Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 587/2018

Nr. 587/2018 23. maí 2018

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn og fundarsköp Norðurþings, nr. 170/2016.

1. gr.

Önnur málsgrein 8. gr. samþykktarinnar verður svohljóðandi:

Aukafundi skal halda í sveitarstjórn þegar forseti sveitarstjórnar eða sveitarstjóri telur það nauð­syn­legt eða ef a.m.k. þriðjungur sveitarstjórnarmanna krefst þess, enda geri þeir grein fyrir ástæðum og fundarefni.

2. gr.

Í stað „51. gr.“ í 3. mgr. 10. gr. samþykktarinnar kemur: 52. gr.

3. gr.

Úr 1. mgr. 23. gr. samþykktarinnar falla orðin „sitja hjá eða“.

4. gr.

Fyrsta málsgrein 26. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Sveitarstjórn skal á fyrsta fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kjósa þrjá sveitar­stjórnar­fulltrúa í byggðarráð til eins árs og jafnmarga til vara. Aðalmenn í byggðarráði skulu koma úr hópi aðalmanna í sveitarstjórn. Varamenn skal einnig velja úr hópi aðalfulltrúa í sveitar­stjórninni. Heimilt er þó að ákveða að aðalfulltrúar og varafulltrúar af sama framboðslista og hinn kjörni byggðar­ráðs­maður verði varamenn hans í þeirri röð sem þeir skipuðu listann þegar kosið var til sveitar­stjórnar.

5. gr.

Fyrri málsl. 28. gr. samþykktarinnar orðast svo: Byggðarráð skal að jafnaði halda fund á fimmtu­dögum og eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði.

6. gr.

Síðari málsl. 3. mgr. 30. gr. samþykktarinnar orðast svo: Um ritun fundargerða byggðarráðs og varð­veislu þeirra gilda sömu reglur og um ritun fundargerða sveitarstjórnar, sbr. m- og n-lið 15. gr.

7. gr.

Í stað 1.-4. mgr. 31. gr. samþykktarinnar koma þrjár nýjar málsgreinar, sem orðast svo:

Byggðarráð ásamt sveitarstjóra fer með framkvæmdastjórn og fjármálastjórn sveitarfélagsins. Byggðar­ráð hefur jafnframt umsjón og eftirlit með stjórnsýslu Norðurþings, rekstri fyrirtækja sveitar­félagsins, málefni er varða upplýsingarétt skv. upplýsingalögum nr. 140/2012 og málefni sem falla undir stjórnir byggðasamlaga eða annarra fyrirtækja sem Norðurþing á aðild að. Fundar­gerðir þeirra skulu lagðar fyrir byggðarráð.

Byggðarráð hefur umsjón með þjónustu- og upplýsingatæknimálum, nýsköpunar- og atvinnu­málum, almanna- og brunavörnum að því leyti sem almannavarnir eru ekki annars á forræði héraðs­nefndar Þingeyinga bs., og öðrum þeim verkefnum sem öðrum ráðum eru ekki sérstaklega falin.

Byggðarráð semur drög að árlegri starfsáætlun og fjárhagsáætlun sveitarsjóðs og viðaukum við hana, stofnana hans og fyrirtækja að fengnum tillögum hlutaðeigandi ráða og stjórna og leggur þau fyrir sveitarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Þá sér byggðarráð um að ársreikningar sveitarfélagsins séu samdir reglum samkvæmt og lagðir fyrir sveitarstjórn til meðferðar og afgreiðslu.

8. gr.

Fyrsti tölul. 32. gr. samþykktarinnar fellur brott, aðrir tölul. breytast til samræmis.

9. gr.

Við 2. mgr. 34. gr. samþykktarinnar bætist nýr málsl. sem verður 1. málsl. og orðast svo: Formenn nefnda og meirihluti nefndarmanna fastanefndanna skulu vera aðalmenn í sveitarstjórn.

10. gr.

