Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1490/2023

Nr. 1490/2023 18. desember 2023

SAMÞYKKT
um fráveitu og rotþrær í Dalvíkurbyggð.

I. KAFLI

Um fráveituna.

1. gr.

Samþykkt þessi gildir um fráveitu og rotþrær í Dalvíkurbyggð og nær til allra fasteigna, íbúðar­húsnæðis, sumarbústaða, stofnana og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Samþykktin nær til allra fráveitna, þar með talið allra mannvirkja sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli, svo sem rotþróa, annarra hreinsivirkja, set- og sandskilja, fellitanka og olíu- og fitugildra. Jafnframt skulu uppfyllt ákvæði reglugerða nr. 982/2010, um fráveitur sveitarfélaga, nr. 798/1999, um fráveitur og skólp, nr. 799/1999, um meðhöndlun seyru, nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns, og nr. 797/1999, um varnir gegn mengun grunnvatns, sem og ákvæði laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs og laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

 

2. gr.

Veitu- og hafnaráð hefur umsjón með framkvæmd fráveitumála sveitarfélagsins sbr. samþykkt um stjórn Dalvíkurbyggðar og erindisbréf veitu- og hafnaráðs þar sem kveðið er á um verkefni ráðsins.

Sviðsstjóri veitu- og hafnaráðs er fráveitustjóri og veitu- og hafnaráð setur honum erindisbréf, í samráði við sveitarstjórn, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans.

 

3. gr.

Markmið samþykktar þessarar er að:

  1. afmarka skyldur sveitarfélagsins hvað varðar fráveitumál og fráveituframkvæmdir,
  2. tryggja uppbyggingu og starfrækslu fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið,
  3. skýra réttindi og skyldur eigenda og notenda fráveitna og
  4. stuðla að hagkvæmni í uppbyggingu og starfrækslu fráveitna.

 

4. gr.

Fráveita sveitarfélagsins veitir frárennsli sem getur verið húsaskólp, iðnaðarskólp, ofanvatn, frárennslisvatn vatns- eða hitaveitu, kælivatn og ræsisvatn um fráveitulagnir frá byggð til viðtaka.

Einföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni saman í einni fráveitulögn en tvöföld fráveita veitir skólpi og ofanvatni í tveimur aðskildum samliggjandi fráveitulögnum.

Fráveita Dalvíkurbyggðar á allar fráveitulagnir, þ.e. útrásir, stofnlagnir, safnræsi, fráveitu­teng­ingar, götuholræsi, ofanvatnsræsi í götum og opnum svæðum og götufráræsi að fráræsum hús­eigna við lóðamörk. Enn fremur allan fráveitubúnað, brunna, niðurföll, hverfisrotþrær, dælustöðvar og hreinsi­stöðvar. Sveitarfélagið sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna og fráveitubúnaðar.

Óheimilt er að tengja fráveitulögn í aðalfráveitu nema með leyfi sveitarstjórnar og er mönnum skylt að lúta í einu og öllu fyrirmælum um gerð og legu fráveitna. Umsókn um tengingu fráveitu húseignar við fráveitu Dalvíkurbyggðar skal skilað til skrifstofu sviðsstjóra veitu- og hafnaráðs á þar til gert umsóknareyðublað. Umsóknir skulu undirritaðar af húseigendum eða fullgildum umboðs­mönnum þeirra, ásamt pípulagningameistara þeim sem verkið á að vinna. Umsóknum skulu fylgja teikningar af fráveitulögnum húsa og lóða og fráveitum frá húseignum sem tengja á fráveitu sveitar­félagsins. Allar lagnir svo og frágangur skulu vera í samræmi við gildandi staðla á hverjum tíma.

 

5. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær til skal húseigendum séð fyrir götufráræsi frá götuholræsi að lóðarmörkum húseigna. Þar sem fráveitan liggur um lóðir skal séð fyrir tengigrein á fráveitulögn. Sviðsstjóri veitu- og hafnaráðs fer með stjórn framkvæmda er fráveitu varðar og ákveður legu götu­holræsa og tengigreina.

 

6. gr.

Húseigendum sem eiga húseignir við vegi eða opin svæði þar sem fráveita sveitarfélagsins liggur er skylt að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Þegar lögð er tvöföld fráveita skulu húseigendur halda skólpi aðskildu frá ofanvatni. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og reglugerða nr. 798/1999, um frá­veitur og skólp nr. 799/1999, um meðhöndlun seyru, nr. 796/1999, um varnir gegn mengun vatns og nr. 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns.

 

7. gr.

