Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 330/2019

Nr. 330/2019 26. mars 2019

STARFSREGLUR
um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar.

I. KAFLI

Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Gildissvið.

Starfsreglur þessar gilda um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi innan þjóðkirkjunnar, sbr. með vísan til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, með síðari breytingum, laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980, með síðari breytingum og reglugerðar velferðarráðuneytisins, settri á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnu­stöðum nr. 1009/2015.

Starfsreglur þessar gilda enn fremur um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar vegna háttsemi sem lýst er refsiverðri í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, og í barnaverndarlögum nr. 80/2002, með síðari breytingum.

2. gr.

Orðskýringar.

Í starfsreglum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir, sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð velferðar­ráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 1. gr. starfsreglnanna:

  1. Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
  2. Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  3. Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  4. Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Um merkingu annarra orðskýringa en tilgreindar eru í a–d-liðum 1. mgr. fer, eftir því sem við á, samkvæmt lögum og reglugerð, sbr. 1. mgr. 1. gr. starfsreglnanna.

Í starfsreglum þessum fer um merkingu orðsins kynferðisbrot samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og barnaverndarlögum nr. 80/2002, sbr. 2. mgr. 1. gr. starfsreglnanna.

II. KAFLI

Aðild og skipan teymis.

3. gr.

Aðild.

Hver sá sem hagsmuna á að gæta getur borið mál undir teymi er starfar gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og fjallar um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar (í starfsreglum þessum nefnt teymi þjóðkirkjunnar). Teymi þjóðkirkjunnar fæst við aðgerðir gegn háttsemi, sem lýst er í I. kafla starfsreglnanna og fjallar um meðferð kynferðisbrota innan kirkj­unnar, sbr. 1. og 2. gr. starfsreglnanna.

4. gr.

Skipan teymis.

Kirkjuráð skipar þrjá menn í teymi þjóðkirkjunnar, sbr. 3. gr. starfsreglnanna, til fjögurra ára í senn. Sama gildir um varamenn þeirra. Teymið velur sér sjálft formann og varaformann.

Í teyminu skulu hvorki vera vígðir þjónar kirkjunnar, sérþjónustuprestar, sem ráðnir hafa verið á vegum stofnana eða félagasamtaka, né að öðru leyti fastráðnir starfsmenn kirkjunnar eða að þeir sinni öðrum trúnaðarstörfum fyrir kirkjuna.

Þeir sem skipaðir eru í teymi þjóðkirkjunnar skulu vera sérfróðir um þau mál er falla undir starfs­reglur þessar.

III. KAFLI

Ætlað kynferðisbrot gegn barni.

5. gr.

Málsmeðferð.

Hverjum þeim er starfar innan þjóðkirkjunnar og býr yfir vitneskju um ætlað kynferðisbrot gegn barni, er skilyrðislaust skylt að tilkynna slíkt samkvæmt gildandi lögum. Málum innan kirkjunnar, er varða ætluð kynferðisleg brot gegn börnum, skal að jafnaði vísað til teymis skv. 3. gr. Því er óheimilt að fjalla um mál, innan safnaða eða sóknarnefnda kirkjunnar, er varða ætluð kynferðisbrot gegn börnum.

IV. KAFLI

Hlutverk teymis þjóðkirkjunnar samkvæmt starfsreglunum.

6. gr.

Mál til úrlausnar.

Við störf sín skal teymið hafa til hliðsjónar stefnu þjóðkirkjunnar, þar sem tekin er skýr afstaða gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og öðru ofbeldi, svo og um meðferð kyn­ferðis­brota innan kirkjunnar, sbr. ályktun kirkjuþings í mars 2019 um þessa stefnu þjóð­kirkj­unnar, verklagsreglur hennar og verkferla.

Mál sem heyra undir teymi þjóðkirkjunnar eru eftirfarandi:

  1. Taka við tilkynningum þeirra sem telja að brotið hafi verið á sér samkvæmt starfsreglum þessum. Leiðbeina viðkomandi um lagaleg úrræði og úrræði að öðru leyti, beita ákvæðum starfsreglnanna til úrlausnar máls, ef óskað er, og fylgja því þá eftir. Til lagalegra úrræða telst aðstoð við að kæra mál til lögreglu og/eða leggja mál fyrir úrskurðarnefnd þjóð­kirkj­unnar, sbr. 12. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, með síðari breytingum.
    Hvort tveggja er háð ósk viðkomandi.
  2. Taka til umfjöllunar mál sem úrskurðar- eða áfrýjunarnefndir þjóðkirkjunnar eða biskup Íslands kunna að vísa til teymisins og veita þeim þá ráðgjöf í slíkum málum.
  3. Leiðbeina viðkomandi skv. a-lið, ef teymið telur rétt að hann leiti sér aðstoðar fagaðila utan teymisins, og sjá til þess að það samband komist á, ef óskað er. Sama gildir ef viðkomandi óskar eftir talsmanni við meðferð máls.
  4. Komi til aðstoðar fagaðila, sbr. c-lið fyrri málsl. 2. mgr. 6. gr. starfsreglnanna er heimilt að aðstoðin nái til fjölskyldu viðkomandi og annarra innan kirkjunnar er málið varðar.
  5. Verði mál viðkomandi skv. a-lið tekið til úrlausnar skal teymið afhenda honum rökstudda niðurstöðu sína. Enn fremur skal teymið afhenda biskupi Íslands niðurstöðuna, þó þannig að upplýsingar verði gerðar ópersónugreinanlegar, ef viðkomandi fer þess á leit eða teymið telur það rétt.
  6. Afhenda biskupi Íslands árlega skýrslu um starfsemi teymisins og koma með ábendingar ef teymið telur að breyta þurfi starfsreglum þessum eða stefnu þjóðkirkjunnar, sbr. 1. mgr. 6. gr.

