Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 340/2023

Nr. 340/2023 21. mars 2023

FJALLSKILASAMÞYKKT
fyrir sveitarfélög á starfssvæði Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

I. KAFLI

Um stjórn fjallskilamála.

l. gr.

Sveitarfélög innan Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), þ.e. Múlaþing, Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppur og Vopnafjarðarhreppur, eru eitt fjallskilaumdæmi. Hvert sveitarfélag innan fjallskila­umdæmisins er ein fjallskiladeild eða fleiri. Umdæmi fjallskiladeilda og upprekstrarréttur haldast óbreytt við sameiningu sveitarfélaga, nema um annað sé samið.

 

2. gr.

Stjórn SSA hefur á hendi yfirstjórn allra fjallskilamála í fjallskilaumdæminu, en sveitarstjórnir annast yfirstjórn þeirra í hverri fjallskiladeild. Stjórn SSA úrskurðar ágreinings- og kærumál um fjallskil er upp kunna að koma innan fjallskiladeilda eða milli fjallskiladeilda ef sveitarstjórn/-um tekst eigi að miðla málum. Stjórn SSA sker úr ágreiningi milli sveitarstjórna um fjallskil.

 

3. gr.

Sveitarstjórn skal skipa fjallskilanefnd/-ir, sem sér um framkvæmd fjallskilamála í umboði sveitar­stjórnar. Sveitarstjórn skal skipa fjallskilastjóra, og annan til vara, sem er framkvæmdastjóri hverrar fjallskilanefndar. Í samþykkt þessari er alfarið notað heitið sveitarstjórn, í þeim tilvikum sem átt gætu við fjallskilanefnd.

Fjallskilastjóra ber þóknun fyrir störf sín úr sveitarsjóði.

 

II. KAFLI

Um bókhald og fjallskilasjóði.

4. gr.

Í hverri fjallskiladeild ber að halda sérstaka gerðabók. Í hana skal rita allt það sem máli skiptir um afréttar- og fjallskilamál í deildinni.

Reikningshaldi hverrar fjallskiladeildar skal haldið aðgreindu í bókhaldi sveitarsjóðs en hvert sveitar­félag annast bókhald og innheimtu vegna fjallskiladeilda innan síns umdæmis.

Stjórn SSA semur skrá, að fengnum upplýsingum sveitarstjórna, yfir alla afrétti og upprekstrar­heimalönd innan fjallskilaumdæmanna. Skal þar lýst merkjum þeirra, og tekið fram hvaða jarðir eiga upprekstur á hvern afrétt og hvert upprekstrarheimaland. Afréttarskrá skal varðveitt í skjala­safni SSA.

 

5. gr.

Þegar reisa þarf eða endurbyggja aðalrétt og tilheyrandi vörsluhólf, eða vörsluhólf fyrir óskilafé sem kemur í stað aðalréttar, er sveitarsjóði skylt að standa straum af kostnaði við þær framkvæmdir. Einnig ber sveitarsjóði að standa straum af kostnaði við byggingu viðunandi húsa fyrir gangnamenn og hesta, þar sem þeir þurfa að gista, auk girðingarhólfa fyrir fé.

Til þess að standa straum af öðrum þeim kostnaði er af fjallskilum leiðir, getur sveitarstjórn stofnað sjóð, sem fjallskilasjóður nefnist. Úr honum skal greiða kostnað við viðhald aðalrétta og annarra gangnamannvirkja, nema um sé að ræða meiriháttar viðhald eða endurbyggingu, þá greiðist sá kostnaður úr sveitarsjóði. Um aukaréttir fer eftir ákvörðun sveitarstjórna. Kostnað við smölun og leitir, sem sveitarsjóði annars ber að greiða, þóknun til fjallskilastjóra, svo og öll önnur gjöld sem af fjallskilum leiða og ekki hefur verið jafnað niður á fjáreigendur sem dagsverkum, skal greiða úr fjallskilasjóði. Tekjur sjóðsins eru:

