Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 20/2021

Nr. 20/2021 23. mars 2021

LÖG
um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja gagnsæi upplýsinga um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað til að stuðla að vernd fjárfesta og skilvirkni markaðarins.

 

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um útgefendur verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfa­markaði með Ísland sem heimaríki.

    III. kafli gildir um hluti í hlutafélögum með skráða skrifstofu á Íslandi sem gefa út hlutabréf sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.

    III. kafli gildir einnig um hluti í útgefendum með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahags­svæðisins sem valið hafa Ísland sem heimaríki, sbr. 2. mgr. 5. gr.

    Útgefandi verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, með heimaríki í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi, skal veita hliðstæðar upplýsingar og lög þessi mæla fyrir um í samræmi við bindandi opinber fyrirmæli heimaríkis síns.

3. gr.

Undanþágur.

    Lög þessi gilda ekki um hluti og hlutdeildarskírteini sjóða um sameiginlega fjárfestingu, annarra en lokaðra sjóða, eða hluti og hlutdeildarskírteini sem aflað eða ráðstafað er í slíkum sjóðum.

    II. kafli gildir ekki um:

  1. Ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélög eða sambærileg svæðis- eða staðaryfirvöld á Evrópska efnahagssvæðinu, opinbera alþjóðlega aðila sem a.m.k. eitt ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins á aðild að, seðlabanka á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem þeir gefa út hluti eða önnur verðbréf, Evrópska fjármálastöðugleikasjóðinn og Seðlabanka Evrópu.
  2. Útgefanda skuldabréfa ef eingöngu skuldabréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipu­legum verðbréfamarkaði og nafnverð eininga skuldabréfanna er a.m.k. jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum.
  3. Útgefendur sem gefa eingöngu út skuldabréf, þar sem nafnverð hverrar einingar er að lágmarki jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum hafi skuldabréfin verið tekin til viðskipta á skipu­legum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga þessara, svo framarlega sem þau eru útistandandi. Ef skuldabréfin eru í öðrum gjaldmiðli en evru skal nafnverð hverrar einingar á útgáfudegi nema að lágmarki jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum.

    II. og IV. kafli gilda ekki um útgefendur vegna peningamarkaðsskjala með binditíma sem er skemmri en 12 mánuðir.

    Ákvæði 7. gr. gildir ekki um útgefanda sem stofnsettur var fyrir 31. desember 2003 og eingöngu gefur út skuldabréf sem heimaríki útgefandans eða eitt af svæðis- eða staðaryfirvöldum þess ríkis ábyrgist skilyrðislaust og óafturkallanlega.

    Ákvæði 33. gr. taka ekki til skuldabréfa sem gefin eru út af ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, sveitarfélagi eða sambærilegu svæðis- eða staðaryfirvaldi á Evrópska efnahagssvæðinu.

 

4. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að EES-samningnum.
  2. ESMA: Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin.
  3. Fjármálagerningur: Fjármálagerningur samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
  4. Flöggun: Tilkynning um verulega breytingu á eignarhaldi eða atkvæðisrétti í útgefanda hluta­bréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
  5. Fyrirtæki undir yfirráðum: Hvers konar fyrirtæki þar sem:
    1. einstaklingur eða lögaðili hefur yfirráð yfir meiri hluta atkvæðisréttar,
    2. einstaklingur eða lögaðili á rétt á að skipa eða leysa frá störfum meiri hluta þeirra sem sæti eiga í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn og eru á sama tíma hluthafar eða félagar í viðkomandi fyrirtæki,
    3. einstaklingur eða lögaðili er hluthafi eða félagi og ræður einn meiri hluta atkvæða annaðhvort hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga viðkomandi fyrirtækis eða
    4. einstaklingur eða lögaðili hefur rétt til að hafa eða hefur í raun ráðandi áhrif eða stjórnar.
  6. Hluthafi: Einstaklingur eða lögaðili sem heyrir undir opinberan rétt eða einkarétt og á beint eða óbeint:
    1. hluti útgefanda í eigin nafni og fyrir eigin reikning,
    2. hluti útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila,
    3. heimildarskírteini og í því tilviki telst eigandi heimildarskírteina vera hluthafi undir­liggjandi hluta sem heimildarskírteinin standa fyrir.
  7. Hlutir og hlutdeildarskírteini sjóðs um sameiginlega fjárfestingu: Fjármálagerningur sem er staðfesting á tilkalli allra þeirra sem eiga hlutdeild í slíkum sjóði.
  8. Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna með, geyma og senda gögn með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
  9. Rekstrarfélag: Rekstrarfélag í skilningi laga um verðbréfasjóði.
  10. Sjóðir um sameiginlega fjárfestingu, aðrir en lokaðir: Fjárhaldssjóðir og fjárfestingarfélög:
    1. sem hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjármagns sem almenningur hefur lagt fram og starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu og
    2. hlutdeildarskírteinin í þeim eru beint eða óbeint endurkeypt eða innleyst að ósk eiganda þessara skírteina gegn greiðslu af eignum fyrirtækjanna.
  11. Skipulegur verðbréfamarkaður: Skipulegur verðbréfamarkaður í skilningi laga um verðbréfa­viðskipti.
  12. Skuldabréf: Skuldaviðurkenning, eða skuld samkvæmt annars konar verðbréfum, að undan­skildum annars vegar verðbréfum sem jafna má til hlutabréfa í félögum eða sem geta af sér rétt til að afla hluta eða verðbréfa sem jafna má til hlutabréfa, ef þeim er umbreytt eða ef réttindum samkvæmt þeim er beitt, og hins vegar peningamarkaðsskjölum með bindi­tíma sem er skemmri en 12 mánuðir.
  13. Útgefandi: Einstaklingur eða lögaðili sem heyrir undir einkarétt eða opinberan rétt, þ.m.t. ríki, og verðbréf hans eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar um er að ræða heimildarskírteini sem tekin eru til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði er útgef­and­inn útgefandi þeirra verðbréfa sem heimildarskírteinin standa fyrir, hvort sem þau verð­bréf eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða ekki.
  14. Verðbréf: Verðbréf í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.
  15. Viðskiptavaki: Viðskiptavaki í skilningi laga um verðbréfaviðskipti.

 

5. gr.

Heimaríki og gistiríki.

    Ísland er heimaríki útgefanda með skráða skrifstofu á Íslandi ef viðkomandi er útgefandi hluta­bréfa, eða skuldabréfa þar sem nafnverð eininga skuldabréfanna er lægri fjárhæð en jafnvirði 1.000 evra í íslenskum krónum, og viðkomandi verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfa­markaði.

    Ísland er heimaríki útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi er útgefandi hlutabréfa, eða skuldabréfa þar sem nafnverð eininga skuldabréfanna er lægri fjárhæð en jafnvirði 1.000 evra í íslenskum krónum, viðkomandi verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og útgefandi velur Ísland sem heimaríki.

    Ísland er heimaríki útgefanda í öðrum tilvikum en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. ef aðili er með skráða skrifstofu á Íslandi, er útgefandi verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og hann velur að hafa Ísland sem heimaríki. Útgefandi sem valið hefur Ísland sem heimaríki samkvæmt þessari málsgrein getur fyrst breytt því vali sínu þegar þrjú ár eru liðin frá opinberri birtingu á vali heimaríkis, sbr. 6. mgr., nema áður komi til þess að ekki séu lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfa­markaði í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu eða ef útgefandi fellur undir 1. og 2. eða 4. mgr. innan þriggja ára tímabilsins.

