Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 683/2015

Nr. 683/2015 14. júlí 2015

FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir sveitarfélögin Akraneskaupstað, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

1. gr.

Sveitarfélögin Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur mynda eitt fjallskilaumdæmi. Sveitar­stjórnirnar skipa stjórn fjallskilamála í fjallskilaumdæminu. Sveitar­stjórnirnar setja henni sérstaka samþykkt þar sem kveðið skal á um fjölda fulltrúa í stjórninni og verkefni hennar.

Að öðru leyti fara sveitarstjórnir með stjórn afrétta- og fjallskilamála, hver í sínu sveitarfélagi samkvæmt samþykktum sínum.

2. gr.

Undir fjallskilaumdæmið heyra eftirtaldar fjallskiladeildir, afréttir þeirra og afréttarlönd:

 

1. Fjallskiladeild Borgarbyggðar sem skiptist í eftirfarandi undirdeildir:

  1. Fjallskiladeild Kolbeinsstaðahrepps.
  2. Fjallskiladeild Hraunhrepps.
  3. Fjallskiladeild Álftaneshrepps.
  4. Fjallskiladeild Borgarhrepps, Norðurárdals vestan Norðurár og Stafholtstungna vestan Norðurár.
  5. Fjallskiladeild Norðurárdals sunnan Norðurár, Stafholtstungna sunnan Norðurár, Þverárhlíðar og Hvítársíðu.
  6. Fjallskiladeild Hálsasveitar og Reykholtsdals.
  7. Fjallskiladeild Lundarreykjadals, Bæjarsveitar og Andakíls.

2. Fjallskiladeild Skorradalshrepps.
3. Fjallskiladeild Akraneskaupstaðar.
4. Fjallskiladeild Hvalfjarðarsveitar.

Umdæmi framangreindra fjallskiladeilda miðast við landfræðileg mörk þeirra svæða sem þær eru kenndar við.

Hver fjallskiladeild Borgarbyggðar skal hafa sérstaka nefnd sem starfar undir yfirstjórn sveitarstjórnar. Sveitarstjórnir Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps fara með málefni fjallskila hver á sínu svæði.

Heimilt er að sókn jarða til skilaréttar verði yfir fjallskiladeildamörk sbr. 15. gr. Ekki er einni fjallskiladeild heimilt að leggja á fjallskil í annarri fjallskiladeild.

3. gr.

Fundargerðir stjórnar fjallskilaumdæmisins skal færa á tölvutæku formi og senda sveitarstjórnunum, en stjórnin skal einnig skrá fundargerðirnar í sérstaka gerðabók.

Reikningshaldi hverrar fjallskiladeildar skal haldið aðgreindu í bókhaldi sveitarsjóðs en hvert sveitarfélag annast bókhald og innheimtu vegna fjallskiladeilda innan síns umdæmis. Endurskoða skal fjallskilareikninga á sama hátt og reikninga sveitarsjóðs.

II. KAFLI

Um ítölu.

4. gr.

Stjórn fjallskilaumdæmisins getur gert samþykkt um ítölu, eftir ákvæðum III. kafla laga um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 ásamt áorðnum breytingum og ber þá búfjáreigendum að fara eftir henni.

III. KAFLI

Notkun afrétta og annarra beitilanda.

5. gr.

Hver sá sem hefur jörð til ábúðar eða umráða, þar með taldar eyðijarðir eða eyðilönd er skyldur að hlíta þeim samþykktum er sveitarstjórnir gera um vorsmalanir.

6. gr.

Fjáreigendur sem afréttarnot hafa mega flytja sauðfé sitt á afrétt þegar árferði og önnur atvik leyfa. Skulu sveitarstjórnir tilkynna ábúendum hvenær flytja megi fé á afrétt. Sveitarstjórnir fjallskilaumdæmisins geta skyldað ábúendur jarða sem afréttarnot hafa til að flytja fé sitt á afrétt telji hún þess þörf. Hafa má allt sauðfé í heimalandi, ef það er girt fjárheldri girðingu eða ef sveitarstjórn skyldar ekki fjáreigendur til að flytja fé sitt í afrétt.

7. gr.

