1. gr.
Í stað orðanna „Vörubifreið II (N3) < 26 tonn“ í 1. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar kemur: Vörubifreið II (N3) > 26 tonn.
2. gr.
Á eftir IV. kafla reglugerðarinnar kemur nýr kafli, V. kafli, Styrkir til framleiðenda garðyrkjuafurða, með fimm nýjum greinum, 28. gr. – 32. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast önnur kaflanúmer og greinanúmer samkvæmt því:
- (28. gr.)
Styrkir til framleiðenda garðyrkjuafurða.
Stjórn Loftslags- og orkusjóðs annast úthlutun styrkja til framleiðenda garðyrkjuafurða samkvæmt ákvörðun og áherslum ráðherra og stjórnvalda hverju sinni. Styrkveitingum til framleiðenda garðyrkjuafurða er ætlað að auka orkunýtni og stuðla að orkusparnaði. Um veitingu styrkja til framleiðenda garðyrkjuafurða fer samkvæmt reglugerð þessari.
- (29. gr.)
Auglýsingar.
Stjórn Loftslags- og orkusjóðs skal auglýsa hvenær og hvernig verður opið fyrir umsóknir um styrki til framleiðenda garðyrkjuafurða. Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um áherslur vegna styrkveitinga, þau skilyrði sem þarf til að standast styrkhæfni og leiðbeiningar um hvar og hvernig skuli sækja um.
- (30. gr.)
Styrkhæfi verkefna og áherslur.
Styrkir samkvæmt kafla þessum eru veittir til framleiðenda garðyrkjuafurða, sem uppfylla skilyrði 17. gr. reglugerðar um stuðning við garðyrkju, vegna fjárfestingar í orkusparandi búnaði, svo sem LED-ljósabúnaði, tölvu- og stýribúnaði og gardínukerfum. Áhersla skal fyrst og fremst lögð á að styrkja verkefni sem falla að hlutverki sjóðsins og horft verður til eftirfarandi forgangsröðunar við úthlutun:
- Verkefni sem skila mestum orkusparnaði á hverja styrkkrónu.
- Verkefni sem auka rekstrarhagkvæmni í rekstri gróðurhúss.
- Lausnir sem auka tæknivæðingu og samkeppnishæfni greinarinnar.
- Verkefni sem nýtast sem fyrirmynd fyrir aðra í greininni.
- Hvort verkefni hafi áður hlotið stuðning frá Loftslags- og orkusjóði.
Auk framangreindra sjónarmiða er heimilt við mat á umsóknum og ákvörðun úthlutunar að taka tillit til sjónarmiða er fram koma í 2. mgr. 10. gr. eftir því sem við á.
- (31. gr.)
Umsóknir.
Eftirfarandi gögn skulu fylgja umsókn:
- Upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef einhverjir eru.
- Nafn, kennitala og símanúmer þess sem annast samskipti við sjóðinn.
- Lýsing á verkefninu og því hvernig verkefnið samræmist markmiðum og skilgreindum áherslum styrkveitinga, þ. á m. 30. gr.
- Tíma- og verkáætlun.
- Sundurliðuð fjárhagsáætlun verkefnis og upplýsingar um fjármögnun.
- (32. gr.)
Styrkhlutföll, styrkfjárhæðir o.fl.
Hámarks styrkhlutfall og styrkfjárhæð í úthlutunum fyrir styrki vegna framleiðenda garðyrkjuafurða skal vera 40% af heildarkostnaði og að hámarki 15 m.kr. fyrir hvern framleiðenda garðyrkjuafurða.
Skipting greiðsla til styrkþega skal vera eftirfarandi:
- Framvindugreiðsla, 70%, greiðist samkvæmt samningi og framlagningu gagna um framvindu verkefnis.
- Lokagreiðsla, 30% af styrkupphæð, fer fram þegar verkefni er lokið og lokaskýrslu um framkvæmd verks er skilað og hún samþykkt af Loftslags- og orkusjóði.
Ákvæði II. kafla um upplýsingagjöf og skýrslur, kynningarefni, endurkröfurétt og skilmála gilda að öðru leyti eftir því sem við á.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 8. gr. laga um Loftslags- og orkusjóð nr. 76/2020, öðlast þegar gildi.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 7. maí 2025.
Jóhann Páll Jóhannsson.
|