Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 121/2019

Nr. 121/2019 22. október 2019

LÖG
um ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

Handhafar valds forseta Íslands
   samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar
forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar,
gjöra kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og vér staðfest þau með samþykki voru:

1. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sameinaða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samn­ingnum og öðrum samningum sem gilda milli Bretlands og EFTA-ríkjanna innan EES í krafti aðildar Bretlands að Evrópusambandinu.

2. gr.

Heimild til að staðfesta samning Íslands, Liechtensteins, Noregs og Bretlands.

    Heimilt er að staðfesta fyrir Íslands hönd samning sem undirritaður var 2. apríl 2019 í London um fyrirkomulag milli Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs og Sam­ein­aða konungsríkisins Stóra-Bretlands og Norður-Írlands um réttindi borgara í kjölfar útgöngu Bret­lands úr Evrópusambandinu og við lok aðildar þess að EES-samningnum.

3. gr.

Réttarstaða Bretlands og breskra ríkisborgara og lögaðila á aðlögunartímabili.

    Með aðlögunartímabili samkvæmt lögum þessum er átt við tímabil sem ákvarðað er í samningi Bretlands og Evrópusambandsins, sem gerður er á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópu­sambands­ins, og felur í sér að Bretland skuldbindi sig til þess að framfylgja löggjöf og reglum Evrópu­sambandsins tímabundið eftir að aðild þess að Evrópusambandinu lýkur. Skal aðlög­unar­tímabilið vara frá því að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu tekur gildi og til þess tíma sem ákveðinn er í samningnum.

    Á aðlögunartímabilinu skal við framkvæmd ákvæða laga, reglugerða eða annarra stjórnvalds­fyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið frá 2. maí 1992, líta á Bretland með sama hætti og önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins. Jafnframt skal við framkvæmd laga, reglu­gerða eða annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sem fela í sér innleiðingu skuldbindinga sem Ísland hefur undir­gengist samkvæmt öðrum samningum við Evrópusambandið eða samningum sem bæði Ísland og Evrópusambandið eiga aðild að, líta á Bretland með sama hætti og aðildarríki Evrópu­sambands­ins.

    Breskir ríkisborgarar og lögaðilar skulu meðan aðlögunartímabilið varir njóta sömu réttinda og bera sömu skyldur og ríkisborgarar og lögaðilar frá aðildarríkjum Evrópusambandsins samkvæmt ákvæðum þeirra laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla sem vísað er til í 2. mgr.

4. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 3. gr. gildi því aðeins að aðlögunartímabil samkvæmt samningi Bretlands og Evrópusambandsins komi til framkvæmda. Ráðherra skal tilkynna um upphaf og lok aðlögunartímabilsins með auglýsingu í A-deild Stjórnartíðinda.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 1.–3. tölul. 5. gr. gildi þegar annar hvor þeirra samninga sem vísað er til í 1. og 2. gr. taka gildi eða þeim er beitt gagnvart Íslandi. Taki samningur sem vísað er til í 1. gr. gildi eða ef honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar aðlögunartímabili er lokið. Taki samningur skv. 2. gr. gildi eða honum er beitt gagnvart Íslandi skulu 1.–3. tölul. 5. gr. koma til framkvæmda þegar sá samningur tekur gildi eða ef honum er beitt gagnvart Íslandi.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast 4., 5. og 7. tölul. 5. gr. gildi og koma til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópu­sambandsins. Ráðherra skal tilkynna um slíka úrsögn Bretlands með auglýsingu í A-deild Stjórnar­tíðinda.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. kemur i-liður 1. tölul. og 3. efnismgr. 2. tölul. 5. gr. til framkvæmda við úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu án samningsins á grundvelli 50. gr. stofnsáttmála Evrópu­sambandsins og ef fyrir liggur staðfest pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um tíma­bundið fyrirkomulag varðandi fólksflutninga sem mælir fyrir um gagnkvæm réttindi.

5. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara, sbr. 3.–5. mgr. 4. gr., verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

  1. Lög um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum: Við lögin bætast níu ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    1. (III.)
          Breskur ríkisborgari sem skráð hefur dvöl sína hér á landi í samræmi við 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 84. gr. eftir útgöngu Bretlands úr Evrópu­sambandinu.
    2. (IV.)
          Aðstandandi bresks ríkisborgara skv. 84. gr. skal eiga rétt til dvalar hér á landi skv. 85. og 86. gr. ef:
      1. viðkomandi aðstandandi hefur skráð dvöl sína hér á landi skv. 85. eða 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu,
      2. viðkomandi telst aðstandandi skv. 2. mgr. 82. gr. og hefur komið til landsins eftir útgöngudag ef hann hyggst dveljast með breskum ríkisborgara sem hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. hér á landi, enda hafi fjölskyldutengsl orðið til fyrir útgöngudag eða
      3. viðkomandi er barn bresks ríkisborgara skv. 84. gr., fæðist eftir útgöngudag, fullnægir skilyrðum 2. mgr. 82. gr. og:
        1. báðir foreldrar barnsins hafa rétt til dvalar skv. 84. gr.,
        2. annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og hitt foreldrið er íslenskur ríkisborgari eða
        3. annað foreldri hefur rétt til dvalar skv. 84. gr. og fer eitt með forsjá barnsins eða sameiginlega forsjá yfir barninu í samræmi við landslög.
    3. (V.)
          Breskur ríkisborgari og aðstandendur hans sem skráð hafa dvöl sína skv. 84., 85. og 86. gr. áður en Bretland gekk úr Evrópusambandinu skulu öðlast rétt til ótíma­bundinnar dvalar hér á landi skv. 87. og 88. gr.
          Réttur bresks ríkisborgara og aðstandenda hans sem öðlast hafa rétt til ótíma­bundinnar dvalar skv. 87. og 88. gr. fellur niður þegar viðkomandi hefur dvalist utan landsins í fimm ár samfellt.
    4. (VI.)
          Heimilt er að vísa breskum ríkisborgara og aðstandanda hans úr landi skv. 95. gr. vegna háttsemi sem átti sér stað fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
    5. (VII.)
          Brottvísun skv. 2. tölul. 3. gr. felur í sér bann við endurkomu síðar skv. 96. gr. við ákvörðun endurkomubanns.
    6. (VIII.)
          Heimilt er að vísa úr landi skv. 99. gr. breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85. og 86. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi viðkomandi verið búsettur hér á landi skemur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur dvalarleyfi.
    7. (IX.)
          Heimilt er skv. 100. gr. að vísa úr landi breskum ríkisborgara og aðstandendum hans, sem rétt hafa til dvalar hér á landi skv. 84., 85., 86., 87. eða 88. gr., fyrir háttsemi sem átti sér stað eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu hafi við­komandi verið búsettur hér á landi lengur en í þrjú ár. Slík ákvörðun skal hafa sömu réttaráhrif og brottvísun útlendings sem hefur ótímabundið dvalarleyfi.
    8. (X.)
          Breskur ríkisborgari sem hefur rétt til dvalar skv. 84. og 87. gr. hefur samkvæmt umsókn rétt til að fá útgefið dvalarskírteini skv. 90. gr.
          Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um útgáfu dvalar­skírteina, þar á meðal um gjald sem heimilt er að taka fyrir útgáfu þeirra, og skal við ákvörðun gjalda leggja til grundvallar kostnað sem almennt hlýst af útgáfu leyfa.
    9. (XI.)
          Breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra sem koma hingað til lands eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu og eiga ekki rétt á skráningu skv. XI. kafla og hyggjast dveljast hér á landi lengur en heimilt er skv. 49. gr. þurfa að hafa dvalar­leyfi. Unnt er að sækja um leyfi samkvæmt ákvæði þessu til 31. desember 2020. Verði leyfið veitt gildir það til 31. desember 2023.
          Heimilt er að veita breskum ríkisborgara eldri en 18 ára dvalarleyfi hér á landi fullnægi hann skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.
          Heimilt er að veita aðstandanda bresks ríkisborgara sem hefur dvalarleyfi sam­kvæmt ákvæði þessu dvalarleyfi hér á landi í samræmi við 69. gr., sbr. 70. og 71. gr., fullnægi hann skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr.
          Breskir ríkisborgarar sem sækja um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu eru undan­þegnir því að sækja um dvalarleyfi fyrir komu til landsins og þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 51. gr. er umsækjanda heimilt að dveljast á landinu meðan umsókn er í vinnslu. Hið sama á við um aðstandendur sem eiga rétt á dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu.
          Um umsókn um dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu og útgáfu slíks dvalarleyfis gilda reglur 52. og 54. gr.