Enginn má nota annan afrétt en þann er hann á upprekstur í nema með leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Fjallskil af búfé greiðist þar sem upprekstur verður. Sveitarstjórn er heimilt að banna upprekstur og hagagöngu aðkomubúfjár í ógirt heimaland ef ástæða er til. Þess skal ávallt gætt, að taka ekki meiri fénað í hagagöngu en umráðalandið ber með góðu móti. Sá er tekur fénað í hagagöngu ber sömu ábyrgð á honum og væri hann hans eigin hvað varðar fjallskil, ágang og usla í annarra landi.

8. gr.

Nú er afréttarland eða fjalllendi í einkaeign sameiginlegt leitarsvæði með afrétti og ætlar eigandi að leigja það öðum til sumarbeitar. Er hann þá skyldur að tilkynna það fyrir 10. júní ár hvert til sveitarstjórnar þess sveitarfélags er landið liggur í, og jafnframt skýra frá, fyrir hve margt fé landið er ætlað og hverjir notendur séu. Þó er honum óheimilt að taka annað fé eða fleiri fénað í landið en viðkomandi sveitarstjórn samþykkir.

9. gr.

Heimilt er að reka fé á afrétt og af afrétti auk annarra upprekstrarlanda í gegnum heimalönd gerist þess þörf. Þess skal gætt að reksturinn valdi ekki meiri usla en óhjákvæmilegt er. Rekstrarleiðir búfjár skulu settar inn á aðalskipulag sveitarfélaga.

10. gr.

Nú er vanrækt að flytja fénað á afrétt sem skylt er að flytja þangað samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar. Skal þá eiganda eða umráðamanni gert að flytja fénaðinn á afrétt, að öðrum kosti skal sveitarstjórn láta flytja þann fénað á afrétt á kostnað eiganda eða umráðamanns.

IV. KAFLI

Um fjallskil.

11. gr.

Skylt er að gera fjallskil af öllu sauðfé hvort sem það gengur í heimalandi eða í öðrum sumarhögum. Heimilt er sveitarstjórn að leggja ekki á fjallskilagjöld. Leyfi sveitarstjórn rekstur stóðhrossa eða geita á afrétt skal gera fjallskil af þeim en að öðrum kosti ekki. Fjallskilagjöld af hverju hrossi mega vera allt að 10 sinnum hærri en af sauðkind. Fjallskil og kostnað vegna þeirra skal meta til peningaverðs og jafna niður á fjallskilaskylda aðila í hlutfalli við tölu fjallskilaskylds búfjár samkvæmt forðagæsluskýrslum að vori. Fjallskil skulu innt af hendi með vinnu, enda sé hún metin til peningaverðs, ella greidd í peningum.

Heimilt er í hverri fjallskiladeild að leggja á allt að 5% af landverði jarða, jafnt þó í eyði séu, að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda, vegna fjallskilakostnaðar, ef talið er nauðsynlegt til að standa straum af útgjöldum vegna girðinga, skilarétta og fjallhúsa. Þó skal álagning á landverð jarða aldrei vera meira en ¾ af heildarálagningu hverrar fjallskiladeildar. Ef heimild þessi er notuð skal vera sama álagningarhlutfall á landverð allra jarða innan hverrar fjallskiladeildar, óháð búfjáreign á hverri jörð.

12. gr.

Öllum þeim sem skyldir eru að gera fjallskil, þar með töldum eigendum fjárlausra jarða, skal birtur fjallskilaseðill viðkomandi fjallskiladeildar með a.m.k. 14 daga fyrirvara. Þar skal taka fram hvaða fjallskil hver og einn eigi að inna af hendi, tilgreindir leitarstjórar á afrétti og réttarstjórar í skilaréttum, á hvaða svæði hver skuli leita, hverjir eigi að sækja fé í útréttir utan sem innan fjallskiladeildar, hvenær heimalönd skulu smöluð og hvað annað er að fjallskilum lýtur.

13. gr.

Sinni umráðamaður jarðar ekki smölunarskyldu sinni samkvæmt 12. gr., getur sveitarstjórn látið smala landið á hans kostnað.

14. gr.

Heimilt er að greiða úr sveitarsjóði kostnað við byggingu skilarétta, leitarmannaskála og annarra mannvirkja sem þörf er á vegna aðalleita og réttarhalds, svo og girðinga milli heimalanda og afrétta, að því leyti sem skylt er að leggja til þeirra. Einnig er heimilt að greiða annan fjallskilakostnað úr sveitarsjóði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

15. gr.