  1. Niðurjafnað gjald á allt sauðfé í fjallskiladeildinni.
  2. Andvirði óskilafjár, sbr. VI. kafla samþykktar þessarar.
  3. Endurgjald fyrir fé úr öðru sveitarfélagi skv. 20. og 22. gr. og björgunarlaun skv. 23. gr. samþykktar þessarar og 57. gr. laga nr. 6/1986.
  4. Bætur fyrir gangnarof skv. 18. gr. samþykktar þessarar.
  5. Tillag úr sveitarsjóði eftir fyrirmælum sveitarstjórnar og 46. gr. laga nr. 6/1986.
  6. Álag á landverð jarða, sbr. 16. gr. samþykktarinnar og 42. gr. laga nr. 6/1986.

Endurskoða skal fjallskilareikninga á sama hátt og reikninga sveitarsjóðs.

 

III. KAFLI

Um afrétti og notkun þeirra.

6. gr.

Land sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti, upprekstrarheimalönd og önnur heima­lönd. Afréttur er land í eigu sveitarfélags eða einstakra jarða og eiga þar upprekstrarrétt allir ábú­endur viðkomandi sveitarfélags eða félagssvæðis upprekstrarfélags, sjá nánar í 9. gr. Upprekstrar­heimaland er eignarland einnar eða fleiri jarða sem beitt er sameiginlega, og skulu ákvæði um afrétti gilda um það eftir því sem við getur átt. Heimaland er eignarland þar sem viðkomandi eigandi eða ábúandi fer einn með nýtingarrétt.

Þar sem öræfi (óbyggðir) þurfa hreinsunar við, taka fjallskil til þeirra, eftir því sem þörf krefur og nánar er fyrir mælt í lögum nr. 6/1986 og samþykkt þessari.

 

7. gr.

Heimilt er að nota heimalönd til upprekstrar, enda sé það vilji eigenda. Ákvæði samþykktar þessarar gilda jafnt um afrétti, upprekstrarheimalönd og önnur heimalönd, sé annars eigi getið.

 

8. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að ákveða, að eigi skuli upprekstur á afrétt leyfður fyrr en vorgróður er nægur að mati sveitarstjórnar, og skal hún þá leita álits Landgræðslunnar áður en leyfi er veitt.

Um fjölda afréttarpenings sem má reka á hverja afrétt, fer eftir III. kafla laga nr. 6/1986.

 

9. gr.

Upprekstrarrétt á afrétt eiga allir búfjáreigendur, sem landafnot hafa í sveitarfélagi. Um upp­rekstrar­rétt á afréttarland, sem liggur undir einstaka jörð eða stofnun, fer eftir fornri venju eða samningum. Enginn má nota afrétt, sem eigi á þar upprekstrarrétt, nema viðkomandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnir leyfi, eða landeigandi, ef um einkaeign á afréttarlandi skv. 8. gr. laga nr. 6/1986 er að ræða.

Um afréttargjald til eiganda afréttarlands fer eftir samningi eða, ef samkomulag næst ekki, eftir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Þó getur sá aðili, sem eigi vill una ákvörðun sveitarstjórnar, krafist mats dómkvaddra manna um gjaldhæð. Ákvörðun um afréttargjald, hvort heldur ákveðin er með samningi eða eftir mati, gildir aldrei fyrir lengri tíma en 6 ár í senn.

 

10. gr.

Innansveitarmenn skulu sitja fyrir utansveitarmönnum um upprekstur á afrétti og sýslubúar fyrir utansýslubúum. Geti fjáreigandi ekki fengið upprekstrarleyfi, ber honum að leita aðstoðar sveitar­stjórnar.

 

11. gr.

Eftir að fé hefur verið sleppt að vori og allt til fyrstu gangna, má enginn smala afrétti eða upprekstrarheimalönd, né valda búpeningi sem þar gengur ónæði, nema með leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Heimilt er þá sveitarstjórnum að ákveða smölun afrétta og upprekstrarheimalanda á því tímabili, ef þær aðstæður kynnu að skapast sem krefðust þess. Fjáreigandi sem hyggst smala heimaland fyrir fyrstu helgi í september, skal tilkynna fjallskilastjóra um það með þriggja daga fyrirvara hið minnsta. Eigi er honum skylt að gera skil á afbæjarfé, né eiganda að sækja það, fyrr en við löggöngu. Óheimilt er að valda búpeningi í ógirtum heimalöndum ónæði allt frá því fé er sleppt að vori til fyrstu gangna, en ákvæðið takmarkar ekki þau réttindi sem landeigendur hafa.