Þegar ekki er unnt að ná nægilegum halla á fráræsi húseignar að fráveitu sveitarfélagsins skal húseigandi leiða fráveituvatn frá húseigninni að hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, eða safnbrunni þannig staðsettum að hægt sé að veita fráveituvatni frá honum í fráveitu. Hafi fráveita ekki verið komin þegar húseign var byggð skal húseigandi kosta og tengja fráveitu húseignar sinnar við fráveitu sveitarfélagsins eftir að hún hefur verið lögð.

 

8. gr.

Þar sem fráveita sveitarfélagsins nær ekki til skulu húseigendur leiða fráveituvatn frá fráræsum húseigna um hreinsivirki, svo sem rotþrær með siturlögnum. Eigendur fasteigna skulu sækja um leyfi til niðursetningar rotþróar, safntanks eða sambærilegs búnaðar til sveitarfélagsins, sbr. 4. gr. Umsókn­um um hreinsivirki, svo sem rotþrær, skulu fylgja teikningar sem sýni gerð þeirra, stærð, staðsetningu og siturleiðslur að viðtaka auk teikninga af fráveitulögnum húsa og lóða. Hreinsivirki, svo sem rotþró með siturlögn, skal valinn þannig staður að auðvelt sé að komast að henni með tæki til hreinsunar, sbr. 18. gr.

Rotþró með siturlögn og önnur hreinsivirki skulu samþykkt af byggingarfulltrúa. Gerð og hönn­unarforsendur rotþróar eru háðar samþykki heilbrigðisnefndar í samræmi við leiðbeiningar Umhverf­is­stofnunar. Húseigandi kostar niðursetningu og annan frágang rotþróa og lagna svo og viðhald þeirra en sveitarstjórn getur sett sérstakar reglur um stuðning við framkvæmdirnar.

Hvert hreinsivirki, svo sem rotþró, skal hreinsa og tæma eftir þörfum samkvæmt nánari ákvæðum samþykktar þessarar. Hreinsun fer fram á vegum fráveitu Dalvíkurbyggðar og skal heil­brigðis­nefnd Norðurlands eystra hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Leita skal umsagnar heilbrigðis­nefndar varðandi verktilhögun og annað sem skiptir máli til að tryggja að góður árangur náist. Hreinsun er háð starfsleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Fráveitu Dalvíkurbyggðar er heimilt að fela öðrum aðilum fram­kvæmd hreinsunar.

 

9. gr.

Teikningar skulu fylgja almennum reglum um hönnun fráveitulagna í húsum, sbr. byggingar­reglugerð og byggingarskilmála. Allt efni skal standast kröfur um efni og vinnu sem gerðar eru á hverjum tíma.

 

10. gr.

Sviðsstjóri veitu- og hafnaráðs skal hafa eftirlit með því að fráveitulagnir frá húseignum séu lagðar samkvæmt samþykktum teikningum. Áður en lagnir eru huldar skal einnig taka út og viðu­rkenna fráveitu frá húseignum og tengingar þeirra við fráveitu sveitarfélagsins eða hreinsivirki, svo sem rotþrær.

 

11. gr.

Eigendum fasteigna er skylt að hlíta því að lagnir fráveitu sveitarfélagsins séu lagðar um lóðir þeirra og lönd og fram fari á þeim nauðsynlegt viðhald og hreinsun enda sé haft um það samráð við lóðarhafa. Fráveitu Dalvíkurbyggðar er skylt að halda raski í lágmarki og ganga snyrtilega um og færa allt til fyrra horfs eins og við verður komið.

 

12. gr.

Húseigendum er skylt að halda vel við fráveitulögnum húseigna sinna og gæta þess að þær stíflist ekki.

Óheimilt er að láta í fráveitu sveitarfélagsins fitu, svo sem frá íbúðarhúsum, veitingahúsum, mötuneytum eða matvælaiðnaði, olíur, bensín, lyf, lífræn leysiefni, önnur spilliefni eða annað það sem skemmt getur eða truflað rekstur fráveitukerfisins eða skaðað viðtaka.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn innihaldi framangreind efni, ber eiganda húseignar að gera ráðstafanir til að fjarlægja þau eða gera óskaðleg, áður en fráveituvatninu er veitt í fráveitukerfi. Fráveita Dalvíkurbyggðar getur krafist þess að viðurkenndum búnaði sé komið fyrir til að hindra að framangreind efni komist í fráveitukerfi.

