Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 74/2019

Nr. 74/2019 25. júní 2019

LÖG
um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara.

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

Gildissvið og almenn ákvæði.

1. gr.

    Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði sem gerður var í Höfðaborg 16. nóvember 2001, ásamt bókun við samninginn að því er sérstaklega varðar búnað loftfara, með þeim aðlögunum sem af lögum þessum leiðir.

    Höfðaborgarsamningurinn, bókun um búnað loftfara og sérstakar yfirlýsingar Íslands eru prentuð sem fylgiskjöl með lögum þessum.

2. gr.

    Höfðaborgarsamningurinn og bókun um búnað loftfara skulu hafa lagagildi hér á landi, með eftir­farandi aðlögunum:

 1. Með vísan til 53. gr. Höfðaborgarsamningsins er Héraðsdómur Reykjavíkur til þess bær dóm­stóll að fjalla um kröfur skv. 1. gr. og XII. kafla Höfðaborgarsamningsins.
 2. Með vísan til 55. gr. Höfðaborgarsamningsins verður ákvæðum Lúganósamningsins um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum frá 2007, sbr. lög nr. 7/2011, beitt hvað varðar 13. og 43. gr. Höfðaborgarsamningsins hvað varðar réttarúrræði meðan endanlegs úrskurðar er beðið.
 3. Með vísan til 1. mgr. XXX. gr. bókunar um búnað loftfara hafa ákvæði VIII., XII. og XIII. gr. bókunar um búnað loftfara lagagildi hér á landi.
 4. Með vísan til 2. mgr. XXX. gr. bókunar um búnað loftfara hafa ákvæði X. gr. bókunarinnar um búnað loftfara lagagildi hér á landi. Að því er varðar a–c-lið 1. mgr. 13. gr. Höfða­borgar­samningsins eru tímatakmörkin 10 almanaksdagar og hvað varðar d–e-lið 1. mgr. 13. gr. eru tímatakmörkin 30 almanaksdagar.
 5. Með vísan til 3. mgr. XXX. gr. bókunar um búnað loftfara hafa ákvæði XI. gr. bókunar um búnað loftfara lagagildi hér á landi miðað við valkost A. Biðtími samkvæmt ákvæðinu er ákveðinn 60 dagar.
 6. Með vísan til 5. mgr. XXX. gr. bókunar um búnað loftfara þá gilda ákvæði Lúganó­samningsins um dómsvald og viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum frá 2007, sbr. lög nr. 7/2011, í stað XXI. gr. bókunarinnar um búnað loftfara.

3. gr.

    Hvers konar lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi, sbr. s-lið 1. gr. og 39. gr. Höfðaborgar­samn­ingsins, að undanskildum þeim sem tilgreind eru í 40. gr. samningsins, skulu ganga framar skráðum alþjóðlegum tryggingarréttindum í hlut, hvort sem er við málsmeðferð vegna ógjald­færni eða utan hennar, án skráningar í alþjóðlegu skrána, svo fremi sem þau hafa stofnast eftir íslenskum lögum.

    Ef til staðar eru fleiri en ein krafa skv. 1. mgr. skal þeim fullnægt eftir því hvenær þau atvik urðu sem leiddu til stofnunar kröfu.

4. gr.

    Höfðaborgarsamningurinn og bókun um búnað loftfara skal ekki raska rétti ríkis eða ríkis­stofnunar, alþjóðlegrar stofnunar eða annars einkarekins veitanda opinberrar þjónustu til þess að leggja hald á eða kyrrsetja hlut samkvæmt íslenskum lögum, til að tryggja greiðslu fjárhæða vegna þjónustu sem fyrrgreindir aðilar hafa innt af hendi er varðar með beinum hætti hlut, sbr. 2. gr. Höfða­borgar­samningsins, eða annan slíkan hlut.

5. gr.

    Skráningarhæf, lögbundin réttindi eða tryggingarréttindi skv. dd-lið 1. gr. Höfðaborgar­samningsins og bókun um búnað loftfara, sem stofnast hafa með aðfarargerð hér á landi, þ.e. fjár­námi, kyrrsetningu eða löggeymslu, verður að skrá í alþjóðlega skrá í samræmi við reglur Höfða­borgar­samningsins til að þau öðlist réttarvernd gagnvart síðar skráðum réttindum.

