Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 898/2022

Nr. 898/2022 18. júlí 2022

SAMÞYKKT
um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð.

1. gr.

Gildissvið.

Samþykkt þessi gildir um meðhöndlun úrgangs, þ.m.t. hirðu, söfnun og förgun úrgangs, í Borgarbyggð.

 

2. gr.

Skipulag og meðferð úrgangs.

Borgarbyggð ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu og sér til þess að reknar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang samkvæmt lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.

 

3. gr.

Markmið.

Markmið samþykktarinnar er:

  1. að lágmarka magn úrgangs sem fer til förgunar með því að draga úr myndun úrgangs og auka endurnotkun og endurnýtingu og að sú förgun úrgangs sem nauðsynleg er verði með skipulögðum hætti þannig að hann nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma,
  2. að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis,
  3. að lágmarka kostnað samfélagsins við meðhöndlun úrgangs og
  4. að kostnaður vegna úrgangs greiðist af þeim sem ber ábyrgð á myndun hans.

Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Vesturlandi er lögð til grundvallar samþykkt þessari.

 

4. gr.

Fyrirkomulag sorphirðu.

Meðhöndlun úrgangs fer fram undir yfirstjórn sveitarstjórnar og er háð eftirliti heilbrigðisnefndar Vesturlands eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Sveitarstjórn ákveður tíðni söfnunar úrgangs í samráði við framkvæmdaaðila söfnunar. Sorphirðudagatal er gefið út í byrjun hvers árs þar sem fram kemur hvenær almennur heimilisúrgangur, lífrænn úrgangur og endurnýtanlegur úrgangur er hirtur frá heimilum.

Sveitarstjórn sér til þess að upplýsingar með fræðslu um flokkun og aðra meðferð úrgangs, móttöku hans og förgun séu aðgengilegar, t.d. á vefsíðu sveitarfélagsins.

Sveitarstjórn er heimilt að fela öðrum framkvæmd með tilteknum þáttum meðhöndlunar úrgangs. Viðkomandi skal hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar Vesturlands eða Umhverfisstofnunar eftir því sem við á.

 

5. gr.

Íbúðarhúsnæði.

Íbúum og húsráðendum í Borgarbyggð er skylt að flokka allan úrgang frá heimilum, í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2003 um sérstaka söfnun og flokkun úrgangs til að koma í veg fyrir að úrgangur blandist öðrum úrgangi eða öðrum efniviði með aðra eiginleika. Skylt er að flokka a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur til við venjulegt heimilishald og í samræmi við leiðbeiningar um flokkun úrgangs, sbr. 8. gr.

Borgarbyggð útvegar og á sorpílát sem húsráðendum er skylt að nota. Húsráðendur skulu annast frágang á sorpílátum á lóð þannig að ekki þurfi að draga þau lengra en 20 m að lóðarmörkum/aðkomu söfnunarbíls.

Sé fyrirséð að ílátin yfirfyllist getur húsráðandi óskað eftir stærri eða fleiri ílátum á sinn kostnað. Einnig getur hann farið með umframmagn heimilisúrgangs á gámasvæði sveitarfélagsins og greitt fyrir samkvæmt gildandi gjaldskrá Borgarbyggðar um meðhöndlun úrgangs.

Öðrum úrgangi frá íbúðarhúsnæði skal skila á gámasvæði sveitarfélagsins.

 

6. gr.

Frístundahúsnæði.

Húsráðanda frístundahúss er skylt að flokka þann úrgang sem til fellur í samræmi við reglur sveitarfélagsins. Húsráðandi ber ábyrgð á að skila úrgangi á gámasvæði sveitarfélagsins.

 

7. gr.

Atvinnustarfsemi.

Rekstraraðilum fyrirtækja, stofnana, bújarða eða býla er skylt að flokka þann úrgang sem til fellur hjá þeim í samræmi við lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins. Þeir bera ábyrgð á því að úrgangur sem til fellur í starfsemi þeirra sé meðhöndlaður í samræmi við lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerðum settum samkvæmt þeim og skulu standa straum af kostnaði vegna þess. Samkomulag um söfnun, aðra meðferð og förgun úrgangs er á milli húsráðanda atvinnuhúsnæðis og framkvæmdaaðila söfnunar.

Sveitarfélagið sér um söfnun á dýrahræjum og kemur þeim til förgunar. Söfnun dýrahræja fer þannig fram að keyrt er heim á bæi vikulega eða í annarri hverri viku að undangenginni ósk notanda um hirðingu hverju sinni. Notendur skulu sjá til þess að hægt sé að losa hræin í söfnunarílát framkvæmdaraðila. Enn fremur sér sveitarfélagið um söfnun á rúlluplasti. Rúlluplasti er safnað að jafnaði annan hvern mánuð og skulu notendur ganga frá plastinu í samræmi við fyrirmæli framkvæmdaraðila söfnunar þannig að hún gangi sem best og að verðmæti rúlluplasts til endurvinnslu sé sem mest.

