Velkomin á vef Stjórnartíðinda
Setja síðu í 1024px vídd Setja síðu í 1280px vídd Setja síðu í 1400px vídd Fyrir sjónskerta Venjulegt letur Stækka letur Stækka letur enn meira

Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan og í PDF skjali gildir PDF skjalið.
 994/2020

Nr. 994/2020 28. september 2020

SKIPULAGSSKRÁ
fyrir Gjafa- og minningarsjóð Skjólgarðs.

1. gr.

Heiti, varnarþing o.fl.

Sjóðurinn heitir Gjafa- og minningarsjóður Skjólgarðs og starfar á grundvelli laga nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Sjóðurinn stundar ekki atvinnu­rekstur.

Heimili og varnarþing sjóðsins er í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Stofnandi sjóðsins er Sveitarfélagið Hornafjörður, kt. 590169-4639, Hafnarbraut 27, Höfn í Horna­firði.

 

2. gr.

Markmið sjóðsins og styrkveitingar.

Markmið sjóðsins er:

  1. Að taka þátt í að fjármagna kaup á tækjum og búnaði fyrir stofnanir sem sinna heilbrigðis- og öldrunarmálum í Sveitarfélaginu Hornafirði.
  2. Að stuðla að eflingu heilbrigðis- og öldrunarþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði með fjár­framlögum í einstök verkefni, þó ekki til almenns rekstrar.

Stjórn sjóðsins skal úthluta styrkjum í samræmi við markmið sjóðsins eftir ákvörðun hverju sinni. Við ákvörðun um framlög úr sjóðnum skal almennt taka mið af tekjum sjóðsins árið áður.

 

3. gr.

Stofnframlag o.fl.

Stofnfé sjóðsins er kr. 6.379.231 sem er framlag stofnanda hans. Stofnfé skal ávallt halda raun­virði sínu miðað við neysluverðsvísitölu. Sjóðurinn ber einn ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum sínum eignum. Engin sérréttindi í sjóðnum tilheyra stofnanda hans.

Tekjur sjóðsins eru:

  1. Gjafir og áheit til sjóðsins.
  2. Sala minningarkorta Skjólgarðs.
  3. Vextir og arður af eignum sjóðsins.
  4. Aðrar tekjur.

Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á vörslu fjármuna sjóðsins og annarra eigna hans, en heimilt er að fela sérhæfðum aðila, t.d. bankastofnun, að annast fjárvörslu.

 

4. gr.

Stjórn sjóðsins o.fl.

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur stjórnarmönnum og tveimur til vara. Stjórnin skal á stofn­fundi kosin til tveggja ára. Eftirleiðis mun fráfarandi stjórn kjósa nýja stjórn til fjögurra ára í senn.  Eftirleiðis mun fráfarandi stjórn kjósa stjórnarmenn til fjögurra ára í senn, en fyrri stjórnarmenn geta verið kjörnir aftur, einn eða fleiri.

Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Stjórnin stýrir öllum málefnum sjóðsins og kemur fram út á við fyrir hönd hans. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi sjóðsins sé jafnan í réttu og góðu horfi. Við ákvarðanir innan sjóðsins, þar með talið um úthlutun, ræður einfaldur meirihluti stjórnarmanna. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda sjóðinn. Stjórnarmenn skulu ekki hljóta þóknun fyrir starfa sinn.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Halda skal fundargerðabók um það sem gerist á stjórnarfundum.

Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda. Stjórn­inni er heimilt að setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við Sveitarfélagið Hornafjörð um að annast umsýslu sjóðs­ins, s.s. varðandi fundi stjórnar, bókhald o.þ.h. Sá starfsmaður sem sveitarfélagið tilnefnir til að annast verkefnið á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður, en fer ekki með atkvæðisrétt. Starfsmanni og umsýsluaðila ber að veita stjórnarmönnum allar upplýsingar um rekstur sjóðsins, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

 

5. gr.

Starfsár, ársreikningur o.fl.

Starfsár og reikningsár er frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Fyrsta reikningsárið er frá stofnun og til næstu áramóta.

Stjórn sjóðsins skal velja löggiltan endurskoðanda eða endurskoðendafélag til að aðstoða við gerð ársreikninga sjóðsins fyrir hvert starfsár. Endurskoðanda má ekki velja úr hópi stjórnarmanna eða starfsmanna sjóðsins. Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að ársreikningar sjóðsins verði endur­skoðaðir.

 

6. gr.

Breytingar á skipulagsskrá, slit, staðfesting o.fl.

Til þess að breyta skipulagsskrá þessari, sameina sjóðinn annarri sjálfseignarstofnun eða leggja hann niður þarf samþykki allra stjórnarmanna. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslu­mannsins á Norðurlandi vestra. Komi til niðurlagningar sjóðsins skal hreinni eign hans varið til mark­miðanna sem greint er frá í 2. gr. eða skyldra markmiða.

Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Norðurlandi vestra á skipulagsskrá þessari.

 

Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa sam­kvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

 

F.h. sýslumannsins á Norðurlandi vestra, 28. september 2020,

 

Björn Hrafnkelsson.

Auður Steingrímsdóttir.


B deild - Útgáfud.: 12. október 2020