Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 1120/2020

Nr. 1120/2020 5. nóvember 2020

REGLUR
um Byggðarannsóknasjóð.

1. gr.

Tilgangur.

Starfræktur skal sérstakur rannsóknarsjóður, Byggðarannsóknasjóður. Tilgangur sjóðsins er að efla byggðarannsóknir og bæta þekkingargrunn fyrir stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum.

 

2. gr.

Stjórn og skipulag.

Stjórn Byggðastofnunar skipar þrjá menn í stjórn Byggðarannsóknasjóðs til þriggja ára og þrjá til vara. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum og setur sér starfsreglur. Í þeim skal meðal annars tilgreina hvernig staðið er að mati umsókna um styrki. Byggðastofnun auglýsir eftir umsóknum um styrki, annast samskipti við umsækjendur, móttöku umsókna og aðra nauðsynlega umsýslu, eftir því sem við á hverju sinni. Starfsreglur sjóðsins skulu vera aðgengilegar á heimasíðu Byggða­stofnunar.

 

3. gr.

Fjármunir og greiðsluáætlun.

Sjóðurinn er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Stefnt skal að því að árlegt framlag til hans nemi 10 m.kr. Til sjóðsins leggjast enn fremur önnur framlög eftir því sem tilefni gefst til. Stjórn sjóðsins semur greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert þar sem gerð er grein fyrir kostnaði við umsýslu hans og fjárhæð til styrkveitinga. Áætlunin er send Byggða­stofnun fyrir 1. febrúar ár hvert. Kostnaður vegna starfsemi sjóðsins er greiddur úr sjóðnum.

 

4. gr.

Styrkveitingar.

Styrkir Byggðarannsóknasjóðs eru veittir einu sinni á ári og skal úthlutun fara fram á ársfundi Byggða­stofnunar en styrkir greiðast út eftir framvindu verkefna. Stjórn sjóðsins gerir tillögur um styrk­veitingar til stjórnar Byggðastofnunar fyrir 1. mars ár hvert svo að unnt sé að tilkynna úthlut­anir á ársfundi Byggðastofnunar.

 

5. gr.

Auglýsing um styrkveitingar.

Fyrir 1. febrúar ár hvert skal stjórn Byggðarannsóknasjóðs auglýsa þá styrki sem sjóðurinn veitir. Heimilt er að ákveða í auglýsingu að veittir verði styrkir til tiltekinna eða afmarkaðra viðfangsefna til dæmis í tengslum við einstakar aðgerðir byggðaáætlunar.

Í auglýsingu skal greina þær kröfur sem gerðar eru til umsókna og fyrir hvaða tíma þær skuli berast sjóðnum. Í starfsreglum stjórnar Byggðarannsóknasjóðs skal kveðið nánar á um efni auglýs­ingar.

 

6. gr.

Skyldur styrkþega.

Styrkþegar skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum stjórnar sjóðsins. Verði misbrestur á eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu eru ekki uppfyllt er heimilt að fara fram á endurgreiðslu styrksins.

Sé styrks ekki vitjað innan sex mánaða frá dagsetn­ingu tilkynningar um styrk fellur hann niður. Rannsóknir og niðurstöður þeirra sem hlotið hafa styrk samkvæmt reglum þessum skulu birtar almenningi samkvæmt nánari fyrirmælum stjórnar sjóðsins.

 

7. gr.

Reikningar og endurskoðun.

Reikningsár Byggðarannsóknasjóðs er almanaksárið. Byggðastofnun ber ábyrgð á reiknings­haldi og skal reikningum sjóðsins haldið aðskildum í bókhaldi stofnunarinnar.

 

8. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglur þessar eru settar á grundvelli 42. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, með síðari breytingum, og taka þegar gildi. Með reglum þessum eru reglur sem birtar voru með auglýsingu nr. 188/2018 í B-deild Stjórnartíðinda felldar brott.

 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 6. nóvember 2020.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.


B deild - Útgáfud.: 19. nóvember 2020