 

12. gr.

Sá sem rekur fé á utansveitarafrétt, skal tilkynna það sveitarstjórn fyrir 15. júlí ár hvert. Vanræki hann það getur sveitarstjórn gert honum full fjárskil heima í sveitinni fyrir allt hans fé. Sama gildir um þá menn, er rétt hafa til að taka utansveitarfé í heimaland sitt, enda séu þeir skyldir að tilgreina tölu fjárins og annast öll skil á því.

 

13. gr.

Nú verður ágangur fjár frá einu sveitarfélagi í annað, eða frá einu fjallskilaumdæmi í annað, og getur þá sá er fyrir verulegum ágangi verður, krafið hinn aðilann um gjald fyrir eða að hann sendi menn í göngur. Skulu viðkomandi sveitarstjórnir gera um þetta skriflegan samning til þriggja ára í senn og endurskoðast hann þá ef annar aðili óskar eftir. Náist ekki samkomulag, skal SSA úrskurða kröfu sveitarstjórnar um gangnamenn, sem byggjast verður á tölu þess fjár sem kemur fyrir í sveitar­félaginu næsta haust á undan, að frádregnu því fé sem kemur fyrir í hinu sveitarfélaginu.

 

IV. KAFLI

Um fjallskil að hausti.

14. gr.

Haustgöngur skulu hefjast svo fljótt í september sem þurfa þykir. Þó skal ekki hefja göngur í neinni fjallskiladeild fyrr en haft hefur verið samráð við aðliggjandi fjallskiladeildir, svo að sam­smölun geti farið fram. Þá skal fyrsta lögrétt aldrei vera seinna en um síðustu helgi í september, og ber að haga gangnadögum í samræmi við það. Ganga skal afréttir, upprekstrarheimalönd og önnur heima­lönd að minnsta kosti tvisvar á hausti hverju, og skal annarri göngu lokið eigi síðar en 15. október.

Tilkynna ber fjallskilastjórum sveitarfélaga þeirra, sem fjárvon eiga í réttum sveitarfélagsins, hvenær gengið verður. Sveitarstjórnir ákvarða staðsetningu aðal- og aukarétta, hvaða leitarsvæði skuli gengin til hverrar réttar og hvaða daga. Gangnadögum er sveitarstjórn heimilt að breyta árlega. Sveitar­stjórn er heimilt að gera fjáreigendum skylt að geyma allt aðkomið fé í girðingum eftir fyrstu göngu, þar til hreinsmalað hefur verið að mati fjallskilastjóra. Fjáreigendum er með öllu óheimilt að sleppa fé sínu á afrétt og upprekstrarheimalönd eftir aðrar göngur nema að fengnu leyfi sveitar­stjórnar.

Sveitarstjórnir skulu leggja ríka áherslu á að göngur fari fram samtímis í löndum sem saman liggja og ekki eru aðgreind frá öðrum með girðingum, vötnum eða fjallgörðum.

 

15. gr.

Þar sem smalasvæði liggja saman skulu hlutaðeigandi fjallskilastjórnir eða fjallskilastjórar eiga með sér fund eigi síðar en í lok júlímánaðar til að ákveða hvernig samsmölun skuli hagað. Á þessum svæðum skal leitast við að göngur fari fram samtímis a.m.k. einu sinni á hausti. Fjallskilastjórar fjallskiladeilda boða til þessa fundar.

 

16. gr.