38. gr. samþykktarinnar ber fyrirsögnina Fundartími fastanefnda og orðast svo:

Fastanefndir sveitarfélagsins skulu að jafnaði halda fundi á mánudögum eða þriðjudögum og eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Aukafundi skal halda eftir þörfum að ákvörðun formanns eða ef sveitar­stjóri eða a.m.k. þrír nefndarmenn óska þess. Fundir fastanefnda skulu að jafnaði ekki standa lengur en 2 klst. í senn.

11. gr.

Við 1. mgr. 41. gr. samþykktarinnar bætist nýr málsl. sem verður 2. málsl. og orðast svo: Sveitar­stjórn skal setja viðmið um opna fundi í stjórnkerfi sveitarfélagsins.

12. gr.

Við 45. gr. samþykktarinnar bætist ný mgr. sem orðast svo:

Breytingar á nefndaskipan samkvæmt þessari grein skulu fullnægja skilyrðum 2. tölul. 44. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 45. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, um kynjahlutföll.

13. gr.

46. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Framboð sem hefur fulltrúa í sveitarstjórn og á ekki kjörinn fulltrúa í fastanefnd skal hafa einn áheyrnarfulltrúa í fastanefndinni og annan til vara til þátttöku í fundum nefndarinnar. Áheyrnar­fulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi skulu fullnægja kjörgengisskilyrðum í fastanefnd.

Um áheyrnarfulltrúa í öðrum nefndum en fastanefndum fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar. Áheyrnar­fulltrúi og varaáheyrnarfulltrúi skulu fullnægja kjörgengisskilyrðum í viðkomandi nefnd.

Um áheyrnarfulltrúa á fundum nefnda og annarra stjórna og ráða gilda sömu þagnarskylduákvæði laga og eiga við um aðra nefndarmenn.

14. gr.

52. gr. samþykktarinnar orðast svo:

Fastanefndir, aðrar nefndir, stjórnir og ráð sem sveitarfélagið á aðild að.

Sveitarstjórn kýs í eftirfarandi nefndir, stjórnir og ráð. Sveitarstjórn getur sett fastanefndum sínum erindisbréf eða samþykkt þar sem verkefnum þeirra er lýst nánar. Sveitarstjórn kýs formenn og varaformenn nefnda skv. A- og B-lið:

A. Til eins árs:

Á fundi í júní ár hvert:

 1. Forseti sveitarstjórnar.
 2. Fyrsti varaforseti sveitarstjórnar.
 3. Annar varaforseti sveitarstjórnar.
 4. Byggðarráð. Þrír sveitarstjórnarfulltrúar sem aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 26. gr. þessarar samþykktar og 36. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

B. Fastanefndir kosnar til fjögurra ára:

Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum:

