Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 861/2022

Nr. 861/2022 1. júlí 2022

REGLUR
um almenna tilkynningarskyldu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um innlenda viðskiptabanka, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem falla undir almenna tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál. Aðrir aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 eru undanþegnir tilkynningarskyldu samkvæmt sama ákvæði.

Reglur þessar gilda einnig um innlenda lögaðila sem skylt er að tilkynna um fjármagnshreyfingar á milli landa skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál sem fara fram án milligöngu aðila skv. 1. mgr. sömu greinar.

 

2. gr.

Skráningarskyldar fjármagnshreyfingar á
milli landa og greiðslur á milli landa.

Innlendir viðskiptabankar skulu halda skrá yfir greiðslur og fjármagnshreyfingar á milli landa sem þeir annast eða móttaka, sbr. 3. og 5. tölul. 2. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál. Innlendum viðskiptabönkum er skylt að flokka og skrá hreyfingar skv. 1. málsl. samkvæmt leiðbeiningum sem Seðlabankinn gefur út og birtir opinberlega og gefa Seðlabankanum skýrslu um þær daglega.

Fyrir hverja hreyfingu skv. 1. mgr. skal skrá eftirfarandi:

 1. Dagsetningu.
 2. Einkvæmt tilvísunarnúmer.
 3. Tegund hreyfingar.
 4. Mynt.
 5. Fjárhæð.
 6. Tilefnislykil viðskipta.
 7. Skýringartexta.
 8. Eftirfarandi upplýsingar um sendanda, eftir atvikum: nafn, kennitölu, fæðingardag, LEI-kóða, reikningsnúmer og bankakóða (BIC).
 9. Eftirfarandi upplýsingar um viðtakanda, eftir atvikum: nafn, kennitölu, fæðingardag, LEI-kóða, reikningsnúmer og bankakóða (BIC).

 

3. gr.

Skráningarskyld gjaldeyrisviðskipti.

Innlendir viðskiptabankar skulu halda skrá yfir gjaldeyrisviðskipti sín sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál. Innlendum viðskiptabönkum er skylt að flokka og skrá gjaldeyrisviðskipti skv. 1. málsl. samkvæmt leiðbeiningum sem Seðlabankinn gefur út og birtir opinberlega og gefa Seðlabankanum skýrslu um þau daglega.

Fyrir hver gjaldeyrisviðskipti skv. 1. mgr. skal skrá eftirfarandi:

 1. Dagsetningu.
 2. Einkvæmt tilvísunarnúmer.
 3. Form viðskipta.
 4. Myntir.
 5. Fjárhæðir.
 6. Tilefnislykil.
 7. Eftirfarandi upplýsingar um mótaðila, eftir atvikum: nafn, kennitölu, fæðingardag og LEI-kóða.

 

4. gr.

Tilkynningar innlendra lögaðila um fjármagnshreyfingar á milli landa.

Innlendir lögaðilar skulu tilkynna fjármagnshreyfingar á milli landa skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál með rafrænum hætti samkvæmt leiðbeiningum sem Seðlabankinn gefur út og birtir opinberlega innan þriggja vikna frá því að viðskiptin áttu sér stað.

Tilkynning skv. 1.-3. og 5. tölul. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál skal innihalda upplýsingar um lántaka eða skuldara, lánveitanda eða ábyrgðarmann og upplýsingar um lánið, ábyrgðina eða skilmálabreytinguna sem um ræðir.

Ekki er skylt að tilkynna um afleiðuviðskipti skv. 4. tölul. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál, umfram það sem leiðir af lögum nr. 15/2018, um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár.

 

5. gr.

Aðgangur að upplýsingum.

Lögregla, skattyfirvöld og Hagstofa Íslands sem hafa aðgang að þeim upplýsingum sem berast Seðlabankanum skv. 1.–3. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál, sbr. 7. mgr. 10. gr. laganna, geta óskað eftir upplýsingum sem tilkynntar eru til Seðlabankans á grundvelli 2.-4. gr. reglnanna. Upplýsingabeiðni skal vera skýrt afmörkuð og berast Seðlabankanum með tryggum hætti. Sé óskað eftir aðgangi að upplýsingunum með öðru móti skal gerður um aðganginn sérstakur samningur.

 

6. gr.

Úrbætur og viðurlög.

Um viðurlög og önnur úrræði Seðlabanka Íslands fer samkvæmt V. kafla laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál.

 

7. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar, sem settar eru með heimild í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 70/2021 um gjaldeyrismál, taka gildi þegar í stað. Innlendir viðskiptabankar hafa þó frest til 15. september 2022 til að uppfylla skyldur skv. 2. og 3. gr. reglnanna. Á þeim degi falla jafnframt úr gildi reglur nr. 13/1995 um upplýsingaskyldu vegna gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga milli landa.

 

Seðlabanka Íslands, 1. júlí 2022.

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Haukur C. Benediktsson
framkvæmdastjóri.

B deild - Útgáfud.: 15. júlí 2022