Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1157/2015

Nr. 1157/2015 8. desember 2015

REGLUR
um breytingar á reglum nr. 140/2014 um meistaranám við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

1. gr.

Á eftir IX. lið 16. gr. reglnanna bætist við ný undirgrein um nám í klínískri lyfjafræði, svohljóðandi:

Klínísk lyfjafræði.

1. Um námið.

Lyfjafræðideild veitir kennslu til MS-prófs í klínískri lyfjafræði. Kennsla fer fram í námskeiðum sem metin eru til námseininga. Nám í klínískri lyfjafræði til MS-prófs jafngildir 90 einingum, þar af er rannsóknarverkefni 30 einingar.

2. Inntökuskilyrði.

Aðgang að námi í klínískri lyfjafræði til MS-prófs hafa þeir sem lokið hafa MS-prófi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu prófi í lyfjafræði frá öðrum viðurkenndum háskóla. Til þess að hefja MS-nám í klínískri lyfjafræði þarf að lágmarki meðaleinkunnina 6,5 í fyrrnefndu lyfja­fræði­námi. Aðgangur að náminu er auk þess háður sérstökum reglum um fjöldatakmörkun sem háskóla­­ráð samþykkir.

3. Samsetning náms.

Námið er skipulagt sem starfstengt nám á Landspítala háskólasjúkrahúsi og tekur 3 ár miðað við 50% starfsnám. Hver nemandi fær í upphafi náms leiðbeinanda sem ber ábyrgð á nemandanum á meðan á námi stendur. Námið er samsett úr tveimur 30 eininga skyldunámskeiðum, auk 30 eininga rannsóknarverkefnis.

4. Einkunnir.

Til að standast próf í meistaranámi í klínískri lyfjafræði verður nemandi að hljóta minnst einkunnina 5,0 í hverju námskeiði um sig auk allra námskeiðshluta í einstökum námskeiðum. Sjá nánar 4. og 5. mgr. 100. gr. í reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Meðaleinkunn úr öllum námskeiðum skal ekki vera lægri en 6,0.

5. Tengsl við aðra háskóla og sjúkrahús.

Kennslan fer að mestu fram á sjúkrahúsapóteki Landspítala og deildum hans. Nemandi getur einnig átt kost á tímabundinni námsdvöl við háskólasjúkrahús erlendis, samkvæmt sérstöku samkomulagi í hverju tilviki.

6. Námsmat og meistarapróf.

Um leið og ritgerð er lögð fram skal jafnframt leggja fram til mats meistaranámsnefndar staðfest námsferilsyfirlit nemanda. Í meistaraprófi í klínískri lyfjafræði flytur nemandi fyrirlestur um rann­sóknar­verkefnið og hafa prófdómarar síðan samtals u.þ.b. klukkustund til að prófa nemand­ann. Prófdómarar ásamt umsjónarkennara og prófstjóra, sem skipaður er af meistara­náms­nefnd, meta frammistöðu nemanda og gefa honum einkunn.

7. Skil og frágangur meistararitgerða.

Meistararitgerð má skrifa á íslensku eða ensku. Meistararitgerð skal uppfylla kröfur lyfjafræðideildar Háskóla Íslands um ritgerðir til meistaraprófs. Í henni skal vera ítarlegur inngangur þar sem staða rannsókna á fræðasviðinu er rakin, aðferðafræði sem beitt var, niðurstöður, ítarleg umfjöllun og heimildaskrá sem skal vera samkvæmt almennum reglum vísindatímarita. Hafi nemandi skrifað grein/greinar til birtingar geta þær verið hluti af ritgerðinni. Í ritgerð skal getið spítala sem rann­sóknin var unnin við og einnig skal geta umsjónarkennara og leiðbeinanda. Koma skal skýrt fram að verkefnið hafi verið unnið við Háskóla Íslands og geta skal þeirra sjóða sem styrktu verk­efnið. Meistararitgerð skal skilað í fimm eintökum og á rafrænu formi til skrifstofu lyfja­fræði­deildar eigi síðar en mánuði fyrir áætlaðan prófdag. Lyfjafræðideild tekur ekki þátt í kostnaði vegna meist­ara­ritgerða.

8. Lærdómstitill.

Að loknu meistaranámi í klínískri lyfjafræði hlýtur nemandinn lærdómstitilinn Master of Science in Clinical Pharmacy (MS).

2. gr.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði með heimild í 3. mgr. 18. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Reglurnar hafa verið samþykktar af lyfjafræðideild og stjórn heilbrigðisvísindasviðs, auk Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi.

Háskóla Íslands, 8. desember 2015.

Jón Atli Benediktsson.

Þórður Kristinsson.


B deild - Útgáfud.: 22. desember 2015