 1. Fjölskyldusvið Norðurþings.
  1.1 Fjölskylduráð. Fimm aðalmenn og fimm til vara. Formaður fjölskylduráðs skal vera aðal­­maður í sveitarstjórn. Nefndin fer með verkefni jafnréttisnefndar samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, verkefni hús­næðis­nefndar samkvæmt lögum um húsnæðismál nr. 44/1998, verkefni félags­mála­nefndar og þar með málefni félags­þjónustu eins og þau eru skilgreind í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, jafnframt umsjón með daggæslu í heima­húsum á grunni laga um félagsþjónustu, málefnum fatlaðra samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 og með öldrunarmálum samkvæmt lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999. Ráðið sinnir verkefnum skólanefndar samkvæmt lögum um grunnskóla nr. 91/2008, verkefni leikskóla samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, verkefni tónlistarskóla samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985, verkefni fram­halds­skóla samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga um fram­halds­skóla nr. 92/2008 auk samstarfs við menntastofnanir, fullorðinsfræðslu og endur­menntun.
    Nefndin annast stefnumótun í íþrótta-, tómstunda-, forvarna-, æskulýðs- og menn­ingar­­málum. Nefndin skal stuðla að virku íþrótta- og æskulýðsstarfi og virkja félags­auðinn í sveitar­félaginu. Nefndin ber ábyrgð á samskiptum við þá aðila sem vinna að menn­ingar­málum í sveitarfélaginu. Nefndinni ber að vinna að undirbúningi viðburða og hátíða í sam­vinnu við hagsmunaaðila. Nefndin skal taka ákvarðanir og gera til­lögur til sveitarstjórnar um málefni á verksviði sínu. Jafnframt hefur nefndin eftir­lit með að samþykktum og stefnu­mörkun á verksviði nefndarinnar sé fylgt. Auk ofan­greindra verkefna getur sveitarstjórn falið nefndinni ýmis verkefni með erindis­bréfum.
 2. Skipulags- og framkvæmdasvið Norðurþings.
  2.1 Skipulags- og framkvæmdaráð. Fimm aðalmenn og fimm til vara. Formaður skipu­lags‑ og framkvæmdaráðs skal vera aðalmaður í sveitarstjórn. Ráðið fer með hlutverk skipulags­nefndar sem henni eru falin samkvæmt 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ráðið skal móta stefnu sveitarfélagsins varðandi skipulags- og byggingarmál, sem og náttúru­vernd og umhverfismál. Ráðið fer með málefni sem tengjast framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins. Skipulags- og framkvæmdaráð tilnefnir tvo fulltrúa í svæðis­skipulagsnefnd háhitasvæða í Þingeyjarsýslum. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitar­félagsins skal kynna afgreiðslur sínar til skipulags- og framkvæmdaráðs. Ráðið fer með málefni tengd eignum sveitar­félagsins, samgöngumál og umferðaröryggi skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Nefndin fer jafnframt með málefni Slökkvi­liðs Norður­þings í samræmi við lög um brunavarnir nr. 75/2000. Nefndin fer einnig með málefni sem varða sorpmál sveitarfélagsins. Ráðið skal fara með hlutverk hafnar­stjórnar samkvæmt hafnalögum nr. 61/2003 og starfar eftir reglu­gerð um hafnir Norður­þings nr. 177/2011. Auk ofangreindra verkefna getur sveitarstjórn falið nefndinni ýmis verkefni með erindisbréfum.

C. Fulltrúar í aðrar nefndir, ráð og stjórnir og embættismenn kjörnir til fjögurra ára á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum:

 1. Hverfisráð Norðurþings í Reykjahverfi, Kelduhverfi, Öxarfirði og á Raufarhöfn. Þrír aðalmenn og tveir til vara í hvert ráð. Hverfisráð starfa eftir sérstakri samþykkt.
 2. Öldungaráð Norðurþings. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara. Öldungaráð starfar eftir sérstakri samþykkt.
 3. Ungmennaráð Norðurþings. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Ungmennaráð starfar eftir sérstakri samþykkt.
 4. Yfirkjörstjórn. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og 15. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000. Þá kýs sveitar­stjórn í undirkjörstjórnir I, II, III, IV og V þrjá aðalmenn í hverja og jafnmarga til vara. Yfirkjörstjórn skal kjörin á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar en heimilt er að kjósa undirkjörstjórnir síðar.
 5. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aðal- og varamenn skv. 4. gr. laga sam­bands­ins.
 6. Eyþing, samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu. Fulltrúar á aðalfund Eyþings skv. IV. kafla samþykktar sambandsins frá 30. ágúst 1996, aðalmenn og varamenn.
 7. Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra. Einn aðalmaður og annar til vara tilnefndir af sveitarstjórn skv. 2. gr. samstarfssamnings um skipan heilbrigðisnefndar og rekstur heil­brigðis­eftirlits frá 2002.
 8. Héraðsnefnd Þingeyinga. Aðalmenn og varamenn skv. 6. gr. samþykktar nefndarinnar.
 9. Stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Þrír aðalmenn og þrír til vara. Nefndin annast málefni þeirra safna sem falla undir Safnahúsið á Húsavík ásamt rekstri bókasafna Norður­þings. Aðrir eignaraðilar kjósa fjóra fulltrúa.
 10. Dvalarheimili aldraðra sf. í Þingeyjarsýslu. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara til setu á aðalfundi skv. 6. gr. samþykktar dvalarheimilisins frá 5. maí 1998.
 11. Stjórn Menningarsjóðs þingeyskra kvenna, skv. 6. gr. skipulagsskrár sjóðsins.
 12. Félagsheimilisnefnd Heiðarbæjar. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 2. gr. starfs­reglna félagsheimilisins.
 13. Starfsmenntunarsjóður STH. Einn aðalmaður og annar til vara samkvæmt grein 12.4.1 í kjarasamningi við Starfsmannafélag Húsavíkur (1997). Starfsmannafélagið kýs tvo fulltrúa.
 14. Starfskjaranefnd STH. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara samkvæmt sérákvæði 16.12 í kjarasamningi við Starfsmannafélag Húsavíkur (1997). Starfsmannafélagið kýs tvo fulltrúa í nefndina.
 15. Kjaranefnd stéttarfélagsins Framsýnar. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara samkvæmt grein 14.1.1 í kjarasamningi við Framsýn sem kýs tvo fulltrúa.
 16. Sveitarstjórn skal í samráði við landeigendur í viðkomandi fjallskiladeild skipa einn mann í hverja fjallskiladeild sveitarfélagsins samkvæmt fjallskilasamþykkt fyrir svæðið austan Vaðlaheiðar. Deildirnar eru: Reykjahverfisdeild: Skógarrétt. Húsavíkurdeild: Húsavíkurrétt, Kelduhverfingadeild: Tjarnarleitisrétt. Öxarfjarðardeild: Tungurétt, Sandfellshagarétt og Lands­rétt. Núpasveitardeild: Katastaðarétt. Sléttudeild: Leirhafnarrétt.
 17. Barnaverndarnefnd Þingeyinga. Tveir aðalmenn og jafnmarga til vara, samkvæmt 2. mgr. 10. gr., sbr. 87. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

