Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 85/2022

Nr. 85/2022 28. júní 2022

LÖG
um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar (eftirlit Fiskistofu o.fl.).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

I. KAFLI

Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

1. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimill aðgangur að rafrænum vöktunarkerfum í löndunarhöfnum í þeim tilgangi að hafa eftirlit með löndun afla.

 

2. gr.

    4. mgr. 9. gr. laganna orðast svo:

    Skipstjórnarmenn veiðiskipa, sem hafa veiðileyfi í atvinnuskyni samkvæmt lögum um stjórn fisk­veiða, eða sérveiðileyfi, skulu senda aflaupplýsingar stafrænt til Fiskistofu áður en veiðiferð lýkur. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skal skrá, og form þeirra og skil til Fiskistofu. Þá er skipstjórum skipa sem vinna afla um borð skylt að skrá upp­lýsingar um vinnslu aflans á því formi sem Fiskistofa samþykkir.

 

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:

 1. Á eftir orðinu „skila“ í 2. mgr. kemur: Fiskistofu.
 2. Í stað orðsins „ráðuneytið“ í 2. mgr. kemur: stofnunin.
 3. Í stað 3. og 4. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Fiskistofa skal skora á hvern þann sem vanrækir að veita upplýsingar skv. 2. mgr. að bæta úr. Um leið skal hlutaðeiganda gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að sjö dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafnskjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita Fiskistofu upplýsingarnar.
      Dagsektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern byrjaðan dag og heimilt er að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og greiðast í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Heimilt er að fella óinnheimtar dagsektir niður veiti aðilar síðar upplýsingar.
      Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörð­unar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunar­innar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
      Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

 

II. KAFLI

Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:

 1. 1. mgr. fellur brott.
 2. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
      Nú vanrækir aðili skv. 2. mgr. að verða við beiðni ráðuneytis eða Fiskistofu um að veita tilgreindar upplýsingar og skal þá Fiskistofa skora á hann að bæta úr. Um leið skal hlutaðeiganda gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að 20 dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafnskjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita upplýsingarnar.
      Dagsektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern byrjaðan dag og heimilt er að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Heimilt er að fella óinnheimtar dagsektir niður veiti aðilar síðar upplýsingar.
      Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunarinnar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
      Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

 

III. KAFLI

Breyting á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa
í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998
.

5. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Fiskistofa skal skora á hvern þann sem vanrækir að veita stofnuninni upplýsingar skv. 3. mgr. að bæta úr. Um leið skal hlutaðeiganda gefinn kostur á að upplýsa um ástæður tafa við upplýsingaskil. Leiðbeina skal um að dagsektir verði lagðar á að sjö dögum liðnum hafi umræddar upplýsingar ekki borist, nema hlutaðeigandi upplýsi sannanlega um ástæður sem honum verður ekki um kennt og gerðu honum ókleift að veita upplýsingarnar. Jafnskjótt og slíkum tálmunum lýkur skal veita Fiskistofu upplýsingarnar.

    Dagsektir geta numið frá 10 þús. kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern byrjaðan dag og heimilt er að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri eftirlitsskylds aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynna skriflega þeim sem hún beinist að. Ákvörðun um dagsektir felur í sér að sá aðili sem ákvörðunin beinist að skal greiða sekt fyrir hvern dag frá og með upphafi fyrsta virka dags eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina og er það tímamark jafnframt gjalddagi kröfunnar. Síðasti sektardagur skal vera sá dagur þegar upplýsingum hefur verið skilað. Dagsektir eru aðfararhæfar og greiðast í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við inn­heimtu. Heimilt er að fella óinnheimtar dagsektir niður veiti aðilar síðar upplýsingar.

    Ákvörðun um dagsektir má kæra til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að hún er tilkynnt þeim sem hún beinist að. Kæra til ráðuneytisins frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar Fiskistofu um dagsektir er ekki heimilt að innheimta þær fyrr en dómur hefur fallið, enda hafi ekki verið haggað við gildi ákvörðunarinnar í honum. Þrátt fyrir kæru eða málshöfðun til ógildingar ákvörðunar um dagsektir leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.