          Útlendingastofnun er heimilt að afturkalla dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu á grundvelli 59. gr.
          Heimilt er að fella niður dvalarleyfi í samræmi við 7. mgr. 57. gr.
          Dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu getur orðið grundvöllur ótímabundins dvalar­leyfis.
          Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli og undanþágur frá skil­yrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari aftur­köll­unar­heimildir, svo sem þegar leyfishafi samkvæmt ákvæði þessu er orðinn ósann­gjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Jafnframt er ráðherra heimilt að setja í reglugerð viðmið um hvenær leyfishafi telst vera orðinn ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar. Þá er ráðherra heimilt að gera undanþágur frá ákvæði 7. mgr. 57. gr. og kveða á um það í reglugerð að leyfishafar samkvæmt ákvæði þessu geti dvalist lengur erlendis en þrjá mánuði. Ráðherra er jafnframt heimilt að veita undanþágur í reglugerð um hverjir teljast til aðstandenda í skilningi þessa ákvæðis.
  2. Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
        Breskir ríkisborgarar eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða III í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
        Aðstandendur bresks ríkisborgara eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
        Breskir ríkisborgarar og aðstandendur þeirra eru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi, enda sé þeim heimilt að dveljast hér á landi á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XI í lögum um útlendinga, nr. 80/2016, með síðari breytingum.
  3. Lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
        Breskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra er heimilt að dveljast hér á landi í allt að þrjá mánuði án skráningar eftir að aðild Bretlands að Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu lauk, enda geti þeir sýnt fram á að þeir hafi annaðhvort komið til landsins fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu eða áður en aðlögunartímabili samkvæmt samningi lauk. Sé sýnt fram á að dvöl sé vegna atvinnuleitar er breskum ríkisborgurum og aðstandendum þeirra heimilt að dveljast hér á landi í allt að sex mánuði án skráningar eftir að aðlögunartímabili samkvæmt samningi lýkur, geti þeir sýnt fram á að þeir hafi komið til landsins annaðhvort áður en framangreindu tímabili lauk eða fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
  4. Lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum:
    1. Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 42. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna ,,eða seðlabönkum ríkjanna“ í 2. tölul. kemur: seðlabönkum ríkjanna, Englandsbanka eða Lánasýslu Bretlands.
      2. Við 3. tölul. bætist: Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
    2. Við 1. mgr. 56. gr. og 3. mgr. 88. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
    3. Við 2. tölul. 3. mgr. 115. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama á við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
    4. 4. mgr. 123. gr. laganna orðast svo:
          Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti ríkja eða seðlabanka innan Evrópska efna­hags­svæðisins eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu við­skiptin liður í stefnu þessara aðila í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu. Sama á við um viðskipti Englandsbanka og Lánasýslu Bretlands.
  5. Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
        Ráðherra er heimilt að veita í reglugerð tímabundna undanþágu til eins árs hið mesta fyrir fjármálafyrirtæki í Bretlandi til að sinna starfsemi skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. í tengslum við afleiðusamninga sem gerðir voru fyrir 31. október 2019 sé annar aðili samningsins stað­­settur í Bretlandi.
  6. Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, með síðari breytingum: Við lögin bætist ný grein, 12. gr., svohljóðandi:
        Útganga Bretlands úr Evrópusambandinu raskar ekki rétti þeirra sem fyrir útgöngu hafa eignast fasteign hér á landi samkvæmt heimild í 2. tölul. 4. mgr. 1. gr.
  7. Lög um lögmenn, nr. 77/1998, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
        Þeim lögmönnum sem fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa skráð sig hjá sýslumanni og veitt hér á landi lögmannsþjónustu undir starfsheitinu „advocate“, „barrister“ eða „solicitor“ er heimilt að starfa áfram sem slíkir og sækja um íslensk lögmannsréttindi í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 241/2018, um rétt lögmanna frá öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að veita þjónustu hér á landi, til ársloka 2020.

Gjört í Reykjavík, 22. október 2019.

Katrín Jakobsdóttir. Steingrímur J. Sigfússon. Þorgeir Örlygsson.
  (L. S.)  

Guðlaugur Þór Þórðarson.


A deild - Útgáfud.: 23. október 2019