D. Fulltrúar í aðrar nefndir, ráð og stjórnir og embættismenn kjörnir til mismunandi tíma samkvæmt ákvæðum í viðkomandi lögum, reglum eða samþykktum:

 1. Skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík. Tveir aðalmenn og jafnmargir til vara tilnefndir af sveitarstjórn skv. 6. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Menntamálaráðherra skipar skóla­nefndina til fjögurra ára í senn (fyrsta skipun 1996) og er hún skipuð fimm fulltrúum og jafnmörgum til vara.
 2. Fulltrúaráð Brunabótafélags Íslands. Einn aðalmaður og annar til vara kjörinn ári eftir sveitarstjórnarkosningar, sbr. 9. gr. laga um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, nr. 68/1994. Kjörtímabil er fjögur ár, sbr. 10. gr. laga nr. 68/1994.
 3. Dettifossnefnd. Einn aðalmaður og einn til vara skv. auglýsingu nr. 457/1996 um náttúru­vætti í Jökulsárgljúfrum.
 4. Gljúfranefnd. Einn aðalmaður og einn til vara skv. reglugerð nr. 929/2005 og nr. 359/1993 um málefni Þjóðgarðsins.

E. Verkefnabundnar nefndir:

Sveitarstjórn og ráð geta skipað nefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils sveitarstjórnar eða fyrr ef verki nefndarinnar er lokið. Sveitarstjórn getur afturkallað umboð slíkrar nefndar hvenær sem er.

15. gr.

7. mgr. 53. gr. samþykktarinnar færist upp og verður 1. mgr.

16. gr.

Í stað orðsins „félagsmálanefndar“ í d-lið 1. mgr. 56. gr. samþykktarinnar kemur: fjölskylduráðs.

17. gr.

Fyrri málsl. b-liðar 57. gr. samþykktarinnar orðast svo: Sveitarstjórnarfulltrúi getur með formlegri og rökstuddri tillögu óskað þess að ákvörðun nefndar eða embættismanns verði tekin á dagskrá sveitarstjórnar.

18. gr.

Samþykkt þessi sem sveitarstjórn Norðurþings hefur sett skv. 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast gildi 10. júní 2018.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 23. maí 2018.

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Ólafur Kr. Hjörleifsson.


B deild - Útgáfud.: 6. júní 2018