    Útgefandi sem valið hefur Ísland sem heimaríki skv. 2. eða 3. mgr. getur valið sér nýtt heimaríki þar sem verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða hann er með skráða skrifstofu, ef ekki eru lengur viðskipti með verðbréf hans á skipulegum verðbréfa­markaði á Íslandi.

    Ef Ísland er heimaríki útgefanda skal hann fylgja lögum þessum þótt verðbréf hans hafi aðeins verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en Íslandi.

    Útgefandi skal birta val á heimaríki skv. 2.–4. mgr. opinberlega og með sama hætti og lýst er í 35. gr. Val á Íslandi sem heimaríki skal tilkynna til Fjármálaeftirlitsins. Þar að auki skal útgefandi tilkynna val á heimaríki til viðeigandi lögbærs yfirvalds í því ríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem hann hefur skráða skrifstofu og, ef við á, til viðeigandi lögbærs yfirvalds heimaríkis, ásamt viðeigandi lögbæru yfirvaldi allra gistiríkja.

    Ef útgefandi getur valið heimaríki skv. 2. og 3. mgr. skal Ísland teljast heimaríki útgefanda ef hann hefur ekki tilkynnt um val á heimaríki innan þriggja mánaða frá því að verðbréf hans voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Ef verðbréf útgefanda hafa einnig verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, einu eða fleirum, skulu öll viðkomandi ríki teljast heimaríki útgefanda ásamt Íslandi, þar til hann hefur tilkynnt um val á heimaríki.

    Ísland skal teljast gistiríki útgefanda ef verðbréf hans hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og Ísland er ekki heimaríki hans skv. 1.–3. mgr.

 

II. KAFLI

Reglulegar upplýsingar útgefanda.

6. gr.

Ársreikningur.

    Útgefandi verðbréfa skal birta opinberlega ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok reikningsársins og eigi síðar en fjórum mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að ársreikningur, eða samstæðureikningur ef við á, sé aðgengilegur almenningi í a.m.k. tíu ár.

 

7. gr.

Árshlutareikningur vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.

    Útgefandi hlutabréfa eða skuldabréfa skal birta opinberlega árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, eins fljótt og auðið er eftir lok þess tímabils, þó eigi síðar en þremur mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að árshlutareikningur, eða samstæðureikningur ef við á, sé aðgengilegur almenningi í a.m.k. tíu ár.

 

8. gr.

Tíðari upplýsingagjöf.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða tíðari upplýsingagjöf útgefanda en skv. 6. og 7. gr. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um tíðari upplýsingagjöf skal ekki fela í sér óhæfilega fjárhagslega byrði fyrir félög á skipulegum verðbréfamarkaði, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki. Umfang upplýsingagjafar skal einnig vera hæfilegt með tilliti til þeirra atriða sem fjárfestar byggja ákvarð­anir sínar á.

 

9. gr.

Skýrsla útgefanda með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg.

    Útgefandi verðbréfa með starfsemi í námuiðnaði eða við skógarhögg skv. 66. gr. e laga um árs­reikninga, nr. 3/2006, skal semja og birta opinberlega skýrslu um greiðslur til stjórnvalda á árs­grundvelli. Skýrslu um greiðslur til stjórnvalda skal birta eins fljótt og auðið er eftir lok reikn­ings­ársins og eigi síðar en sex mánuðum frá lokum þess. Útgefanda ber að tryggja að skýrslan sé aðgengileg almenningi í a.m.k. tíu ár.

 

10. gr.

Efni ársreiknings og árshlutareiknings og skýrslusnið.

    Útgefandi verðbréfa með skráða skrifstofu á Íslandi skal semja ársreikning, eða samstæðu­reikning ef við á, og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðu­reikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, í samræmi við lög um ársreikn­inga, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

    Ef útgefandi er ekki lögaðili skal hann semja ársreikning og árshlutareikning í samræmi við lög um ársreikninga, eftir því sem við á, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

 

11. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Útgefanda með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikn­ings­ársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, sam­kvæmt bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu ef fyrir­mælin eru hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslu­sniði. Útgefanda er jafnframt heimilt að fylgja bindandi opinberum fyrirmælum í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu um árshlutareikning fyrir fyrstu þrjá og fyrstu níu mánuði reikn­ings­ársins, eða samstæðureikninga vegna sömu tímabila ef við á, ef fyrirmælin eru hliðstæð íslenskum reglum um samsvarandi árshlutareikninga sem gilda mundu gagnvart honum væri útgefand­inn með skráða skrifstofu á Íslandi.

    Ef bindandi opinber fyrirmæli ríkis þar sem útgefandi er með skráða skrifstofu eru ekki hliðstæð ákvæðum laga um ársreikninga skal útgefandi semja ársreikning, eða samstæðureikning ef við á, og árshlutareikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins, eða samstæðureikning vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins ef við á, með sama hætti og hliðstæðir útgefendur með skráða skrifstofu á Íslandi, og birta á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

    Ársreikningaskrá metur hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahags­svæðis­ins eru hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga.

 

III. KAFLI

Flöggun.

12. gr.

Flöggunarskylda.

    Eigandi, sem aflar eða ráðstafar hlutum í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, skal senda með sannanlegum hætti tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir af sér að atkvæðisréttur hans nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert eftirtalinna marka: 5, 10, 15, 20, 25, 30, 35, 40, 50, 66 2/ 3 og 90%. Með eiganda er átt við sérhvern einstakling eða lögaðila sem fer beint eða óbeint með:

  1. hluti í útgefanda í eigin nafni og fyrir eigin reikning,
  2. hluti í útgefanda í eigin nafni en fyrir hönd annars einstaklings eða lögaðila, eða
  3. heimildarskírteini, en í þeim tilvikum telst handhafi heimildarskírteinisins eigandi þeirra hluta sem heimildarskírteinið stendur fyrir.

    Ef útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt, fjölgar eða fækkar atkvæðum eða breytingar verða á skiptingu atkvæðisréttar sem leiða til þess að atkvæðisréttur eiganda nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir eitthvert þeirra marka sem talin eru upp í 1. mgr. skal eigandinn senda tilkynn­ingu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins.

    Atkvæðisréttur skv. 1. mgr. skal reiknaður út á grundvelli allra hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður. Einnig skal atkvæðisréttur reiknaður út á grundvelli allra hluta í sama flokki sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður.

 

13. gr.

Flöggunarskylda við sérstakar aðstæður.

