Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 13/2021

Nr. 13/2021 18. mars 2021

LÖG
um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum (sjón‑ eða lestrarhömlun).

Forseti Íslands
gjörir kunnugt: Alþingi hefur fallist á lög þessi og ég staðfest þau með samþykki mínu:

 

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:

  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem gefin hafa verið út er heimil þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir heyrnarlausa eða málhamlaða að því leyti sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e eiga ekki við.
  2. 3. mgr. fellur brott.
  3. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þessarar málsgreinar eiga ekki við um þau svið sem ákvæði 19. gr. a – 19. gr. e taka til.

 

2. gr.

    Á eftir 19. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, 19. gr. a – 19. gr. e, svohljóðandi:

 

    a. (19. gr. a.)

    Í ákvæðum 19. gr. b – 19. gr. e er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. Einstaklingur með sjón- eða lestrarhömluntelst sá vera sem, án tillits til annarrar fötlunar:
    1. er blindur,
    2. hefur skerta sjón, sem er ekki unnt að bæta þannig að ná megi sjónhæfni sem er að mestu leyti sambærileg sjónhæfni einstaklings sem býr ekki við slíka skerðingu, og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og ein­stak­lingur sem hefur ekki slíka skerðingu,
    3. hefur skerta getu til skynjunar eða lestrar og getur þar af leiðandi ekki lesið prentað mál í nokkurn veginn sama mæli og einstaklingur sem hefur ekki slíka fötlun eða
    4. getur ekki á annan hátt, vegna líkamlegrar fötlunar, haldið á bók eða meðhöndlað hana eða náð sjónskerpu eða hreyft augun að því marki að viðunandi sé til að geta lesið.
  2. Eintak á aðgengilegu formi: Verk sem er sett fram með sérstökum hætti eða á formi sem veitir einstaklingi með sjón- eða lestrarhömlun aðgang að verkinu eða efninu, m.a. til að viðkomandi hafi jafngreiðan og jafnþægilegan aðgang að því og sá sem ekki glímir við neina þá skerðingu eða fötlun sem getur í 1. tölul.
  3. Viðurkennd eining: Eining sem er ekki rekin í hagnaðarskyni og sem fengið hefur viður­kenningu eða samþykki aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins eða annarra aðildar­ríkja Marakess-sáttmálans, sbr. 4. tölul., til að veita einstaklingum með sjón- eða lestrar­hömlun menntun, starfsmenntun, aðgang að lestrarefni á aðgengilegu formi eða aðgang að upp­lýsingum. Viðurkennd eining getur m.a. verið opinber stofnun eða samtök, sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni, sem bjóða einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun sömu þjónustu og að framan greinir sem hluta af aðalstarfsemi sinni, stofnana­skuldbind­ingum eða hlutverki sínu við að veita þjónustu í almannaþágu.
  4. Marakess-sáttmálinn: Sáttmáli um að greiða fyrir aðgangi þeirra sem eru blindir eða sjón­skertir eða glíma við aðra prentleturshömlun að útgefnum verkum sem samþykktur var í Marakess 27. júní 2013.

 

    b. (19. gr. b.)

    Ákvæði 19. gr. c – 19. gr. e taka til nota á birtum verkum á formi bóka, tímarita, dagblaða, frétta­blaða og annars konar ritaðs efnis, og táknunar, þ.m.t. nótnablaða, ásamt tengdum mynd­skreytingum, í hvers konar miðlum.

 

    c. (19. gr. c.)

    Einstaklingur með sjón- eða lestrarhömlun, eða einstaklingur fyrir hans hönd, getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hann hefur lögmætan aðgang að og er eingöngu ætlað til eigin nota.

    Viðurkennd eining getur gert eintak á aðgengilegu formi af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að, eða miðlað eintaki á aðgengilegu formi, gert það aðgengilegt, dreift því eða lánað einstaklingi með sjón- eða lestrarhömlun eða annarri viðurkenndri einingu með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sé það ekki gert í hagnaðarskyni og sé eingöngu til afnota fyrir ein­staklinga með sjón- eða lestrarhömlun. Viðurkenndri einingu er einnig heimilt með sömu skil­yrðum að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána einstak­lingum sem eru með sjón- eða lestrarhömlun og hafa búsetu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sátt­málanum eða viðurkenndum einingum með staðfestu í sömu ríkjum.

    Einstaklingur með sjón- eða lestrarhömlun sem og viðurkennd eining mega fá eða hafa aðgang að verki á aðgengilegu formi sem er miðlað, gert aðgengilegt, dreift eða lánað af viðurkenndri einingu sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu sem og af viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum.

