Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 117/2021

Nr. 117/2021 7. júlí 2021

LÖG
um breytingu á lögum um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006, með síðari breytingum (listabókstafir og framlög til stjórnmálasamtaka).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

 

2. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum orðast svo:

    Frá 1. janúar 2022 er flokkum eða samtökum sem falla undir gildissvið laga þessara og skráð eru í fyrirtækjaskrá við gildistöku þeirra heimilt að breyta skráningu sinni í stjórnmálasamtök. Jafnframt skal þá skrá þau í stjórnmálasamtakaskrá og skila þeim gögnum sem mælt er fyrir um í 2. gr. g.

 

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Þrátt fyrir 5. gr. a er ekki skilyrði fyrir úthlutun á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. og 2. mgr. 3. gr. eða frá sveitarstjórnum skv. 5. gr. vegna ársins 2021 að viðkomandi stjórnmála­samtök hafi uppfyllt skilyrði I. kafla C um skráningu stjórnmálasamtaka.

 

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

5. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum:

  1. Í stað tilvísunarinnar „38. gr.“ í 5. mgr. 32. gr. laganna kemur: 37. gr. a.
  2. Á eftir VII. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli A, Listabókstafir stjórnmálasamtaka, með einni nýrri grein, 37. gr. a, svohljóðandi:
        Ráðuneytið skal halda skrá um listabókstafi stjórnmálasamtaka sem buðu fram lista við síðustu almennar alþingiskosningar. Skal skráin birt með auglýsingu eigi síðar en átta vikum fyrir hverjar almennar alþingiskosningar. Nú eru fyrirskipaðar kosningar með svo stuttum fyrirvara að þetta verður ekki gert og skal þá birta auglýsingu þessa innan þriggja sólar­hringa eftir að kosningar eru fyrirskipaðar.
        Hyggist stjórnmálasamtök sem ekki hafa skráðan listabókstaf skv. 1. mgr. bjóða fram lista við alþingiskosningar skulu þau sækja um listabókstaf til ráðuneytisins eigi síðar en þremur sólarhringum áður en framboðsfrestur rennur út. Umsókn skal fylgja yfirlýsing a.m.k. 300 kjósenda þar sem mælt er með heiti samtakanna og listabókstaf. Yfirlýsingin skal dagsett og skal þar tilgreina nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Söfnun meðmæla og umsókn um listabókstaf getur farið fram skriflega eða rafrænt. Þjóðskrá Íslands er heimilt, að beiðni ráðuneytisins, að samkeyra upplýsingar úr meðmælendalista við þjóðskrá að fullnægðum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og kanna hvort viðkomandi sé kosningarbær og að því loknu afhenda ráðuneytinu þær upp­lýsingar. Heiti nýrra stjórnmálasamtaka má ekki vera þannig að ætla megi að villst verði á því og heiti samtaka sem eru á skrá skv. 1. mgr. Ráðuneytið skal þegar tilkynna stjórnmála­samtökum, sem eru á skrá, um ný stjórnmálasamtök sem tilkynnt eru og um ósk þeirra um lista­bókstaf. Ákveður ráðuneytið bókstaf nýrra samtaka að fengnum óskum þeirra og með hliðsjón af listabókstöfum annarra stjórnmálasamtaka í undangengnum kosningum. Nú óska samtök sem skráð eru eftir því að breyta heiti sínu og skulu þau þá tilkynna það ráðuneytinu innan sama frests.
        Breytingar á auglýsingu ráðuneytisins og viðauka við hana skal þegar birta með aug­lýs­ingu og tilkynna landskjörstjórn og yfirkjörstjórnum.
  3. Í stað tilvísunarinnar „2. gr. k laga um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006“ í 1. mgr. 43. gr. laganna kemur: 37. gr. a.

 

Gjört á Bessastöðum, 7. júlí 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Kristján Þór Júlíusson.


A deild - Útgáfud.: 15. júlí 2021