal. (sjá PDF-skjal)
|