Eigi síðar en tveimur vikum fyrir fyrstu löggöngu, skal sveitarstjórn hafa lokið við að ákveða gangna­daga og raða niður gangnadagsverkum, í afréttir, upprekstrarheimalönd og önnur ógirt heima­­lönd og birta fjallskilaseðil þar um. Þegar dagsverkum er raðað niður eftir fjártölu hvers fjáreiganda skal miðað við haustskýrslu Matvælastofnunar. Leiðrétta má ásetning vegna vanhalda eða eigenda­skipta og verður sú tilkynning að hafa borist Matvælastofnun eigi síðar en 10. júlí.

Samhliða birtingu fjallskilaseðils skal annar áætlaður fjallskilakostnaður lagður á í fjallskila­deildinni. Heimilt er að leggja hluta fjallskilakostnaðar á landverð jarða allt að 8% að frádregnu verði ræktaðs lands og hlunninda. Sveitarstjórn er heimilt að leggja gangnadagsverk á fjárlausa bændur vegna fjárskipta sem og eyðibýlaeigendur og aðra bændur í fjallskiladeildinni. Fjallskil skulu innt af hendi í vinnu, eftir því sem þörf krefur og við verður komið, ella goldin í peningum eftir mati sveitar­stjórnar.

Hver bóndi eða jarðeigandi, hvaða búskap sem hann stundar, er skyldur að taka þátt í smölun síns heimalands þegar sveitarstjórn mælir svo fyrir. Sama gildir um eigendur eða umráðamenn eyði­jarða, þó þeir eigi þar ekki fjár von. Samhliða göngum skulu eigendur afgirtra heimalanda smala þau lönd og gera full skil á því fé sem þar er.

 

17. gr.

Hver fjáreigandi og fjallskilaskyldur einstaklingur er skyldur til að gera þau fjallskil, sem sveitar­stjórn leggur á hann, og eru í samræmi við fjallskil þau, sem öðrum fjáreigendum og fjallskila­skyldum einstaklingum er gert að leysa af hendi Heimilt er að bera upp við sveitarstjórn aðfinnslur um hvernig fjallskilum er jafnað niður. Náist ekki samkomulag má skjóta ágreiningi til úrskurðar stjórnar SSA.

Þeim sem hafa sannanlega allt sitt fé í eyjum eða fjárheldum girðingum sumarlangt má veita undan­þágu frá fjallskilum að hluta.

 

18. gr.

Sveitarstjórnir skipa gangnaforingja á öll gangnasvæði í fjallskiladeildinni. Enginn getur skorast undan að vera gangnaforingi, nema hann sé til þess ófær sökum elli eða heilsuleysis. Gangnaforingi skal vera sjálfur í göngum, nema gild forföll hindri. Ber þá fjallskilastjóra að setja fullgildan mann í staðinn.

Gangnaforingi skal gæta þess að allir þeir sem eiga að leggja til menn í göngur, sendi svo marga fullgilda gangnamenn sem kveðið er á um í gangnaboði. Gangnaforingi sker úr um það, hverjir séu fullgildir gangnamenn. Gangnamenn skulu vera vel búnir og í áberandi litum klæðnaði. Ef einhver sendir mann í göngur sem gangnaforingi telur óhæfan eða vanbúinn, skal vísa honum heim aftur og telst það gangnarof.

Óhlýðnist gangnamaður gangnaforingja eða sýni hirðuleysi, telst það gangnarof, og varðar sömu viðurlögum og vanræksla á að inna af hendi fjallskil. Gangnaforingja ber skylda til að tilkynna fjallskilastjóra um gangnarof. Sá sem mætir ekki í göngur á þeim stað og tíma, þar sem hann hefur verið skipaður, og tilkynnir gangnaforingja ekki forföll, svo unnt sé að fá mann í hans stað, skal greiða í sveitar- eða fjallskilasjóð fyrir gangnarof, sem svarar einu og hálfu gangnadagsverki, eins og það er metið á hverjum tíma, eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

Heimilt er að greiða gangnaforingja sanngjarna þóknun fyrir gangnastjórnina (eitt dagsverk).

 

19. gr.

