Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1091/2020

Nr. 1091/2020 21. október 2020

REGLUR
um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda.

Markmið gæðaeftirlits.

1. gr.

Markmið gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja er að tryggja að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga nr. 94/2019 um endurskoðendur og endurskoðun og annarra reglna sem taka til starfa endurskoðenda og stuðla þannig að trausti notenda á ársreikningum og öðrum reikningsskilum sem endurskoðendur árita.

 

Inntak gæðaeftirlits.

2. gr.

Gæðaeftirlit felur í sér könnun á gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis, könnun á því hvort að endurskoðun sé unnin í samræmi við góða endurskoðunarvenju og hvort farið sé að kröfum um óhæði. Þá er umfang vinnu endurskoðenda kannað sem og greiðslur fyrir þá þjónustu sem endur­skoðendur veita.

Gæðaeftirlitið skal fela í sér sannprófanir á að gæðakerfi, gæðastjórnun, skipulag og fram­kvæmd endurskoðunar og frágangur vinnuskjala sé í samræmi við lög og góða endurskoðunarvenju, skv. 14. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun.

 

3. gr.

Gæðaeftirlit er framkvæmt á vegum endurskoðendaráðs, en ráðið annast eftirlit með endur­skoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum.

Gæðaeftirlitið nær til allra endurskoðunarfyrirtækja og endurskoðenda sem sinna endurskoðun samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun. Gæðaeftirlitið beinist að endurskoðunar­fyrirtæki í heild sinni og að einstökum endurskoðendum sem árita endurskoðuð reikningsskil.

 

4. gr.

Gæðaeftirlit skal fara fram á grundvelli áhættugreiningar. Endurskoðendaráð framkvæmir áhættu­greiningu á öllum endurskoðunarfyrirtækjum árlega og ákveður hvaða endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki skuli sæta gæðaeftirliti hverju sinni. Skal þeim sem sæta eiga gæðaeftirliti tilkynnt um það með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.

Gæðaeftirlitið nær að jafnaði til hvers endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga sem tengdar eru almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti sbr. 1. og 2. mgr. 31. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun.

Endurskoðendaráð getur ákveðið að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sæti sérstöku gæðaeftirliti, ef ráðið telur að fyrir hendi séu atvik sem leiða til þess að slíkt eftirlit sé talið nauð­synlegt. Þá getur endurskoðendaráð ákveðið að endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sæti örara eftirliti en kveðið er á um í 2. mgr. ef nauðsyn krefur, s.s. til að fylgja eftir tilmælum um úrbætur. Loks getur endurskoðendaráð ákveðið að framkvæmt skuli gæðaeftirlit sem beinist að afmörk­uðum atriðum.

 

5. gr.

Sinni endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki ekki tilmælum um gæðaeftirlit getur endur­skoð­enda­ráð gripið til viðeigandi ráðstafana samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun.

 

Gæðaeftirlitsmenn.

6. gr.

Gæðaeftirlitsmenn skulu hafa viðeigandi menntun og reynslu í endurskoðun og reikningsskilum auk sérstakrar þjálfunar í gæðaeftirliti. Starfandi endurskoðendur eða aðrir starfsmenn endurskoð­unarfyrirtækja geta verið gæðaeftirlitsmenn.

Gæðaeftirlitsmönnum er ekki heimilt að koma að gæðaeftirliti á endurskoðunarfyrirtækjum eða endurskoðendum sem þar starfa fyrr en að lágmarki þrjú ár eru liðin frá því að viðkomandi hætti sem meðeigandi eða starfsmaður umrædds endurskoðunarfyrirtækis eða rauf önnur tengsl sín við endur­skoðunarfyrirtækið.

 

7. gr.

Endurskoðendaráð getur ákveðið að fleiri en einn gæðaeftirlitsmaður sinni gæðaeftirliti hjá endur­skoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Þá er endurskoðendaráði eða aðilum á vegum ráðsins heimilt að vera viðstaddir gæðaeftirlit.

 

8. gr.

Gæðaeftirlitsmaður skal staðfesta óhæði sitt og að ekki sé að vænta neinna hagsmunaárekstra hans og endurskoðandans eða endurskoðunarfyrirtækisins sem sætir gæðaeftirliti. Þá skal gæða­eftirlits­maður undirrita trúnaðaryfirlýsingu áður en vinna við gæðaeftirlit hefst.

 

9. gr.

Endurskoðendaráð skal halda námskeið fyrir gæðaeftirlitsmenn reglulega. Þá skal endurskoð­enda­ráð gefa út leiðbeiningar um framkvæmd gæðaeftirlits.

 

Val á gæðaeftirlitsmönnum.

10. gr.

Ef gæðaeftirlit vegna endurskoðunar eininga sem ekki eru tengdar almannahagsmunum er fram­kvæmt af öðrum en endurskoðendaráði skal framkvæmdaaðili velja gæðaeftirlitsmenn og senda endurskoðendaráði lista yfir gæðaeftirlitsmenn til samþykktar áður en framkvæmd eftirlits hefst.