    Flöggunarskylda skv. 12. gr. gildir einnig um aðila svo fremi að hann eigi rétt á að afla atkvæðis­réttar, ráðstafa atkvæðisrétti eða neyta atkvæðisréttar sem:

  1. þriðji aðili fer með og viðkomandi aðili hefur gert samkomulag við hann sem skyldar þá til að taka upp, með samræmdri beitingu atkvæðisréttar síns, varanlega og sameiginlega stefnu um stjórn hlutaðeigandi útgefanda,
  2. þriðji aðili fer tímabundið með gegn endurgjaldi á grundvelli samkomulags við viðkomandi aðila,
  3. fylgir hlutum sem viðkomandi aðili hefur tekið að veði eða fengið sem tryggingu, að því til­skildu að viðkomandi aðili ráði jafnframt yfir atkvæðisréttinum og lýsi því yfir að hann hyggist neyta hans,
  4. viðkomandi aðili fer með á grundvelli samkomulags um lífstíðarbundin réttindi hans yfir hlutunum sem atkvæðisrétturinn fylgir,
  5. félag undir yfirráðum viðkomandi aðila fer með eða má neyta á grundvelli a–d-liðar,
  6. fylgir hlutum sem viðkomandi aðili varðveitir og getur neytt samkvæmt eigin ákvörðun, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna,
  7. þriðji aðili fer með í eigin nafni en fyrir hönd viðkomandi aðila,
  8. umboðsmaður fer með, að því tilskildu að hann geti neytt atkvæðisréttarins samkvæmt eigin ákvörðun, berist ekki sérstök fyrirmæli frá eigendum hlutanna.

 

14. gr.

Flöggunarskylda vegna fjármálagerninga.

    Flöggunarskylda skv. 12. gr. gildir einnig um aðila sem fer með beinum eða óbeinum hætti með fjármálagerning skv. a- og d–h-lið 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  1. fjármálagerningur veitir aðila á gjalddaga, samkvæmt formlegu samkomulagi, annaðhvort skilyrðislausan rétt eða heimild til að afla hluta sem atkvæðisréttur fylgir og þegar hafa verið gefnir út í útgefanda sem fellur undir 2. eða 3. mgr. 2. gr., eða
  2. fjármálagerningur fellur ekki undir a-lið en veitir aðila sambærileg réttindi og rétt til að afla hluta í útgefanda eða hafa sambærileg efnahagsleg áhrif og fjármálagerningur skv. a-lið, hvort sem hann felur í sér rétt til efnislegs uppgjörs eða ekki.

    Reikna skal atkvæðisrétt skv. 1. mgr. með því að taka að fullu tillit til grundvallarfjárhæðar hlutabréfa samkvæmt fjármálagerningnum nema ef gerningurinn veitir eingöngu rétt til uppgjörs með reiðufé, en þá skal atkvæðisréttur reiknaður með delta-leiðréttum hætti með því að margfalda grundvallarfjárhæð undirliggjandi hlutabréfa með delta-stuðli viðkomandi fjármálagernings. Hand­hafi skal telja saman og tilkynna Fjármálaeftirlitinu og útgefanda um alla fjármálagerninga sem tengjast sama útgefanda. Einungis skal taka með gnóttstöður vegna útreiknings á atkvæðis­rétti. Óheimilt er að skuldajafna gnóttstöðum við skortstöður í sama útgefanda.

    Aðili sem sendir tilkynningu á grundvelli 1. mgr. skal tilkynna aftur þegar hann aflar sér undirliggjandi hlutabréfa, ef slíkt leiðir af sér að hann nái þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr. eða fer yfir þau.

 

15. gr.

Samanlögð flöggunarskylda.

    Aðili sem fer beint eða óbeint með atkvæðisrétt í útgefanda hlutabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og nær þeim mörkum sem koma fram í 1. mgr. 12. gr., eða fer yfir þau eða undir þau, þegar atkvæðisréttur skv. 12.–14. gr. hefur verið lagður saman, skal tilkynna um það til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins.

 

16. gr.

Tilkynning félags í samstæðu.

    Fyrirtæki undir yfirráðum skv. e-lið 13. gr. þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12.–14. gr. ef móðurfélag þess, eða einstaklingur með yfirráð yfir því, sendir tilkynningu eða ef móðurfélagið er sjálft dótturfélag annars félags og móðurfélag þess sendir tilkynningu.

 

17. gr.

Umboð á hluthafafundi.

    Ef umboðsmaður í tilviki h-liðar 13. gr. fær eitt eða fleiri umboð í tengslum við einn hluthafafund er heimilt að senda eina tilkynningu að því tilskildu að skýrt komi fram í tilkynningunni hvert heildarmagn atkvæðisréttar umboðsveitenda verður í útgefanda eftir brottfall umboðsins.

    Ef flöggunarskylda stofnast vegna h-liðar 13. gr. þarf ekki að senda aðra tilkynningu ef umboðið fellur úr gildi að hluthafafundinum loknum og tilkynningin, sem gerð var í tengslum við veitingu umboðsins, geymdi upplýsingar um hvert heildarmagn atkvæðisréttar umboðsveitanda verður í útgefanda eftir brottfall umboðsins.

 

18. gr.

Flöggunarskylda margra.

    Ef fleiri en einn aðili verða flöggunarskyldir er þeim heimilt að senda sameiginlega tilkynningu. Sameiginleg tilkynning leysir engan hlutaðeigandi aðila undan ábyrgð á tilkynningunni.

 

19. gr.

Breyting á hlutafé eða atkvæðisrétti.

    Ef útgefandi hækkar eða lækkar hlutafé sitt eða fjölgar eða fækkar atkvæðum skal hann við fyrsta tækifæri, og í síðasta lagi á síðasta viðskiptadegi þess mánaðar er breyting á sér stað, birta opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða.

 

20. gr.

Efni tilkynningar.

    Tilkynning skv. 12. og 13. gr. skal meðal annars geyma upplýsingar um:

  1. atkvæðisrétt eftir breytingu,
  2. eignatengsl við dótturfélög þar sem flöggunarskyldur aðili hefur yfirráð yfir atkvæðis­réttinum, ef við á,
  3. dagsetningu þegar flöggunarskylda stofnaðist og
  4. fullt nafn eiganda hlutanna, jafnvel þótt viðkomandi eigi ekki rétt á að neyta atkvæðis­réttarins vegna aðstæðna skv. 13. gr., og fullt nafn þess aðila sem fer með atkvæðis­réttinn fyrir hönd eiganda hlutanna.

    Í tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. 14. gr. skal koma fram sundurliðun á tegundum fjármálagerninga skv. a- og b-lið málsgreinarinnar og, ef við á, tilgreining á því hvort fjármálagerning skv. b-lið megi gera upp efnislega eða með reiðufé.

    Í tilkynningu til útgefanda og Fjármálaeftirlitsins skv. 14. gr. skal sundurliða hlutfall atkvæðis­réttar eftir því hvort hann fellur undir ákvæði 12., 13. eða 14. gr.

 

21. gr.

Frestur flöggunarskylds aðila til að tilkynna.

    Aðili sem verður flöggunarskyldur skv. 1. mgr. 12. gr., 13. gr. eða 14. gr. skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að flöggunarskyldan stofnaðist.

    Aðili sem verður flöggunarskyldur skv. 2. mgr. 12. gr. skal senda tilkynningu til viðkomandi útgefanda og Fjármálaeftirlitsins án tafar og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir að útgefandi hefur birt opinberlega heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða skv. 19. gr.

 

22. gr.

Frestur útgefanda til að birta upplýsingar í tilkynningu.

