Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 748/2020

Nr. 748/2020 10. júní 2020

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Sunnuhlíðarsamtökin.

Eftirtalin félög í Kópavogi eru aðilar að Sunnuhlíðarsamtökunum sem er sjálfseignarstofnun:

Félag eldri borgara í Kópavogi, Kirkjufélag Digranesprestakalls, Kiwanisklúbburinn Eldey, Lions­klúbbur Kópavogs, Lionsklúbburinn Muninn, Lionsklúbburinn Ýr, Rauðakrossdeild Kópavogs, Rótarý­klúbbur Kópavogs, Rótarý­klúbburinn Borgir, Soroptimistaklúbbur Kópavogs.

Aðildarfélögin bera engar fjárhagslegar skuldbindingar vegna sjálfseignarstofnunarinnar. Sam­kvæmt framangreindu setja aðildarfélög Sunnu­hlíðarsamtakanna þeim eftirfarandi skipulagsskrá.

 

1. gr.

Sunnuhlíðarsamtökin eiga íbúðir í Kópavogi og er tilgangur með þeirri eign að bjóða öldruðum íbúðarrétt þar. Samtökunum er heimilt að selja hverju sinni svo margar íbúðir sem þörf er á til að styrkja reksturinn. Þessar eignir má eingöngu selja til íbúðar fyrir aldraða.

 

2. gr.

Ekki má selja eða láta af hendi íbúð í eigu samtakanna eða aðrar eignir þeirra fastar eða lausar nema andvirðinu sé beinlínis varið til að viðhalda íbúðum í eigu samtakanna eða til reksturs þeirra.

 

3. gr.

Hvert aðildarfélag kýs einn fulltrúa í fulltrúaráð samtakanna og einn til vara. Kosning fer fram á aðalfundi eða aukafundi sem boðaður er með sama hætti og aðalfundur, enda sé þess getið í fundar­boði að kjósa eigi fulltrúa þessa.

Kosning gildir í 4 ár. Þó skal helmingur fulltrúa kosinn til 2 ára í fyrsta sinn samkvæmt hlutkesti.

Fulltrúaráðið skal kvatt saman minnst tvisvar á ári. Það kýs stjórn samkvæmt 4. gr. Fundi skal boða sannanlega með einnar viku fyrirvara. Sérhver þannig boðaður fundur er lögmætur ef ekki færri en helmingur fulltrúa er mættur.

 

4. gr.

Stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna skipa þrír menn og tveir til vara. Stjórnarmenn skulu að öllu jöfnu vera valdir úr fulltrúaráði samtakanna. Á stjórnarfundum hafa varamenn ekki atkvæðisrétt heldur málfrelsi og tillögurétt. Kjörtímabil stjórnarmanna er fjögur ár. Kjósa skal formann sérstaklega en meðstjórnendur saman og varamenn saman. Kjósa skal þá hlutbundinni kosningu, ef tveir fulltrúaráðsmanna óska þess. Formaður stjórnar er jafnframt formaður fulltrúaráðs og kveður það saman. Verði sæti formanns eða meðstjórnanda laust, skipa aðrir stjórnarmenn mann úr fulltrúa­ráðinu í stað hans til loka kjörtímabils.

 

5. gr.

Stjórnin skiptir með sér verkum. Hún fer með öll fjármál og framkvæmdir á vegum samtakanna. Ber henni að gera sér allt far um að efla hag og heill þeirra. Stjórnin ræður starfsfólk eftir þörfum. Stjórnin skal árlega gera reikning yfir rekstur og efnahag samtakanna. Skal reikningurinn endur­skoðaður af löggiltum endurskoðanda. Stjórnin leggur síðan endurskoðaðan reikning fyrir fulltrúa­ráð til afgreiðslu.

6. gr.

Peningar þeir, sem samtökin kunna að eiga eða eignast, skulu jafnóðum ávaxtaðir í banka­stofnunum eða á annan tryggan hátt.

 

7. gr.

Fulltrúaráðið setur samtökunum reglur, sbr. 10. gr.

 

8. gr.

Komi að því, að fulltrúaráðið að tillögu stjórnar, sbr. 9. gr., sjái sér ekki fært að reka samtökin áfram er þeim heimilt að selja allar íbúðir í þeirra eigu.

Verði allar íbúðirnar seldar skulu Sunnuhlíðarsamtökin stofna sérstakan sjóð sem skal vera í eigu samtakanna þar sem ágóði af sölu eignanna er vistaður. Nýta skal fjármuni sjóðsins til að styðja við eldri borgara í Kópavogi. Stjórn samtakanna og fulltrúaráð skulu setja nánari reglur um úthlutun úr sjóðnum.

Endurskoðandi Sunnuhlíðarsamtakanna skal fara yfir reikning sjóðsins og skila ársskýrslu árlega.

Stjórn Sunnuhlíðarsamtakanna ber ábyrgð á úthlutun úr sjóðnum en skal leggja tillögur að úthlutun fyrir fulltrúaráð Sunnuhlíðarsamtakanna.

 

9. gr.

Fulltrúaráðið getur samþykkt að gefa nýjum félögum kost á að gerast aðilar að samtökunum og tilnefna fulltrúa í fulltrúaráð hennar ef 4/5 fulltrúaráðsmanna samþykkja það.

Hætti eitthvert  aðildarfélaga störfum (félag lagt niður) fækkar fulltrúaráðsmönnum að sama skapi þegar kjörtímabili lýkur. Verði félög þau, sem aðild eiga að samtökunum, þrjú eða færri, eða fulltrúaráðsfélögum fækkar svo vegna ákvörðunar aðildarfélaga um að hætta afskiptum af samtökunum, hættir fulltrúaráðið, en stjórnin endurnýjar sig sjálf, þannig að tveir stjórnarmenn velja þriðja mann í stjórn, með sér. Verði aðeins einn aðalmaður eftir í stjórn taka varamenn þátt í vali nýrra aðalmanna.

10. gr.

Skipulagsskrá þessari getur fulltrúaráðið ekki breytt nema með 4/5 atkvæða allra fulltrúaráðs­manna, að fenginni staðfestingu viðkomandi opinbers aðila. Ef fulltrúaráð hefur verið lagt niður sam­kvæmt ákvæðum 9. gr. kemur stjórn félagsins í stað þess varðandi þau málefni sem 1. mgr. þessarar greinar fjallar um, með þeirri breytingu, að 2/3 stjórnar komi í stað 4/5 hluta fulltrúaráðs.

 

11. gr.

Stofnuninni er heimilt að stofna sérstakt félag, hlutafélag eða einkahlutafélag, utan um afmark­aðan þátt reksturs síns, s.s. rekstur íbúða. Þrátt fyrir 2. gr. skipulagsskrárinnar skal stofnuninni vera heimilt að leggja eignir sem tilheyra rekstri íbúða, þ.m.t. fasteignir og lausafé, fram sem hlutafé til félags sem skal vera alfarið í eigu stofnunarinnar.

 

12. gr.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

Við staðfestingu á skipulagsskránni fellur úr gildi eldri skipulagsskrá nr. 207/1979 með síðari breytingu nr. 197/2014.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 10. júní 2020.

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 28. júlí 2020