Gangnaforingjar skulu sjá um, að fjársafn sé rekið til réttar sem fyrst. Telst það gangnarof, ef gangnamaður yfirgefur safnið fyrr en í rétt er rekið, þó að smölun sé lokið. Gangnaforingi stjórnar sundurdrætti og ræður réttarrúmi öllu. Þó er sveitarstjórn heimilt að kjósa sérstaka réttarstjóra á aðalréttir.

 

20. gr.

Ef grunur leikur á, að fé sé enn á afréttum og óaðkomið fé í upprekstrar- og heimalöndum eftir að löggöngum lýkur, skal fjallskilastjóri sjá um, að eftir því sé leitað svo fljótt sem kostur er.

Smölunarkostnaður skal greiddur af fjáreiganda og fjallskilasjóði í jöfnum hlutföllum eða sam­kvæmt samkomulagi. Fjáreigendum er heimilt að greiða með vinnuframlagi. Fjallskilasjóður á endur­kröfu­rétt á kostnaði hjá fjallskilasjóði annars sveitarfélags, í hlutfalli við fjárfjölda sem heimtist í leitinni úr því sveitarfélagi, sé ekki um að ræða vinnuframlag, sbr. 16. gr.

 

21. gr.

Nú liggja óbyggð svæði þar sem enginn á löglegan upprekstrarrétt að afréttum eða öðrum sumargöngulöndum, og skulu þá sveitarstjórnir aðliggjandi sveitarfélaga sjá til þess að þessi svæði séu leituð að minnsta kosti einu sinni á hausti og tvisvar ef þurfa þykir. Fé sem finnst á slíkum svæðum eftir að hefðbundnum fjallskilatíma og áðurnefndum leitum er lokið má sveitarstjórn láta lóga.

 

22. gr.

Skyldur er hver bóndi, eða umráðamaður jarðar, að hirða kindur sem finnast í heimalandi hans eftir að fjallskilum er lokið. Sé það innansveitarfé ber honum að tilkynna eigendum það, annars skal tilkynna fjallskilastjóra. Ef óaðkomið fé gengur á leitarsvæðum eftir 22. október, er hverjum sem er heimilt að ná fénu að fengnu samþykki fjallskilastjóra. Þetta á jafnt við um afrétti og heimalönd.

Sveitarfélögum er heimilt að greiða fundarlaun og endurkrefja þann kostnað, sbr. 20. gr.

Gangi fé sem smalað hefur verið áður við almenn fjallskil það ár, frá búfjáreiganda á afrétt, upprekstrarheimaland og/eða heimaland annarra jarða eftir löggöngur, skal tekið til skoðunar hvort slíkum tilvikum verði vísað til málsmeðferðar á grundvelli laga um dýravelferð. Slíkt á einkum við ef um fjölda gripa er að ræða. Falli slík mál undir ákvæði laga um dýravelferð, sbr. einnig reglugerð um velferð sauðfjár og geitfjár, fer um framkvæmd og kostnað vegna handsömunar gripanna eftir ákvæðum þeirra laga.

 

23. gr.

Nú verður fjár vart í ógöngum, og er þeim þá skylt er sér, að tilkynna það fjallskilastjóra við­komandi sveitarfélags. Skal hann þá leitast við að fá færa menn til að bjarga fénu, ef fært þykir. Sé björgun of kostnaðarsöm, óframkvæmanleg eða of hættuleg að dómi fjallskilastjóra, fjáreiganda og/eða björgunarmanna er skylt að aflífa féð á mannúðlegan hátt samkvæmt reglugerð nr. 1066/2014 um velferð sauðfjár og geitfjár. Takist björgun kinda úr slíkum ógöngum, greiðir eigandi kindar hálft verð hennar fyrir björgun, en sveitarsjóður, þar sem eigandi er heimilisfastur, hinn hluta kostnaðar. Náist kind eða kindur hins vegar ekki lifandi, skal sveitarsjóður bera kostnað vegna tilraunarinnar, enda samþykki sveitarstjórn reikninga.