II. KAFLI

Viðurkenning og fullnusta samningsins.

6. gr.

    Alþjóðleg tryggingarréttindi sem falla undir Höfðaborgarsamninginn og bókun um búnað loftfara njóta réttarverndar hér á landi í samræmi við ákvæði samningsins og bókunar um búnað loftfara.

    Tryggingarhafi og tryggingargjafi geta samið skriflega svo um að tryggingarhafa sé hvenær sem er heimilt að ganga að tryggingunni í heild eða að hluta eða ráðstafa henni, til fullnustu vanefndri fjárskuldbindingu, sbr. ákvæði 8. gr. Höfðaborgarsamningsins.

7. gr.

    Skylda sem hvílir á umráðamanni hlutar samkvæmt skriflegum samningi sem gerður er sam­kvæmt Höfðaborgarsamningnum og bókun um búnað loftfara, um að afhenda hlutinn, er aðfarar­hæf. Um aðförina fer skv. 72. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Aðförina má gera þegar í stað án aðfarar­frests og skal beint til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

    Í stað þess að taka sjálfur við umráðum skv. 1. mgr. getur gerðarbeiðandi ráðstafað hlut á leigu, ef til þess stendur heimild í samningi skv. 8. gr. Höfðaborgarsamningsins.

 

    Nú fer afhending fram á grundvelli 13. gr. Höfðaborgarsamningsins og skal þá gerðarbeiðandi setja nægilega tryggingu áður en gerðin fer fram. Um það fer eftir 3. mgr. 8. gr. og 16. gr. laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990.

    Ágreiningur sem rís við framkvæmd aðfarar samkvæmt framansögðu skal borinn undir Héraðs­dóm Reykjavíkur.

8. gr.

    Beiðni um afskráningu loftfars af loftfaraskrá skv. 5. mgr. IX. gr. bókunar um búnað loftfara, sbr. III. kafla laga um loftferðir, nr. 60/1998, skal beina til Samgöngustofu.

9. gr.

    Við gjaldþrotaskipti eða opinber skipti skal skiptastjóri tryggja að skráð sé tilkynning um það í alþjóðlega skrá þegar fyrir liggur að meðal eigna bús eru loftfarshlutir, sbr. c-lið 2. mgr. I. gr. bókunar um búnað loftfara. Samsvarandi tilkynningarskylda hvílir á umsjónarmanni við upphaf nauðasamninga og aðstoðarmanni við greiðslustöðvun eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

10. gr.

    Nú vanefnir tryggingargjafi skyldu sem á honum hvílir samkvæmt samningi sem gerður er í samræmi við ákvæði Höfðaborgarsamningsins og bókunar um búnað loftfara og má þá krefjast nauðungarsölu eftir reglum laga um nauðungarsölu o.fl., nr. 90/1991, án undanfarandi viðvörunar eða greiðsluáskorunar. Beiðni um nauðungarsölu skal beina til embættis sýslumannsins á höfuð­borgar­svæðinu. Ágreiningur sem rís við framkvæmd nauðungarsölu samkvæmt framansögðu skal borinn undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

III. KAFLI

Gildistaka.

11. gr.

    Ákvæði 1. gr. og 1. og 2. tölul. 12. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.

    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og Höfðaborgarsamningurinn og bókun um búnað loftfara öðlast gildi að því er Ísland varðar og skal ráðherra birta auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna.

12. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

 1. Lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012: Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Gjöld fyrir eftirlit með skráðum eiganda eða umráðanda loftfars, svo sem vegna eftirlits með lofthæfi, starfrækslu loftfars, skráningu- og afskráningu loftfars, eru tryggð með lögveði í loftfari eða loftfarshlutum skráðum hér á landi. Gjöldin skulu jafnrétthá sín í milli, en eldri kröfur skulu ganga framar yngri. Þó skulu kröfur vegna björgunar skv. 134. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, ganga framar kröfum samkvæmt þessari grein.
 2. Lög um loftferðir, nr. 60/1998:
  1. Í stað 4.–6. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
       Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um skilyrði til skráningar og afskrán­ingar loftfara, skrásetningarskírteini loftfara, þjóðernis- og skrásetn­ingar­merki, kennispjald og útflutningsbeiðni.
  2. Á eftir 9. gr. a laganna kemur ný grein sem verður 9. gr. b, svohljóðandi:
       Um skrásetningu réttinda í loftförum eða loftfarshlutum gilda sérstök lög, annars vegar lög um skrásetningu réttinda í loftförum, nr. 21/1966, og hins vegar lög um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara, sem ganga framar ákvæðum laga um skrásetningu réttinda í loftförum, við gildistöku Höfðaborgarsamningsins og bókunar um búnað loftfara hvað Ísland varðar, vegna skráðra tryggingarréttinda sem falla undir Höfða­borgar­samninginn og innbyrðis þýðingu skráðra tryggingarréttinda.
       Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annast skráningu réttinda í loftförum sam­kvæmt lögum nr. 21/1966. Samgöngustofa skal tilkynna breytingar á loftfara­skrá svo fljótt sem verða má til sýslumanns.
  3. Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein sem verður 16. gr. a, svohljóðandi:
       Samgöngustofu er heimilt að verða við beiðni um afskráningu loftfars og útflutn­ing, enda sé það í samræmi við gildandi löggjöf á sviði flugöryggis, ef:
   1. beiðni er framvísað af þar til bærum aðila á grundvelli óafturkræfrar heimildar til að biðja um afskráningu og útflutning sem skráð er af Samgöngustofu og
   2. þar til bær aðili vottar að fyrir liggi skriflegt samþykki handhafa skráðra tryggingarréttinda sem ganga framar tryggingarréttindum kröfuhafans til afskráningar loftfarsins eða að slík tryggingarréttindi séu niður fallin.
  4. Við 71. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
       Gjöld skv. 1. mgr. skulu tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi. Gjöld skv. 2. mgr. skulu tryggð með lögveði í því loftfari sem í hlut á og skráð er hér á landi eða loftfarshlutum. Gjöldin skulu jafnrétthá sín í milli en eldri kröfur skulu ganga framar yngri. Þó skulu kröfur vegna björgunar, sbr. 134. gr. laga þessara og skv. 12. gr. laga um Sam­göngu­stofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, ganga framar öðrum kröfum í þeirri röð sem þeirra er getið.
  5. 2. málsl. 2. mgr. 134. gr. laganna fellur brott.
  6. Við 1. mgr. 136. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rekstraraðili flug­vallar skal verða við beiðni Samgöngustofu um að aftra för loftfars frá flugvelli uns ógreidd eftirlitsgjöld vegna starfsemi eiganda eða umráðanda loftfars eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu þeirra.
 3. Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991: Á eftir 9. gr. laganna kemur ný grein sem verður 9. gr. a, svohljóðandi:
      Ákvæði laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókunar um búnað loftfara hafa forgang fram yfir ákvæði þessara laga vegna skráðra tryggingarréttinda sem falla undir Höfðaborgarsamninginn og bókun um búnað loftfara og innbyrðis þýðingu skráðra tryggingarréttinda, og þeirra úrræða sem kröfuhafi hefur til að ná fullnustu kröfu sinnar.
 4. Lög um skrásetningu réttinda í loftförum, nr. 21/1966:
  1. Á eftir 1. gr. laganna kemur ný grein sem verður 1. gr. a, svohljóðandi:
       Ákvæði laga um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfan­legum búnaði og bókunar um búnað loftfara hafa forgang fram yfir ákvæði þessara laga vegna skráðra tryggingarréttinda sem falla undir Höfðaborgar­samn­inginn og bókun um búnað loftfara og innbyrðis þýðingu skráðra tryggingar­réttinda, og þeirra úrræða sem kröfuhafi hefur til að ná fullnustu kröfu sinnar frá því tíma­marki.
  2. 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

Gjört á Bessastöðum, 25. júní 2019.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


A deild - Útgáfud.: 4. júlí 2019