Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1270/2023

Nr. 1270/2023 23. nóvember 2023

REGLUR
um starfsemi tónlistarsjóðs.

1. gr.

Hlutverk og skipulag tónlistarsjóðs.

Hlutverk tónlistarsjóðs er að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistar­iðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra hér á landi sem erlendis.

Tekjur tónlistarsjóðs eru:

 1. Framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
 2. Önnur framlög.

Fjármagn til sjóðsins skiptist á milli deilda á eftirfarandi hátt: þróun og innviðir 21%, frum­sköpun og útgáfa 25%, lifandi flutningur 25% og útflutningur 17%. Þar að auki munu 12% deilast á milli sjóða eftir ásókn umsækjenda og áherslum sjóðsins hverju sinni.

Menningar- og viðskiptaráðherra úthlutar styrkjum úr öllum deildum tónlistarsjóðs a.m.k. einu sinni á ári. Styrkjum skal úthlutað til ákveðinna verkefna og til ákveðins tíma hverju sinni.

 

2. gr.

Hlutverk einstakra deilda.

Hlutverk tónlistarsjóðs er eftirfarandi eftir deildum sjóðsins:

 1. Þróun og innviðir: Deildin veitir bæði langtímasamninga til tveggja eða þriggja ára og staka verkefnastyrki til uppbyggingar innviða tónlistargeirans s.s. tónleikahátíða, tónleika­staða, viðskiptahugmynda í tónlist og sprotaverkefna.
 2. Frumsköpun og útgáfa:  Deildin veitir styrki til hvers kyns frumsköpunar á tónlist og útgáfu auk verkefna sem snúa að markaðssetningu tónlistar. Hljóðritun, útgáfa, tónsmíðar og gerð kynningarefnis heyrir hér undir.
 3. Lifandi flutningur: Deildin veitir styrki til tónleikahalds innanlands og markaðssetningar á tónleikahaldi innanlands. Veittir eru bæði stakir verkefnastyrkir og langtímasamningar til tveggja eða þriggja ára vegna tónleikahalds til t.d. tónlistarhópa.
 4. Útflutningur: Deildinstyrkir íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyr­enda­hóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands. Veittir eru ferðastyrkir og styrkir til markaðssetningar erlendis.

 

3. gr.

Úthlutunarnefnd.

Ráðherra skipar úthlutunarnefnd fyrir hverja deild til tveggja ára í senn. Í hverri úthlutunarnefnd skulu eiga sæti þrír fulltrúar, tveir tilnefndir af fagfélögum innan tónlistar og einn, sem jafnframt er formaður, skal skipaður af ráðherra án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra getur veitt heimild til að ein úthlutunarnefnd taki að sér fleiri en eina deild. Nefndar­mönnum er einungis heimilt að sitja tvö tímabil í senn.

Þóknun fulltrúa í úthlutunarnefndum og annar kostnaður við störf úthlutunarnefnda greiðist úr tónlistarsjóði.

Úthlutunarnefndum er heimilt að leita utanaðkomandi faglegrar ráðgjafar við mat umsókna.

 

4. gr.

Umsýsla og stefna.

Tónlistarsjóður er í umsýslu Tónlistarmiðstöðvar og starfar í samræmi við stefnu og áherslur sem ráðherra ákveður á grundvelli tillagna Tónlistarmiðstöðvar.

 

5. gr.

Auglýsingar og umsóknir.

Menningar- og viðskiptaráðherra, eða Tónlistarmiðstöð fyrir hans hönd, auglýsir eftir umsóknum um styrki úr tónlistarsjóði á vefsvæði sínu og með öðrum sannanlegum hætti, svo sem í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Í auglýsingu skal koma fram hvar og hvernig sækja má um styrk, auk upp­lýsinga um tilgang og hlutverk sjóðsins og helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum. Þá skal skilgreindur umsóknarfrestur og afgreiðslutími umsókna.

