Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 71/2022

Nr. 71/2022 28. júní 2022

LÖG
um breytingu á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum (hjónaskilnaðir).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    34. gr. laganna orðast svo:

    Maki sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap getur leitað skilnaðar að borði og sæng og ber að veita honum leyfi til slíks skilnaðar.

 

2. gr.    

    35. gr. laganna orðast svo:

    Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef beiðni þess efnis berst sýslumanni frá báðum hjóna.

 

3. gr.

    Í stað orðanna „eitt ár er liðið“ í 2. mgr. 36. gr. laganna kemur: sex mánuðir eru liðnir.

 

4. gr.

    Í stað orðsins „tvö“ í 37. gr. laganna kemur: eitt.

 

5. gr.

    3. mgr. 39. gr. laganna orðast svo:

    Höfða skal mál eða setja fram kröfu um leyfi til lögskilnaðar innan tveggja ára frá því að háttsemi átti sér stað eða frá því að maka varð kunnugt um hana.

 

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 40. gr. laganna:

 1. Greinin orðast svo:
      Þrátt fyrir ákvæði 36. gr. getur annað hjóna krafist lögskilnaðar án undangengins skilnaðar að borði og sæng hafi makinn beitt það, eða barn sem býr hjá þeim, ofbeldi.
      Veita skal leyfi til skilnaðar á grundvelli ákvæðisins ef:
  1. maki gengst við broti sínu eða hefur hlotið dóm fyrir það,
  2. fyrir liggja upplýsingar frá lögreglu sem staðfesta útkall lögreglu vegna heimilisofbeldis,
  3. önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings benda til þess að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu makans, eða
  4. heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefur af öðrum ástæðum tilefni til þess að ætla að það hjóna er krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá þeim, hafi mátt þola ofbeldi af hálfu hins.
      Mál samkvæmt ákvæðum þessarar greinar fyrir dómstólum skulu sæta flýtimeðferð í samræmi við ákvæði XIX. kafla laga um meðferð einkamála.
 2. Fyrirsögn á undan greininni orðast svo: 5. Heimilisofbeldi.

 

7. gr.

    Á eftir orðunum „1. mgr. 36. gr.“ í 1. mgr. 41. gr. laganna kemur: og a-lið 2. mgr. 40. gr.

 

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 42. gr. laganna:

 1. Við 2. mgr. bætist: eða þegar skilnaðar er krafist á grundvelli a-liðar 2. mgr. 40. gr.
 2. 4. mgr. orðast svo:
      Sýslumaður eða dómari leitar um sættir eftir því hvar mál er til meðferðar. Heimilt er að fela presti eða löggiltum forstöðumanni trúfélags eða lífsskoðunarfélags eða einstaklingi sem starfar í umboði forstöðumanns skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags og hefur fengið löggildingu ráðuneytisins að leita um sættir ef hjón eru sammála um að óska þess.
 3. Á eftir 7. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
      Heimilt er að reyna sættir með hjónum hvoru í sínu lagi komi fram ósk um það.

 

9. gr.

    1. mgr. 43. gr. laganna orðast svo:

    Hjón skulu staðfesta samkomulag um skipan forsjár barna sinna, um framfærslueyri eða lífeyrisgreiðslur sín á milli og um aðra skilnaðarskilmála fyrir sýslumanni eða dómara.

 

10. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, 43. gr. a, sem orðast svo:

    Nú eru hjón sammála um að leita lögskilnaðar og ber þá að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar án undanfarandi skilnaðar að borði og sæng komi fram ósk þess efnis frá þeim báðum, enda eigi þau hvorki sameiginlegar eignir né börn undir 18 ára aldri, eða hjón hafa náð samkomulagi um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála, sem staðfest hefur verið, sbr. 1. mgr. 43. gr.

 

11. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2023.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði hjúskaparlaga og framkvæmd þeirra skal endurskoða innan tveggja ára frá samþykkt laga þessara. Ráðherra skal kynna niðurstöðu endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2024.

 

Gjört á Bessastöðum, 28. júní 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Jón Gunnarsson.


A deild - Útgáfud.: 13. júlí 2022