Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1086/2008

Nr. 1086/2008 10. nóvember 2008
STARFSREGLUR
fyrir skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar.

1. gr.

Markmið.

Markmið með skipan skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar er að hún fjalli um og afgreiði skipulagstillögur Keflavíkurflugvallar ohf. með hliðsjón af langtímahagsmunum þjóðar­innar fyrir flugvöllinn, vegna flugsamgangna, sér í lagi með tilliti til stækkunar­möguleika. Hafa skal hliðsjón af framtíðarþörfum Keflavíkurflugvallar ohf., varnarstarfsemi og annarra rekstraraðila flugsækinnar starfsemi sem talið er nauðsynlegt að sé á flugvallar­svæðinu.

Með reglum þessum er kveðið nánar á um starfsemi skipulagsnefndar Keflavíkur­flugvallar í samræmi við 8. gr. laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

2. gr.

Gildissvið.

Skipulagssvæði nefndarinnar er flugvallarsvæði Keflavíkurflugvallar, A-svæði, eins og það er skilgreint á hverjum tíma í samræmi við 1. mgr. 1. gr. laga nr. 176/2006 um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkur­flugvelli. Samþykki nefndarinnar við deili- eða aðalskipulagstillögu fyrir flugvallarsvæðið telst fullnaðarafgreiðsla málsins á sveitarstjórnarstigi. Við gerð svæðis­skipulags á Suðurnesjum, samkvæmt skipulagslögum, eru hlutaðeigandi skipulags­yfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins.

3. gr.

Starfsreglur.

Skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar:

 1. starfar eftir skipulags- og byggingarlögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eftir því sem við getur átt hverju sinni og með þeim takmörkunum sem leiða af lögum um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar;
 2. skal hafa samráð við utanríkisráðherra við afgreiðslu á deili- og aðal­skipulags­tillögum, skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. (skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 736/2008 um skipulags- og mannvirkjamál á varnarsvæðum, annast varnar­mála­stofnun í umboði utanríkisráðherra framkvæmd skipulags- og mannvirkjamála á öryggis- og varnarsvæðum);
 3. skal, eftir því sem unnt er, taka tillit til þarfa aðliggjandi sveitarfélaga, Reykjanes­bæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar.

4. gr.

Meginverkefni skipulagsnefndarinnar.

Meginverkefni skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar eru að:

 1. fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum Keflavíkurflugvallar;
 2. fjalla um skipulagstillögur, sem hlutafélagið hefur látið vinna;
 3. taka þátt í gerð svæðisskipulags með nærliggjandi sveitarfélögum og afgreiða með endanlegum hætti svæðisskipulagstillögur fyrir hönd flugvallarins;
 4. annast kynningu og auglýsingu aðal- og deiliskipulagstillagna sem og svæðis­skipulags­tillagna með aðliggjandi sveitarfélögum eftir því sem við á;
 5. annast grenndarkynningar vegna óverulegra breytinga á deiliskipulagi og vegna byggingarleyfisumsókna á þegar byggðum svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag;
 6. fjalla um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur;
 7. afgreiða endanlega á sveitarstjórnarstigi aðal- og deiliskipulagstillögur;
 8. meta hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir og hafa eftirlit með því að framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og deiliskipulag og ákvæði laga og reglugerða um skipulagsmál;
 9. fjalla um umsóknir um framkvæmdaleyfi og annast afgreiðslu þeirra;
 10. fjalla um skipulagsáætlanir aðliggjandi sveitarfélaga og veita umsögn um þær eftir því sem þurfa þykir í samræmi við lög og reglugerðir. Sama á við um mats­áætlanir framkvæmda á aðliggjandi svæðum sem snerta hagsmuni Keflavíkur­flugvallar.

5. gr.

Um starfsemi skipulagsnefndarinnar.

Nefndin skal funda eftir því sem þurfa þykir og ekki skal líða lengri tími en fjórar vikur frá því erindi berst nefndinni þar til það er tekið fyrir á fundi. Formaður skipulagsnefndar eða ritari í umboði hans boðar til funda með skriflegum hætti. Heimilt er að boða til funda með tölvupósti á tölvupóstfang sem nefndarmenn tiltaka. Fundi skal boða með sjö sólarhringa fyrirvara sé þess nokkur kostur, en þó aldrei skemur en með tveggja sólarhringa fyrirvara. Dagskrá fundar skal fylgja fundarboði. Formaður stýrir fundum samkvæmt dagskrá og undirbýr þá. Fundi skipulagsnefndar skal ætíð halda ef einn eða fleiri nefndarmanna óska þess eða telji formaður þess þörf. Ef ósk berst frá nefndarmanni um fund skal boðað til hans innan viku frá því að ósk berst formanni og skal fundurinn haldinn svo fljótt sem verða má. Fundur er lögmætur ef réttilega er til hans boðað og meirihluti nefndarmanna sækir hann. Hver nefndarmaður fer með eitt atkvæði á fundum og ræður afl atkvæða úrslitum við afgreiðslu máls. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Meiriháttar ákvarðanir má ekki taka nema allir nefndarmenn hafi haft tök á því að fjalla um málið, ef þess er nokkur kostur. Óski nefndarmaður eftir frestun á afgreiðslu máls til annars fundar er rétt að verða við þeirri beiðni, enda þoli málið slíka bið.

Halda skal fundargerð um það sem gerist á fundum skipulagsnefndarinnar og skal hún send til nefndarmanna innan þriggja sólarhringa frá fundi. Telst hún samþykkt ef ekki hafa borist athugasemdir innan tíu daga frá fundi. Í fundargerð skal bóka hvaða nefndarmenn eru mættir, hvað sé á dagskrá fundarins og hvaða ákvarðanir hafa verið teknar auk úrslita atkvæðagreiðslna. Nefndarmenn eiga rétt á því að leggja fram stutta skriflega lýsingu á afstöðu sinni og fá bókaða í fundargerð. Fundarmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði er þeir fá vitneskju um í starfi nefndarinnar og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Formaður skal vekja athygli á málum sem leynt skulu fara. Þagnarskylda helst þótt nefndarmaður láti af starfi í nefndinni.

Með skipulagsnefndinni skal starfa ritari sem tilnefndur er af samgönguráðuneytinu. Ritari ritar fundargerðir nefndarinnar, tekur við erindum til hennar og annast kynningu á afgreiðslum nefndarinnar og aðstoðar auk þess formann nefndarinnar við undirbúning funda nefndarinnar. Ritari situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr.

Vanhæfi.

Nefndarmenn skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku nefndarmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega. Að öðru leyti gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um vanhæfi nefndarmanna.

7. gr.

Annað.

Keflavíkurflugvöllur ohf. leggur skipulagsnefndinni til fundaraðstöðu. Félagið leggur nefndinni einnig til aðstöðu til varðveislu gagna sem og almenna skrifstofuþjónustu. Fulltrúi félagsins hefur heimild til að sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.

Keflavíkurflugvöllur ohf. heldur úti heimasíðu og útvegar skipulagsnefndinni rými á síðunni til kynningar á auglýstum skipulagstillögum og öðrum atriðum er varða starfsemi nefndarinnar.

Kostnaður við störf skipulagsnefndarinnar, nefndarlaun, auglýsingar og kynning, sérfræði­kostnaður o.þ.h. greiðist af samgönguráðuneytinu.

8. gr.

Gildistaka.

Starfsreglur þessar, sem settar er samkvæmt heimild í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 76/2008, um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl., öðlast þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 10. nóvember 2008.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

B deild - Útgáfud.: 28. nóvember 2008