Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 135/2020

Nr. 135/2020 4. febrúar 2020

REGLUR
um úthlutun styrkja úr Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóði.

1. gr.

Tilgangur.

Í samræmi við þingsályktun nr. 40/149 um aðgerðaáætlun um matvælaöryggi og vernd búfjár­stofna, er starfræktur sérstakur sjóður, sem nýtur framlaga frá heilbrigðisráðuneytinu og atvinnu­vega- og nýsköpunarráðuneytinu sem og af fjárlögum í þrjú ár, þ.e. frá 2020 til ársloka 2022.

Tilgangur sjóðsins er að fjármagna verkefni undir formerkjum „Einnar heilsu“ (e. One Health) í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Tilgangur sjóðsins er eftirfarandi:

  1. Styrkja grunnrannsóknir í sýklalyfjaónæmi.
  2. Fjármagna tilteknar skimanir fyrir ónæmum sýklum, en einungis verða fjármagnaðar skim­anir sem eru umfram lögbundnar skimanir, t.d. tilteknar skimanir í matvælum, sauðfé, hrossum, gæludýrum, sníkjudýrum og umhverfi.
  3. Fjármagna umframkostnað vegna rannsókna í almannaþágu í því skyni að rekja uppruna sýkla sem dreifast á milli manna og dýra (súnur) í þeim tilvikum þegar upp koma hrinur, hóp­sýkingar eða faraldrar, en stór hluti sýkinga hjá mönnum og dýrum er tilkominn vegna þeirra. Með vísan til þess að framangreindir sýklar eru bæði sýklalyfjanæmir og -ónæmir er mikilvægt að sjóðurinn taki til fjármögnunar á framangreindum rannsóknum.

 

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra skipa sjóðstjórn til ársloka 2022, fjóra aðalmenn og fjóra til vara. Einn skal tilnefndur af Matvælastofnun, einn af embætti landlæknis, einn af heilbrigðisráðuneytinu og einn af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra án tilnefningar sem jafnframt er formaður sjóðsins. Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt og aðalmenn. Ákvarðanir í nefndinni skulu teknar með einföldum meiri hluta atkvæða. Komi upp jöfn staða atkvæða sker atkvæði formanns úr um niðurstöðu. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

Sjóðstjórn annast mat á umsóknum um styrki. Stjórnin setur sér starfsreglur sem staðfestar skulu af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra.

Stjórnsýsla Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs, þ.m.t. varsla sjóðsins og dagleg umsýsla hans, er hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

 

3. gr.

Fjármunir og greiðsluáætlun.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið leggja sjóðnum til 30 milljónir króna árlega fyrir starfsárin 2020, 2021 og 2022. Kostnaðarhlutdeild skal skiptast jafnt milli ráðuneytanna. Verði árlegum fjármunum ekki ráðstafað fyrir lok hvers starfsárs flytjast þeir á milli ára. Sjóðstjórn semur greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert þar sem gerð er grein fyrir fjölda styrk­veitinga og fjárhæð þeirra.

 

4. gr.

Styrkveitingar.

Sjóðstjórn ákveður fjölda styrkja. Að meginstefnu til skulu styrkirnir veittir til verkefna og rann­sókna sem tilgreind eru í 1. gr. reglna þessara. Samþykki sjóðstjórnar þarf fyrir öllum fjár­útlátum. Þegar almannahagsmunir krefjast er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðis­ráðherra þó heimilt að veita styrk úr sjóðnum að fenginni umsögn frá Matvælastofnun eða sótt­varnalækni. Sjóðstjórn skilar ársskýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og heilbrigðis­ráðherra. Í skýrsl­unni skal koma fram hvernig ráðstafað hefur verið úr sjóðinum.

 

5. gr.

Auglýsing um styrkveitingar.

Stjórn Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs skal auglýsa eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum vegna grunnrannsókna á sýklalyfjaónæmi. Í auglýsingu skal tilgreina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast sjóðnum. Í starfsreglum stjórnar Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs er kveðið nánar á um efni auglýsingar.

 

6. gr.

Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar. Verði breyting á framvindu verkefnis eða rannsóknar skulu styrkþegar tilkynna sjóð­stjórn skriflega þar um. Stjórnin tekur afstöðu til þess hvort breyting á framvindu hafi áhrif á styrk­veitingu verkefnis eða rannsóknar. Verði misbrestur á eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu ekki uppfyllt er heimilt að fara fram á endurgreiðslu styrksins. Sé styrks ekki vitjað innan tveggja ára frá dagsetningu tilkynningar fellur hann niður. Niðurstöður grunnrannsókna sem hlotið hafa styrk samkvæmt reglum þessum skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum sjóð­stjórnar.

 

7. gr.

Meðferð umsókna.

Farið er með allar umsóknir og fylgigögn sem trúnaðarmál. Upplýsingar um verkefni og reikn­inga skulu undanþegnar trúnaðarskyldu nema trúnaðar sé sérstaklega óskað og sjóðstjórn samþykki. Öllum umsóknum skal svarað skriflega.

 

8. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Reikningsár Sýklalyfjaónæmis- og súnusjóðs er almanaksárið. Ríkisendurskoðun endurskoðar reikn­inga sjóðsins.

 

9. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

 

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. febrúar 2020.

 

Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Kristján Skarphéðinsson.

 

Heilbrigðisráðuneytinu, 4. febrúar 2020.

 

Svandís Svavarsdóttir.

Ásta Valdimarsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 21. febrúar 2020