Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 130/2017

Nr. 130/2017 10. febrúar 2017

AUGLÝSING
um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja.

1. gr.

Gildissvið.

Í samræmi við 16. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki, með síðari breytingum og ákvæði Nice-samningsins frá 15. júní 1957 um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vöru­merkja, með síðari breytingum, gildir eftirfarandi flokkaskrá fyrir vörur og þjónustu vegna skrán­ingar vörumerkja. Flokkaskráin er birt sem fylgiskjal með auglýsingu þessari.

Flokkaskráin er í samræmi við 11. útgáfu alþjóðlegu skrárinnar um flokkun vöru og þjónustu við skráningu vörumerkja samkvæmt Nice-samningnum sem tók gildi 1. janúar 2017 og þær breyt­ingar sem átt hafa sér stað frá þeim tíma. Flokkaskráin er uppfærð með rafrænum hætti um hver áramót.

2. gr.

Breytingar þann 1. janúar 2017.

Eftirfarandi breytingar urðu á yfirskriftum flokkaskrárinnar þann 1. janúar 2017.

  1. Flokkur 3: Tilgreiningunni „sápur“ var breytt í „lyflausar sápur“, tilgreiningunni „snyrtivörur“ var breytt í „lyflausar snyrtivörur“, tilgreiningunni „hárvötn“ var breytt í „lyflaus hárvötn“ og tilgreiningunni „tannhirðuvörur“ var breytt í „lyflausar tannhirðuvörur“.
  2. Flokkur 6: Tilgreiningin „málmgrýti“ var færð í fyrsta málslið. Tilgreiningunni „byggingarefni úr málmi“ var breytt í „byggingar- og smíðaefni úr málmi“. Tilgreiningarnar „málmefni í járnbrautarspor“, „járnvörur“ og „pípur og hólkar úr málmi“ voru felldar brott. Tilgrein­ing­unni „málmgámar til geymslu eða flutninga“ var bætt við á undan „öryggis­skápar“.
  3. Flokkur 10: Bætt var við tilgreiningunum „lækninga- og hjálpartæki ætluð fötluðum; nudd­tæki; búnaður, tæki og hlutir til hjúkrunar ungbarna; búnaður, tæki og hlutir til kynlífs­athafna“.
  4. Flokkur 14: Tilgreiningunni „og hálfeðalsteinar“ var bætt við „eðalsteinar“.
  5. Flokkur 16: Tilgreiningunni „og skrifstofuvörur, þó ekki húsgögn“ var bætt við tilgreininguna „ritföng“. Tilgreiningunni „og teiknivörur“ var bætt við tilgreininguna „vörur fyrir listamenn“. Tilgreiningin „ritvélar og og skrifstofutæki (þó ekki húsgögn)“ var felld brott. Tilgreiningin „(þó ekki tæki)“ var felld brott úr tilgreiningunni „fræðslu- og kennslugögn“. Tilgreiningunni „plastefni til pökkunar“ var breytt í „plastþynnur, -filmur og -pokar til umbúða og pökkunar“. Komma í stað semíkommu kom á eftir „leturstafir“.
  6. Flokkur 17: Tilgreiningunni „hálfunnið þanið plast til iðnaðarnota“ var breytt í „hálfunnið þanið plast og kvoða til iðnaðarnota“. Tilgreiningunni „sveigjanlegar pípur sem ekki eru úr málmi“ var breytt í „sveigjanlegar pípur, rör og slöngur sem ekki eru úr málmi“.
  7. Flokkur 18: Í enskri útgáfu flokkaskrárinnar var gerð sú breyting að „and“ kom í stað kommu í tilgreiningunni „animal skins, hides“. Orðið „og“ er nú þegar í íslenskri útgáfu flokka­skrárinnar og er því ekki þörf á breytingu. Tilgreiningin „ferðakoffort og ferðatöskur“ var felld brott og í staðinn kom „farangurs- og handtöskur“. Á eftir „reiðtygi“ kom „hálsólar, taumar og fatnaður fyrir dýr“.
  8. Flokkur 20: Á eftir tilgreiningunni „myndarammar“ kom „ílát, ekki úr málmi, til geymslu eða flutninga“. Tilgreiningin „fílabein“ var felld brott.
  9. Flokkur 21: Svigi um „nema málningarpenslar“ var felldur brott. Tilgreiningin „stálull“ var felld brott. Tilgreiningin „óunnið eða hálfunnið gler (þó ekki gler notað við byggingar)“ varð „óunnið eða hálfunnið gler, þó ekki gler í byggingar“.
  10. Flokkur 22: Tilgreiningin „segldúkar“ var felld brott. Á eftir tilgreiningunni „tjöld og yfir­breiðslur“ kom „ofnir segldúkar eða úr gerviefnum“. Tilgreiningunni „sekkir“ var breytt í „sekkir til flutninga og geymslu efna í lausri vigt“. Tilgreiningunni „bólstrunarefni og tróð (nema úr pappír, pappa, gúmmíi eða plasti)“ var breytt í „bólstrunar-, fylliefni og tróð, nema úr pappír, pappa, gúmmíi eða plasti“. Tilgreiningunni „og efni sem komið geta í stað þeirra“ var bætt við „óunnin efni úr þræði til vefnaðar“.
  11. Flokkur 24: Tilgreiningarnar „rúmteppi; borðdúkar“ voru felldar brott og í stað þeirra komu tilgreiningarnar „lín til heimilisnota; ofin gluggatjöld eða úr plasti“.
  12. Flokkur 26: Á eftir tilgreiningunni „gerviblóm“ komu tilgreiningarnar: „hárskraut; gervihár“.
  13. Flokkur 28: Í ensku útgáfu flokkaskrárinnar var tilgreiningunni „toys“ bætt við tilgreininguna „games and playthings“ sem í íslenskri þýðingu hefur verið „leikspil og leikföng“. Með til­komu tilgreiningarinnar „toys“ verður íslenska tilgreiningin „leikspil, leikföng og hlutir til leikja“ og var tilgreiningunni „tæki til skjáleikja“ bætt við á eftir henni.
  14. Flokkur 31: Tilgreiningin „landbúnaðar-, garðræktar og skógræktarafurðir“ varð „óunnar og unnar landbúnaðar-, lagareldis-, garðræktar- og skógræktarafurðir“. Á eftir tilgreiningunni „ferskir ávextir og grænmeti“ kom „ferskar kryddjurtir“. Á eftir tilgreiningunni „lifandi plöntur og blóm“ kom „laukar, græðlingar og fræ til gróðursetningar“. Tilgreiningunni „dýrafóður“ var breytt í „dýrafóður og drykkjavörur ætlaðar dýrum“.
  15. Flokkur 45: Tilgreiningunni „öryggisþjónusta til verndar einstaklingum og eignum“ var breytt í „öryggisþjónusta til líkamlegrar verndar einstaklingum og til verndar áþreifanlegum eign­um“.

