Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1230/2019

Nr. 1230/2019 9. desember 2019

SAMÞYKKT
um kattahald í Hafnarfjarðarkaupstað.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir um kattahald í Hafnarfjarðarkaupstað sem er á starfssvæði heilbrigðis­nefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og sætir þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt þessari. Samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, fer Matvælastofnun með eftirlit og fram­kvæmd þeirra laga.

2. gr.

Markmið.

Markmið samþykktar þessarar er að stuðla að því að umráðamenn katta sjái til þess að þeir séu ekki á flækingi, valdi nágrönnum hvorki óþægindum né tjóni og að vernda viðkvæmt fuglalífi í sveitar­félaginu.

Foreldrar eru ábyrgir fyrir köttum ólögráða barna sinna.

3. gr.

Stjórnsýsla.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis fer með málefni katta og annarra gæludýra samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og hefur eftirlit með fram­kvæmd samþykktar þessarar. Heilbrigðisnefnd getur ef þörf krefur leitað atbeina lögreglu við að fram­fylgja samþykkt þessari.

4. gr.

Kattahald í fjöleignarhúsum.

Um kattahald í fjöleignarhúsum fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

5. gr.

Merking katta.

Alla ketti skal örmerkja innan 12 vikna aldurs skv. 11. gr. reglugerðar nr. 80/2016, um velferð gæludýra. Kettir skulu einnig bera hálsól með upplýsingum um heimilisfang eiganda og símanúmer.

6. gr.

Gelding.

Kattaeigendum ber að sjá til þess að högnar, sex mánaða og eldri sem ganga lausir utandyra, séu geltir.

7. gr.

Ormahreinsun.

Kattaeigendum er skylt á eigin kostnað að láta ormahreinsa ketti sína árlega samkvæmt XV. kafla reglugerðar nr. 941/2002, um hollustuhætti. Skylt er að ormahreinsa alla ketti fjögurra mánaða og eldri. Umráðamanni er skylt að geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa því við eftirlits­aðila sé þess óskað.

8. gr.

Dýravelferð og dýravernd.

Skráðum eiganda kattar er skylt að sjá til þess að umhirða kattarins sé í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2013, um velferð dýra.

9. gr.

Ónæði og óþrif.

Eigendum og umráðamönnum katta ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Kattareiganda ber að greiða allt það tjón sem köttur hans veldur mönnun, dýrum og munum, svo og greiðslu alls kostnaðar við að fjarlægja hann gerist þess þörf.

10. gr.

Fuglalíf á varptíma.

Kattaeigendum og umráðamönnum ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, frá 1. maí til 31. ágúst, með því að hengja bjöllur á hálsólar katta og eftir atvikum að takmarka útiveru þeirra. Bæjarstjórn er heimilt vegna fuglalífs að banna kattahald á ákveðnum svæðum sveitarfélagsins. Slíkt bann verður staðfest sem breyting við samþykkt þessa.

11. gr.

Óheimilir staðir.

Óheimilt er að hleypa köttum inn húsrými og inn á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3 með reglu­gerð nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar. Einnig er óheimilt að hleypa kött­um inn í húsnæði matvælafyrirtækja, sbr. reglugerð nr. 103/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópu­þingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti er varða matvæli, og inn í húsnæði vatns­veitna, sbr. reglugerð nr. 536/2001 um neysluvatn.

12. gr.

Takmörkun réttar.

Heilbrigðisnefnd er heimilt að takmarka rétt umráðamanns kattar til að halda kött ef fyrir liggja skriflegar kvartanir um ónæði eða hættu sem kötturinn sannanlega veldur umhverfi sínu og eiganda eða umráðamanni tekst ekki að fyrirbyggja.

13. gr.

Handsömun katta.

Ef köttur sleppur eða hverfur frá heimili sínu skal eigandi eða umráðamaður gera viðeigandi ráð­stafanir til að finna köttinn. Eftirlitsmanni með dýrahaldi er heimilt að handsama kött sem undan er kvartað og/eða ekki er réttilega merktur skv. 5. gr. Sé köttur merktur skal gera viðeigandi ráð­staf­anir til að hafa uppi á umráðamanni hans. Hafi kattarins ekki verið vitjað innan viku frá til­kynningu um handsömun kattarins eða ef umráðamaður finnst ekki innan tveggja vikna er heimilt að ráðstafa kettinum til nýs ábyrgs eiganda, selja hann gegn áföllnum kostnaði eða aflífa. Kostn­aður vegna hand­sömunar og vörslu á ketti skal greiddur af eiganda eða umráðamanni sam­kvæmt gjaldskrá.

14. gr.

Þvingunarúrræði og viðurlög.

Um þvingunarúrræði og viðurlög við brotum gegn ákvæðum samþykktar þessarar fer sam­kvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Brot gegn samþykkt þessari varða sektum rúmist þau jafnframt innan refsiákvæða hlutaðeigandi laga, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Skulu þau brot sæta þeirri máls­meðferð sem boðin er í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Um kæruheimildir fer samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

15. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi staðfestist hér með samkvæmt 2. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 430/2011 um katta­hald í Hafnarfjarðarkaupstað.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 9. desember 2019.

F. h. r.

Steinunn Elna Eyjólfsdóttir.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 23. desember 2019