7. gr.

Fræðsla og forvarnir.

Teymi þjóðkirkjunnar hefur umsjón með eftirfarandi fræðslu og forvörnum innan þjóðkirkjunnar í samráði við yfirstjórn kirkjunnar:

  1. Upplýsa starfsfólk kirkjunnar um stefnu þjóðkirkjunnar, verklag og verkferla, sbr. 1. mgr. 6. gr., og hvernig þessari stefnu verði beitt við úrlausn mála sem falla undir starfsreglur þessar.
  2. Leiðbeina og fræða að auki sérstaklega þá sem starfa við yfirstjórn kirkjunnar um þau atriði er falla undir a-lið þessarar greinar.
  3. Vera biskupi Íslands og öðrum kirkjuyfirvöldum til ráðgjafar um mál sem heyra undir starfs­reglur þessar.
  4. Stuðla að forvörnum og fræðslu um þá röngu háttsemi og ætluð brot sem eiga undir stefnu þjóðkirkjunnar, sbr. 1. mgr. 6. gr., og starfsreglur þessar í samvinnu við fræðslusvið biskups­stofu.

Við fræðslu og forvarnir, skv. 1. mgr., er teyminu heimilt að leita til sérfróðra fagaðila við beitingu þessarar greinar. Skal það þá gert með rökstuddri beiðni til kirkjuráðs, sem ákveður greiðslu þessa kostnaðar, sbr. meginreglu í 10. gr. svo og 15. gr. starfsreglnanna.

V. KAFLI

Aðstoð fagaðila og talsmanns.

8. gr.

Fagaðili.

Teymi þjóðkirkjunnar er heimilt að leita aðstoðar hjá fagaðila ef það telur að c-liður 2. mgr. 6. gr. starfsreglnanna eigi við. Sá þarf að hafa menntun og reynslu af vinnu við mál er falla undir starfs­reglurnar. Fagaðili starfar þá í umboði og á ábyrgð teymisins og upplýsir það um starf sitt með við­kom­andi.

9. gr.

Talsmaður.

Teymi þjóðkirkjunnar er heimilt að leita til sérstaks talsmanns ef c-liður 2. mgr. 6. gr. starfs­reglnanna á við. Talsmaðurinn þarf að hafa menntun og reynslu sem nýtist við mál er falla undir starfsreglurnar svo hann geti veitt viðkomandi þá ráðgjöf og stuðning sem nauðsynleg er. Tals­maður starfar í umboði og á ábyrgð teymisins, eftir því sem við á, og upplýsir það um starf sitt fyrir viðkomandi.

10. gr.

Kostnaður við aðstoð.

Komi til þess að teymi þjóðkirkjunnar telji rétt að leita til fagaðila eða sérstaks talsmanns, sbr. 8. og 9. gr. starfsreglnanna, skal það með rökstuddri beiðni til kirkjuráðs óska eftir ákvörðum þess um greiðslu kostnaðar. Í beiðni þarf m.a. að koma fram hver sé menntun fagaðilans eða talsmannsins og hversu hás tímagjalds sé krafist. Telji teymið að frekari aðstoðar í málinu sé þörf síðar, skal það leggja fram nýja rökstudda beiðni fyrir kirkjuráð til ákvörðunar. Fagaðili eða sérstakur talsmaður, á vegum teymisins, getur ekki hafið störf fyrr en ákvörðun kirkjuráðs liggur fyrir. Sama gildir um frekari beiðnir.

VI. KAFLI

Trúnaðarskyldur og aðgangur að gögnum teymis.

11. gr.

Trúnaðarskyldur.

Teymi þjóðkirkjunnar, starfsmönnum hennar, fagaðilum og talsmönnum, ef við á, er skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem til umfjöllunar eru hjá teyminu samkvæmt starfsreglum þessum. Trúnaður helst að loknum störfum.

12. gr.

Aðgangur að gögnum.

Um aðgang að upplýsingum um einstök mál, sbr. 11. gr., fer að gildandi lögum á hverjum tíma.

VII. KAFLI

Þóknun og kostnaður vegna teymis þjóðkirkjunnar.

13. gr.

Þóknun teymis.

Um þóknun teymis þjóðkirkjunnar, fyrir störf sín, fer samkvæmt ákvörðun þóknananefndar kirkj­unnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. starfsreglna um þingsköp kirkjuþings nr. 949/2009, með síðari breyt­ingum.

14. gr.

Kostnaður vegna starfa teymis.

Kostnaður sem hlýst af störfum og tillögum teymisins, sbr. 8. og 9. gr. starfsreglnanna, svo og annar kostnaður vegna starfa teymisins, greiðist úr kirkjumálasjóði samkvæmt nánari ákvörðum kirkjuráðs.

15. gr.

Fræðslustarf og forvarnir teymis.

Við gerð fjárhagsáætlunar þjóðkirkjunnar, fyrir kirkjumálasjóð hverju sinni, skal kirkjuráð ákveða framlög til fræðslustarfa og forvarna teymisins, sbr. 7. gr. starfsreglnanna.

VIII. KAFLI

Gildistaka o.fl.

16. gr.

Starfsreglur þessar, sem settar eru samkvæmt heimild í 59. gr. laga um stöðu, stjórn og starfs­hætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, með síðari breytingum, öðlast gildi 1. júlí 2019. Frá sama tíma falla úr gildi starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar nr. 955/2009, með síðari breytingu.

Reykjavík, 26. mars 2019.

Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings.


B deild - Útgáfud.: 9. apríl 2019