Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1051/2022

Nr. 1051/2022 12. september 2022

GJALDSKRÁ
vegna kostnaðar við skipulagsvinnu og útgáfu framkvæmdaleyfis í Reykjavíkurborg.

1. gr.

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að setja gjaldskrá til innheimtu kostnaðar við útgáfu framkvæmdaleyfis og vegna vinnu við skipulagsmál. Gjaldskráin tekur til erinda sem koma til afgreiðslu á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa sem eru vegna útgáfu leyfa til framkvæmda, skjala­gerðar, yfirlesturs gagna, auglýsinga, kynninga og allrar annarrar umsýslu og þjónustu sem embætti skipulagsfulltrúans í Reykjavík veitir, svo sem vegna framkvæmda sem bundnar eru framkvæmda­leyfi, gerð skipulagsáætlana og breytingu á þeim, samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010.

 

2. gr.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar skal innheimta gjöld samkvæmt þessari gjald­skrá fyrir hönd borgarstjórnar Reykjavíkur.

 

3. gr.

Afgreiðslugjald: Gjald sem greitt er við móttöku erindis um deili- eða aðalskipulagsbreytingu eða útgáfu framkvæmdaleyfis. Í afgreiðslugjaldi felst kostnaður við móttöku og yfirferð erinda sem lögð eru fram á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Greiðsla afgreiðslugjalds er óafturkræf þótt erindi sé synjað eða það dregið til baka.

Umsýslu- og auglýsingakostnaður: Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna afgreiðslu erindis, kynn­ingar, birtingar auglýsinga sem og annar kostnaður vegna umsýslu erindis.

 

4. gr.

Innheimta skal afgreiðslugjald vegna erindis um framkvæmdaleyfi, deiliskipulag og aðal­skipu­lag. Afgreiðslugjaldið skal ákveða fyrir hverja tegund erindis og skal taka mið af þeirri vinnu sem almennt felst í slíku erindi. Sé þörf á að vinna skipulagsáætlun eða breytingar á henni vegna leyfis­skyldra framkvæmda innheimtir skipulagsfulltrúi gjald fyrir skipulagsvinnu sem nauðsynleg er vegna þeirrar framkvæmdar.

 

5. gr.

5.1 Afgreiðslugjald 14.900 kr.
5.2 Framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga 149.000 kr.
5.3 Framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. sem falla undir flokk B í lögum um mat á umhverfisáhrifum áætlana 178.800 kr.
5.4 Framkvæmdaleyfi skv. 14. gr. skipulagslaga 223.500 kr.
5.5 Eftirlitsgjald vegna umfangsmikilla framkvæmdaleyfa skal innheimt samkvæmt samningi, sbr. 9. gr. þessarar gjaldskrár.  
5.6 Innheimta skal útlagðan kostnað vegna auglýsinga skipulagsáætlana samkvæmt reikningi.  

 

6. gr.

6.1 Afgreiðslugjald 14.900 kr.
6.2 Umsýslukostnaður vegna breytinga á aðalskipulagi skv. 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga 372.500 kr.
6.3 Umsýslukostnaður vegna óverulegra breytinga á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga 223.500 kr.
6.4 Innheimta skal útlagðan kostnað vegna auglýsinga skipulagsáætlana sam­kvæmt reikningi.  

 

7. gr.

7.1 Afgreiðslugjald 14.900 kr.
7.2 Gjald vegna vinnu skipulagsfulltrúa við gerð lýsingar skipulags­áætl­unar og/eða yfirlestur og yfirferð á lýsingu sem og önnur umsýsla 223.500 kr.
7.3 Umsýslukostnaður vegna nýs deiliskipulags skv. 2. mgr. 38. gr. skipu­lags­laga 447.000 kr.
7.4 Hafi embætti skipulagsfulltrúa milligöngu um gerð nýs deiliskipulags skal innheimt skv. samningi, sbr. 9. gr. þessarar gjaldskrár.  
7.5 Umsýslukostnaður vegna verulegra breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga 372.500 kr.
7.6 Umsýslukostnaður vegna óverulegra breytinga á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga 223.500 kr.
7.7 Innheimta skal útlagðan kostnað vegna auglýsinga skipulagsáætlana sam­kvæmt reikningi.  

 

8. gr.

8.1 Umsýslukostnaður vegna grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipu­lags­laga 104.300 kr.
8.2 Umsýslukostnaður vegna málsmeðferðar skv. 3. mgr. 44. gr. skipulags­laga 74.500 kr.
8.3 Innheimta skal útlagðan kostnað vegna auglýsinga skipulagsáætlana samkvæmt reikningi.  

 

9. gr.

Þegar vísað er í þessari gjaldskrá til þess að skipulagsfulltrúi skuli gera samning, þá skal skipulags­fulltrúi og umsækjandi gera samning sín í milli um viðkomandi verkefni sem skipulags­fulltrúi skal hafa umsjón með eða vinna. Semja skal um hámark samningsfjárhæðar sem skal endur­spegla kostnað af vinnu skipulagsfulltrúa. Hámarksfjárhæð samningsins skal byggð á þeim tíma­fjölda sem áætlað er að skipulagsfulltrúi muni þurfa að verja við verkið. Samningsfjárhæð skal vera hámarks­greiðsla umsækjanda, þó að kostnaður reynist meiri en samningur tilgreinir, en ef kostnaður við vinnu skipulagsfulltrúa verður lægri skal sá mismunur endurgreiddur. Umsækjandi skal greiða umsamda samningsfjárhæð við undirritun samnings og skal skipulagsfulltrúi endur­greiða umsækj­anda mismun ef raunkostnaður samningsins er lægri en samningsfjárhæð.

 

10. gr.

Gjöld sem innheimt eru samkvæmt þessari gjaldskrá skulu aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði við veitta þjónustu.

 

11. gr.

Afgreiðslugjald samkvæmt þessari gjaldskrá fellur í gjalddaga við móttöku erindis og skal vera greitt áður en fjallað er um erindi. Umsýslu- og auglýsingagjöld vegna breytinga á aðalskipulagi eða deiliskipulagi skal greiða áður en tillaga er auglýst í kjölfar samþykktar þess efnis. Gjald vegna framkvæmdaleyfis skal greiða fyrir samþykkt og útgáfu framkvæmdaleyfis. Samningsfjárhæð samn­­ings samkvæmt 9. gr. gjaldskrár þessarar fellur í gjalddaga við undirritun samnings.

 

12. gr.

Heimilt er að veita afslátt, allt að 50% frá gjaldskrá þessari, ef sýnt er fram á að verkefni er umfangs­lítið og kostnaður óverulegur. Ákvæði þetta á þó ekki við um afgreiðslugjald.

 

13. gr.

Gjaldskrá þessi er sett með heimild í 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var staðfest í borgar­stjórn Reykjavíkur 12. september 2022. Gjaldskráin tekur gildi við birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda og fellur þá úr gildi gjaldskrá nr. 1551/2021.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík, 12. september 2022.

 

Dagur B. Eggertsson.


B deild - Útgáfud.: 16. september 2022