Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 82/2018

Nr. 82/2018 25. júní 2018

LÖG
um breytingu á ýmsum lögum vegna alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði farmanna.

FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

I. KAFLI

 Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:

 1. Á undan 1. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða sam­kvæmt því: 6. gr. um ráðningarsamninga o.fl.
 2. 5.–7. tölul. verða svohljóðandi:
  1. 30. gr. um sendingu launa o.fl.
  2. 32. gr. um launauppgjör o.fl.
  3. 33.–41. gr. um umönnun og kaup sjúkra skipverja og andlát skipverja og greftrun.
 3. 8. tölul. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:

 1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrir undirritun skal gefa skip­verja tækifæri til að grandskoða samninginn og eftir atvikum leita sér ráðgjafar um efni hans og ganga óþvingaður að samningnum.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
      Skipverjar skulu fá um borð í skipi skýrar upplýsingar um skilmála ráðningar þeirra og skulu slíkar upplýsingar ásamt ráðningarsamningi og eftir atvikum kjarasamningi vera aðgengi­legar innlendum sem erlendum stjórnvöldum við eftirlit.
 3. Á eftir orðunum „samkvæmt 1. mgr.“ í 2. mgr. kemur: og aðgengileg skjöl samkvæmt 2. mgr.

3. gr.

    Við 3. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari reglur um næturvinnu vegna menntunar og þjálfunar ungra sjómanna 16–18 ára að undangengnu samráði við samtök sjómanna og útgerðarmanna.

4. gr.

    2. og 3. mgr. 30. gr. laganna verða svohljóðandi:

    Útgerðarmaður skal tryggja að skipverji geti með bankamillifærslu eða svipuðum hætti sent öll laun sín eða hluta þeirra til fjölskyldu, nánustu aðstandenda eða löglegra bótaþega án þess að það hafi í för með sér óhóflegan kostnað fyrir skipverjann.

    Ráðherra getur sett nánari reglur um sendingu launa.

5. gr.

    Við 1. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Upplýsingar um gengisskráningu skulu koma fram ef greitt hefur verið í mynt eða miðað við gengi sem er annað en það sem samið var um.

6. gr.

    61. gr. laganna verður svohljóðandi:

    Skipstjóri skal sjá til þess að skipverjar fái um borð í skipi hollan og næringarríkan mat og nægt drykkjarvatn.

    Skipstjóri skal hafa skjalfest eftirlit með matar- og drykkjarbirgðum, rými til geymslu og með­höndlunar, eldhúsi og öðrum búnaði tengdum tilreiðslu eða framleiðslu matvæla.

    Skipverjar eiga rétt á mat og drykkjarvatni þeim að kostnaðarlausu á ráðningartímabilinu en ef nauðsyn ber til að matur sé dreginn af skipverjum í ferð skal greiða þeim sanngjarnar bætur af þeim sökum.

    Ráðherra setur nánari reglur um mat og drykkjarvatn, þ.m.t. magn og gæði, meðferð matvæla og eftirlit skipstjóra og frádrátt vegna rekstrarkostnaðar frís fæðis í vissum tilvikum.

II. KAFLI

Breyting á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa
og flutningaskipa, nr. 76/2001, með síðari breytingum
.

7. gr.

    Á eftir orðunum „frá 1978 með síðari breytingum“ í 3. mgr. 1. gr. laganna kemur: alþjóða­samþykkt um vinnuskilyrði farmanna (MLC) frá 2006, með síðari breytingum frá 2014 og 2016.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. a laganna:

 1. Við bætist ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
      Allir skipverjar skulu vera svo heilir heilsu að þeir geti rækt störf sín af öryggi. Skipverji skal leggja fram vottorð um að hann uppfylli skilyrði um sjón, heyrn og aðrar heil­brigðis­kröfur, sbr. reglugerð skv. 4. mgr. 
 2. Í stað orðsins „sjómanna“ í 2. og 3. mgr. kemur: skipverja.

9. gr.

    Á eftir 7. gr. B laganna koma þrjár nýjar greinar, 7. gr. C, 7. gr. D og 7. gr. E, ásamt fyrir­sögnum, svohljóðandi:

    a. (7. gr. C.)

Orlof.

    Um orlof skipverja fer eftir lögum um orlof, nr. 30/1987, en skal þó aldrei vera minna en 2,5 almanaksdagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári nema kveðið sé á um annað viðmið í reglugerð sem tekur mið af sérstökum þörfum farmanna. Óheimilt er að semja um niðurfellingu launaðs lágmarksorlofs.

    Ráðherra getur sett nánari reglur um orlof en um rétt skipverja til orlofs fer að öðru leyti en segir í 1. mgr. eftir lögum um orlof, nr. 30/1987, og gildandi kjarasamningum.

    b. (7. gr. D.)

Heimferð.

