Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 232/2021

Nr. 232/2021 15. febrúar 2021

SAMÞYKKT
um breytingu á samþykkt um stjórn Hvalfjarðarsveitar, nr. 554/2013, með síðari breytingum.

1. gr.

40. gr. samþykktarinnar breytist og verður svohljóðandi:

Sveitarstjórn kýs fulltrúa í eftirtaldar nefndir, ráð, stjórnir og embætti á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum:

A-hluti. Fastanefndir.

  1. Menningar- og markaðsnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Menningar- og markaðs­nefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla og önnur þau verkefni sem tengjast þeim. Um er að ræða málefni bókasafna skv. ákvæðum bókasafnalaga nr. 150/2012 og málefni héraðsskjalasafns, sbr. lög um opinber skjala­söfn nr. 77/2014, málefni félagsheimila, sbr. ákvæði laga um félagsheimili nr. 107/1970, málefni byggða­safns, sbr. ákvæði safnalaga nr. 141/2011 og málefni húsaverndar og verndun menningar­minja, sbr. lög um menningarminjar nr. 80/2012. Að auki skal nefndin hlutast til um og móta tillögur til sveitar­stjórnar um ferða-, markaðs- og kynningarmál fyrir Hval­fjarðar­sveit.
  2. Fjölskyldu- og frístundanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Fjölskyldu- og frístunda­nefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla. Um er að ræða verkefni félagsmálanefndar skv. 5. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, jafnréttismál skv. 13. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020, verkefni á sviði húsnæðis­mála, sbr. ákvæði laga um húsnæðismál nr. 44/1998, ákvæði laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016 og laga um almennar íbúðir nr. 52/2016, málefni fatlaðs fólks samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, málefni aldraðra, sbr. ákvæði laga nr. 125/1999, málefni innflytjenda, sbr. ákvæði laga nr. 116/2012, verkefni v/dag­gæslu í heimahúsum, sbr. reglugerð nr. 907/2005 auk verkefna á sviði forvarna. Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með styrkveitingum og samskiptum sveitarfélagsins við ein­stak­linga og félög vegna frístundamála. Fjölskyldu- og frístundanefnd fylgist með að starfsemi íþrótta- og æskulýðsstarfs sé samkvæmt ákvæðum æskulýðslaga nr. 70/2007. Fjölskyldu- og frístundanefnd skal hlutast til um mótun, setningu og endurskoðun forvarnarstefnu og skipulag forvarnarstarfs.Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með frístunda- og íþróttamálum á vegum sveitarfélagsins, m.a. skoðun á framboði tómstunda- og félagsstarfs í sveitarfélaginu. Fjölskyldu- og frístundanefnd hefur umsjón með rekstri vinnuskóla í Hvalfjarðarsveit og íþrótta­mannvirkjum og sundlaugum sem falla undir umsjón frístunda- og menningarfulltrúa sveitarfélagsins.
  3. Fræðslunefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Fræðslunefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla. Um er að ræða verkefni skóla­nefndar skv. 6. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008, málefni leikskóla samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008, málefni tónlistarskóla samkvæmt lögum um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla nr. 75/1985 og umsjón og eftirlit með framkvæmd skólaaksturs, sbr. ákvæði reglugerðar um skóla­akstur í grunnskóla nr. 656/2009. Fræðslu­nefnd skal, eftir því sem við á, fylgjast með málefnum er varða framhaldsskóla og sveitarfélagið. Fræðslunefnd hefur umsjón með starfsemi félags­miðstöðva og annarrar frístundaaðstöðu sem fellur undir umsjón skólastjóra. Fræðslunefnd skal fylgjast með og meta reglulega þörf fyrir rekstur frístundaheimilis, sbr. ákvæði 33. gr. og 33. gr. a grunnskólalaga nr. 91/2008.
  4. Kjörstjórn við alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Þrír aðalmenn og jafnmargir til vara skv. 15. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 og 14. gr. laga um kosningar til sveitar­stjórna nr. 5/1998.
  5. Landbúnaðarnefnd. Þrír menn og jafnmargir til vara. Landbúnaðarnefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla. Um er að ræða yfirstjórn fjallskilamála skv. lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986, umsjón með refa- og minkaeyðingu skv. lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, umsjón og ráðgjöf um búfjárgirðingar skv. girðingarlögum nr. 135/2001 og dýraeftirlit, sbr. ákvæði laga um velferð dýra nr. 55/2013.
  6. Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd fer með lögbundin verkefni sem tengjast mála­flokkum sem undir hana falla. Um er að ræða verkefni skipulagsnefndar skv. 6. gr. skipulags­laga nr. 123/2010, náttúruvernd skv. 11. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013, laga um land­græðslu nr. 155/2018, úrgangsmál skv. lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003, verkefni vegna ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og verkefni skv. umferðarlögum nr. 77/2019. Umhverfis-, skipulags- og náttúruverndarnefnd skal taka fullnaðarákvörðun um mats­skyldu framkvæmdar í C flokki skv. 1. viðauka við lög nr. 106/2000, þegar sveitarfélagið er sjálft framkvæmdaraðili, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
  7. Mannvirkja- og framkvæmdanefnd. Fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Mannvirkja- og framkvæmdanefnd fer með verkefni sem tengjast málaflokkum sem undir hana falla. Mann­virkja- og framkvæmdanefnd hefur umsjón með öllum mannvirkjum sveitarfélagsins, er sveitar­stjórn ráðgefandi um atriði er varða stefnumörkun um uppbyggingu, rekstur, viðhald og nýtingu eigna sveitarfélagsins, bruna- og eldvarnarmál samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000 og byggingarmál, sbr. ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010. Mannvirkja- og framkvæmda­nefnd hefur umsjón með nýframkvæmdum á vegum sveitarfélagsins m.a. nýbyggingum, gatna­gerð ásamt uppbyggingu gangstétta og gatnalýsingar. Mannvirkja- og framkvæmdanefnd hefur umsjón með málefnum veitna í sveitarfélaginu eftir því sem við á, sbr. ákvæði orkulaga nr. 58/1967, ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 og ákvæði laga um uppbygg­ingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Að auki skal mannvirkja- og framkvæmdanefnd hafa umsjón með löndum og lóðum í eigu eða umsjón sveitarfélagsins svo og göngustígum og merk­ingum.

