Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 152/2023

Nr. 152/2023 3. febrúar 2023

REGLUR
um framkvæmd hæfismats framkvæmdastjóra og stjórnarmanna aðila sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og þjónustuveitenda sýndareigna.

I. KAFLI

Almennt.

1. gr.

Gildissvið.

Reglur þessar gilda um framkvæmdastjóra og stjórnarmenn aðila sem veita gjaldeyrisskipta­þjónustu og þjónustuveitenda sýndareigna.

Með framkvæmdastjóra er átt við einstakling sem stjórn aðila skv. 1. mgr. ræður til þess að standa fyrir rekstri þess. Með stjórnarmönnum er átt við aðalmenn og varamenn í stjórn.

 

2. gr.

Hæfi og hæfni.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu uppfylla þær hæfiskröfur sem gerðar eru til þeirra í lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Aðilar sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og þjónustuveitendur sýndareigna skulu hafa skjal­festa stefnu og verklag til að tryggja að framkvæmdastjórar og stjórnarmenn séu á hverjum tíma hæfir og hafi hæfni til að sinna starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

 

3. gr.

Tilkynning um nýja framkvæmdastjóra eða stjórnarmenn.

Aðilar sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu og þjónustuveitendur sýndareigna skulu tilkynna fjár­málaeftirlitinu fyrir fram, ef hægt er, þó eigi síðar en innan viku, um breytingar á ráðningum fram­kvæmda­stjóra og skipan stjórnarmanna.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu skila fjármálaeftirlitinu eftirfarandi gögnum eigi síðar en tveimur vikum eftir ráðningu fram­kvæmda­stjóra eða skipan nýrra stjórnarmanna:

 1. Upplýsingagjöf framkvæmdastjóra og stjórnarmanna eftirlitsskyldra aðila samkvæmt spurn­inga­lista fjármálaeftirlitsins.
 2. Upplýsingum um fjárhagsstöðu, ef við á, m.a. um heildareignir, skuldir yfir 2 milljónum króna, tekjur, gjöld, ábyrgðir, veðsetningu eigna til þriðja aðila, vanskil og annað sem fram­kvæmdastjóri eða stjórnarmaður telur að skipt geti máli við mat á fjárhagslegu sjálfstæði samkvæmt eyðublaði fjármálaeftirlitsins.

Fjármálaeftirlitið getur óskað eftir frekari gögnum en að framan greinir ef það er nauðsynlegt vegna mats á hæfi og hæfni aðila.

Ef upplýsingar samkvæmt framangreindu eru ófullnægjandi að mati fjármálaeftirlitsins getur það leitt til þess að ekki verði unnt að leggja mat á hæfi og hæfni aðila. Skal farið með þá aðila líkt og aðila sem ekki uppfylla hæfisskilyrði viðeigandi laga, sbr. 15. gr. reglna þessara.

 

II. KAFLI

Hæfisskilyrði.

4. gr.

Mat á hæfi og hæfni.

Mat á hæfi og hæfni felst annars vegar í yfirferð skriflegra gagna og hins vegar munnlegu hæfis­mati þegar það á við, sbr. III. og IV. kafla reglna þessara.

Yfirferð skriflegra gagna, sbr. I. kafla reglna þessara, felst í athugun á því hvort framkvæmda­stjóri eða stjórnarmaður uppfylli m.a. kröfur 1. mgr. 37. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjár­mögnun hryðjuverka, um:

 1. lögræði,
 2. gott orðspor,
 3. að hafa ekki á síðustu fimm árum verið úrskurðaður gjaldþrota,
 4. að hafa ekki á síðustu 10 árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum sem upp eru talin í b-lið 1. mgr. 37. gr. laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,
 5. fjárhagslegt sjálfstæði,
 6. þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi.

 

5. gr.

Þekking, hæfni og reynsla sem nýtist í starfi.

Með þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi er átt við að framkvæmdastjóri eða stjórnar­maður hafi aflað sér starfsreynslu eða fræðilegrar þekkingar sem tengist starfsemi félagsins, ásamt þekkingu á viðeigandi regluverki sem um starfsemina gildi.

Við mat á nægilegri þekkingu, hæfni og reynslu er höfð hliðsjón af tegund, umfangi og eðli starf­semi þess félags sem um ræðir.

 

6. gr.

Gott orðspor.