Auk framangreindra breytinga urðu breytingar á tilgreiningum ýmissa vara og þjónustu sem falla undir yfirskriftir flokkanna. Þær eru aðgengilegar á vefsíðu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO).

3. gr.

Leiðréttingar.

Auk breytinga þeirra sem tilgreindar eru í 2. gr. þykir rétt að gera eftirfarandi leiðréttingar:

  1. Flokkur 10: Í ensku útgáfu flokkaskrárinnar var „orthopedic“ leiðrétt í „orthopaedic“. Sú leiðrétting hefur ekki áhrif á íslensku þýðingu skrárinnar.
  2. Flokkur 14: Tilgreiningin „precious“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar hefur verið þýdd sem „gimsteinar“. Réttara þykir að þýða tilgreininguna sem „eðalsteinar“.
  3. Flokkur 16: Tilgreiningunni „instructional and teaching material“ í ensku útgáfu flokka­skrárinnar var breytt í fleirtölu (e. materials) en það hefur ekki áhrif á íslensku þýðing­una.
  4. Flokkur 21: Réttara þykir að þýða orðið „sponges“ í ensku útgáfu flokkaskrárinnar sem „svampar“ í stað „þvottasvampar“.

4. gr.

Nánari tilgreining á yfirskriftum flokka við endurnýjun vörumerkja.

Í samræmi við ákvörðun Einkaleyfastofunnar um þrengri túlkun á yfirskriftum flokkaskrárinnar frá 1. janúar 2014, er heimilt við fyrstu endurnýjun merkis að tilgreina nánar þá vöru og/eða þjónustu sem merki er skráð fyrir. Tilgreining skal vera í samræmi við þá útgáfu alþjóðlegu flokkaskrárinnar sem er í gildi hverju sinni. Útvíkkun á vernd er ekki heimil.

Við endurflokkun þá sem heimil er skv. 1. mgr. skal þess gætt að tilgreiningar séu skýrar og nákvæmar. Leitast skal við að velja einungis þær tilgreiningar sem varða starfsemi eiganda.

Það er á ábyrgð eigenda eða umboðsmanna þeirra að tilgreina nánar vöru og/eða þjónustu við endur­nýjun í samræmi við ákvæði þetta. Telji Einkaleyfastofan tilgreiningar ekki fullnægjandi er veittur frestur til að lagfæra umsóknina í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 45/1997 um vöru­merki.

Frá gildistöku þessarar auglýsingar og til 1. júlí 2017 er unnt að óska eftir endurupptöku ákvarðana sem hafa verið teknar af Einkaleyfastofunni frá 1. janúar 2014 um endurflokkun við endurnýjun. Beiðnum þess efnis skal beint til Einkaleyfastofunnar.

5. gr.

Gildistaka og brottfall.

Auglýsing þessi gildir frá og með 1. janúar 2017. Jafnframt fellur úr gildi auglýsing um flokkun vöru og þjónustu vegna vörumerkja nr. 311/2016.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 10. febrúar 2017.

F. h. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra,

Sigrún Brynja Einarsdóttir.

Elísabet Anna Jónsdóttir.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 15. febrúar 2017