    Útgefandi skal, eins fljótt og auðið er eftir móttöku tilkynningar skv. 12., 13. eða 14. gr. og eigi síðar en þremur viðskiptadögum eftir að tilkynningin berst honum, birta opinberlega allar upp­lýsingar sem er að finna í tilkynningunni.

    Útgefandi þarf ekki að þýða tilkynningu á tungumál sem Fjármálaeftirlitið samþykkir ef tilkynning skv. 12., 13. eða 14. gr. berst á ensku.

 

23. gr.

Undanþágur frá flöggunarskyldu.

    Þegar hluta er eingöngu aflað til verðbréfauppgjörs þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. eða 14. gr. ef viðkomandi verðbréfauppgjöri er lokið innan þriggja viðskiptadaga frá viðskiptum.

    Þegar vörsluaðili varðveitir hluti þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. eða 14. gr. ef viðkomandi vörsluaðili getur aðeins nýtt atkvæðisréttinn sem fylgir hlutunum samkvæmt skriflegum eða rafrænum leiðbeiningum.

    Seðlabanki á Evrópska efnahagssvæðinu eða Seðlabanki Evrópu þarf ekki að senda tilkynningu skv. 12. gr. eða c-lið 13. gr. þegar viðkomandi seðlabanki lætur hluti í té eða honum eru látnir hlutir í té til að sinna hlutverki sínu sem yfirvald á sviði peningamála, að því tilskildu að slíkum ráðstöfunum sé lokið innan venjulegs, stutts greiðslutímabils frá því að viðkomandi seðlabanki lét hlutina í té eða honum voru látnir hlutir í té og að atkvæðisréttur hlutanna sé ekki nýttur.

 

24. gr.

Veltubók.

    Við mat á flöggunarskyldu skv. 12. eða 14. gr. skal atkvæðisréttur sem fylgir hlutum í veltubók fjármálafyrirtækis, með starfsleyfi skv. 1.–5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, ekki reiknast með að því tilskildu að hlutfall atkvæðisréttarins í veltubókinni fari ekki yfir 5% og að atkvæðisrétturinn sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt beint eða óbeint til að hlutast til um stjórn útgefanda.

 

25. gr.

Viðskiptavaki.

    Flöggunarskylda skv. 12. eða 14. gr. gildir ekki um öflun eða ráðstöfun viðskiptavaka á hlutum þrátt fyrir að atkvæðisréttur sem fylgir hlutum nái eða fari yfir 5% flöggunarskyldumarkið að því tilskildu að viðskiptavakinn framkvæmi viðskiptin sem viðskiptavaki, sé fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til verðbréfaviðskipta og hlutist hvorki til um stjórn viðkomandi útgefanda né hlutist á nokkurn hátt til um að útgefandinn kaupi slíka hluti eða haldi verði þeirra uppi.

 

26. gr.

Verðjöfnun fjármálagerninga.

    Við mat á flöggunarskyldu skv. 12. eða 14. gr. skal atkvæðisréttur, sem fylgir hlutum sem er aflað eða ráðstafað til verðjöfnunar fjármálagerninga, ekki reiknast með að því tilskildu að atkvæðisrétturinn sé hvorki nýttur né notaður á annan hátt beint eða óbeint til að hlutast til um stjórn útgefanda.

 

27. gr.

Móðurfélag rekstrarfélags.

    Við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 12.–14. gr. er móðurfélagi rekstrarfélags ekki skylt að leggja saman eigið hlutfall atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar viðkomandi verðbréfasjóðs rekstrarfélagsins að því tilskildu að rekstrarfélagið nýti atkvæðisrétt sinn óháð móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélagsins.

    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um móðurfélag rekstrarfélags erlends verðbréfasjóðs með staðfestu og staðfestingu á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 44. gr. laga um verðbréfasjóði. Sama gildir um móðurfélag sambærilegs rekstrarfélags með staðfestu utan Evrópska efnahagssvæðisins.

 

28. gr.

Móðurfélag fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta.

    Við framkvæmd flöggunarskyldu skv. 12.–14. gr. er móðurfélagi fjármálafyrirtækis, með leyfi til verðbréfaviðskipta samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, ekki skylt að leggja saman eigið hlutfall atkvæðisréttar og hlutfall atkvæðisréttar sem fylgir hlutum sem viðkomandi fjármálafyrirtæki stýrir fyrir einstaka viðskiptamenn sína, að því tilskildu að fjármálafyrirtækinu sé aðeins heimilt að nýta atkvæðisrétt sem tilheyrir slíkum hlutum samkvæmt sannanlegum leiðbeiningum viðskiptavinar eða tryggt sé að einstaklingsmiðuð stýring verðbréfasafns fari fram óháð hvers kyns annarri þjónustu, og að fjármálafyrirtækið nýti atkvæðisréttinn óháð móðurfélaginu eða öðru dótturfélagi móðurfélags síns.

    Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um móðurfélag erlends fyrirtækis sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og starfsleyfi til verðbréfaviðskipta á Evrópska efnahagssvæðinu. Sama gildir um móðurfélag fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins ef fyrirtækið hefur leyfi til að stunda verðbréfaviðskipti í heimaríki sínu og sú starfsemi er háð eftirliti í heimaríkinu.

 

29. gr.

Flöggunarskylda vegna eigin hluta.

    Ef útgefandi aflar eða ráðstafar eigin hlutum skal hann birta opinberlega hlutfall eigin hluta ef öflunin eða ráðstöfunin leiðir til þess að hlutfallið nær, hækkar yfir eða lækkar niður fyrir 5% eða 10% atkvæðisréttar. Hlutfallið skal reiknað út á grundvelli heildarfjölda hluta sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður.

    Upplýsingar skv. 1. mgr. skulu birtar opinberlega eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fjórum viðskiptadögum eftir öflunina eða ráðstöfunina.

 

30. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Ákvæði 19. gr. gilda ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahags­svæðis­ins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 19. gr.

    Ákvæði 22. gr. gilda ekki ef útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahags­svæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 22. gr.

    Ákvæði 29. gr. gilda ekki ef lögaðili með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins uppfyllir kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum, í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, sem eru hliðstæð kröfum 29. gr.

    Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar 19., 22. og 29. gr.

 

IV. KAFLI

Aðrar skyldur útgefanda um veitingu upplýsinga.

31. gr.

Viðbótarupplýsingar.

    Útgefandi hlutabréfa skal án tafar birta opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum sem fylgja mismunandi flokkum hlutabréfa, þar á meðal breytingar á réttindum sem fylgja afleiddum verðbréfum sem útgefandinn gefur út sjálfur og veita rétt til að afla hluta í honum.

    Útgefandi verðbréfa, annarra en hlutabréfa, skal án tafar birta opinberlega upplýsingar um allar breytingar á réttindum handhafa verðbréfanna, þar á meðal breytingar á skilmálum og skilyrðum verðbréfanna, sérstaklega þær sem stafa af breytingum á lánaskilmálum eða vöxtum, sem gætu haft óbein áhrif á réttindin.

 

32. gr.

Hlutabréf.

    Útgefandi hlutabréfa skal tryggja jafnræði allra eigenda hluta í sömu stöðu.

    Útgefandi hlutabréfa skal ekki standa í vegi fyrir því að eigendur hluta neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki ef útgefandi hlutabréfa er með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.

