Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 96/2020

Nr. 96/2020 23. janúar 2020

GJALDSKRÁ
fráveitna í Hörgársveit.

1. gr.

Sveitarstjórn Hörgársveitar innheimtir árlega fráveitugjöld skv. gjald­skrá þessari og samþykkt nr. 263/2011 um fráveitur í Hörgársveit.

Fráveitur í Hörgársveit eru þrjár, Fráveita Hjalteyrar, Fráveita Lónsbakka og Fráveita Lækjar­valla. Þar nefnast fráveitugjöldin holræsagjöld. Auk þess gildir gjaldskrá þessi um rotþróargjöld í dreifbýli.

Gjöldin skulu innheimt með fasteignagjöldum.

 

2. gr.

Álagningarstofn holræsagjalds Fráveitu Lónsbakka skal vera samkvæmt gjaldskrá Norðurorku í samræmi við samning Hörgársveitar og Norðurorku dags. 15. febrúar 2018.

Álagningarstofn holræsagjalds Fráveitu Hjalteyrar og Fráveitu Lækjarvalla skal vera fasteigna­mat húsa, mannvirkja og lóða sem tengjast fráveitunni. Upphæð holræsagjalds skal vera 0,18% af fasteignamati húss og lóðar samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, með síðari breytingum. Sé ekkert mannvirki á lóð greiðist ekki holræsagjald.

 

3. gr.

Fyrir hreinsun og losun rotþróa í Hörgársveit, annarra en þeirra sem eru eign fráveitu Hjalteyrar og fráveitu Lónsbakka, skal húseigandi greiða árlegt þjónustugjald, rotþróargjald, sbr. 4. gr. sam­þykktar nr. 671/2003 um hreinsun og losun rotþróa á starfssvæði heilbrigðisnefndar á Norðurlandi eystra, að undanteknum Húsavíkurbæ. Rotþróargjaldið skal vera sem hér segir:

Stærð rotþróar í lítrum Gjald kr.
0-1.800 12.815
1.801-3.600 17.300
3.601-6.000 24.100
6.001-9.000 31.600
9.000 og stærri 59.430

Rotþróargjald fyrir frístundahús sem er tengt 3.600 lítra rotþró eða minni skal vera skv. lægsta gjaldi. Rotþróargjald tekur breytingum skv. byggingarvísitölu. Rotþróargjaldið miðast við vísitölu nóvembermánaðar árið á undan. Byggingarvísitala í nóvember 2019 er 146,3 stig. Þar sem fleiri en einn húseigandi tengist rotþró skal rotþróargjaldi skipt á milli þeirra. Rotþróargjaldið miðast við að hreinsun og tæming rotþróa sé á þriggja ára fresti. Það getur tekið hlutfallslegum breytingum ef hreinsun og tæming er tíðari en á þriggja ára fresti.

 

4. gr.

Gjalddagar fráveitugjalda skulu vera þeir sömu og fast­eigna­skatts og skal innheimtu þess hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

Skráður eigandi fasteignar ber ábyrgð á greiðslu fráveitugjalds.

 

5. gr.

Gjöld skv. gjaldskrá þessari má taka lögtaki og má gera lögtak í hinni skattskyldu eign án tillits til eigendaskipta. Njóta gjöldin lögveðsréttar í lóð og mannvirkjum næstu tvö ár eftir gjalddaga með forgangsrétti fyrir hvers konar samningsveði og aðfararveði.

 

6. gr.

Gjaldskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt V. kafla laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna til að öðlast gildi strax við birtingu hennar. Jafnframt fellur úr gildi gjaldskrá fráveitna í Hörgársveit nr. 1254/2014.

 

Þelamerkurskóla, 23. janúar 2020.

 

Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri.


B deild - Útgáfud.: 10. febrúar 2020