    Ekki er heimilt að víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. með samningum.

 

    d. (19. gr. d.)

    Ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi nýtir heimild 2. mgr. 19. gr. c skal höfundur eiga kröfu til bóta utan tilvika sem nefnd eru í 2. mgr. Ef tjón höfundar er óverulegt stofnast ekki bótaréttur.

    Ekki kemur til bótagreiðslna ef viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi gerir eintak af verki eða öðru efni sem hún hefur lögmætan aðgang að eða miðlar slíku eintaki, gerir það aðgengilegt, dreifir því eða lánar, með punktaletri eða á öðru aðgengilegu formi sem eingöngu einstaklingar með sjón- eða lestrarhömlun nýta sér.

    Ef ekki næst samkomulag um bætur skv. 1. mgr. getur hvor aðili um sig lagt ágreiningsefnið undir úrskurð nefndar skv. 57. gr.

 

    e. (19. gr. e.)

    Viðurkennd eining með staðfestu á Íslandi sem nýtir heimildir 2. mgr. 19. gr. c til að miðla eintaki á aðgengilegu formi, gera það aðgengilegt, dreifa því eða lána einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun eða viðurkenndum einingum með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem og viðurkenndum einingum með staðfestu í ríkjum sem eru aðilar að Marakess-sáttmálanum, eða flytur inn verk á aðgengilegu formi frá slíkum einingum skal setja sér starfsreglur og fylgja þeim til að tryggja að hún:

  1. dreifi, miðli og geri eintök á aðgengilegu formi einungis aðgengileg einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun eða öðrum viðurkenndum einingum,
  2. geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti,
  3. sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum eða öðru efni og eintökum þeirra á aðgengilegu formi og haldi skrá um hana og
  4. birti og uppfæri, á vef sínum ef við á eða eftir öðrum leiðum á netinu eða utan þess, upp­lýsingar um hvernig hún uppfyllir þær skyldur sem mælt er fyrir um í a–c-lið.

    Sömuleiðis skal viðurkennd eining skv. 1. mgr. veita einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun, öðrum viðurkenndum einingum eða rétthöfum verka eftirfarandi upplýsingar á aðgengilegan hátt, sé þess óskað:

  1. skrá yfir þau verk eða annað efni sem hún hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og
  2. heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra eininga sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengi­legu formi við.

Ef upplýsingar samkvæmt þessari málsgrein eru veittar einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun skulu þær afhentar á aðgengilegu formi sem þeir geta nýtt.

 

3. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1., 2. og 4. mgr. 19. gr.“ í 5. mgr. 45. gr. laganna kemur: 19. gr., 19. gr. a – 19. gr. e.

 

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:

  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Sé upptöku dreift til almennings innan greinds verndartímabils skal vernd þó haldast í 50 ár að því er myndrit varðar en 70 ár að því er hljóðrit varðar frá næstu áramótum eftir fyrstu dreifingu.
  2. Í stað tilvísunarinnar „1., 2. og 4. mgr. 19. gr.“ í 2. mgr. kemur: 1. og 4. mgr. 19. gr. að því er varðar myndrit og 19. gr. og 19. gr. a – 19. gr. e að því er varðar hljóðrit.

 

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „1., 2. og 4. mgr. 19. gr.“ í 3. mgr. 48. gr. laganna kemur: 19. gr., 19. gr. a – 19. gr. e.

 

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. c laganna:

  1. Á eftir tilvísuninni „19. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 19. gr. c.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þetta á þó ekki við um notkun skv. 19. gr. c.

 

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 57. gr. laganna:

  1. Á eftir orðinu „fjárhæð“ kemur: eða fyrirkomulag.
  2. Á eftir orðunum „4. mgr. 19. gr.“ kemur: 3. mgr. 19. gr. d.

 

8. gr.

    Við 65. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

    Með lögum þessum eru innleidd ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/1564 frá 13. september 2017 um tiltekna leyfilega notkun á tilteknum verkum og öðru efni sem er verndað af höfundarrétti og skyldum réttindum í þágu blindra, sjónskertra eða þeirra sem glíma við aðra prentleturshömlun og um breytingu á tilskipun 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

 

9. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    Ákvæði 2. og 3. mgr. 19. gr. c öðlast ekki gildi fyrr en Marakess-sáttmálinn öðlast gildi að því er Ísland varðar og ráðherra hefur birt auglýsingu í Stjórnartíðindum um gildistökuna.

 

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Gjört í Reykjavík, 18. mars 2021.

 

Guðni Th. Jóhannesson.
(L. S.)

Lilja D. Alfreðsdóttir.


A deild - Útgáfud.: 25. mars 2021