Rekstraraðilar sem eru með starfsemi á afréttum eða hálendi Borgarbyggðar skulu sjá svo um að heimilisúrgangur sé flokkaður í grunnflokka samkvæmt samþykkt þessari. Þeir skulu flytja allan úrgang til byggða og skila á gámasvæði sveitarfélagsins á eigin kostnað.

Sorpílát og umgengni við þau, svo og flutningur á úrgangi frá fyrirtækjum skal vera í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar og samkvæmt reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Staðsetning gáma fyrir rekstrarúrgang skal vera í samræmi við ákvarðanir sveitarstjórnar.

 

8. gr.

Frágangur heimilisúrgangs.

Í sorpílát fyrir heimilisúrgang má aðeins setja þann úrgang sem fellur til við venjulegt heimilishald, í samræmi við nánari fyrirmæli sem kunna að verða sett um flokkun úrgangs, sbr. 5. gr. Óheimilt er að láta eftirfarandi úrgang í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang:

  1. Spilliefni, lyf eða annan hættulegan úrgang.
  2. Timbur, brotamálm, múrbrot, jarðefni og grjót og annan grófan úrgang.
  3. Lífúrgang, þ.e. matarúrgang og garðaúrgang.
  4. Pappír og pappa, s.s. dagblöð og tímarit, auglýsingapóst, prent- og ljósritunarpappír, fernur, eggjabakka og aðrar pakkningar utan af matvælum og öðrum varningi hvort sem er úr sléttum pappa eða bylgjupappa, s.s. morgunkornspakka, pítsukassa og pappakassa.
  5. Málma, plast, gler og textíl.
  6. Skilagjaldsskyldar drykkjarvöruumbúðir úr áli, plasti, gleri og stáli.

Jarðvegsefnum, þ.m.t grjóti eða múrbroti, skal skilað á söfnunarstöð eða komið fyrir á sérmerktum losunarstöðum. Spilliefnum og öðrum hættulegum úrgangi skal skila á söfnunarstöð sveitarfélagsins. Annan úrgang eiga húsráðendur að losa á gámasvæði sveitarfélagsins. Það á t.d. við um ýmsan byggingarúrgang, úr sér gengin húsgögn eða raftæki.

Húsgögnum, fatnaði, húsbúnaði og öðru nýtanlegu skal leitast við að koma í þar til gerða móttöku á gámasvæði sveitarfélagsins.

Spilliefnum, lyfjum og öðrum hættulegum úrgangi skal skilað á viðurkennda móttökustaði.

Sorpílát skulu jafnan standa lokuð og ekki fyllt meira en svo að auðveldlega megi loka þeim.

 

9. gr.

Skyldur íbúa, húsráðenda, rekstraraðila og landeigenda.

Íbúum, húsráðendum, rekstraraðilum og landeigendum í sveitarfélaginu ber að fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur um meðhöndlun úrgangs.

Sérhverjum húseiganda eða umráðamanni húsnæðis (húsráðanda) í sveitarfélaginu, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða frístundahúsnæði, er skylt að nota þau ílát og þær aðferðir sem sveitarstjórn ákveður.

Setja skal allan úrgang í viðeigandi sorpílát en að öðrum kosti er framkvæmdaaðila söfnunar heimilt að skilja hann eftir. Húsráðendur skulu halda ílátum hreinum og í góðu ástandi. Sorpílát skulu vera aðgengileg fyrir framkvæmdaaðila söfnunar og staðsett mest 20 m frá lóðarmörkum/aðkomu söfnunarbíls. Húsráðandi skal gæta þess að ílát séu hrein, vel við haldið og að ekki sé hætta á að þau fjúki. Festingar íláta mega ekki hamla losun þeirra. Gott aðgengi skal vera að sorpgeymslum og ílátunum og moka skal snjó frá þeim á vetrum og halda greiðfærri leið að þeim svo auðvelt sé að framkvæma hreinsun.

Úrgang má einungis meðhöndla í samræmi við gildandi lög, reglugerðir og kröfur sveitarfélagsins.

Flokkaður úrgangur skal þannig meðhöndlaður að hann blandist ekki öðrum úrgangsflokkum.

Flokkaðan úrgang skal geyma og meðhöndla þannig að gæði hans við væntanlega endurvinnslu eða endurnýtingu skerðist sem minnst.

Úrgang sem getur fokið skal geyma þannig að hann fjúki ekki.

Meðhöndlun úrgangs má ekki valda lyktaróþægindum, draga til sín meindýr eða valda hreinlætisvandamáli.