Þó gildir að ef um er að ræða fé sem smalað hefur verið áður við almenn fjallskil það ár eða ef tilefni er til að ætla að staða fjárins sé vegna vanrækslu fjáreiganda á fjallskilum eða dýravelferð að öðru leyti, skal tekið til skoðunar hvort slíkum tilvikum verði vísað til málsmeðferðar á grundvelli laga um dýravelferð. Falli slík mál undir ákvæði laga um dýravelferð, sbr. einnig reglugerð um vel­ferð sauðfjár og geitfjár, fer um framkvæmd og kostnað vegna handsömunar gripanna eftir ákvæðum þeirra laga.

 

V. KAFLI

Um réttir, skil á fé og réttarhald.

24. gr.

Í hverri fjallskiladeild skal vera minnst ein aðalrétt og/eða vörsluhólf fyrir óskilafé og aukaréttir eftir þörfum, og ákvörðun sveitarstjórnar þar um. Sveitarstjórn sér um byggingu og viðhald aðalrétta og vörsluhólfa, einnig aukarétta eftir samkomulagi við ábúendur þeirra jarða er réttina nota. Réttir skulu vera nægilega stórar, örugglega fjárheldar og fjöldi dilka við hæfi á hverjum stað. Skylt er að hafa dilk fyrir sjúkt fé við hverja rétt.

 

25. gr.

Aðalréttir og aukaréttir í hverri fjallskiladeild skulu vera eins og segir í viðauka 1.

Heimilt er sveitarstjórn að færa til réttir, ef aðstæður breytast og/eða meirihluti þeirra er afrétt­inn nota óska þess. Einnig getur sveitarstjórn ákveðið að breyta aukarétt í aðalrétt. Slíkar breytingar skulu skjalfestar og tilkynntar nágrannasveitarstjórnum og SSA.

 

26. gr.

Hver aukarétt heyrir undir aðalrétt sömu fjallskiladeildar. Fjallskilastjóri ákveður hvort úrtín­ings­fé úr aukaréttum skuli dregið þar upp eða flutt til aðalréttar. Enginn má reka fé frá aðalrétt fyrr en úrtíningur hefur verið að fullu sundur dreginn, nema réttarstjóri leyfi.

 

27. gr.

Sundurdráttur í aðalrétt skal hafinn svo snemma dags sem unnt er, eftir ákvörðun réttarstjóra, og er hverjum gangnamanni skylt að vinna að sundurdrætti. Fjáreiganda er skylt að hirða fé sitt úr rétt­inni svo fljótt sem við verður komið. Enginn má láta fé í aðalrétt eða aukarétt né taka það þaðan nema láta fjallskilastjóra eða réttarstjóra vita. Skulu þeir sjá um að fé sé tekið úr réttum svo fljótt sem kostur er og fé sem farið hefur yfir varnarlínu fært til slátrunar samkvæmt lögum nr. 25/1993.

Draga skal eftir markaskrám eftir því sem þörf krefur. Réttarstjóri kveður tvo markskoðunar­menn sér til aðstoðar við úrskurð vafamarka.

 

VI. KAFLI

Um meðferð ómerkinga og óskilafjár.

28. gr.

Hver sá sem fjallskil innir af höndum, hvort heldur við smölun afrétta eða heimalanda, skal leitast við að handsama svo fljótt sem verða má, ómerkinga, sem vart kann að verða, og auðkenna þá ef þeir fylgja móður.

Nú koma ómerkingar eða annað óskilafé til réttar, og skal þá draga það í sérstakan dilk þar sem menn eiga kost á að leiða mæður til ómerkinga og sanna eignarrétt sinn á öðru óskilafé.

 

29. gr.

Ómerkinga og óskilafé sem kemur fyrir í skilaréttum eða eftir réttir og ekki finnast eigendur að skal farið með samkvæmt reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár, og sér fjallskilastjóri um að svo sé gert.

 

30. gr.

Annan óskilapening, svo sem hross og nautgripi, má selja að kröfu sýslumanns við nauð­ungar­sölu með 4 vikna innlausnarfresti án þess að sérstakrar áskorunar sé þörf til eiganda. Af andvirði seldra hrossa og nautgripa greiðist áfallinn kostnaður. Eftirstöðvar andvirðis greiðast eiganda, ef hann sannar eignarrétt sinn innan tiltekins tíma, ella í fjallskilasjóð eða sjóði þeirra fjallskiladeilda, þar sem óskila­peningurinn kom fyrir.