Skilaréttir, leitardagar og leitarsvæði skulu vera eftirfarandi:

  1. Svarthamarsrétt: Leitarsvæðið nær yfir Hvalfjarðarströnd, Svínadal allan sunnan Laxár og norðan Laxár að innanverðu allt að merkjum Eyrar og Hlíðarfótar og upprekstrarland Akraneskaupstaðar á Botnsheiði og land jarða í Skorradalshreppi sunnan Fitjaár allt að landi Litlu Drageyrar. Leitardagar eru föstudagur og laugardagur fyrir fyrri skilaréttir. Fyrri réttir skulu fara fram sunnudag á bilinu 15. til 21. september. Leitardagar eru laugardagur og sunnudagur fyrir seinni skilaréttir. Seinni réttir skal fara fram sunnudag á bilinu 29. september til 4. október.
  2. Reynisrétt: Leitarsvæðið nær yfir Skilmannahrepp allan, Innri-Akraneshrepp og Akraneskaupstað. Leitardagar skulu vera sömu daga og réttir eru. Fyrri Reynisréttir eru laugardag á bilinu 17. til 23. september og seinni Reynisréttir laugardag á bilinu 24. til 30. september.
  3. Núparétt: Leitarsvæðið nær yfir Leirár- og Melasveit og Svínadal norðan Laxár inn að mörkum Hlíðarfótar og Eyrar. Leitardagur er á laugardegi fyrir rétt. Fyrstu réttir eru sunnudag á bilinu 8. til 14. september. Seinni Núparéttir eru sunnudag á bilinu 22. til 28 september.
  4. Hornsrétt: Leitarsvæðið nær yfir lönd jarða í Andakíl sunnan Andakílsár og jarða í sunnan- og neðanverðum Skorradal að Stóru Drageyri. Leitardagur er á laugardegi fyrir réttir. Fyrri Hornsréttir eru sunnudag á bilinu 8. til 14. september. Seinni Hornsréttir eru sunnudag á bilinu 22. til 28 september. Aðstaða til sundurdráttar og geymslu fjárskal vera í innanverðum Skorradal og víðar ef þörf krefur.
  5. Oddsstaðarétt: Leitarsvæðið nær yfir Lundarreykjadal allan, Andakíl norðan Andakílsár, Bæjarsveit, önnur lönd sunnan Flóku og öll lönd jarða í norðanverðum Skorradal. Ennfremur land Kálfaness. Leitardagar eru á mánudegi og þriðjudegi fyrir fyrri réttir og föstudegi og laugardegi fyrir seinni réttir. Fyrri Oddsstaðaréttir skulu fara fram miðvikudag í 21. viku sumars, og hinar seinni sunnudag í 24. viku sumars. Sundurdráttarréttir mega vera á Þverfelli, Varmalæk og Hesti.
  6. Rauðsgilsrétt: Leitarsvæðið nær yfir öll lönd í Hálsasveit og Reykholtsdal að undanskildu Kálfanesi. Einnig Flókadal norðan Flóku. Leitardagar eru á laugardegi fyrir hvorar réttir. Fyrri Rauðsgilsréttir skulu fara fram sunnudag í 22. viku sumars og hinar seinni sunnudag í 24. viku sumars.
  7. Fljótstungurétt: Leitarsvæðið nær yfir Arnarvatnsheiði og Lambatungur. Leitardagar til fyrstu rétta eru miðvikudagur, fimmtudagur, föstudagur og laugardagur í 21. viku sumars. Fyrri Fljótstunguréttir eru sunnudaginn í 21. viku sumars. Leitardagar til annarra rétta eru fimmtudagur, föstudagur og laugardagur í 23. viku sumars. Seinni Fljótstunguréttir eru laugardag í 23. viku sumars.
  8. Þverárrétt: Leitarsvæðið nær yfir öll heimalönd, heiðalönd og afréttarlönd allra jarða í Norðurárdal og Stafholtstungum austan Sanddalsár og Norðurár, svo og allra jarða í Þverárhlíð og Hvítársíðu allt að girðingum þeim sem ná að löndum Húnvetninga að norðaustan og að löndum Strandasýslu og Dalasýslu að norðvestan. Þó getur stjórn Þveráruppreksturs leyft að Lambatungur séu leitaðar til Fljótstungurétta. Leitardagar til fyrstu réttar eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 12. og 13. til 18. og 19. september. Þó skal gera fyrstu leit á smalasvæði Stafholtstungna á föstudegi, laugardegi og sunnudegi sem falla á tímabilið 11., 12. og 13. til 17., 18. og 19. september. Fyrstu Þverárréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 14. til 20. september. Leitardagar til annarra rétta eru laugardagur og sunnudagur á tímabilinu 19. og 20. til 25. og 26. september. Aðrar Þverárréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 21. til 27. september. Leitardagar til þriðju rétta eru föstudag og laugardag sem falla á tímabilið 25. og 26. september til 1. og 2. október. Þriðju Þverárréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 27. september til 3. október. Hvítsíðingum er heimilt að smala heimalönd sem liggja sunnan Kjararár en norðan fjallgirðinga til Nesmelsréttar.