    Útgefandi hlutabréfa skal tryggja að allar upplýsingar sem eigendum hluta eru nauðsynlegar til að geta neytt réttinda sinna séu aðgengilegar í heimaríki útgefandans og að áreiðanleiki upp­lýsinganna sé tryggður. Útgefandi hlutabréfa skal einkum:

  1. veita upplýsingar um staðsetningu, tíma og dagskrá funda ásamt upplýsingum um heildar­fjölda hluta og atkvæðisrétt, og rétt eigenda hluta til að taka þátt í fundum,
  2. gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða með rafrænum aðferðum fyrir hvern þann aðila sem á rétt á að greiða atkvæði á fundinum, annaðhvort í tengslum við auglýsingu fundarins eða samkvæmt beiðni eftir að fundurinn hefur verið auglýstur,
  3. tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn til að hafa milligöngu um að eigendur hluta geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna í útgefandanum og
  4. veita upplýsingar, svo sem með dreifibréfi eða auglýsingu, um úthlutun og greiðslu arðs og útgáfu nýrra hluta, þ.m.t. upplýsingar um fyrirkomulag úthlutunar, áskriftar, afturköllunar eða breytiréttar.

 

33. gr.

Skuldabréf.

    Útgefandi skuldabréfa skal tryggja að allir handhafar skuldabréfa sem metin eru jafngild njóti sömu meðferðar varðandi sérhver réttindi er fylgja skuldabréfunum.

    Útgefandi skuldabréfa skal ekki standa í vegi fyrir því að handhafar skuldabréfanna neyti réttinda sinna með því að veita öðrum umboð. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki ef útgefandi skuldabréfanna er með skráða skrifstofu í öðru ríki en á Íslandi nema bindandi opinber fyrirmæli þess ríkis heimili notkun umboðs.

    Ef útgefandi skuldabréfa ákveður að halda fund með handhöfum skuldabréfanna skal hann veita þeim upplýsingar, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, um staðsetningu, tíma og dagskrá fundarins ásamt upplýsingum um hvaða kröfum handhafarnir skuli fullnægja til að mega taka þátt í fundinum. Enn fremur skal útgefandi gera umboðseyðublað aðgengilegt á pappír eða rafrænt fyrir hvern þann aðila sem á rétt á að greiða atkvæði á fundinum, annaðhvort í tengslum við auglýsingu fundarins eða samkvæmt beiðni eftir að fundurinn hefur verið auglýstur.

    Útgefandi skuldabréfa skal, svo sem með auglýsingu eða dreifibréfi, upplýsa handhafa skulda­bréfa um greiðslu vaxta, um framkvæmd hvers konar breytiréttar, skipta, áskriftar eða aftur­köllunar á réttindum og greiðslu.

    Útgefandi skuldabréfa skal tilnefna fjármálafyrirtæki, eða fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem umboðsmann sinn til að hafa milligöngu um að handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda samkvæmt skuldabréfunum.

 

34. gr.

Útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Útgefanda hlutabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að fylgja ákvæðum 32. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu sem eru hliðstæðar kröfum 32. gr.

    Útgefanda skuldabréfa með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins er ekki skylt að fylgja ákvæðum 33. gr. ef hann uppfyllir kröfur bindandi opinberra fyrirmæla í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu sem eru hliðstæðar kröfum 33. gr.

    Fjármálaeftirlitið metur hvort kröfur samkvæmt bindandi opinberum fyrirmælum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar 32. og 33. gr.

 

V. KAFLI

Birting upplýsinga og ábyrgð.

35. gr.

Opinber birting og ábyrgð.

    Útgefandi skal birta almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu upplýsingar samkvæmt lögum þessum eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli. Samhliða opinberri birtingu skal útgef­and­inn senda upplýsingarnar til Fjármálaeftirlitsins.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að birta upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar á vef sínum.

    Ábyrgð á því að upplýsingar skv. 5., 6., 7., 8. og 31. gr. séu teknar saman og gerðar opinberar hvílir á útgefanda.

 

36. gr.

Miðlæg varðveisla.

    Útgefandi skal senda allar upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkvæmt lögum þessum samhliða til Fjármálaeftirlitsins, eða aðila sem Fjármálaeftirlitið tilnefnir, til miðlægrar varðveislu á sameiginlegu rafrænu skýrslusniði.

    Miðlæga geymslukerfið skal uppfylla kröfur um öryggi, áreiðanleika um hvaðan upplýsingar eru upprunnar, tímaskráningu og auðveldan aðgang fyrir notendur.

    Miðlæga geymslukerfið skal tengjast geymslukerfi ESMA.

 

37. gr.

Tungumál.

    Ef verðbréf útgefanda hafa einungis verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar samkvæmt lögum þessum á íslensku eða öðru því tungu­máli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir.

    Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í einu eða fleiri aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skal útgefandi birta upplýsingar sam­kvæmt lögum þessum á íslensku, eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, og annað­hvort á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna samþykkja, að vali útgef­anda.

    Ef verðbréf útgefanda hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í einu eða fleiri ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu en ekki á Íslandi skal útgefandi birta upplýsingar sam­kvæmt lögum þessum á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld gistiríkjanna sam­þykkja, að vali útgefanda. Ef Fjármálaeftirlitið óskar eftir því skal útgefandi jafnframt birta upp­lýsingarnar á ensku eða öðru því tungumáli sem Fjármálaeftirlitið samþykkir, að vali útgefanda.

    Ef verðbréf útgefanda eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hvíla skyldur 1.–3. mgr. ekki á útgefanda heldur þeim aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta án samþykkis útgefanda.

    Tilkynning skv. 12.–14. gr. má vera á íslensku eða ensku.

    Ef nafnverð eininga verðbréfa nam a.m.k. jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum þegar þau voru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, eða í tilviki skuldabréfa ef nafnverð eininga þeirra nam a.m.k. jafnvirði 100.000 evra í íslenskum krónum á útgáfudegi bréfanna, er útgefanda, þrátt fyrir ákvæði 1.–4. mgr., heimilt að birta upplýsingar skv. IV. kafla á ensku eða öðru því tungumáli sem lögbær stjórnvöld heimaríkis og gistiríkja samþykkja, að vali útgefanda eða þess aðila sem óskað hefur eftir töku bréfanna til viðskipta, án samþykkis útgefanda. Gildir þetta um skuldabréf sem hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði fyrir gildistöku laga þessara og nafnverð eininga þeirra nam a.m.k. jafnvirði 50.000 evra í íslenskum krónum, svo framarlega sem þau eru útistandandi.

 

VI. KAFLI

Eftirlit, viðurlög og samstarf lögbærra yfirvalda.

38. gr.

Almennt eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið og Eftirlitsstofnun EFTA annast eftirlit samkvæmt lögum þessum í samræmi við EES-samninginn, sbr. lög nr. 2/1993, og samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara, laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði. Um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits er fjallað í 25. gr. a hins síðarnefnda samnings og bókun 8 við hann.

