Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 550/2023

Nr. 550/2023 6. júní 2023

REGLUR
um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda.

1. gr.

Gildissvið og markmið.

Reglur þessar gilda um samninga um fasteignalán sem lánveitendur gera í atvinnuskyni við neytendur, sbr. 2. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda, með þeim takmörkunum sem greinir í 3. gr. sömu laga. Reglurnar gilda ekki um samninga um fasteignalán sem er ráðstafað að fullu til uppgreiðslu eldra fasteignaláns eða -lána ásamt lántökukostnaði sökum greiðsluerfiðleika neytenda, sem kann að hækka höfuðstól láns.

Markmið reglna þessara er að varðveita fjármálastöðugleika og treysta viðnámsþrótt lánveitenda og lántaka gagnvart ójafnvægi á húsnæðismarkaði.

 

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglum þessum merkir:

  1. Fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign: Veiting fasteignaláns til neytanda sem ekki hefur áður verið þinglýstur eigandi íbúðarhúsnæðis.
  2. Lánveitandi: Með lánveitanda er í reglum þessum átt við lánveitanda eins og hann er skilgreindur í lögum nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.
  3. Markaðsverð fasteignar: Virði fasteignar samkvæmt kaupsamningi eða samþykktu kaup­tilboði. Liggi kaupsamningur eða samþykkt kauptilboð ekki fyrir skal notast við fast­eigna­mat eða brunabótamat Þjóðskrár Íslands eða verðmat löggilts fasteignasala, í sam­ræmi við út­lána­reglur lánveitanda.
  4. Veðsetningarhlutfall: Hlutfall veðsetningar fasteignar af markaðsverði hennar, lýst sem hundraðs­hluta og reiknað út í samræmi við ákvæði 25.-26. gr. laga nr. 118/2016 um fast­eigna­lán til neytenda og reglur þessar.

Hugtökin fasteign og fasteignalán ná í reglum þessum einungis til lánveitinga vegna íbúð­ar­húsnæðis, sbr. a-lið 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.

 

3. gr.

Hámark veðsetningarhlutfalls.

Hámark veðsetningarhlutfalls þegar fasteignalán er veitt skal vera 80% af markaðsverði fast­eignar. Hámarkið skal þó vera 85% þegar um er að ræða fjármögnun kaupa á fyrstu fasteign. Ef aðeins hluti eigenda hefur ekki áður verið þinglýstur eigandi íbúðar­húsnæðis skal hámarkið ákvarðast með eftirfarandi hætti:

 

 Jafna fyrir hámark veðsetningarhlutfalls

 

þar sem n er fjöldi eigenda sem ekki hafa áður verið þinglýstir eigendur íbúðarhúsnæðis og m er heildarfjöldi eigenda viðkomandi íbúðarhúsnæðis.

 

4. gr.

Gagnaskil.

Lánveitandi skal senda Seðlabanka Íslands skýrslu til að unnt sé að sannreyna að kröfur sam­kvæmt reglum þessum séu uppfylltar. Skýrsluna skal senda á því formi og með þeirri tíðni sem Seðla­bankinn ákveður, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

5. gr.

Viðurlög.

Brot á reglum þessum geta varðað stjórnvaldssektum, sbr. 57. gr. laga nr. 118/2016 um fast­eigna­lán til neytenda.

 

6. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 25.-26. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda og hafa verið samþykktar af fjármálastöðugleikanefnd, öðlast þegar gildi og gilda um samninga um fasteignalán sem gerðir eru eftir gildistöku þeirra. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 702/2022 um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána til neytenda.

 

Seðlabanka Íslands, 6. júní 2023.

 

  Ásgeir Jónsson Haukur C. Benediktsson
  seðlabankastjóri. framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 7. júní 2023