  9. Brekkurétt: Leitarsvæðið nær yfir öll afréttarlönd og heimalönd tilheyrandi Norðurárdal og Stafholtstungum fyrir vestan Sanddalsá og Norðurá allt að löndum Dalamanna og Borghreppinga að norðan og norðvestan. Leitardagur til fyrstu rétta er laugardagur sem fellur á tímabilið 12. til 18. september, þó er heimilt að smala Bjarnadal allt að viku fyrr ef nauðsyn krefur. Fyrstu Brekkuréttir eru sunnudag sem fellur á tímabilið 13. til 19. september. Leitardagur til annarra rétta er laugardagur sem fellur á tímabilið 26. september til 2. október, þó er heimilt að smala Bjarnadal allt að viku fyrr ef nauðsyn krefur. Aðrar Brekkuréttir eru sunnudag sem fellur á tímabilið 27. september til 3. október.
  10. Svignaskarðsrétt: Leitarsvæðið nær yfir öll afréttarlönd og heimalönd sem tilheyra Borgarhreppi og Borgarnesi. Leitardagar til fyrstu rétta eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 12. og 13. til 18. og 19. september. Fyrstu Svignaskarðsréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 14. til 20. september. Leitardagar til annarra rétta eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 26. og 27. september til 2. og 3. október. Aðrar Svignaskarðsréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 28. september til 4. október. Til þriðju Svignaskarðsrétta skal smala öll heimalönd á leitarsvæðinu laugardag og sunnudag sem falla á tímabilið 3. og 4. til 9. og 10. október. Þriðju Svignaskarðsréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 5. til 11. október. Þriðju leitir fara fram laugardag sem fellur á tímabilið 10. til 16. október.
  11. Grímsstaðarétt: Leitarsvæðið nær yfir öll afréttarlönd og heimalönd tilheyrandi Álftaneshreppi svo og fjalllendi Ytri-Hraundals. Leitardagar til fyrstu Grímsstaðarétta eru laugardagur og sunnudagur á tímabilinu 12. og 13. til 18. og 19. september. Fyrstu Grímsstaðaréttir eru þriðjudag sem fellur á tímabilið 15. til 21. september. Leitardagar til annarra rétta eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 26. og 27. september til 2. og 3. október. Aðrar Grímsstaðarréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 28. september til 4. október. Til þriðju Grímsstaðarétta skal smala öll heimalönd á leitarsvæðinu laugardag og sunnudag sem falla á tímabilið 3. og 4. til 9. og 10. október. Þriðju Grímsstaðaréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 5. til 11. október. Þriðju leitir fara fram laugardag sem fellur á tímabilið 10. til 16. október.
  12. Hítardalsrétt: Leitarsvæðið nær yfir öll afréttarlönd og heimalönd í Hraunhreppi að undanskildu fjalllendi Ytri-Hraundals. Leitardagar til fyrstu rétta eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 12. og 13. til 18. og 19. september. Fyrstu Hítardalsréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 14. til 20. september. Leitardagar til annarra rétta eru laugardagur og sunnudagur sem falla á tímabilið 26. og 27. september til 2. og 3. október. Aðrar Hítardalsréttir eru sunnudag sem fellur á tímabilið 27. september til 3. október. Til þriðju Hítardalsrétta skal smala öll heimalönd á leitarsvæðinu laugardag og sunnudag sem falla á tímabilið 3. og 4. til 9. og 10. október. Þriðju Hítardalsréttir eru mánudag sem fellur á tímabilið 5. til 11. október. Þriðju leitir skulu gerðar laugardag sem fellur á tímabilið 10. til 16. október.
  13. Kaldárbakkarétt: Leitarsvæði eru eftirtaldar jarðir (leigusvæði): Ytri-Skógar, Syðri-Skógar, Moldbrekka, Hítardalsvellir og Hróbjargarstaðir. Leitardagur til fyrstu rétta er laugardagur sem fellur á tímabilið 4. til 10. september. Kaldárbakkaréttir eru sunnudag sem fellur á tímabilið 5. til 11. september. Aðrar leitir fara fram laugardag sem fellur á tímabilið 26. september til 2. október og þriðju leitir fara fram laugardag sem fellur á tímabilið 17. til 23. október.
  14. Mýrdalsrétt: Leitarsvæðið eru heimalönd í Kolbeinsstaðahreppi. Leitardagar til fyrstu rétta eru laugardag og sunnudag í 22. viku sumars. Fyrstu Mýrdalsréttir eru þriðjudag í 22. viku sumars. Leitardagar til annarra rétta eru laugardagur og sunnudagur í 25. viku sumars. Aðrar Mýrdalsréttir eru sunnudag í 25. viku sumars.