Við mat á góðu orðspori er litið til þess hvort framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður hafi sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að draga í efa hæfni viðkomandi til að standa fyrir traustum og heilbrigðum rekstri eða að líkur séu til að hann muni misnota aðstöðu sína eða skaða félagið.

Við matið er einnig litið til háttsemi framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns sem kynni að rýra trúverðugleika hans og skaða orðspor félagsins ef opinber væri. Í því sambandi koma m.a. til skoðunar fyrri afskipti fjármálaeftirlitsins vegna starfa aðila eða vegna starfshátta eftirlitsskylds aðila sem hann var í forsvari fyrir eða bar ábyrgð á og hvort fyrri háttsemi hafi gefið tilefni til ávirðinga á hendur aðila.

 

7. gr.

Fjárhagslegt sjálfstæði.

Við mat á fjárhagslegu sjálfstæði er litið til eftirfarandi atriða:

 1. Að eiginfjárstaða viðkomandi sé jákvæð.
 2. Að tekjur viðkomandi standi undir afborgunum af skuldum og framfærslu.
 3. Að viðkomandi sé ekki á opinberri vanskilaskrá.
 4. Að skuldir, ábyrgðir gagnvart þriðja aðila og veðsetning eigna séu ekki þess eðlis að efast megi um óhæði gagnvart lánveitanda/kröfuhafa og það sé ekki líklegt til að hafa áhrif á störf hans í viðkomandi félagi. Við mat á því hvort framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður teljist háður öðrum er horft til þess hvort skuldbindingin, með hliðsjón af árstekjum, teljist veruleg. Undanskildar skuldbindingar samkvæmt þessum lið eru hefðbundin lán sem standa almenn­ingi til boða t.d. íbúðalán, bílalán og námslán.
 5. Annarra atriða en að framan greinir er varða fjárhagsstöðu eða fjárhags­skuldbind­ingar og máli geta skipt að mati fjármálaeftirlitsins.

 

8. gr.

Mat á fjárhagslegu sjálfstæði.

Framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður telst fjárhagslega sjálfstæður ef hann uppfyllir skilyrði allra stafliða 7. gr. reglna þessara.

Ef framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður uppfyllir ekki skilyrði a- eða b-liðar 7. gr. er litið til eiginfjárstöðu og tekju- og greiðslu­flæðis til framtíðar með tilliti til þess hvort viðkomandi geti staðið við skuldbindingar sínar.

Við mat á d-lið 7. gr. er litið til þess hvort líkur séu til þess að framkvæmdastjóri eða stjórnar­maður yrði ítrekað vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu mála, að teknu tilliti til ákvæða laga, reglna og annarra viðmiða þar að lútandi.

Með öðrum atriðum skv. e-lið 7. gr. er átt við atriði sem hafa veruleg áhrif á fjárhagslegt sjálf­stæði stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra, þ. á m. atriða sem leiða til ítrekaðs vanhæfis, sbr. 3. mgr.

 

III. KAFLI

Munnlegt hæfismat.

9. gr.

Munnlegt hæfismat framkvæmdastjóra.

Framkvæmdastjóri skal undirgangast hæfismat innan sex vikna frá því að fjármálaeftirlitið hefur lokið yfirferð skriflegra gagna samkvæmt II. kafla reglna þessara.

Munnlegu hæfismati er ætlað að kanna hvort framkvæmdastjóri búi yfir nægilegri þekkingu, hæfni og reynslu sem nýtist í starfi. Í munnlegu hæfismati er m.a. könnuð þekking aðila á þeirri starf­semi sem viðkomandi félag stundar ásamt þekkingu á viðeigandi regluverki sem gildir um starf­semi félags­ins.

Við framkvæmd munnlegs hæfismats getur fjármálaeftirlitið notið aðstoðar utanað­komandi aðila, s.s. við mat á þekkingu.

 

10. gr.

Boðun í munnlegt hæfismat.

Til hæfismats skal boðað skriflega með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara og tilgreina hvaða efni verður til umræðu. Boðuðu hæfismati verður ekki frestað nema sýnt sé fram á að ríkar ástæður liggi fyrir og almennt skal því ekki frestað lengur en um eina viku.

 

11. gr.

Niðurstaða munnlegs hæfismats.

Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort framkvæmdastjóri hafi í munnlegu hæfismati sýnt fram á nægi­lega þekkingu, hæfni og reynslu til að geta gegnt starfi sínu á tilhlýðilegan hátt.