    Fjármálaeftirlitið skal fylgjast með því að útgefendur verðbréfa birti upplýsingar samkvæmt lögum þessum tímanlega með það að markmiði að sjá til þess að almenningur á Evrópska efna­hags­svæðinu hafi virkan og jafnan aðgang að þeim. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt fylgjast með því að útgefendur verðbréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi en ekki í heimaríki útgefandans, birti upplýsingar samkvæmt lögum þessum tímanlega með það að markmiði að sjá til þess að almenningur á Evrópska efnahagssvæðinu hafi virkan og jafnan aðgang að þeim.

    Ársreikningaskrá kannar hvort upplýsingar skv. II. kafla séu samdar í samræmi við viðeigandi reikningsskilareglur.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að eiga samstarf við önnur stjórnvöld hér á landi til þess að tryggja framfylgd laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla settra með stoð í þeim.

 

39. gr.

Eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa til eftirfarandi ráðstafana til þess að tryggja að farið sé að lögum þessum:

  1. Krefjast þess að endurskoðendur, útgefendur verðbréfa, eigendur hluta og annarra fjár­mála­gerninga eða aðilar sem kveðið er á um í 14. og 15. gr. og einstaklingar, sem hafa eftirlit með þeim eða eru undir eftirliti þeirra, leggi fram upplýsingar og skjöl á því formi sem Fjármála­eftirlitið telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu.
  2. Krefjast þess að útgefandi verðbréfa birti almenningi upplýsingar, sem krafist er skv. 1. tölul., á því formi sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt til að sinna eftirliti sínu. Sinni útgefandi ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins getur það birt upplýsingar að eigin frumkvæði hafi það áður veitt viðkomandi útgefanda andmælarétt.
  3. Krefjast þess að útgefandi með skráða skrifstofu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins en heimaríki á Íslandi, sem birtir upplýsingar í því ríki þar sem hann er með skráða skrifstofu, birti upplýsingarnar opinberlega á Evrópska efnahagssvæðinu telji Fjármálaeftirlitið að þær gætu reynst mikilvægar fyrir almenning þar. Sinni útgefandi ekki kröfu Fjármálaeftirlitsins getur það birt upplýsingarnar að eigin frumkvæði hafi það áður veitt viðkomandi útgefanda andmælarétt.
  4. Stöðva tímabundið eða krefjast þess að viðkomandi skipulegir verðbréfamarkaðir stöðvi tímabundið viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði í að hámarki tíu virka daga samfellt í hvert sinn, sé rökstuddur grunur um brot gegn ákvæðum laga þessara.
  5. Leggja bann við viðskiptum á skipulegum verðbréfamarkaði komist Fjármálaeftirlitið að því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga þessara.
  6. Fella niður atkvæðisréttindi tengd hlutabréfum komist Fjármálaeftirlitið að því að brotið hafi verið gegn ákvæðum sem talin eru upp í 48. gr.
  7. Gera opinbert að útgefandi, eigandi hluta eða annarra fjármálagerninga eða aðilar sem kveðið er á um í 14. og 15. gr. hafi ekki uppfyllt skyldur sínar.
  8. Gera vettvangsathuganir eða vettvangsrannsóknir á öðrum stöðum en heimilum einstaklinga í þeim tilgangi að fara inn á athafnasvæði til að fá aðgang að skjölum og öðrum gögnum á hvaða formi sem er.
  9. Krefjast kyrrsetningar eigna einstaklings eða lögaðila þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um að háttsemi brjóti í bága við ákvæði laga þessara. Um skilyrði og meðferð slíkrar kröfu fer eftir 88. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eftir því sem við getur átt.

 

40. gr.

Tilkynningar starfsmanna um brot í starfsemi.

    Útgefendur verðbréfa skulu hafa ferla til að taka við og fylgja eftir tilkynningum starfsmanna þess um brot, möguleg brot og tilraunir til brota á lögum þessum. Ferlarnir skulu vera aðskildir frá öðrum ferlum innan fyrirtækisins.

    Einstaklingur sem tekur við tilkynningum skv. 1. mgr. og sér um vinnslu þeirra skal búa við sjálfstæði í störfum og tryggt skal að hann hafi nægilegt vald, fjárveitingar og heimildir til að afla gagna og upplýsinga sem honum eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt skyldum sínum.

    Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

    Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd 1. og 2. mgr., þ.m.t. um viðtöku og vinnslu tilkynninga.

 

41. gr.

Vernd starfsmanns vegna tilkynningar um brot í starfsemi.

    Þeir sem falið hefur verið að taka við tilkynningum skv. 40. gr. og sjá um vinnslu þeirra eru bundnir þagnarskyldu um persónugreinanlegar upplýsingar sem koma fram í tilkynningunum. Þagnarskyldan gildir gagnvart öðrum starfsmönnum fyrirtækisins og einnig utanaðkomandi aðilum. Þó er heimilt að miðla upplýsingum sem lúta þagnarskyldu til Fjármálaeftirlitsins og til lögreglu.

    Fyrirtækið skal vernda starfsmann sem í góðri trú hefur tilkynnt um brot skv. 40. gr. gegn því að hann sæti misrétti sem rekja má til tilkynningar hans. Sama gildir um tilkynningar til Fjár­mála­eftirlitsins skv. 13. gr. a laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998.

    Ef fyrirtæki brýtur gegn skyldu sinni skv. 2. mgr. skal það greiða starfsmanni skaðabætur sam­kvæmt almennum reglum. Þetta tekur bæði til beins fjártjóns og miska.

    Skyldur og réttindi samkvæmt þessari grein eru ófrávíkjanleg og óheimilt er að takmarka þau í ráðningarsamningi á milli starfsmanns og fyrirtækis.

 

42. gr.

Úrbótakrafa.

    Telji Fjármálaeftirlitið háttsemi andstæða lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum með stoð í þeim eða að hún sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust eða ógni skilvirkni markaða skal Fjármálaeftirlitið krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs frests.

    Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkis um að útgefandi með staðfestu hér á landi neiti að veita upplýsingar eða sinni ekki úrbótakröfum skal Fjármálaeftirlitið grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að viðkomandi útgefandi veiti upplýsingarnar eða verði við kröfu um úrbætur. Ef nauðsynlegt er skal Fjármálaeftirlitið óska eftir upplýsingum frá lögbærum yfirvöldum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Fjármálaeftirlitið skal upplýsa lögbært yfirvald gistiaðildarríkis og ESMA um til hvaða ráðstafana er gripið.

 

43. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann lögaðila eða einstakling sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra:

  1. 6. gr. um opinbera birtingu ársreiknings.
  2. 7. gr. um opinbera birtingu árshlutareiknings vegna fyrstu sex mánaða reikningsársins.
  3. 8. gr. um tíðari upplýsingagjöf.
  4. 9. gr. um opinbera birtingu skýrslu útgefanda með starfsemi í námuiðnaði eða við skógar­högg.
  5. 1. og 2. mgr. 12. gr. um flöggunarskyldu.
  6. 13. gr. um flöggunarskyldu við sérstakar aðstæður.
  7. 14. gr. um flöggunarskyldu vegna fjármálagerninga.
  8. 15. gr. um samanlagða flöggunarskyldu.
  9. 19. gr. um skyldu útgefanda til að birta opinberlega upplýsingar um heildarfjölda hluta og heildarfjölda atkvæða á síðasta viðskiptadegi þess mánaðar er breytingar eiga sér stað.
  10. 20. gr. um efni tilkynningar.
  11. 21. gr. um tímafresti tilkynninga frá flöggunarskyldum aðila.
  12. 1. mgr. 22. gr. um birtingu útgefanda á upplýsingum í tilkynningu.
  13. 29. gr. um flöggunarskyldu vegna eigin hluta.
  14. 31. gr. um opinbera birtingu viðbótarupplýsinga.
  15. 1. mgr. 35. gr. um opinbera birtingu útgefanda á upplýsingum samkvæmt lögum þessum og sendingu upplýsinga til Fjármálaeftirlitsins.
  16. 36. gr. um miðlæga varðveislu.
  17. 37. gr. um tungumál.

    Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 350 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 1,65 milljarða kr. en geta þó verið hærri eða allt að 5% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 5% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðili er hluti af samstæðu.

    Við ákvörðun sekta samkvæmt ákvæði þessu skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þ.m.t. eftirfarandi:

  1. alvarleika brots,
  2. .hvað brotið hefur staðið lengi,
  3. ábyrgðar hins brotlega einstaklings eða lögaðila,
  4. fjárhagsstöðu hins brotlega, sér í lagi með hliðsjón af heildarveltu lögaðila eða árstekjum einstaklings,
  5. þýðingar ávinnings eða taps sem forðað var með broti fyrir hinn brotlega,
  6. taps þriðja aðila af brotinu, að því marki sem unnt er að ákvarða slíkt,
  7. hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins,
  8. samstarfsvilja hins brotlega,
  9. fyrri brota og hvort um ítrekað brot er að ræða.

    Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikn­ing dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

    Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum þessum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra er heimilt að ákvarða hinum brotlega sekt sem getur, þrátt fyrir 3. mgr., orðið allt að tvöfaldri þeirri fjárhæð sem nemur fjárhagslegum ávinningi af broti eða tapi sem forðað er með broti, eftir því hvort er hærra.

 

44. gr.

Opinber birting stjórnsýsluviðurlaga.

    Fjármálaeftirlitið skal, án tafar, birta á vef sínum sérhverja niðurstöðu um beitingu stjórnsýslu­viðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara í kjölfar þess að hinum brotlega hefur verið tilkynnt um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða sem er birt skal að lágmarki innihalda upplýs­ingar um tegund og eðli brots og nafn hins brotlega.

    Telji Fjármálaeftirlitið að opinber birting á nafni hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem kemur fram í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins samræmist ekki meðalhófsreglu eða að birting geti stofnað stöðugleika fjármálamarkaða í hættu eða skaðað yfirstandandi rannsókn þá getur Fjármála­eftirlitið:

  1. frestað birtingu niðurstöðunnar þar til ástæður fyrir að birta hana ekki eru ekki lengur til staðar eða
  2. birt niðurstöðu án þess að tilgreina nafn hins brotlega, annarra lögaðila eða einstaklinga sem koma fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.

    Í tilviki nafnlausrar birtingar niðurstöðu skv. b-lið 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að birta nafn viðkomandi þegar ástæður fyrir nafnleynd eiga ekki lengur við.

    Fjármálaeftirlitið skal birta upplýsingar á vef sínum ef höfðað er mál fyrir dómstólum til ógildingar á ákvörðun þess um beitingu viðurlaga vegna brota. Fjármálaeftirlitið skal enn fremur birta upplýsingar um lyktir málsins á hverju dómstigi. Afturkalli Fjármálaeftirlitið ákvörðun sína um beitingu viðurlaga skal Fjármálaeftirlitið upplýsa um það á vef sínum.

    Niðurstöður um beitingu stjórnsýsluviðurlaga vegna brota á ákvæðum laga þessara skulu birtar á vef Fjármálaeftirlitsins í að lágmarki fimm ár. Persónuupplýsingar sem koma fram í niðurstöðunum skulu ekki vera birtar lengur en nauðsynlegt getur talist í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

    Fjármálaeftirlitið skal birta á vef sínum þá stefnu sem eftirlitið fylgir við framkvæmd birtingar samkvæmt þessari grein.

 

45. gr.

Sátt.

    Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, stjórnvaldsfyrirmæli sett á grundvelli þeirra, eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni.

 

46. gr.

Réttur grunaðs manns.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir mat á því hvort brot hafi átt sér stað. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

 

47. gr.

Frestur til að leggja á stjórnvaldssekt.

    Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.

    Frestur skv. 1. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

 

48. gr.

Sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

    Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti sam­kvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn:

  1. 1. og 2. mgr. 12. gr. um flöggunarskyldu.
  2. 13. gr. um flöggunarskyldu við sérstakar aðstæður.
  3. 29. gr. um flöggunarskyldu vegna eigin hluta.

 

49. gr.

Saknæmi.

    Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.

    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.

    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

    Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.

 

50. gr.

Kæra til lögreglu.

    Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármála­eftirlitsins.

    Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot er meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa því til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.

    Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.

    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.

    Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 2. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 2. mgr.

    Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna meintrar refsiverðrar háttsemi sem jafn­framt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

 

51. gr.

Varúðarráðstafanir ef Ísland er gistiríki.

    Ef Ísland er gistiríki og Fjármálaeftirlitið kemst að því að útgefandi eða flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hefur sýnt af sér háttsemi sem bryti gegn ákvæðum laga þessara eða skyldum samkvæmt þeim, væri viðkomandi aðili með heimaríki á Íslandi, skal Fjármálaeftirlitið vísa málinu til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda. Ákvæði 1. málsl. á ekki við um fresti skv. 21. eða 22. gr. Í þeim tilvikum skal Fjármálaeftirlitið vísa máli til lögbærs stjórnvalds í heimaríki útgefanda ef flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. hefur ekki sent tilkynningu að fjórum viðskiptadögum liðnum frá stofnun flöggunarskyldu eða ef útgefandi hefur ekki birt upplýsingar í tilkynningu opinberlega að þremur viðskiptadögum liðnum frá því að honum barst tilkynningin.

    Ef útgefandi eða flöggunarskyldur aðili skv. 12., 13. eða 14. gr. heldur áfram að brjóta við­komandi lög eða reglur, þrátt fyrir ráðstafanir lögbærs stjórnvalds heimaríkisins eða vegna þess að slíkar ráðstafanir bera ekki árangur, skal Fjármálaeftirlitið, eftir að hafa tilkynnt það lögbæru yfir­valdi heimaríkis, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta.

 

52. gr.

Samstarf við önnur lögbær yfirvöld innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Fjármálaeftirlitið skal, eins og þörf er á, starfa með lögbærum yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum við framkvæmd eftirlits á grundvelli laga þessara. Í því felst meðal annars gagnkvæm upp­lýs­inga­gjöf og samræming aðgerða þegar tekið er á málum sem ná yfir landamæri.

    Fjármálaeftirlitið skal eiga samstarf við lögbær yfirvöld annarra ríkja innan Evrópska efnahags­svæðisins og við Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum ESMA og Evrópska kerfis­áhættu­ráðið, sé það nauðsynlegt til þess að þær stofnanir geti sinnt skyldum sínum við fram­kvæmd eftirlits samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB.

 

53. gr.

Samstarf og upplýsingagjöf Fjármálaeftirlitsins til ESMA og eftirlitsstofnunar EFTA.