Sveitarstjórnum er heimilt að gera þriðju leitir á öðrum tíma en tilgreindur er í þessari grein ef sérstök ástæða þykir til. Sveitarstjórnir skulu hafa samráð sín á milli þar um, svo að samtíma smölun verði sem minnst raskað. Heimilt er að hafa aukaréttir ef þurfa þykir.

Stjórn fjallskilaumdæmisins getur að tillögu sveitarstjórna breytt leitartíma og réttardögum ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Nú þykir nauðsyn bera til að leitir fari fram á öðrum tíma en hér er fyrir mælt. Geta þá sveitarstjórnir gert tillögu til stjórnar fjallskilaumdæmisins um breytingar. Breyting þessi má vera með eftirfarandi hætti:

  1. Leitartími breytist í öllu fjallskilaumdæminu.
  2. Leitartími breytist á svæði Mýrasýslu. 
  3. Leitartími breytist á svæðinu vestan Norðurár og Sanddalsár að Hítará. 
  4. Leitartími breytist á svæðinu austan Norðurár og Sanddalsár að Hvítá. 
  5. Leitartími breytist á svæði Borgarfjarðarsýslu. 
  6. Leitartími breytist á svæði Borgarfjarðarsýslu norðan Andakílsár og Skorradalsvatns. 
  7. Leitartími breytist á svæði Svarthamarsréttar. 
  8. Leitartími breytist á svæði Hornsréttar og Núparéttar. 
  9. Leitartími breytist á svæði Reynisréttar. 
  10. Leitartími breytist á svæðinu milli Hítarár og Haffjarðarár. 
  11. Stjórn fjallskilaumdæmisins getur gert annars konar breytingar á leitartíma séu sérstakar ástæður fyrir hendi. 

Eftirleitir fara fram samkvæmt ákvörðun sveitarstjórna hverju sinni. 

16. gr.

Sérhverjum umráðamanni lands ber að sjá til þess að búfé sem finnst í heimalandi hans að loknum skilaréttum berist eiganda. Sveitarstjórn getur látið smala landið sinni umráðamaður því ekki.

17. gr.

Við niðurjöfnun fjallskila skal skipa leitarstjóra, réttarstjóra og tvo marklýsingarmenn. Leitarstjórar skulu gæta þess að allir þeir sem eiga að leggja til menn í leitir, sendi svo marga fullgilda leitarmenn sem kveðið er á um á fjallskilaseðli. Leitarstjóri skal stjórna hverri leit og er leitarmönnum skylt að hlýða honum. Ef einhver sendir mann í leit sem leitarstjóri telur óhæfan eða vanbúinn, skal vísa honum heim aftur, og er þá sá er slíkan mann sendir, skyldur að borga eins og hann hafi engan sent og sekt að auki sem nemur hálfu mati verksins. Sama gildir um þann er sendir ófullgildan mann í útréttir. Leitarmenn skulu vera vel búnir í áberandi litum klæðnaði.

 

18. gr.

Nú þykir einhverjum niðurjöfnun fjallskila eigi rétt og vill fá leiðréttingu á henni. Þá ber honum eigi að síður að inna álögð fjallskil af hendi, en getur sent skriflega kæru til sveitarstjórnar fyrir októberlok næstu á eftir og beðið hana leiðréttingar. Sætti kærandi sig ekki við afgreiðslu sveitarstjórnar getur hann vísað málinu til stjórnar fjallskilaumdæmisins.

 

V. KAFLI

Um réttir.

19. gr.