Fjármálaeftirlitið tilkynnir framkvæmdastjóra og stjórn viðkomandi aðila skv. 1. gr. skrif­lega um niðurstöðu hæfismats innan tveggja vikna frá framkvæmd þess.

 

12. gr.

Endurtekning munnlegs hæfismats.

Hafi framkvæmdastjóri að mati fjármálaeftirlitsins ekki sýnt fram á fullnægjandi þekkingu, hæfni og reynslu á því efni sem var til umræðu í hæfismati er honum gefinn kostur á að endurtaka munnlega hæfismatið innan fjögurra vikna frá því að niðurstaðan liggur fyrir.

Hæfismat verður einungis endurtekið einu sinni, nema sérstök rök leiði til annars.

 

13. gr.

Undanþágur frá munnlegu hæfismati.

Hafi framkvæmdastjóri á síðastliðnum 12 mánuðum sinnt starfi framkvæmdastjóra félags með sömu tegund skráningar að sambærilegri stærð og umfangi og staðist hæfiskröfur fjármála­eftirlitsins vegna þess starfs getur hann óskað eftir undanþágu frá munnlegu hæfismati.

Beiðni um undanþágu skal fylgja ítarlegur rökstuðningur sem skal studdur viðeigandi gögnum.

Fjármálaeftirlitið getur óskað viðbótarupplýsinga ef þörf krefur.

 

IV. KAFLI

Munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

14. gr.

Munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

Fjármálaeftirlitið metur hvort stjórnarmenn skuli gangast undir munnlegt hæfismat.

Ákvæði III. kafla reglna þessara gilda eftir því sem við á um munnlegt hæfismat stjórnarmanna.

 

V. KAFLI

Niðurstaða mats á hæfi og hæfni og viðvarandi mat.

15. gr.

Niðurstaða mats á hæfi og hæfni.

Geri fjármálaeftirlitið ekki athugasemd við hæfi og hæfni framkvæmdastjóra eða stjórnarmanns með vísan til hæfisskilyrða laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og reglna þessara skal það tilkynnt viðkomandi og stjórn félagsins skriflega. Telji fjármálaeftirlitið að fram­kvæmda­stjóri eða stjórnarmaður uppfylli ekki hæfisskilyrði laga um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka og ákvæði reglna þessara eða ef ekki er unnt að leggja mat á hæfi viðkomandi samkvæmt 4. mgr. 3. gr. reglna þessara tilkynnir það viðkomandi og stjórn félagsins skriflega um niðurstöðu sína ásamt rökstuðningi.

Framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður sem uppfyllir ekki hæfisskilyrði laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka og reglna þessara er óheimilt að gegna starfi fram­kvæmda­stjóra eða sitja í stjórn aðila sem veitir gjaldeyrisskiptaþjónustu eða þjónustuveitanda sýndar­eigna. Hafi framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður hafið störf fer um heimildir fjármála­eftirlitsins samkvæmt 10. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

16. gr.

Viðvarandi mat á hæfi.

Framkvæmdastjórar og stjórnarmenn skulu á hverjum tíma uppfylla hæfisskilyrði laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og ákvæði reglna þessara. Í því skyni ber þeim að viðhalda þekkingu sinni og afla sér nýrrar þekkingar eftir því sem tilefni er til.

Verði breytingar á áður veittum upplýsingum sem geta haft áhrif á hæfi og hæfni framkvæmda­stjóra eða stjórnarmanna ber viðkomandi að tilkynna það til fjármálaeftirlitsins án tafar en eigi síðar en innan tveggja vikna frá breyt­ing­unum.

Fjármálaeftirlitið getur á hverjum tíma tekið hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna til sér­stakrar skoðunar.

 

17. gr.

Mat á hæfi í tengslum við umsókn um skráningu.

Ef mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna tengist umsókn um skráningu og viðkom­andi framkvæmdastjóri eða stjórnarmaður uppfyllir ekki hæfisskilyrði laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka, verður félagið ekki skráð.

 

VI. KAFLI

Gildistaka.

18. gr.

Gildistaka.

Reglur þessar eru settar með heimild í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peninga­þvætti og fjármögnun hryðjuverka, og öðlast þegar gildi.

 

Seðlabanka Íslands, 3. febrúar 2023.

 

  Ásgeir Jónsson
seðlabankastjóri.
Björk Sigurgísladóttir
framkvæmdastjóri háttsemiseftirlits.

B deild - Útgáfud.: 17. febrúar 2023