    Skipverji sem hefur verið á sama skipi eða hjá sama útgerðarmanni samfleytt í níu mánuði á rétt á ókeypis heimferð, kostaðri af útgerðarmanni, í eftirfarandi tilvikum: 

 1. ef ráðningarsamningur fellur úr gildi á meðan skipverji er um borð,
 2. þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu útgerðarmanns,
 3. þegar ráðningarsamningi er rift af hálfu skipverja ef gild ástæða liggur að baki,
 4. þegar skipverji getur ekki lengur gegnt skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi eða ekki er hægt að ætlast til þess að hann geti gegnt þeim sökum sérstakra kringumstæðna.

    Skipverji verður ekki krafinn um greiðslu heimferðar fyrir fram og heimferðarkostnaður verður ekki dreginn af launum eða öðrum réttindum nema í þeim tilvikum þegar skipverji hefur brotið alvarlega gegn skyldum sínum í starfi.

    Útgerðarmaður skips, bæði íslenskra skipa og erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir, skal leggja fram tryggingu til að sjá til þess að skipverji njóti viðeigandi heimferðar í samræmi við 1. mgr. Vanræki útgerð að gera slíkar ráðstafanir gerir Samgöngustofa ráðstafanir um heimferð skipverja. Samgöngustofa gerir ekki ráðstafanir um heimferð skipverja erlendra skipa sem fara um íslenskar hafnir nema erlenda ríkið hafi ekki eða muni ekki gera ráðstafanir um heimferð skipverja.

    Þegar þær aðstæður eru fyrir hendi sem getur í 3. mgr., eða Samgöngustofa hefur gert ráð­stafanir í tengslum við heimferð í öðrum tilvikum, getur Samgöngustofa lagt farbann á skipið þar til trygging hefur verið lögð fram eða endurgreiðsla vegna heimferðar hefur farið fram. Slíkt farbann skal tilkynnt skipstjóra, eiganda eða útgerðarmanni skipsins og fánaríki og skráningarríki skipsins þegar við á. Eigandi eða útgerðarmaður skipsins getur kært farbann og fer um framkvæmd farbanns að öðru leyti samkvæmt lögum um eftirlit með skipum.

    Ráðherra setur nánari reglur um heimferðir, þ.m.t. um ákvörðunarstað heimferðar, flutn­ings­máta, innifalda kostnaðarliði og aðrar ráðstafanir, svo sem ráðstafanir Samgöngustofu um heim­ferð og farbann, auk skyldu útgerðarmanns til að leggja fram tryggingu og um vanrækslu slíkrar skyldu.

    c. (7. gr. E.)

Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingavernd.

    Ef skipverji af einhverjum ástæðum nýtur hvorki velferðarréttinda hérlendis né í því landi sem skipverji nýtur réttinda, sem eru áþekk þeim sem tryggð eru hérlendis með lögum, ber útgerðar­manni skips að tryggja skipverja slík réttindi, svo sem með kaupum á tryggingum.

    Ráðherra getur sett nánari reglur um velferðarréttindi skipverja, þ.e. um heilsuvernd, læknis­hjálp, velferð og tryggingavernd.

10. gr.

    Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. A, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráning og ráðning.

    Fyrirtæki sem sinna skráningar- og ráðningarþjónustu skipverja skulu starfa í samræmi við viðurkennd gæðastjórnunarkerfi að fengnu leyfi frá Samgöngustofu.

    Skráningar- og ráðningarþjónusta skal vera skilvirk, fullnægjandi, áreiðanleg og skipverjum að kostnaðarlausu til að skipverjar geti fundið störf um borð í skipi.

    Samgöngustofa hefur eftirlit með að skráningar- og ráðningarþjónusta skipverja uppfylli kröfur alþjóðaskuldbindinga íslenska ríkisins, sbr. 3. mgr. 1. gr.

    Ráðherra er heimilt að mæla nánar fyrir um skráningar- og ráðningarþjónustu og eftirlit með henni í reglugerð.

11. gr.

    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Um borð í skipum skal vera skilvirkt kerfi fyrir kvartanir vegna meintra brota gegn kröfum laga þessara og alþjóðasamþykkta, sbr. 3. mgr. 1. gr., þ.m.t. gegn réttindum skipverja. Ráðherra getur sett nánari reglur um kvartanir um borð.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna: 

 1. Í stað orðanna „og alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: alþjóðlegt öryggisstjórnunarkerfi, heimferðir og skráningu og ráðningu skipverja.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
      Ráðherra getur með reglugerð undanskilið ákvæðum laganna eða gert vægari kröfur vegna áhafna sem starfa á skipum sem eru minni en 500 brúttótonn eða eru ekki í alþjóð­legum siglingum.

III. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlit með skipum,
nr. 47/2003, með síðari breytingum
.

13. gr.

    Við 3. mgr. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari reglur um vinnusvæði og vistarverur skipverja.

14. gr.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Gjört á Bessastöðum, 25. júní 2018.

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Sigurður Ingi Jóhannsson.


A deild - Útgáfud.: 27. júní 2018