Fyrir árslok skal sveitarstjórn birta í Lögbirtingablaði og einum staðbundnum prentmiðli til­kynningu um förgun eða sölu óskilahrossa eða nautgripa. Skal í tilkynningu greint auðkenni hverrar skepnu, eftir því sem kostur er, og skorað á rétta eigendur að gefa sig fram og sanna rétt sinn innan tiltekins tíma.

 

VII. KAFLI

Um markaskrá.

31. gr.

Skylt er að eyrnamarka allt fé áður en því er sleppt á fjall. Búfjármörk eru; örmerki, frostmerki, brennimörk, plötumerki og eyrnamörk. Skylt er hverjum búfjáreiganda að hafa glöggt mark á búfé sínu. Við sönnun eignar er örmerki rétthæst, þar næst frostmerki, síðan brennimark, þá plötumerki og síðast eyrnamark. Skylt er að brennimerkja eða plötumerkja allt ásett fé með brennimerki eða númeri lögbýlis/eiganda, sýslutákni og númeri sveitarfélags. Samkvæmt reglugerð nr. 289/2005 skal merkja öll lömb með lituðu plötumerki innan 30 daga aldurs og merkja skal öll ásetningslömb með varan­legu lituðu plötumerki.

 

32. gr.

SSA skipar einn markavörð í fjallskilaumdæminu til átta ára í senn. Markavörður annast skrán­ingu og lögbirtingu marka í samvinnu við Bændasamtök Íslands. Markaverði ber að koma í veg fyrir sammerkingar sbr. reglugerð. SSA ákvarðar að fengnum tillögum markavarðar þau gjöld sem mark­eigendur skulu greiða við útgáfu markaskrár og við skráningu marka í annan tíma.

 

33. gr.

Sýslutákn og númer sveitarfélaga skulu vera eftirfarandi, í samræmi við eldri sveitarfélaga­skipan:

Í Vopnafjarðarhreppi N-2 Í Mjóafjarðarhreppi U-4
Í Jökuldal N-3 Í Norðfjarðarhreppi U-5
Í Jökulsárhlíð N-4 Í Reyðarfjarðarhreppi U-6
Í Hróarstungu N-5 Í Fáskrúðsfjarðarhreppi U-7
Í Fellum N-6 Í Breiðdalshreppi U-8
Í Fljótsdalshreppi N-7 Í Beruneshreppi U-9
Í Hjaltastaðaþinghá N-8 Í Geithellnahreppi U-10
Í Borgarfjarðarhreppi N-9 Í Stöðvarhreppi U-11
Í Seyðisfjarðarhreppi N-11 Í Búðahreppi U-12
Í Seyðisfjarðarkaupstað N-12 Í Eskifirði U-14
Í Eiðaþinghá U-1 Í Neskaupstað U-15
Á Völlum U-2 Í Búlandshreppi U-16
Í Skriðdal U-3 Á Egilsstöðum U-17

 

34. gr.

Um fjármörk, merkingar búfjár og útgáfu markaskrár fer að öðru leyti eftir lögum nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., reglugerð um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár nr. 200/1998 og reglugerð um merkingar búfjár nr. 916/2012.

 

VIII. KAFLI

Almenn ákvæði.

35. gr.

SSA sker úr öllum ágreiningi sveitarstjórna út af fjallskilamálum. Enn fremur geta einstakir menn komið sér saman um að leggja slík mál fyrir stjórn SSA og úrskurð hennar.

 

36. gr.

Brot gegn ákvæðum samþykktar þessarar varða sektum og skal fara með mál út af þeim að hætti opinberra mála og þau rekin fyrir Héraðsdómi Austurlands.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 3. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl., til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld fjallskilasamþykkt fyrir Múlasýslur nr. 9/2006.

 

Austurlandi, 21. mars 2023.

 

Jóna Árný Þórðardóttir,
framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 5. apríl 2023