Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 83/2022

Nr. 83/2022 28. júní 2022

LÖG
um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar á vegum sveitarfélaga).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    4. tölul. 1. mgr. 18. gr. laganna orðast svo: tillögu um að kjósa samstarfsnefnd vegna sam­einingar sveitarfélaga skv. 1. mgr. 119. gr.

 

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:

  1. Á eftir orðinu „eiga“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: til sveitarstjórnar.
  2. 2. málsl. 3. mgr. fellur brott.
  3. Í stað orðsins „kjörskrárstofn“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: kjörskrá.
  4. 2. málsl. 4. mgr. orðast svo: Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.

 

3. gr.

    107. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Íbúakosningar um einstök málefni.

    Sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins, eða hluta íbúa sveitarfélagsins, um einstök málefni þess, sbr. þó 108. gr.

    Til atkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. skal boða með a.m.k. 36 daga fyrirvara með opinberri aug­lýsingu. Samhliða skal sveitarstjórn opinberlega kynna þá tillögu sem borin verður undir atkvæði og þær upplýsingar sem kjósendum eru nauðsynlegar til að geta tekið til hennar upplýsta afstöðu.

    Atkvæðagreiðsla samkvæmt þessari grein, sem og skv. 108. gr., er ráðgefandi nema sveitar­stjórn ákveði að hún skuli binda hendur hennar til loka kjörtímabils. Í auglýsingu skv. 2. mgr. skal koma fram hvort atkvæðagreiðsla er bindandi. Slíka ákvörðun má binda skilyrði um að tiltekið hlutfall þeirra sem voru á kjörskrá hafi tekið þátt í atkvæðagreiðslu.

    Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir ákvæðum 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.

 

4. gr.

    Í stað orðsins „kjörskrárstofni“ í 5. mgr. 108. gr. laganna kemur: kjörskrá.

 

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 119. gr. laganna:

  1. Í stað orðanna „tvær umræður“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eina umræðu.
  2. Í stað orðanna „tveggja mánaða“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: 36 daga.
  3. 3. málsl. 5. mgr. orðast svo: Við framkvæmd atkvæðagreiðslu samkvæmt þessari grein skal að öðru leyti farið eftir ákvæðum 133. gr. og reglum sem sveitarstjórn setur sér um íbúakosningar.

 

6. gr.

    Á eftir 132. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 133. gr. og 134. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:

    a. (133. gr.)

Framkvæmd íbúakosninga.

    Sveitarfélög skulu setja sér reglur um framkvæmd íbúakosninga sem fram fara á vegum þeirra, sbr. 4. mgr. 38. gr., 4. mgr. 107. gr. og 5. mgr. 119. gr. Reglurnar skulu birtar í Stjórnartíðindum eigi síðar en á sama tíma og atkvæðagreiðsla er auglýst fyrir íbúum sveitarfélagsins. Óheimilt er að auglýsa atkvæðagreiðslu sem ekki fer fram á grundvelli laga þessara undir heitinu íbúakosning.

    Atkvæðagreiðsla í íbúakosningu skal vera leynileg og atkvæðisréttur jafn.

    Rétt til þátttöku í íbúakosningu eiga þeir sem kosningarrétt eiga í sveitarfélaginu við kosningar til sveitarstjórnar samkvæmt kosningalögum. Þjóðskrá skal gera kjörskrá fyrir atkvæðagreiðsluna og um gerð hennar gilda ákvæði kosningalaga. Sveitarstjórn er heimilt að miða kosningaaldur í íbúakosningu við 16 ár.

    Til að tryggja að íbúakosning á vegum sveitarfélags uppfylli grundvallarskilyrði um lýðræðislegar kosningar skal ráðuneytið setja reglugerð að höfðu samráði við landskjörstjórn þar sem mælt er fyrir um þau lágmarksatriði sem fram skulu koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar. Í reglu­gerðinni skal m.a. koma fram hvaða reglur sveitarfélög geta sett sér um undirbúning, fram­kvæmd og fyrirkomulag kosninga, þ.m.t. um starfshætti kjörstjórnar, framkvæmd talningar, kjörgengi frambjóðenda og öll önnur atriði sem mikilvægt er að fram komi í reglum sveitarfélaga um íbúa­kosningar.

    Kærur um ólögmæti íbúakosninga skulu sendar úrskurðarnefnd kosningamála til úrlausnar innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Úrskurðarnefnd kosningamála skal úrskurða innan fjögurra vikna frá því að kæra berst, nema mál sé mjög umfangsmikið og skal þá úrskurða innan sex vikna. 

    b. (134. gr.)

Rafræn íbúakosning.

    Sveitarstjórn getur ákveðið að íbúakosning skv. 133. gr. fari fram rafrænt og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð staðfestingu Þjóðskrár Íslands á því að kosningin geti farið fram í samræmi við reglugerð um rafrænar íbúakosningar, sbr. 2. mgr.

    Ráðuneytið skal í reglugerð mæla nánar fyrir um hlutverk Þjóðskrár Íslands vegna rafrænna íbúakosninga, undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár, þar á meðal um notkun rafrænnar kjörskrár, viðmiðunardag kjörskrár, auglýsingu um kjörskrá og heimild til breytinga á henni, um skipan og starfshætti kjörstjórna, meðferð kjörgagna, tímafresti, öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar, kröfur til auðkenningar, framkvæmd talningar, kosningakærur og eyðingu gagna úr kosningakerfum að afloknum kosningum. Að öðru leyti gilda ákvæði 133. gr. um framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár.

    Þjóðskrá Íslands er heimilt að taka gjald í samræmi við gjaldskrá stofnunarinnar fyrir þá þjón­ustu sem stofnunin veitir vegna undirbúnings og framkvæmdar rafrænna íbúakosninga skv. 1. mgr. og rafrænna undirskriftasafnana skv. 108. gr., svo og fyrir gerð rafrænnar kjörskrár skv. 1. mgr.

    Ráðherra er heimilt að skipa þriggja manna ráðgjafarnefnd til að vera ráðherra til ráðgjafar og til að fylgjast með framkvæmd rafrænna íbúakosninga og gerð rafrænnar kjörskrár sem og að sinna öðrum verkefnum sem ráðherra felur henni á þessu sviði. Einn skal skipa samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og tvo án tilnefningar. Þrír varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

 

7. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II, III, V og VIII í laganna falla brott.

 

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 28. júní 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 13. júlí 2022