Sveitarstjórnir skulu ábyrgjast að safngirðingar og skilaréttir séu í góðu ástandi. Nægjanlegt dilkrými sé fyrir alla þá sem fjárvon eiga í réttinni, einnig góð aðstaða til sundurdráttar og til að koma réttarfé á flutningstæki. Dilka skal merkja með greinilegum hætti.

 

20. gr.

Landeigendum er skylt að leggja til land undir skilaréttir og safngirðingar. Gerður skal skriflegur samningur við landeiganda og skal greiða afgjald af landinu.

 

21. gr.

Réttarstjóri skal sjá um að réttarstörf fari vel og skipulega fram og skulu allir sem vinna við réttarhaldið hlíta fyrirmælum hans í hvívetna.

 

22. gr.

Enginn má marka eða merkja kind á eyra í skilarétt, nema með leyfi réttarstjóra. Ekki má taka fé úr dilkum án leyfis réttarstjóra.

 

23. gr.

Ómerkinga skal láta í sérstakan dilk og hleypa þangað ám, sem líkur eru á að lamb vanti undir. Þá ómerkinga sem af ganga skal farið með eftir gildandi reglum. Kindur sem ekki er hægt að greina mark eða merki á skal farið með sem ómerkinga. Andvirði þeirra kinda sem enginn sannar eignarrétt sinn á rennur í fjallskilasjóð. Leitast skal við að auðkenna ómerkinga og mæður sem finnast í leitum, ef tök eru á.

 

24. gr.

Skilamenn sem sendir eru í útréttir skulu skila sauðfé sem þeir flytja úr réttum samkvæmt fyrirmælum.

 

VI. KAFLI

Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.

25. gr.

Ómerkingar og óskilafé sem kemur fyrir í réttum og ekki finnast eigendur að, skal réttarstjóri sjá um að koma í sláturhús svo fljótt sem kostur er. Áður en slíku fé er lógað skal skrifa nákvæma lýsingu á því þar sem getið er marks og annarra einkenna, sem eigendur gætu helgað sér það eftir. Óskilafé sem fram kemur eftir réttir skal fara með á sama hátt. Annan óskilapening, svo sem hross og nautgripi, skal sýslumaður selja á opinberu uppboði.

 

26. gr.

Sýslumaður skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um förgun óskilafjár, eða um sölu ef um óskilahross eða nautgripi er að ræða með 4 vikna innlausnarfresti frá birtingu. Skal í tilkynningu greint mark og auðkenni hverrar skepnu, eftir því sem kostur er, og skorað á eigendur að gefa sig fram innan tilskilins tíma.

 

27. gr.

Af innleggsverði ómerkinga og annars óskilafjár sem og andvirði seldra hrossa og nautgripa greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðast eiganda enda sanni hann eignarrétt sinn innan tiltekins tíma, ella í fjallskilasjóð þeirrar fjallskiladeildar þar sem óskilapeningurinn fannst.

 

VII. KAFLI

Um mörk og markaskrár.

28. gr.

Búfé skal draga eftir mörkum og er búfjáreiganda skylt að hafa glöggt mark á búfé sínu. Búfjármörk eru: Örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Mark helgar markeiganda eignarrétt nema sannist að annar eigi. Enginn má draga sér búpening sem eigi ber hans rétta mark. Við sönnun eignar er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Bæði lömb og ásett fé er skylt að merkja með lituðu plötumerki skv. reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár.

Um fjármörk, merkingar á búfé og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum og reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998, með síðari breytingum.

29. gr.

Svæðismerki skulu vera þessi:

Fyrir Hvalfjarðarstrandarhrepp:
Fyrir Innri-Akraneshrepp:
Fyrir Skilmannahrepp:
Fyrir Leirár- og Melahrepp:
Fyrir Andakíl:
Fyrir Skorradalshrepp:
Fyrir Lundarreykjadal:
Fyrir Reykholtsdal:
Fyrir Hálsasveit:
Fyrir Akraneskaupstað:
Fyrir Hvítársíðu:
Fyrir Þverárhlíð:
Fyrir Norðurárdal:
Fyrir Stafholtstungur:
Fyrir Borgarhrepp:
Fyrir Álftaneshrepp:
Fyrir Hraunhrepp:
Fyrir Borgarnes:
Fyrir Kolbeinsstaðahrepp:

B1.
B2.
B3.
B4.
B5.
B6.
B7.
B8.
B9.
AK.
M1.
M2.
M3.
M4.
M5.
M6.
M7.
M8.
SH1.

