1. gr.
Eigendur eða umráðamenn eftirlitsskyldra farandvéla, vinnuvéla, farandvinnuvéla, búvéla, lyfta og lyftubúnaðar, rúllustiga, eimkatla, geyma og þrýstihylkja skulu greiða gjald í ríkissjóð fyrir skráningu og reglubundnar skoðanir með slíkum vélum, tækjum og öðrum búnaði samkvæmt gjaldskrá þessari. Einnig innheimtir Vinnueftirlit ríkisins gjald fyrir skoðun á leiktækjum, gasmælingar, þrýstiraunir, verkleg próf, útgáfu skírteina og leyfisveitingar samkvæmt gjaldskrá þessari.
2. gr.
Fyrir skráningu og reglubundnar skoðanir véla, tækja og annars búnaðar sem og aðra þjónustu skv. 1. gr. sem tilgreind er í viðauka 1 með gjaldskrá þessari skal greiða gjald sem reiknað er þannig að margfaldaður er saman fjöldi gjaldeininga sem tilgreindur er í viðauka 1 og gjald fyrir hverja einingu skv. 2. mgr. þessarar greinar.
Fyrir hverja gjaldeiningu skal greiða kr. 2.785.
Fyrir aukaskoðun sem þarf að framkvæma vegna vanbúnaðar sem kemur í ljós við reglubundna skoðun eða vanrækslu á vélum, tækjum eða öðrum búnaði skv. 1. gr. skal greiða 75% af gjaldi reglubundinnar skoðunar. Fyrir aukaskoðun vegna uppsetningar véla, tækja eða annars búnaðar skv. 1. gr. sem eru með gilda reglubundna skoðun, til dæmis byggingakrana eða hengiverkpalla, skal greiða 50% af gjaldi fyrir reglubundna skoðun. Það sama á við um aukaskoðun vegna breytinga eða viðgerða á vélum, tækjum eða öðrum búnaði skv. 1. gr.
Fari fram reglubundin skoðun á vélum, tækjum eða öðrum búnaði skv. 1. gr. utan reglulegs vinnutíma samkvæmt ósk eiganda eða umráðamanns viðkomandi vélar, tækis eða annars búnaðar greiðist 50% álag á gjald samkvæmt gjaldskrá þessari, sbr. einnig 1. og 2. mgr. Sama gildir sé gasmæling, þrýstiraun eða önnur hliðstæð þjónusta framkvæmd utan reglulegs vinnutíma samkvæmt ósk atvinnurekanda.
3. gr.
Fyrir mælingar á hávaða, titringi, mengun í andrúmslofti, lýsingu vinnurýmis eða aðrar hliðstæðar mælingar sem og fyrir ýmis konar aukaþjónustu skal atvinnurekandi greiða þann kostnað sem af þjónustunni hlýst.
4. gr.
Fyrir þátttöku í námskeiðum Vinnueftirlitsins skulu þátttakendur greiða gjöld vegna kostnaðar við framkvæmd námskeiða.
5. gr.
Vinnueftirlit ríkisins innheimtir gjöld samkvæmt gjaldskrá þessari og getur stofnunin krafist greiðslu áður en þjónusta er innt af hendi. Innheimtumenn ríkissjóðs annast innheimtu gjaldanna séu þau ekki greidd á eindaga.
Gjaldskrá þessi, sem sett er skv. 2. mgr. 49. gr. og 4. mgr. 74. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fengnum tillögum forstjóra Vinnueftirlits ríkisins og umsögn stjórnar stofnunarinnar, öðlast gildi frá og með 1. janúar 2022. Frá sama tíma fellur úr gildi gjaldskrá fyrir sérstök eftirlits- og þjónustustörf Vinnueftirlits ríkisins, nr. 572/2001, ásamt öllum auglýsingum um breytingar á þeirri gjaldskrá.
Félagsmálaráðuneytinu, 15. desember 2021.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra.
Bjarnheiður Gautadóttir.
VIÐAUKI (sjá PDF-skjal)
|