Ef endurskoðendaráð framkvæmir gæðaeftirlit velur ráðið gæðaeftirlitsmenn.

Skulu gæðaeftirlitsmenn uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 6. gr. og hafa sótt námskeið fyrir gæðaeftirlitsmenn.

 

11. gr.

Endurskoðendaráð velur gæðaeftirlitsmenn til að framkvæma gæðaeftirlit vegna endurskoðunar eininga sem eru tengdar almannahagsmunum.

Skulu gæðaeftirlitsmenn uppfylla þau skilyrði sem fram koma í 6. gr. og hafa sótt námskeið fyrir gæðaeftirlitsmenn.

 

12. gr.

Þeim sem sætir gæðaeftirliti skal tilkynnt um nöfn gæðaeftirlitsmanna og gefinn hæfilegur frestur til að gera athugasemdir við val á eftirlitsmönnum.

 

Framkvæmd gæðaeftirlits.

13. gr.

Endurskoðendaráði er heimilt að semja við fagfélög endurskoðenda um framkvæmd gæða­eftirlits hjá félagsmönnum sínum vegna endurskoðunar eininga sem ekki eru tengdar almanna­hagsmunum.

 

14. gr.

Gæðaeftirlitsmenn skulu halda upphafsfund með endurskoðanda eða fyrirsvarsmönnum endur­skoðunarfyrirtækis þar sem farið er yfir skipulag og umfang eftirlitsins og gæðaeftirlitsmönnum veittar þær upplýsingar sem þeir óska eftir og nauðsynlegar eru til að hægt sé að framkvæma eftir­litið.

Eftir upphafsfund skal fara fram skoðun á gæðakerfum endurskoðunarfyrirtækis.

Að loknum upphafsfundi og á grundvelli niðurstöðu skoðunar á gæðakerfi og fyrirliggjandi gagna ákveða gæðaeftirlitsmenn hvaða verkefni koma til skoðunar. Þeim sem sætir eftirliti skal að jafnaði tilkynnt um það hvaða verkefni komi til skoðunar með viku fyrirvara.

Gæðaeftirlitsmenn geta ákveðið að skoða fleiri verkefni ef þeir telja slíka skoðun nauðsynlega.

Við lok gæðaeftirlits skal halda fund með endurskoðanda eða fyrirsvarsmönnum endurskoð­unar­fyrirtækis þar sem niðurstöður eftirlits eru kynntar og gerð grein fyrir þeim athugasemdum sem fram koma í eftirlitsskýrslu.

 

Skoðun gæðaeftirlitsmanna og eftirlitsskýrsla.

15. gr.

Gæðaeftirlit fer að jafnaði fram á starfsstöð endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis sem sætir gæðaeftirliti.

Skoðun gæðaeftirlitsmanna byggir á stöðluðum gátlistum sem endurskoðendaráð gefur út.

Við gæðaeftirlit hjá endurskoðunarfyrirtækjum skal kanna hvort gæðakerfi fyrirtækisins er full­nægjandi, hvort að innra eftirlit fyrirtækisins er fullnægjandi og hvort endurskoðendur sem starfa innan fyrirtækisins hafi sinnt endurmenntunarskyldu sinni. Þá skal velja endurskoð­unar­verkefni til skoðunar. Val á verkefnum skal byggt á áhættugreiningu sem tekur mið af eðli og umfangi verkefna.

Við skoðun á einstökum verkefnum skulu gæðaeftirlitsmenn skoða sérstaklega:

  1. Hvort að farið hafi verið eftir innri gæðareglum.
  2. Hvort skipulag og framkvæmd endurskoðunarinnar sé í samræmi við lög og staðla.
  3. Hvort eðlilegt og rökrænt samhengi sé á milli niðurstöðu endurskoðunar og þeirra vinnu­gagna sem til staðar eru í endurskoðunarskránni.

 

16. gr.

Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæðaeftirliti skal veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið og getur ekki borið fyrir sig lagaákvæði um þagnarskyldu í því skyni að takmarka skyldu sína til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga um endurskoðendur og endur­skoðun.

Endurskoðunarfyrirtæki skulu sjá til þess að endurskoðendur sem gæðaeftirlit beinist að og hætt hafa störfum fái aðgang að nauðsynlegum gögnum til að gæðaeftirlit geti farið fram.

Verði endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki ekki við tilmælum gæðaeftirlitsmanna um að veita aðgang að nauðsynlegum gögnum við framkvæmd gæðaeftirlits skulu gæðaeftirlitsmenn þegar í stað senda skýrslu þar að lútandi til framkvæmdaraðila gæðaeftirlitsins. Ef framkvæmdaraðili er annar en endurskoðendaráð ber aðilanum að tilkynna endurskoðendaráði um atvikið og tekur ráðið afstöðu til frekari meðferðar málsins á grundvelli laga um endurskoðendur og endurskoðun.

 

17. gr.

Gæðaeftirlitsmenn skulu taka saman skýrslu um niðurstöður sínar. Þegar fleiri verkefni eru skoðuð skal að jafnaði gera grein fyrir niðurstöðu skoðana á þeim í einni skýrslu. Skal afhenda skýrsluna þeim aðila sem eftirlitið beinist að innan tíu daga frá því að gagnaöflun lauk.