    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð.

 

6. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:

    Um veiðar erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands skulu, ef ekki er um annað samið í milli­ríkja­samningum, gilda ákvæði laga og reglugerða sem gilda um veiðar íslenskra skipa í fiskveiði­landhelginni eftir því sem við á. Sama gildir um vigtun og skráningu sjávarafla erlendra skipa sem landað er í íslenskum höfnum, sbr. þó 9. gr.

 

7. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Ákvörðun og innheimtu dagsekta.

 

IV. KAFLI

Breyting á lögum um Fiskistofu, nr. 36/1992.

8. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

    Eftirlitsmönnum Fiskistofu er heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Fiskistofu er heimilt að vinna upplýsingar sem þannig er aflað í eftirlitstilgangi eða til söfnunar, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga á sviði sjávarútvegsmála í samræmi við hlutverk stofnunarinnar. Skal gæta þess að einungis sé rafræn vöktun á þeim stöðum sem nauðsynlegt er talið vegna almannahagsmuna og til þess að eftirlitsmenn Fiskistofu geti uppfyllt eftirlitsskyldu sína. Fiskistofa skal tilkynna með opinberum hætti um fyrirhugað eftirlit með fjarstýrðum loftförum.

    Persónuupplýsingum sem safnast við rafræna vöktun skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær en í síðasta lagi þegar heimild til að beita viðurlögum við háttsemi fellur niður. Verði eftirlitsmenn Fiskistofu áskynja um ætlað brot gegn lögum á sviði fiskveiðistjórnar í upplýsingum sem verða til við rafræna vöktun er stofnuninni heimilt að varðveita upplýsingarnar þar til máli telst lokið. Hafi máli lokið með beitingu stjórnsýsluviðurlaga telst því lokið þegar frestur til að höfða dómsmál er runninn út eða endanlegur dómur hefur fallið um það.

    Fiskistofu er ekki heimilt að láta í té upplýsingar sem verða til við rafræna vöktun nema til lögreglu vegna rannsóknar á ætluðu broti.

 

9. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:

    Fiskistofu er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal upplýsinga sem verða til við rafrænt eftirlit og um eignarhald útgerðarfélaga og annarra upplýsinga sem stofnuninni berast og eru nauðsynlegar í þágu lögbundins eftirlits stofnunarinnar, í þeim tilgangi að sinna lögbundnu hlutverki sínu samkvæmt lögum á sviði fiskveiðistjórnar, að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

10. gr.

    12. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna fellur brott.

 

11. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 9. gr., ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gagnsæi í störfum Fiskistofu.

    Fiskistofa skal birta opinberlega ákvarðanir stofnunarinnar um sviptingu veiðileyfa og afturköllun vigtunarleyfa.

 

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Fiskistofu er heimilt að eiga samstarf við útgerðaraðila um tímabundið verkefni um rafræna vöktun í fiskiskipum árin 2022, 2023 og 2024. Tilgangur verkefnisins skal vera prófun á tækni­búnaði við hagnýtingu rafræns eftirlits um borð í fiskiskipum, þ.e. notkun, eiginleikar og gæði mynd­efnis. Fiskistofa skal láta útgerðaraðila myndavélar í té vegna samstarfsins og skal eftirlits­mönnum Fiskistofu vera heimill aðgangur að þeim upplýsingum sem til verða við rafræna vöktun um borð, til söfnunar og úrvinnslu. Upplýsingar sem til verða við framkvæmd verkefnisins skulu einungis nýttar í samræmi við framangreindan tilgang verkefnisins en ekki í eftirlitsskyni. Fiski­stofu er ekki heimilt að afhenda öðrum aðila þær upplýsingar sem safnast við framkvæmd verkefnis­ins nema það sé nauðsynlegt í þágu verkefnisins.

 

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört á Bessastöðum, 28. júní 2022.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Svandís Svavarsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 13. júlí 2022