Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1161/2021

Nr. 1161/2021 12. október 2021

REGLUGERÐ
um loðnuveiðar íslenskra skipa á vetrarvertíð 2021/2022.

1. gr.

Reglugerð þessi tekur til loðnuveiða íslenskra skipa úr fiskveiðilandhelgi Íslands, Grænlands og Jan Mayen á tímabilinu frá og með 15. október 2021 til og með 30. apríl 2022.

 

2. gr.

Aðeins skipum sem hafa aflamark í loðnu er heimilt að stunda loðnuveiðar. Veiðar umfram aflamark í loðnu varða gjaldtöku samkvæmt ákvæðum laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólöglegs sjávarafla.

Skip er hafa aflamark í loðnu og stunda loðnuveiðar skulu skila inn upplýsingum um dælubúnað til flutnings afla og hvar mögulegt er að dæla honum úr skipinu. Þessum upplýsingum skal skila í tölvu­pósti til [email protected] merkt „vacuum“.

Leyfilegur hámarksafli íslenskra loðnuveiðiskipa á loðnuvertíðinni er sem hér segir:

A B C
Tonn Tonn Tonn
662.064 35.089 626.975

Skýringar á töflu:

  1. Leyfilegur heildarafli.
  2. Skerðing skv. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006 (5,3%).
  3. Fiskistofa úthlutar til skipa á grundvelli aflahlutdeildar.

 

3. gr.

Loðnuveiðar eru heimilar í fiskveiðilandhelgi Íslands, Grænlands og Jan Mayen. Þó er íslenskum skipum einungis heimilt að stunda loðnuveiðar austan Hvarfs og norðan 64°30´N í lög­sögu Grænlands og er þeim þar aðeins heimilt að veiða 35% af leyfilegum heildarafla íslensku skip­anna. Í lögsögu Jan Mayen er þeim aðeins heimilt að veiða 35% af leyfilegum heildarafla íslensku skip­anna til 15. febrúar 2022.

Óheimilt er að stunda loðnuveiðar í lögsögu annarra ríkja en skv. 1. mgr., nema að fenginni stað­festingu Fiskistofu á fyrirliggjandi leyfi frá viðkomandi stjórnvöldum.

Við loðnuveiðar í lögsögu annarra ríkja skal fara eftir reglum sem viðkomandi stjórnvöld setja, auk þess skal tilkynna til Fiskistofu þegar farið er inn í og út úr viðkomandi lögsögu, ásamt upp­lýsingum um afla um borð í báðum tilvikum, og daglega skal tilkynna um afla síðastliðinn sólar­hring. Tilkynn­ingar skal senda á netfangið [email protected].

 

4. gr.

Loðnuafla skal landað og hann veginn í íslenskri höfn. Heimilt er þó með leyfi Fiskistofu að landa loðnu til bræðslu og heilfrystri loðnu í höfnum erlendis enda sé tryggt að eftirlit með vigtun aflans sé fullnægjandi að mati Fiskistofu. Jafnframt er heimilt að fengnu leyfi Fiskistofu að landa óvigtaðri loðnu um borð í vinnsluskip og flutningaskip, enda sé tryggt að skráning og vigtun afla sé full­nægjandi að mati Fiskistofu. Sækja skal um leyfi til löndunar loðnu utan íslenskra hafna til Fiski­stofu og skal skipstjóri í umsókn tilgreina nákvæmlega hvar hann hyggst landa aflanum og áætlað magn loðnu. Þegar að löndun lokinni skal skipstjóri veiðiskips senda Fiskistofu endanlegar tölur um landaðan afla og aflaverðmæti, staðfestar af móttakanda loðnunnar, eða staðfest afrit af vigtar­nótu, liggi það fyrir.

Heimilt er að miðla afla úr nótum á miðunum, milli skipa sem hafa leyfi til loðnuveiða í því skyni að koma í veg fyrir að loðnu sé sleppt dauðri úr nótum. Fái veiðiskip svo stórt kast að skip­stjóri telji að ekki sé lestarrými fyrir þann afla sem hann áætlar að sé í nótinni og ekkert skip nærstatt til að miðla loðnuafla til, skal heimilt, áður en verulega er þrengt að loðnunni í nótinni, að sleppa niður lifandi loðnu sem fyrirsjáanlega rúmast ekki í lestum skipsins. Vinnsluskipum er ekki heimilt að sleppa niður loðnu til að samræma afla vinnslugetu.

Um vigtun á loðnu gilda að öðru leyti ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla.

 

5. gr.

Aðeins er heimilt að stunda loðnuveiðar með flotvörpu innan svæðis sem afmarkast af línum sem dregnar eru milli eftirfarandi punkta:

  1. 67°11´N – 014°30´V
  2. 68°00´N – 014°30´V
  3. 68°00´N – 008°30´V
  4. 65°15´N – 008°30´V
  5. 65°15´N – 011°20´V
  6. 66°05´N – 011°30´V
  7. 66°15´N – 012°00´V
  8. 66°12´N – 012°22´V
  9. 66°40´N – 012°40´V
  10. 66°47´N – 013°00´V
  11. 66°52´N – 013°08´V
  12. 67°11´N – 014°30´V

 

Ráðuneytið getur takmarkað eða bannað loðnuveiðar á ákveðnum svæðum í tiltekinn tíma þyki ástæða til þess, m.a. vegna verndunarsjónarmiða og til þess að stuðla að sem bestri hagnýtingu loðnu­stofnsins. Jafnframt getur ráðherra tekið ákvörðun um að ákveðinn fjöldi skipa stundi tilrauna­veiðar á loðnu í því skyni að kanna ástand loðnustofnsins undir eftirliti Hafrannsóknastofnunar.

 

6. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiði­landhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Reglugerðin öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 60/2021 um loðnuveiðar íslenskra skipa á vetrarvertíð 2021.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 12. október 2021.

 

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 14. október 2021