Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 647/2020

Nr. 647/2020 11. júní 2020

AUGLÝSING
um náttúruvættið Goðafoss.

1. gr.

Um friðlýsinguna.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og með samþykki landeigenda jarðanna Hriflu, Ljósavatns og Rauðár og sveitarfélagsins Þingeyjarsveitar, að friðlýsa Goðafoss sem náttúruvætti í samræmi við 48. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Goðafoss er foss í Skjálfandafljóti í Bárðardal. Hann er einn af vatnsmestu fossum landsins og greinist í tvo meginfossa og nokkra smærri. Ásýnd fossins er fjölbreytileg eftir vatnsmagni, veður­fari og árstíð. Goðafoss er 9-17 m hár og um 30 m breiður. Landið við vesturbakka Goðafoss heitir Hrút­ey, sem afmarkast af Hrúteyjarkvísl og greinist frá Skjálfandafljóti ofan við Goðafoss og sam­ein­ast fljótinu aftur alllöngu neðar.

Þjóðsaga segir að Þorgeir Þorkelsson ljósvetningagoði hafi varpað goðalíkneskjum sínum í fossinn í kjölfar þess að honum var falið það hlutverk að ná lögsáttum milli heiðinna manna og kristinna og hann tekið upp nýjan sið. Af þessum atburði á Goðafoss að hafa dregið nafn sitt.

Goðafoss er vinsæll ferðamannastaður og þangað kemur fjöldi ferðamanna allan ársins hring.

Náttúruvættið er 0,224 km² að stærð.

 

2. gr.

Markmið friðlýsingarinnar.

Meginmarkmið með friðlýsingu svæðisins er að vernda sérstæðar náttúruminjar, breytileika jarð­myndana og fossinn sjálfan, m.a. með því að viðhalda náttúrulegu vatnsrennsli í fossinn, vegna fegurðar og sérkenna og útivistargildis svæðisins.

 

3. gr.

Mörk náttúruvættisins.

Friðlýsingin tekur til fossins og næsta nágrennis. Mörk svæðisins afmarkast af hnitum (ISN93) sem sýnd eru á korti sem fylgir auglýsingu þessari.

Stærð hins friðlýsta svæðis er 0,224 km².

 

4. gr.

Umsjón með hinu friðlýsta svæði.

Umhverfisstofnun annast umsjón og rekstur náttúruvættisins skv. 13. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stofnunin getur þó falið öðrum umsjón með náttúruvættinu skv. 85. gr. sömu laga og skal þá gerður sérstakur samningur sem ráðherra staðfestir. Til grundvallar samningi um umsjón náttúruvættisins skal liggja fyrir stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið. Í samningnum skal m.a. kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila, menntun starfsmanna og gjaldtöku.

 

5. gr.

Stjórnunar- og verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í sam­vinnu við landeigendur, Þingeyjarsveit, Náttúrufræðistofnun Íslands og eftir atvikum aðrar fagstofn­anir og hagsmunaaðila, sbr. 81. g. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjalla um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndar­­aðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks, reiðleiðir og flug fjar­stýrðra loftfara.

Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra, sbr. 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.

 

6. gr.

Umferð um náttúruvættið.

Almenningi er heimil för um náttúruvættið en skylt er að ganga vel og snyrtilega um svæðið og fylgja þeim umgengnisreglum sem gilda. Gestir svæðisins skulu fylgja gönguleiðum á svæðinu í hvívetna.

Flug fjarstýrðra loftfara er óheimilt innan náttúruvættisins nema að fengnu leyfi Umhverfis­stofn­unar. Þó er heimilt að nota fjarstýrð loftför, ef nauðsyn krefur, vegna leitar- og björgunar­aðgerða, vegna eftirlits Minjastofnunar Íslands með menningarminjum og vegna starfa land­eig­enda. Um umferð loftfara fer skv. almennum reglum þar um. Heimilt er að setja ítarlegri reglur um umferð loftfara í stjórnunar- og verndaráætlun.

Óheimilt er að hafa lausa hunda í náttúruvættinu, nema þjónustuhunda þegar þeir eru að störfum í gæslu eiganda eða umráðamanns.

Umferð ríðandi manna er heimil á skilgreindum reiðleiðum innan náttúruvættisins. Reiðleiðir skulu skilgreindar í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið.

Umferð hjólandi manna er aðeins heimil á skilgreindum vegum á svæðinu og óheimilt er að hjóla á gönguleiðum. Þó er heimilt að leiða hjól um gönguleiðir svæðisins.

