Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 93/2022

Nr. 93/2022 18. ágúst 2022

FORSETAÚRSKURÐUR
um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og aðalræðisskrifstofur.

FORSETI ÍSLANDS

gjörir kunnugt:

Samkvæmt tillögu utanríkisráðherra og með vísan til 4. gr. laga nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands, eru hér með sett eftirfarandi ákvæði:

1.

  1. Sendiráð skulu vera í Berlín, Brussel, Freetown, Genf, Helsinki, Kampala, Kaupmannahöfn, Lilongwe, London, Moskvu, Nýju-Delí, Ottawa, Ósló, París, Peking, Stokkhólmi, Tókýó, Varsjá, Vín og Washington. Sendiráðin í Genf, London, París og Vín skulu jafnframt gegna hlutverki fastanefnda gagnvart nánar tilteknum alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að.
  2. Fastanefndir skulu vera í Brussel, New York, Róm og Strassborg. Fastanefndin í New York skal jafnframt gegna hlutverki sendiráðs gagnvart nánar tilteknum ríkjum.
  3. Aðalræðisskrifstofur skulu vera í New York, Nuuk, Winnipeg og Þórshöfn.
2.  Umdæmi sendiráða skulu vera sem hér segir:
 
  1. Berlín. Auk Þýskalands skal umdæmi sendiráðsins vera Tékkland.
  2. Brussel. Auk Belgíu skal umdæmi sendiráðsins vera Holland, Lúxemborg og San Marínó. Sendiráðið skal gegna hlutverki sendiskrifstofu gagnvart Evrópusambandinu (EU).
  3. Freetown. Umdæmi sendiráðsins skal vera Síerra Leóne.
  4. Genf. Auk Sviss skal umdæmi sendiráðsins vera Liechtenstein og Páfagarður. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf (UNOG), Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), Alþjóðafjarskiptasambandinu (ITU), Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), Alþjóðahugverkastofnuninni (WIPO), Alþjóðaveðurfræðistofnuninni (WMO) og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO).
  5. Helsinki. Auk Finnlands skal umdæmi sendiráðsins vera Eistland, Lettland og Litáen.
  6. Kampala. Umdæmi sendiráðsins skal vera Úganda.
  7. Kaupmannahöfn. Auk Danmerkur skal umdæmi sendiráðsins vera Ástralía og Tyrkland.
  8. Lilongwe. Umdæmi sendiráðsins skal vera Malaví.
  9. London. Auk Bretlands skal umdæmi sendiráðsins vera Írland og Malta. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO).
  10. Moskva. Auk Rússlands skal umdæmi sendiráðsins vera Armenía, Belarús, Kasakstan, Kirgistan, Moldóva, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.
  11. Nýja-Delí. Auk Indlands skal umdæmi sendiráðsins vera Nepal og Srí Lanka.
  12. Ottawa. Auk Kanada skal umdæmi sendiráðsins vera Kosta Ríka.
  13. Ósló. Auk Noregs skal umdæmi sendiráðsins vera Grikkland og Pakistan.
  14. París. Auk Frakklands skal umdæmi sendiráðsins vera Andorra, Ítalía, Líbanon, Mónakó, Portúgal og Spánn. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) í París og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París.
  15. Peking. Auk Kína skal umdæmi sendiráðsins vera Mongólía, Taíland og Víetnam.
  16. Stokkhólmur. Auk Svíþjóðar skal umdæmi sendiráðsins vera Kýpur og Nýja-Sjáland.
  17. Tókýó. Auk Japans skal umdæmi sendiráðsins vera Filippseyjar, Indónesía, Tímor-Leste, Singapúr og Suður-Kórea. Sendiráðið skal gegna hlutverki sendiskrifstofu gagnvart Sambandi Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) í Jakarta.
  18. Varsjá. Auk Póllands skal umdæmi sendiráðsins vera Búlgaría, Rúmenía og Úkraína.
  19. Vín. Auk Austurríkis skal umdæmi sendiráðsins vera Króatía, Slóvenía, Slóvakía og Ungverjaland. Sendiráðið skal gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE), skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vín (UNOV), Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) og skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBTO).
  20. Washington. Auk Bandaríkjanna skal umdæmi sendiráðsins vera Argentína, Brasilía, Chile og Mexíkó.
3.  Fyrirsvar fastanefnda skal vera sem hér segir:
 
  1. Brussel. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Atlantshafsbandalaginu (NATO) og stofnunum tengdum því.
  2. New York. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Sameinuðu þjóðunum (UN) í New York. Jafnframt skal fastanefndin gegna hlutverki sendiráðs og skal umdæmi þess vera Dóminíska lýðveldið og Kúba.
  3. Róm. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Alþjóðasjóði um þróun landbúnaðar (IFAD).
  4. Strassborg. Fastanefndin skal fara með fyrirsvar gagnvart Evrópuráðinu (CoE).
4.  Umdæmi aðalræðisskrifstofa skal vera sem hér segir:
 
  1. New York. Auk New York-ríkis skal umdæmi aðalræðisskrifstofunnar vera ríkin Connecticut, New Jersey og Rhode Island.
  2. Nuuk. Umdæmi aðalræðisskrifstofunnar skal vera Grænland.
  3. Winnipeg. Umdæmi aðalræðisskrifstofunnar skal vera fylkið Manitoba, fylkið Saskatchewan, að undanskilinni borginni Regina, og fylkið Alberta, að undanskildum borgunum Calgary og Edmonton.
  4. Þórshöfn. Umdæmi aðalræðisskrifstofunnar skal vera Færeyjar.
5.  Utanríkisráðuneytið fer með fyrirsvar gagnvart öðrum alþjóðastofnunum og ríkjum sem Ísland hefur stjórnmálasamband við, m.a. með skipun sendiherra eða fastafulltrúa með búsetu í Reykjavík eftir því sem ástæða er til.

Úrskurður þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi forsetaúrskurður nr. 105 frá 21. júlí 2020.

Gjört í Reykjavík, 18. ágúst 2022.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.


A deild - Útgáfud.: 19. ágúst 2022