B-hluti. Stjórnir og samstarfsnefndir.

Á fyrsta eða öðrum fundi að afloknum sveitarstjórnarkosningum kýs sveitarstjórn fulltrúa sveitar­félagsins í eftirtaldar samstarfsnefndir:

  1. Barnaverndarnefnd. Einn fulltrúi og einn til vara í sameiginlega barnaverndarnefnd Borgar­fjarðar og Dala samkvæmt samningi við samstarfssveitarfélög og skv. 10. og 11. gr. barna­verndar­laga nr. 80/2002.
  2. Dvalarheimilið Höfði. Einn fulltrúi og annar til vara í stjórn Dvalarheimilisins Höfða skv. samn­ingi við samstarfssveitarfélög.
  3. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands. Einn fulltrúi í fulltrúaráð skv. lögum nr. 68/1994 um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands.
  4. Faxaflóahafnir sf. Einn aðalmaður og annar til vara í stjórn Faxaflóahafna sf. skv. ákvæðum félagssamnings og skv. hafnalögum nr. 61/2003.
  5. Byggðasafnið í Görðum. Vegna málefna Byggðasafnsins í Görðum. Einn fulltrúi og annar til vara í menningar- og safnanefnd Akraneskaupstaðar, sbr. skipulagsskrá Byggðasafnsins í Görð­um.
  6. Heilbrigðisnefnd. Einn fulltrúi og annar til vara í sameiginlega heilbrigðisnefnd Vesturlands skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.
  7. Hitaveitufélag Hvalfjarðar sf. Einn fulltrúi í stjórn og annar til vara samkvæmt samþykktum félagsins.
  8. Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samkvæmt samþykktum Sambands íslenskra sveitar­félaga kýs sveitarstjórn aðal- og varafulltrúa á landsþing sambandsins.
  9. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Sveitarstjórn kýs aðal- og varafulltrúa í stjórn og á aðalfund samkvæmt lögum samtakanna.
  10. Vatnsveitufélag Hvalfjarðar sf. Kosið er í stjórn félagsins til eins árs í senn í samræmi við ákvæði sameignarfélagssamnings.
  11. Yfirnefnd fjallskilamála. Einn fulltrúi og annar til vara.
  12. Þróunarfélag Grundartanga ehf. Einn fulltrúi til setu í stjórn og annar til vara.

C-hluti. Verkefnabundnar nefndir.

Sveitarstjórn getur skipað nefndir til að vinna að afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda fellur sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils sveitarstjórnar eða fyrr ef verki nefndarinnar er lokið. Sveitarstjórn getur afturkallað umboð slíkrar nefndar hvenær sem er.

 

2. gr.

Samþykkt þessi, sem sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur sett samkvæmt ákvæðum 9. gr. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 15. febrúar 2021.

 

F. h. r.

Hermann Sæmundsson.

Stefanía Traustadóttir.


B deild - Útgáfud.: 1. mars 2021