Þeim sem stunda stangveiði á svæðinu, sbr. 13. gr., er heimilt að ganga utan gönguleiða við veiðar.

 

7. gr.

Dvöl og umgengni í náttúruvættinu.

Næturgisting innan náttúruvættisins er óheimil.

Óheimilt er að urða eða skilja eftir rusl eða annan úrgang innan náttúruvættisins og kveikja eld.

Þess skal gætt að gæludýr valdi ekki truflun á lífríki svæðisins, skemmdum á náttúru eða valdi gestum ónæði. Skylt er að fjarlægja úrgang frá gæludýrum á svæðinu.

 

8. gr.

Rannsóknir og vöktun.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun innan náttúruvættisins, sbr. 74. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Vöktunaráætlun skal vera unnin í samráði við Umhverfisstofnun og vera hluti stjórnunar- og verndaráætlunar. Skýrslur um niðurstöður vöktunar skulu vera aðgengilegar Umhverfis­stofnun.

Aðrar rannsóknir en rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Minjastofnunar Íslands sem kunna að hafa í för með sér jarðrask eða truflun dýralífs eru háðar leyfi Umhverfisstofnunar.

Nánar skal kveðið á um rannsóknir og vöktun í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

9. gr.

Fræðsla.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með gerð fræðsluefnis um náttúruvættið í því skyni að efla vitund almennings á mikilvægi verndunar svæðisins. Tryggja skal aðgengi almennings að upplýs­ingum og fræðsluefni um náttúruvættið og reglum sem um það gilda.

Nánar skal fjallað um fræðslu í stjórnunar- og verndaráætlun.

 

10. gr.

Verndun gróðurs, dýralífs og jarðminja.

Óheimilt er að raska gróðri, trufla dýralíf og hrófla við jarðmyndunum á friðlýsta svæðinu. Öll nýting á svæðinu skal vera sjálfbær.

Óheimilt er að sleppa eða dreifa framandi lífverum innan náttúruvættisins, sbr. reglugerð um inn­flutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda nr. 583/2000. Nánar skal fjallað um fyrirbyggj­andi aðgerðir og upprætingu framandi tegunda í stjórnunar- og verndaráætlun.

Í stjórnunar- og verndaráætlun skal fjallað um vatnsrennsli til fossins.

 

11. gr.

Verndun menningarminja.

Óheimilt er að hrófla við menningarminjum. Um verndun menningarminja fer eftir lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

 

12. gr.

Landnotkun og mannvirkjagerð.

Allar framkvæmdir, þ.m.t. mannvirkjagerð, jarðrask og aðrar breytingar á landi og innan nátt­úruvættisins eru háðar leyfi Þingeyjarsveitar, sbr. skipulagslög nr. 123/2010 og lög um mannvirki nr. 160/2010, landeigenda og Umhverfisstofnunar, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 60/2013 um náttúru­vernd. Landnýting skal vera sjálfbær. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við gildandi deiliskipulag og stjórnunar- og verndaráætlun.

Viðhald og þjónusta við vegi á svæðinu er heimil án þess að leita þurfi leyfis Umhverfis­stofnunar svo fremi sem framkvæmdir hafi ekki áhrif á verndargildi svæðisins.

 

13. gr.

Veiðar og notkun skotvopna.

Öll meðferð skotvopna sem og skotveiðar eru bannaðar innan náttúruvættisins, að undan­skildum veiðum á framandi tegundum, s.s. mink, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr.

Stangveiði er heimil innan náttúruvættisins í samræmi við lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.

 

14. gr.

Viðurlög.

Brot gegn reglum auglýsingar þessarar varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 84. og 90. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.

Landvörðum eða öðrum starfsmönnum náttúruvættisins er heimilt að vísa brott úr náttúru­vættinu hverjum þeim sem brýtur gegn þeim reglum sem um náttúruvættið gilda, sbr. 2. mgr. 84. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

 

15. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þar til stjórnunar- og verndaráætlun fyrir svæðið hefur verið staðfest hefur Umhverfisstofnun heimild til að veita leyfi til framkvæmda gangi þær ekki gegn auglýsingu þessari og hafi ekki neikvæð áhrif á verndargildi svæðisins.

 

16. gr.

Gildistaka.

Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 11. júní 2020.

 

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

 

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


B deild - Útgáfud.: 29. júní 2020