Um fjármörk, merkingar á búfé og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum og reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998, með síðari breytingum.

Stjórn fjallskilaumdæmisins skal láta gefa út markaskrá og semja fjárhagsáætlun fyrir hana. Skal hver markeigandi koma marki sínu í hana. Stjórn fjallskilaumdæmisins ákveður greiðslu fyrir hvert mark, en markeigandi fær eintak af markaskránni. Stjórn fjallskilaumdæmisins skal sjá um að nægilega mörg eintök af markaskránni séu send til allra sveitarfélaga utan svæðis sem fjársamgöngur eru við.

Gjald það er stjórn fjallskilaumdæmisins ákveður fyrir mörkin skal ætíð vera svo hátt að nægi fyrir kostnaði við markasöfnun, umsjón með skrásetningu og útgáfu markaskrár.

Markavarsla fjallskilaumdæmisins getur geymt mark sem markeigandi tilkynnir ekki til prentunar í markaskrá með því að prenta það í skrána og leyfa öðrum í umdæminu að taka það upp þegar átta ár eru liðin, eða fyrr með samþykki fyrri eiganda. Hafi markavarsla geymt mark lengur en átta ár fellur aldursréttur þess niður.

30. gr.

Stjórn fjallskilaumdæmisins ræður markavörð/-verði til að hafa umsjón með upptöku nýrra marka og að búa markaskrá undir prentun. Markeiganda er skylt að tilkynna mark sitt til prentunar í markaskrá.

VIII. KAFLI

Um ágang búfjár o.fl.

31. gr.

Verði mikil brögð að ágangi búfjár úr afrétti í heimahaga, getur sá er fyrir verður gert sveitarstjórn viðvart. Sé ágangur verulegur eða óeðlilegur að mati sveitarstjórnar skal hún skipa fyrir um smölun ágangsfénaðar og rekstur eða flutning til afréttar eða skilaréttar.

32 . gr.

Nú verður ágangur búfjár úr einu heimalandi í annað. Má þá sveitarstjórn láta smala ágangsfénaði og koma honum þangað sem hann á að vera á kostnað umráðamanns.

33. gr.

Sé ágangspeningur settur í hald skal þess gætt að vel fari um hann.

34. gr.

Með mál sem varða ítölu og verndun beitilands skal farið eins og sagt er í III. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, með síðari breytingum.

IX. KAFLI

Um hross.

35. gr.

Sérhver hrossaeigandi er skyldur að hafa viðurkennt búfjármark á hrossum sínum.

36. gr.

Sveitarstjórn getur heimilað að hross séu rekin í afrétt. Skal þeim þá smalað til annarrar skilaréttar.

X. KAFLI

Almenn ákvæði.

37. gr.

Skylt er að fara vel með allt búfé. Forðast skal að ofbjóða kröftum þess og þoli. Ef fé er haft í haldi skal sjá því fyrir fóðri og vatni.

38. gr.

Stjórn fjallskilaumdæmisins sker úr öllum ágreiningi milli sveitarstjórna um fjallskil. Undir úrskurð hennar heyra líka allar kærur og kröfur á hendur sveitarstjórnum er snerta fjallskil. Ennfremur geta einstakir aðilar lagt slík mál undir úrskurð stjórnar fjallskilaumdæmisins.

39. gr.

Brot gegn ákvæðum þessarar samþykktar varða sektum, sbr. 70. gr. laga nr. 6/1986 um afréttarmálefni, fjallskil o.fl.,nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum refsiheimildum. Sektir renna í fjallskilasjóð eða sveitarsjóð þess leitarsvæðis, sem brotið er framið í. Mál sem rísa út af brotum á samþykkt þessari, skal fara með að hætti sakamála.

40. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórnir Akraneskaupstaðar, Borgarbyggðar, Hvalfjarðarsveitar og Skorradalshrepps hafa samþykkt staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. ásamt síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnfram fellur úr gildi fjallskilasamþykkt fyrir Borgarfjarðarsýslu og Akraneskaupstað nr. 110/2006, fjallskilasamþykkt Mýrasýslu nr. 360/1992 og fjallskilasamþykkt fyrir umdæmi sýslumanns Snæfellinga nr. 791/2012.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 14. júlí 2015.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Ólafur Friðriksson.

Rebekka Hilmarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 28. júlí 2015