Sá sem eftirlitið beinist að skal staðfesta móttöku skýrslunnar og gefst þá jafnframt kostur á að koma á framfæri innan tíu daga athugasemdum, sem gæðaeftirlitsmenn taka afstöðu til. Athuga­semdir sem berast verða, ásamt umsögn gæðaeftirlitsmanna, hluti af eftirlitsskýrslunni. Endanleg skýrsla skal liggja fyrir tíu dögum síðar.

Sá sem eftirlitið beinist að fær afrit af endanlegri skýrslu. Efni eftirlitsskýrslu er trúnaðarmál.

 

18. gr.

Gæta skal fyllsta öryggis um meðferð gagna og trúnaðarupplýsinga við gæðaeftirlit. Gæða­eftirlits­menn skulu ekki varðveita gögn eða upplýsingar sem varða störf þeirra að gæðaeftirliti loknu.

 

19. gr.

Endurskoðendaráð ber ábyrgð á varðveislu eftirlitsskýrslna. Skýrslur skulu varðveittar með tryggi­legum hætti.

 

Viðbrögð við niðurstöðu gæðaeftirlits.

20. gr.

Endurskoðendaráð metur niðurstöðu gæðaeftirlitsins og tekur afstöðu til frekari meðferðar á grund­velli ákvæða laga um endurskoðendur og endurskoðun. Getur endurskoðendaráð óskað eftir skýr­ingum og gögnum frá endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum er sæta gæðaeftirliti og skulu viðkomandi aðilar veita ráðinu aðgang að þeim upplýsingum sem óskað er eftir.

Þegar niðurstaða endurskoðendaráðs liggur fyrir sendir endurskoðendaráð lokaskýrslu til þess er sætti gæðaeftirliti. Í skýrslunni skulu koma fram helstu niðurstöður gæðaeftirlitsins auk tilmæla varðandi atriði sem bæta þarf úr. Þá skal í skýrslunni gerð grein fyrir hvort þörf er á eftirfylgni með því hvort að brugðist hafi verið við tilmælum endurskoðendaráðs og hvort endurskoðendaráð telur þörf á endurteknu eftirliti.

 

Birting upplýsinga um niðurstöðu gæðaeftirlits.

21. gr.

Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.

Að öðru leyti fer um birtingu samkvæmt ákvæðum 38. gr. laga um undurskoðendur og endur­skoðun.

 

Þagnarskylda og vanhæfisástæður.

22. gr.

Gæðaeftirlitsmenn eru bundnir þagnarskyldu um allar upplýsingar sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum, sbr. 30. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun.

Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu gilda um vanhæfi gæðaeftirlitsmanna. Sé gæða­eftirlitsmaður vanhæfur skal annar kallaður til í hans stað. Gæðaeftirlitsmaður skal sjálfur upplýsa um aðstæður sem leitt gætu til vanhæfis hans.

 

Kostnaður við gæðaeftirlit.

23. gr.

Endurskoðendaráð innheimtir þjónustugjöld fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endur­skoðunarfyrirtækjum, sbr. 40. gr. laga um endurskoðendur og endurskoðun. Skal fjárhæð þjón­ustu­gjalds vera í samræmi við gjaldskrá fyrir gæðaeftirlit með endurskoðendum og endur­skoð­unar­­fyrirtækjum sem endurskoðendaráð gerir tillögu að og ráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnar­tíðinda. Renna gjöldin óskipt til ráðsins.

Undir þjónustugjald vegna gæðaeftirlits fellur kostnaður vegna:

  1. skipulagningar og utanumhalds,
  2. útsendingar bréfa og gagna,
  3. vinnslu gagna,
  4. vettvangseftirlits á starfsstöð endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis,
  5. skýrslugerðar,
  6. endurtekins gæðaeftirlits og
  7. fundarsetu.

Gjöldin skulu greidd samkvæmt reikningi sem gefinn skal út eftir að gæðaeftirlit fer fram. Gjalddagi er við útgáfu reiknings og eindagi 15 dögum síðar. Sé gjald greitt eftir eindaga reiknast dráttar­vextir frá gjalddaga í samræmi við lög um vexti og verðtryggingu. Innheimta má gjöld með fjár­námi án undangengins dóms eða sáttar.

 

24. gr.

Endurskoðendaráð gefur út leiðbeiningar um framkvæmd gæðaeftirlits. Leiðbeiningarnar skulu birtar á heimasíðu ráðsins.

 

25. gr.

Reglur þessar, sem eru settar samkvæmt heimild í lögum nr. 94/2019 um endurskoðendur og endur­skoðun öðlast þegar gildi.

Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 712/2015 um framkvæmd gæðaeftirlits með störfum endur­skoðenda, með síðari breytingum.

 

Endurskoðendaráði, 21. október 2020.

 

Áslaug Árnadóttir. Jón Arnar Baldurs. Hildur Árnadóttir.

                                          


B deild - Útgáfud.: 11. nóvember 2020