Óheimilt er að skilja eftir eða geyma rusl, sorp, garðaúrgang eða annan úrgang á víðavangi, götum, gangstígum, við sorpgáma eða á opnum svæðum í sveitarfélaginu. Sama á við um númerslausar bifreiðar, vélar eða önnur tæki. Heimilt er að hafa á lögbýlum afmörkuð geymslusvæði fyrir númerslausar bifreiðar, vélar eða önnur tæki sem tilheyra viðkomandi lögbýli og skal leitast við að hafa sjónræn áhrif þeirra í algjöru lágmarki.

 

10. gr.

Gámasvæði.

Gámar fyrir almennan heimilisúrgang, endurvinnsluúrgang, raftæki, garðaúrgang, grófan úrgang, timbur, málm, steinefni, hjólbarða, ökutæki, nytjahluti og spilliefni eru staðsettir á söfnunarstöð (gámastöð) sveitarfélagsins við Sólbakka 12 í Borgarnesi. Gámasvæðið er ætlað undir úrgang frá heimilum og frístundahúsum.

Rekstraraðilum er heimilt að losa rekstrarúrgang á gámasvæðið í Borgarnesi enda greiða rekstraraðilar sorpeyðingargjald í samræmi við magn úrgangs, sbr. 11. gr.

Allur úrgangur, hvort sem er frá heimilum, frístundahúsum eða rekstraraðilum, sem ekki er heimilt að setja í sorpílát fyrir almennan heimilisúrgang, ílát fyrir endurnýtingarefni eða ílát fyrir lífúrgang skal fluttur á gámasvæðið.

Á gámasvæði er gerð krafa um flokkun úrgangs og er notendum skylt að fara eftir þeirri flokkun. Úrgangur skal flokkaður við móttöku samkvæmt flokkunarreglum sveitarfélagsins.

 

11. gr.

Gjaldtaka.

Sveitarstjórn innheimtir gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þá er sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Gjaldið skal sett og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum 23. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Við ákvörðun gjaldsins skal miða við magn úrgangs, þ.e. stærð og fjölda sorphirðuíláta, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila. Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig til þess að innheimta allt að 25% af heildarkostnaði sveitarfélagsins við meðhöndlun úrgangs. Sveitarfélaginu er heimilt að innheimta allt að 50% af heildarkostnaði sveitarfélagsins til 1. janúar 2025. Gjald fyrir móttöku úrgangs frá fyrirtækjum og stofnunum er innheimt samkvæmt magni úrgangsins. Gjald má aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, svo og við veitta þjónustu og framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 2. ml. 5. mgr. 59. gr. laga nr. 7/1998.

Gjöld skulu lögð á hverja fasteign, lögbýli, frístundahús, stofnun eða fyrirtæki sem nýtur framangreindrar þjónustu.

Heimilt er að leggja aukasorpgjöld á lögbýli, fyrirtæki eða stofnanir eftir magni úrgangs frá viðkomandi aðila á gámasvæði samkvæmt mati sveitarfélagsins eða samkomulagi við viðkomandi.

Heimilt er að leggja sérstakt gjald á eigendur lögbýla sem halda búfé á jörð sinni vegna söfnunar og förgunar dýraleifa. Gjaldið skal aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til vegna þjónustunnar.

Sveitarfélagið skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda og skal í gjaldskránni vísað til þessarar samþykktar.

 

12. gr.

Brot á samþykktum, kvartanir og kærur.

Hafi húsráðandi fram að færa kvörtun vegna meðhöndlunar úrgangs skal hann koma slíkri kvörtun á framfæri við skrifstofu Borgarbyggðar eða til Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.

Brjóti húsráðandi ákvæði samþykktar þessarar um meðferð og geymslu úrgangs skal framkvæmdaaðili söfnunar tilkynna það til skrifstofu Borgarbyggðar, sem skora skal á húseigandann að bæta ráð sitt. Bæti húsráðandi ekki úr innan ákveðins tíma er framkvæmdaaðili söfnunar ekki skyldugur til að taka úrgang hjá viðkomandi fyrr en úr hefur verið bætt. Sé um ítrekað brot að ræða skal skrifstofa Borgarbyggðar tilkynna það til heilbrigðisnefndar Vesturlands sem gera skal viðeigandi ráðstafanir.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt samþykkt þessari til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 

13. gr.

Valdsvið, þvingunarúrræði og viðurlög.

Um valdsvið og þvingunarúrræði fer samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

Um viðurlög fer samkvæmt XIX. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. XIII. kafla laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

14. gr.

Gildistaka.

Samþykkt þessi er sett samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, sbr. 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, og staðfestist hér með til þess að öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi samþykkt nr. 660/2016 um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 18. júlí 2022.

 

F. h. r.

 Kjartan Ingvarsson.

 Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 2. ágúst 2022