Umsóknum skal skilað á viðeigandi umsóknareyðublaði tónlistarsjóðs og skulu þær bera greini­lega með sér hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum. Þeim skulu fylgja eftirtalin gögn og upp­lýsingar eftir því sem við á:

 1. upplýsingar um umsækjanda eða umsækjendur, aðra þátttakendur og samstarfsaðila, ef ein­hverjir eru, og nafn þess sem annast samskipti við sjóðinn,
 2. upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn aðila verkefnisins,
 3. lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda og með tilliti til hlutverks viðeigandi deildar tónlistarsjóðs sem sótt er um,
 4. verk- og tímaáætlun,
 5. fjárhagsáætlun þar sem fram koma m.a. upplýsingar um áætlaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða sótt hefur verið um vegna verkefnisins,
 6. staðfest gögn frá samstarfsaðilum sem og önnur gögn til stuðnings umsókn.

 

6. gr.

Mat á umsóknum.

Úthlutunarnefnd hverrar deildar tónlistarsjóðs metur styrkhæfi umsókna og gerir tillögur til ráðherra um afgreiðslu þeirra. Úthlutunarnefnd getur metið að umsókn eigi betur heima í annarri deild tónlistarsjóðs og ber þá að koma umsókn til þeirrar deildar eins fljótt og auðið er. Ráðherra getur sett úthlutunarnefndum ákveðna fresti í þessu skyni.

Tónlistarmiðstöð setur matskvarða fyrir hverja deild tónlistarsjóðs. Við mat á öllum umsóknum skal taka tillit til:

 1. starfsferlis, faglegs og/eða listræns bakgrunns umsækjanda og annarra þátttakenda,
 2. gildis og mikilvægis verkefnisins,
 3. þess að áætlun sé raunhæf, vel unnin og sannfærandi,
 4. þess að fjárhagsáætlun sé raunhæf og sýni sannanlega fjárþörf,
 5. samræmis umsóknarinnar við tónlistarstefnu Íslands.

Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna og viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

 

7. gr.

Ákvörðun um styrkveitingar og eftirlit.

Úthlutunarnefndir gera tillögu til ráðuneytis um úthlutun og ráðstöfun fjár úr tónlistarsjóði. Tillögur úthlutunarnefnda skulu vera skriflegar og geyma í stuttu máli almenna lýsingu á fram­kvæmd og málsmeðferð við tillögugerðina.

Menningar- og viðskiptaráðherra úthlutar styrkjum úr tónlistarsjóði á grundvelli tillagna úthlut­unarnefnda. Heimilt er að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verk­efna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skil­yrðum. Í því skyni er heimilt að krefja styrkþega um skýrslur um framvindu verkefnisins sem styrkt er. Heimilt er að skilyrða lokagreiðslu styrkja við skil greinargerðar um verkefnið.

Tónlistarmiðstöð tilkynnir umsækjendum um afgreiðslu umsókna þeirra. Umsækjendum um styrki til verkefna, sem fallist er á að styrkja, skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög, ef út af bregður. Menningar- og viðskiptaráðuneytið annast greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á þau skilyrði sem styrkveiting er bundin.

 

8. gr.

Niðurfelling eða endurgreiðsla styrkveitingar.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur ráðherra tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur ráðherra krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta.

Tónlistarmiðstöð getur beint rökstuddum tilmælum til ráðherra um að hann grípi til ráðstafana á grundvelli 1. eða 2. mgr. Áður en ákvörðun samkvæmt 1. eða 2. mgr. er tekin skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

 

9. gr.

Styrktímabil.

Styrkir úr tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna. Hægt er að sækja um fyrir verkefni sem hefjast innan 18 mánaða eftir að úthlutun fer fram. Þó getur ráðherra, skv. tillögu úthlutunar­nefndar, úthlutað styrk fyrir verkefni sem þegar er hafið og nær til lengri tíma en upphaflega var áætlað eða upphaflegur styrksamningur kveður á um.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar skv. heimild í 7. mgr. 7. gr., sbr. einnig 12. gr. tónlistarlaga, nr. 33/2023, og öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur um úthlutun styrkveitinga úr tónlistar­sjóði, nr. 125/2005.

 

Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, 23. nóvember 2023.

 

Lilja D. Alfreðsdóttir.

Sigrún Brynja Einarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 27. nóvember 2023