    Fjármálaeftirlitið skal, í samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA og eftir atvikum ESMA, sinna eftirliti með lögum þessum í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 1095/2010, sbr. lög um evrópskt eftirlits­kerfi á fjármálamarkaði. Fjármálaeftirlitið skal veita stofnununum upplýsingar sem nauðsyn­legar eru til að þær geti sinnt eftirlitshlutverki sínu samkvæmt lögum þessum og lögum um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, sbr. 35.–36. gr. reglugerðar (ESB) nr. 1095/2010.

 

54. gr.

Úrlausn ágreinings milli lögbærra yfirvalda innan Evrópska efnahagssvæðisins.

    Komi upp ágreiningur milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærs yfirvalds í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins vegna ákvæða laga þessara sem varða samstarf eða samhæfingu lögbærra yfirvalda getur Fjármálaeftirlitið vísað málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA eða ESMA, eftir því sem við á, til málsmeðferðar skv. 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1095/2010, sbr. 3. gr. laga um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði, nr. 24/2017. Úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA í slíku máli skal vera bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.

    Vísi lögbært yfirvald annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins ágreiningi við Fjármála­eftirlitið til Eftirlitsstofnunar EFTA, eða eftir atvikum til ESMA, vegna aðgerða Fjármála­eftirlitsins á grundvelli laga þessara skal úrlausn Eftirlitsstofnunar EFTA í slíku máli vera bindandi fyrir Fjármálaeftirlitið.

 

VII. KAFLI

Önnur ákvæði.

55. gr.

Stjórnvaldsfyrirmæli.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:

  1. Á hvaða hátt ársreikningur og árshlutareikningur skuli vera aðgengilegir almenningi, sbr. 6. og 7. gr.
  2. Skilyrði fyrir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um tíðari upplýsingagjöf útgefanda verðbréfa skv. 8. gr.
  3. Hvaða kröfur samkvæmt ákvæðum löggjafar ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins eru hlið­stæðar ákvæðum laga um ársreikninga, sbr. 11. gr.
  4. Snið og ferla við flöggunartilkynningar til útgefenda skv. III. kafla.
  5. Efni tilkynningar vegna fjármálagerninga skv. 14. gr.
  6. Hvers konar samkomulag telst formlegt samkomulag skv. a-lið 1. mgr. 14. gr.
  7. Hvenær undanþágur skv. 23. gr. eiga við, sbr. 12. og 14. gr.
  8. Efni tilkynningar skv. 20. gr.
  9. Skilgreiningu og skilyrði fyrir verðjöfnun skv. 26. gr.
  10. Hvaða skilyrði fyrirtæki skv. 27. og 28. gr. verða að uppfylla til að þau teljist nýta atkvæðisrétt sinn óháð móðurfélögum sínum.
  11. Fjármálastofnanir sem hafa milligöngu um að eigendur hluta eða handhafar skuldabréfa geti neytt fjárhagslegra réttinda sinna í útgefanda, sbr. 32. og 33. gr.
  12. Undanþáguheimildir, sbr. 34. gr.
  13. Framkvæmd opinberrar birtingar, sbr. 35. gr.
  14. Kröfur til miðlægs geymslukerfis skv. 36. gr.

    Seðlabanki Íslands skal setja reglur um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal um:

  1. Útreikning atkvæðisréttar í veltubók skv. 24. gr.
  2. Sameiginlegt rafrænt skýrslusnið skv. 10. og 11. gr.
  3. Útreikning atkvæðisréttar skv. 12. gr.
  4. Aðgengi að upplýsingum.

 

56. gr.

Fjárhæðir.

    Fjárhæðir í lögum þessum skulu reiknaðar miðað við opinbert viðmiðunargengi evru eins og það er skráð hverju sinni.

 

57. gr.

Innleiðing.

    Með lögum þessum eru ákvæði eftirfarandi tilskipana innleidd:

  1. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 35 frá 19. júní 2008, bls. 235–254.
  2. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2010/78/ESB frá 24. nóvember 2010 um breyt­ingu á tilskipun 98/26/EB, 2002/87/EB, 2003/6/EB, 2003/41/EB, 2003/71/EB, 2004/39/EB, 2004/109/EB, 2005/60/EB, 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2009/65/EB að því er varðar valdsvið Evrópsku eftirlitsstofnunarinnar (Evrópska bankaeftirlitsstofnunin), Evrópsku eftirlits­stofnunarinnar (Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin) og Evrópsku eftirlits­stofnunarinnar (Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin) sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 49 frá 20. júní 2019, bls. 5–49.
  3. 1. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2013/50/ESB frá 22. október 2013 um breytingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB um útboðs- og skráningarlýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/14/EB um nákvæmar reglur til framkvæmdar tilteknum ákvæðum tilskipunar 2004/109/EB, með þeim aðlögunum sem leiðir af ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar. Tilskipunin var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahags­svæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2020 frá 12. júní 2020. Tilskip­unin var birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 7 frá 28. janúar 2021, bls. 424–438.

 

58. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. maí 2021.

59. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

    

  1. Lög um ársreikninga, nr. 3/2006: Í stað orðanna „VII. kafla laga um verðbréfaviðskipti“ í 87. gr. e laganna kemur: II. kafla laga um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flögg­unar­skyldu.
  2. Lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007:
    1. 3. gr. laganna fellur brott.
    2. VII.–IX. kafli laganna, ásamt fyrirsögnum, falla brott.
    3. Eftirfarandi breytingar verða á 133. gr. laganna:
      1. Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
      2. Orðin „og VII., VIII. og IX. kafla“ í 6. mgr. falla brott.
    4. Orðin „VII., VIII., IX. og“ í 1.–3. mgr. 135. gr. og 1. mgr. 136. gr. og orðin „VII., VIII., IX. eða“ í 1. málsl. 1. mgr. 137. gr. laganna falla brott.
    5. Eftirfarandi breytingar verða á 137. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „skv. 78., 79. eða 80. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. og í 2. mgr. kemur: samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flögg­unarskyldu.
      2. 2. og 3. málsl. 1. mgr. falla brott.
    6. 5.–25. tölul. 1. mgr. 141. gr. laganna falla brott.
    7. 5.–7. tölul. 145. gr. laganna falla brott.
  3. Lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020:
    1. 32. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo: Útgefandi: Útgefandi samkvæmt lögum um upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.
    2. Í stað orðsins „verðbréfaviðskipti“ í 9. mgr. 45. gr. laganna kemur: upplýsingaskyldu útgefenda verðbréfa og flöggunarskyldu.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við setningu reglna skv. 2. tölul. 2. mgr. 55. gr. er Seðlabanka Íslands heimilt að vísa til birtingar á viðaukum framseldra reglugerða Evrópusambandsins, er varða flokkunarkerfi sem nota ber við rafræn skýrsluskil, í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nýti Seðlabanki Íslands þessa heimild skal gera enska útgáfu viðaukanna aðgengilega á vef bankans. Heimild Seðlabanka Íslands skal gilda þar til íslenskar þýðingar á viðaukunum hafa verið birtar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.

 

Gjört á Bessastöðum, 23. mars 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Bjarni Benediktsson.


A deild - Útgáfud.: 30. mars 2021