Iðnaðarskólp skal forhreinsa áður en það er losað í fráveitu eða viðtaka. Notast skal við bestu fáanlegu tækni (BAT) við forhreinsun iðnaðarskólps. Eftirfarandi losunarmörk gilda um frárennsli sem losað er í fráveitukerfi sveitarfélaga á Norðurlandi eystra: COD 1.000 mg/l, svifagnir 500 mg/l, olía og fita 100 mg/l, mælt með stöðluðum aðferðum. Miðað er við meðaltöl fyrir vinnsludag. Heilbrigðisnefnd getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði, enda liggi fyrir rökstudd umsókn rekstrar­aðila þess efnis. Um mengunarvarnir fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og reglugerða settra samkvæmt þeim.

 

13. gr.

Þar sem hætta er á að fráveituvatn frá fráveitunni flæði til baka um fráræsislagnir frá húseignum vegna vatnsborðsriss af völdum ofanvatns eða hárrar sjávarstöðu skulu húseigendur koma fyrir einstreymislokum á fráveituheimæð eða sjálfvirkum flóðlokum við gólfniðurföll á sinn kostnað.

 

II. KAFLI

Um fráveitu- og rotþróargjöld.

14. gr.

Fráveita Dalvíkurbyggðar skal innheimta gjald fyrir tengingu við fráveitu sveitarfélagsins. Gjaldið skal ákveðið í gjaldskrá sem sveitarstjórn setur og birtir í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við 13. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

 

15. gr.

Af þeim fasteignum í sveitarfélaginu sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitar­félagsins skal árlega greiða fráveitugjald skv. 14. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

 

16. gr.

Álagningarstofn fráveitugjalds skal vera fasteignamat húsa, mannvirkja, lóða og landa, eða miðast við flatarmál fasteigna, samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna.

 

17. gr.

Fráveitugjald greiðist af skráðum eiganda fasteignar ef um eignarlóð er að ræða en af leigutaka ef um leigulóð er að ræða og bera þessir aðilar ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Gjaldið og gjalddaga þess skal sveitarfélagið ákveða í gjaldskrá og láta birta í B-deild Stjórnartíðinda skv. 59. gr. laga nr. 7/1998 og 15. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Fráveitugjald hvers árs skal innheimt á sama hátt og fasteignagjöld til bæjarsjóðs.

Fráveitugjaldi og tengigjaldi ásamt innheimtukostnaði og vöxtum fylgir lögveðsréttur í fast­eigninni í tvö ár frá gjalddaga. Lögveð þetta gengur fyrir eldri sem yngri samnings- og aðfarar­veðum og yngri lögveðum. Ef hús brennur eftir að fráveitugjald eða heimæðargjald gjaldfellur er sami forgangs­réttur í brunabótafjárhæð fasteignarinnar.

 

18. gr.

Fyrir hreinsun, tæmingu og niðursetningu á rotþró, öðrum hreinsivirkjum og förgun seyru skal húseigandi greiða árlegt rotþróargjald og fast gjald sem standa skal undir kostnaði við verkið. Gjöld þessi skal ákveða í gjaldskrá sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og ákvæði 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Sveitarstjórn setur og lætur birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda.

Rotþróargjöld hvers árs skal innheimta á sama hátt og fasteignagjöld til sveitarsjóðs. Heimilt er að innheimta aukagjald af þeim húseignum þar sem um óvenjumikinn kostnað er að ræða við hreinsun og tæmingu, svo sem vegna barkalengdar, endurkomu o.s.frv., eða þegar um sérstaka rotþró eða annað hreinsivirki við útihús er að ræða. Gjald þetta má þó aldrei vera hærra en svo að nemi sannanlegum kostnaði við verkið.

Fráveita Dalvíkurbyggðar annast alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu, þ.e. seyrulosun úr rotþróm og öðrum hreinsivirkjum, ásamt flutningi, endurnýtingu eða förgun. Heilbrigðisnefnd Norður­lands eystra annast eftirlit með starfseminni. Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum aðilum meðhöndlun seyru. Meðhöndlun seyru er háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

 

19. gr.

Sveitarstjórn er heimilt að nýta sér heimild í 7. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna til að lækka eða fella niður gjöld samkvæmt þessum lögum hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum samkvæmt reglum sem sveitarstjórn setur.

 

III. KAFLI

Málsmeðferð og gildistaka.

20. gr.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt samþykkt þessari er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

21. gr.

Samþykkt þessi, staðfestist hér með samkvæmt 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unarvarnir, sbr. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og 10. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitna, og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 1090/2016, um fráveitu og rotþrær í Dalvíkurbyggð.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 18. desember 2023.

 

F. h. r.

Gunnlaug Helga Einarsdóttir.

Trausti Ágúst Hermannsson.


B deild - Útgáfud.: 22. desember 2023